Lykilhæfni – leiðir og leiðsögn
Þann 14. ágúst næstkomandi efna Samtök áhugafólks um skólaþróun til ráðstefnu þar sem leitast verður við að svara spurningunni:
Hvernig náum við best þeim markmiðum sem sett eru með skilgreiningu á lykilhæfni í námskrá (hæfni í tjáningu, samræðu, skapandi og gagnrýninni hugsun, samvinnu, sjálfstæðum vinnubrögðum, að nýta ólíka miðla og taka ábyrgð á eigin námi) og hvernig er best að haga mati á þessari hæfni?
Ráðstefnan verður í Rimaskóla í Reykjavík.
Árdegis verða stuttir fyrirlestrar en síðdegis fjölbreytt dagskrá með kynningum á skólaverkefnum, sýningum og vinnustofum.
Aðalerindi flytja:
Anna Magnea Hreinsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs Borgarbyggðar
Sjáðu hvað ég get! Hvað er mikilvægast að börn læri í leikskóla og hvaða nám erum við að meta? Hvernig stuðla leikskólakennarar að því að börn öðlist hæfni, þekkingu og leikni í grunnþáttum menntunar? |
|
Hulda Dögg Proppé. Íslenskukennari á unglingastigi í Sæmundarskóla, Grafarholti
Hvernig á ég að meta þetta? Að finna leið að settu marki Það er hægara sagt en gert að breyta meginhugsuninni að baki námsmati. Fjallað verður um þá hugarfarsbreytingu sem þarf að eiga sér stað þegar nemendur eru metnir eftir nýjum matsviðmiðum aðalnámskrár og það ferðalag sem slík vinna felur í sér fyrir kennarahópinn. |
|
Ívar Rafn Jónsson framhaldsskólakennari og doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands LeiðsagnarNÁM – Samtal milli kennara og nemenda Mikilvægi samtalsins í námi með hliðsjón af ólíkri námsmatsmenningu, þar sem um leiðsagnarnám er í forgrunni. Hvað finnst nemendum og kennurum um námsmat og endurgjöf í framhaldsskóla. Leitast verður við að reifa svörin með von um að finna leiðarljós við að taka næstu skref í þróun námsmats sem er í þágu nemandans og hæfni hans í námi. |
|
Kristín Ingólfsdóttir prófessor og f.v. háskólarektor Stenst menntakerfið tæknibyltinguna? Kristín ætlar að fjalla um veldisvöxt tækniþróunar og áhrif hraðans á atvinnulíf, menntastofnanir, verðmætasköpun og samfélög. Hún ætlar að velta upp með hvaða hætti menntakerfið geti sem best undirbúið nemendur á öllum skólastigum til þátttöku í breyttu samfélagi þar sem flestar, ef ekki allar, atvinnugreinar munu kalla eftir nýrri tegund þekkingar og færni. |
|
Meyvant Þórólfsson dósent við Kennaradeild Háskóla Íslands Lykilhæfni: Alhliða hæfni sem snertir alla þætti uppeldis og menntunar Byltingar liðinna alda eins og upplýsingin, iðnbyltingin og nýlendustefnan teljast líklega minni háttar breytingaskeið í sögu mannkyns í samanburði við þau umbrot sem við horfumst í augu við nú á tímum undir merkjum hnattvæðingar og nútímavæðingar. Í erindinu er þessi þróun sett í samhengi við hugtakið hæfni eins og það birtist í námskrárþróun undir heitinu lykilhæfni. |
|
Stefanía Malen Stefánsdóttir skólastjóri Brúarásskóla
Með lykilhæfni að leiðarljósi! Hvað viljum við að börnin okkar læri? Kynntar verða þær breytingar sem hafa orðið og verið er að þróa, á kennsluháttum í Brúarásskóla. Brúin er þróunarverkefni þar sem markmiðið er að efla ábyrgð, sjálfstæði og val nemenda ásamt því að brjótast úr viðjum faggreinakennslu og einbeita sér að viðfangsefnum. |
Sjá nánari upplýsingar og skráningu á www.skolathroun.is
SAMræður í skólastarfi
Hafþór Guðjónsson
Aðeins straumur samræðunnar glæðir orð merkingarlegu lífi (Vološinov, 1929/1994, bls. 36)[i]
Líklega efast fáir um það að samræður gegni mikilvægu hlutverki í skólastarfi. Það blasir jú við að kennarar og nemendur tala mikið saman og ósjaldan er nemendum skipað í hópa í þeim tilgangi að ræða saman um tiltekið viðfangsefni og í þeirri trú að samræðan skili árangri og að nemendur læri af því að tala saman. Sumir kennarar telja samræðuna lykil að góðum skilningi á námsefn og að án samræðu verði enginn eða takmarkaður skilningur. Nemendur verði, segja þessir kennarar, að fá tækifæri til að ræða málin, setja fram hugmyndir, skiptast á skoðunum, spyrja, leita skýringa og heyra ólík sjónarmið. Að öðrum kosti er hætt við að námið verði yfirborðskennt. Aðrir eru fullir efasemda, telja að oftar en ekki komi lítið sem ekkert út úr samræðum í hópavinnu. Nemendur séu oft ófúsir til slíkra samræðna (vilji frekar láta mata sig) og ekki nógu vel að sér til að geta rætt málin af einhverju viti. Lesa meira…
„Kannski voru það álfarnir?“ Álfaþema í Naustaskóla á Akureyri
Kristín Sigurðardóttir, Gréta Björk Halldórsdóttir, Sunna Alexandersdóttir og Birgitta Laxdal, kennarar í Naustaskóla
Í ársbyrjun heimsótti einn ritstjórnarmanna Naustaskóla á Akureyri. Hann rak, satt best að segja, í rogastans þegar hann sá einstaka kastalabyggingu á svæði yngstu barna skólans. Í ljós kom að reistur hafði verið Álfakastali og að hann tengdist verkefni sem nemendur höfðu verið að glíma við. Það var Álfaþema – sem nemendur og kennarar – höfðu nánast orðið heillaðir af. Ekki sakaði að hér hafði verið leikið af fingrum fram og mörg skemmtileg verkefni orðið til. Álfakastalinn hafði líka fengið viðbótarhlutverk og var orðinn leskrókur!
Þess var farið að leit við kennarana að þeir segðu okkur sögu umrædds verkefnis – sem segja má að sé sannkallað ævintýri – og urðu þeir góðfúslega við því.
Megum við óska eftir fleiri sögum af þessu tagi!?
Tungumálið sem stýriafl og vitsmunalegt verkfæri
Hafþór Guðjónsson:
Arfur liðinna kynslóða hvílir sem farg á heila lifenda (Marx, 1869/1968, bls. 119).
Tungumálið er meginskilyrði þekkingarsköpunar. Það er í gegnum tungumálið sem reynsla verður að þekkingu (Halliday, 1993, bls. 94).
Okkur er tamt að hugsa um tungumálið sem eitthvað aðskilið frá æðri vitsmunum, til dæmis skynjun. Michael Tomasello, þróunarsálfræðingur við Max Planck stofnunina í Leipzig í Þýskalandi, lítur öðrum augum á málið:
Í mínum huga er tungumálið sérstakt form vitsmuna sérstaklega hannað í þeim tilgangi að auðvelda samskipti manna … Menn vilja deila reynslu sinni hver með öðrum og hafa því, með tímanum, skapað tákn og málvenjur til að gera það. Þegar börn tileinka sér þessi tákn og þessar málvenjur fara þau að skynja hluti á ákveðna vegu sem þau hefðu annars ekki getað … (Tomasello, 1999, bls. 150).
Að tala um kennslu á íslensku! Um orðasmíði og skilgreiningar á hugtökum í menntunarfræðum
Ingvar Sigurgeirsson: Viðtal við Gerði G. Óskarsdóttur
Ég hef stundum spurt kennara hverjar séu helstu kennsluaðferðir sem þeir beiti í kennslu sinni og beðið þá að nefna þær. Satt best að segja verður stundum fátt um svör. Staðreyndin er líklega sú að við kennarar höfum ekki komið okkur nægilega vel saman um heiti kennsluaðferða. Þegar ég skrifaði bókina Litróf kennsluaðferðanna vakti það m.a. fyrir mér að reyna að leggja grunn að sameiginlegum orðaforða kennara um kennsluaðferðir en margt bendir til þess að sú tilraun hafi ekki skilað miklum árangri.
Stundum verður þessi orðavandi nánast vandræðalegur. Sem dæmi um þetta má nefna kennsluaðferð sem sumir nefna verkefnavinnu. Þessi aðferð er raunar nefnd nokkrum sinnum í Aðalnámskrá grunnskóla 2011/2013 og einnig í Aðalnámskrá framhaldsskóla, þó sjaldnar sé. Mér hefur alltaf þótt þetta orð ankannalegt, og er þar líklega undir áhrifum Ögmundar Helgasonar cand. mag. fyrrum forstöðumanns Handritadeildar Landsbókasafns, sem las flest handrit mín um árabil. Hann gerði oft góðlátlegt grín að óþekktum höfundi þessa orðs fyrir að hafa látið sér detta í hug að setja bæði verk og vinna, sem merkja nánast það sama, í eitt og sama orðið. Hér er alltaf hægt að nota orðið verkefni í staðinn, sagði Ögmundur og hafði auðvitað mikið til síns máls. En vandinn við þetta heiti er þó kannski fremur að það merkir ekki það sama í hugum kennara – vísar til margra ólíkra kennsluaðferða. Ég hef heyrt kennara nota orðið um það þegar nemendur leysa verkefni í vinnubókum eða á vinnu- eða verkefnablöðum, en hjá öðrum merkir það þegar nemendur afla sér upplýsinga upp á eigin spýtur, vinna úr þeim og miðla öðrum. Með öðrum orðum: Sama heitið er notað um gjörólíkar kennsluaðferðir. Lesa meira…
Kvennóleiðin í efnafræði
Hvað verður til þess að kennarar sem kennt hafa sömu námsgreinina lengi ákveða að breyta alveg um kennsluaðferðir og námsefni?
Ástæður þess voru nokkrar og kannski ekki allar ljósar í upphafi. Þær helstu voru að nemendahópurinn var að breytast, nemendur nýttu tímann í skólanum ekki nægilega vel og sinntu heimavinnu verr en áður. Við vorum sannfærðar um að okkar vinnu væri hægt að nýta betur í þágu nemenda. Hvernig væri hægt að virkja nemandann betur í sínu námi? Losna við sofandi nemendur á aftasta bekk, endalausar afsakanir vegna óunninnar heimavinnu og almennt ergelsi okkar yfir því hve illa vinnan okkur skilaði sér sem raunverulegt nám nemenda. Við fundum að við þurftum að breyta. Fyrir nemendur, sem okkur fannst ekki fá nógu góða undirstöðu, og ekki síður fyrir okkur kennarana sem fagmenn. Við lögðum niður hefðbundna kennslu í efnafræði, fyrirlestrar voru aflagðir með tilheyrandi glærusýningum og tekin upp aðferð sem byggir á sjálfsnámi og hópvinnu með aðstoð kennara. Eftir mikla yfirlegu og pælingar fundum við þessa lendingu árið 2005 og byrjuðum að þróa hana. Og okkur langar ekki að hverfa til baka. Lesa meira…
Ný bók: Leikum, lærum, lifum – Um nám, leik og grunnþætti menntunar
Fréttatilkynning
Árið 2012 gerði RannUng (Rannsóknastofa í menntunarfræðum ungra barna) samstarfssamning við sveitarfélögin í Kraganum; Garðabæ, Hafnarfjörð, Kópavog, Mosfellsbæ og Seltjarnarnes, um rannsóknarverkefni í leikskólum með það að markmiði að auka þekkingu á leikskólastarfi í sveitarfélögunum og stuðla að auknum gæðum í leikskólastarfi.
Markmið verkefnisins var að vinna með tengsl leiks og náms í leikskólum út frá námsviðum aðalnámskrár leikskóla frá 2011. Skoðað var hvernig leikskólakennarar, umhverfið og barnahópurinn studdu við leik barna og nám. Gengið var út frá víxlverkun leiks og náms, þar sem leikurinn styður við nám og nám styður við leik. Starfendarannsókn og þróunarvinna var framkvæmd í fimm leikskólum, einum í hverju sveitarfélagi, þar sem ein deild tók þátt úr hverjum þeirra. Lesa meira…
Nám og meðnám
Hafþór Guðjónsson, dósent
Skólastarf, frá og með miðstigi grunnskóla, snýst að verulegu leyti um að kenna ákveðnar námsgreinar. Þá koma námsbækurnar inn með fullum þunga og námið felst einkum í því að tileinka sér það sem stendur í námsbókunum og kunna það til prófs. Dewey (1938/2000) víkur að þessu í bókinni Experience and Education, gagnrýnir þar hefðbundið skólastarf fyrir að vanrækja að taka með í reikninginn það sem lærist óbeint og er hvass í máli:
Ef til vill er hin mesta af öllum kennslufræðilegum villum fólgin í þeirri hugmynd að maður læri einungis þann sérstaka hlut sem hann er að læra um þá stundina. Það sem lærist óbeint eins og t.d. myndun varanlegra viðhorfa, jákvæðra og neikvæðra, getur verið og er oft langtum mikilvægara en sú lexía í stafsetningu, landafræði eða sögu sem lærð var. Því þessi viðhorf koma til með að skipta mestu máli í framtíðinni. Langmikilvægasta viðhorfið sem myndast getur er löngun til að halda áfram að læra (bls. 58). Lesa meira…
Bókin Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar aðgengileg á heimasíðu Menntavísindastofnunar
Ingvar Sigurgeirsson, prófessor
Á árunum 2009‒2013 var gerð umfangsmikil rannsókn á starfsháttum í grunnskólum. Rannsóknin er gjarnan nefnd Starfsháttarannsóknin en meginmarkmið hennar var að veita yfirsýn yfir starfshætti í íslenskum grunnskólum. Meðal annars vakti fyrir rannsakendum að kanna áhrif stefnumörkunar fræðsluyfirvalda um einstaklingsmiðað nám. Rannsóknin mun vera ein sú umfangsmesta sem gerð hefur verið á skólastarfi hér á landi. Verkinu stýrði Gerður G. Óskarsdóttir fv. fræðslustjóri í Reykjavík, en fjöldi annarra fræðimanna kom að verkinu. Einnig tengdust því meistara- og doktorsnemar og fleiri aðilar (alls um 50 manns). Lesa meira…
Árborgarmódelið í skólamálum – hvað gerðum við?
Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri hjá Sveitarfélaginu Árborg og Þórdís H. Ólafsdóttir, verkefnisstjóri hjá skólaskrifstofu Hafnarfjarðar
Í tengslum við umræðuna um PISA og þann samanburð sem hefur verið birtur milli átta stærstu sveitarfélaga landsins hefur margt verið ritað og rætt að undanförnu. Því hefur jafnvel verið haldið fram að bæting hjá Árborg, Hafnarfirði og Reykjanesbæ í PISA sé vegna þess að sveitarfélögin séu að vinna nánast eins í skólamálum. Einn forsvarsmanna vefritsins Skólaþráða hafði samband við fræðslustjóra til að spyrja nánar út í skólamálaáherslur Árborgar og í kjölfarið var ákveðið að skrifa grein í ritið sem gæti kynnt í stuttu máli það sem gert hefur verið í skólamálum sveitarfélagsins á undanförnum misserum. Greinarhöfundar hafa báðir tekið virkan þátt í breytingastarfinu í Sveitarfélaginu Árborg. Þorsteinn Hjartarson frá haustdögum 2011 og Þórdís H. Ólafsdóttir sem kennsluráðgjafi frá haustdögum 2013 fram undir mitt ár 2016 er hún færði sig í Hafnarfjörð. Þar tók hún við starfi verkefnastjóra í bættum námsárangri hjá skólaskrifstofu bæjarins. Greinarhöfundar eru sammála um að þeir geti ekki sagt nákvæmlega til um hvað það er sem hefur skilað bættum árangri Árborgar í PISA en bætinguna megi þó vafalaust rekja til samspils margra þátta sem hér fá nokkra umfjöllun. Lesa meira…