Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Monthly archive

apríl 2021

Ástríðan – hvað viltu læra elskan mín?

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Grein II

Soffía Vagnsdóttir

 

Í fyrstu grein minni (sjá hér) fjallaði ég um þá vegferð sem skólinn hefur verið á allt frá því að foreldrar mínir voru börn og byggðu undir sína framtíð og fram til þess sem börn í skólum nútímans þurfa og ættu að læra. Hér er sjónum einkum beint að þörfinni fyrir breytingar á inntaki náms miðað við viðhorf nemenda til skólans og þess sem þeir eru að fást við þar.

Framtíðin er ekki fyrirsjáanleg

Eða hvað? Er hún fyrirsjáanleg? Miðað við síðustu fréttir af umhverfismálunum – já! Og þess vegna er mikilvægt að ræða hana, ekki síst við nemendur. Framtíðarhugsun er mikilvæg vegna þess að með góðum áætlunum getum við haft áhrif á ótrúlega margt, rétt eins og í okkar persónulega lífi. Og þar hefur skólinn mikilvægu hlutverki að gegna. En hvernig í ósköpunum á skólinn að takast á við þetta? Þegar vísbendingar eru um að alltof margir vilja ekki vera þar? Þegar enginn veit hvað þetta fólk er að fara að gera í framtíðinni? Þegar allir geta sótt alla vitneskju, jafnvel þekkingu á netið? Svo eru það Thunberg áhrifin – þegar öll börn eru komin á torgið að tjá sig um menn og málefni og jafnvel um stóru málin, eins og hlýnun jarðar eða flóttamannavandann og skólinn veit ekki hvort hann á að skrifa skróp eða hrópa húrra fyrir áræðinu. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

„Ég leysi stundum vandamálið með svona hringjum“ Hugsun barna um margföldun

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Ólöf Björg Steinþórsdóttir, Guðbjörg Pálsdóttir og Jónína Vala Kristinsdóttir

Kristinn Ingvarsson tók myndirnar af Guðbjörgu og Jónínu Völu.

Rannsóknir á námi barna, ekki síst hvernig þau takast á við námið, efla þekkingu okkar á mikilvægum þáttum til að byggja á við kennslu. Ingvar Sigurgeirsson hefur verið ötull við að fylgjast með lífinu í skólastofunni, hlusta á og ræða við nemendur. Hann er talsmaður þess að vinna með börnum á forsendum þeirra og skapa þeim fjölbreytt tækifæri. Í þessari grein er gefin innsýn í hluta af rannsókn á talna- og aðgerðaskilningi íslenskra barna. Rannsóknin er samstarfsverkefni stærðfræðideildar Háskóla Norður Iowa og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Í greininni er fjallað um niðurstöður úr rannsókn okkar og greint frá hvernig nokkur sex til átta ára börn glíma við margföldun. Skoðað er hvernig nota má niðurstöðurnar sem leiðarhnoða í að styðja börnin við að efla skilning sinn og leikni í reikningi. Unnið er út frá hugmyndum um Cognitively Guided Instruction sem á íslensku kallast Stærðfræðikennsla byggð á skilningi barna, sem hafa verið að þróast síðan um 1990. Í greininni verður íslenska heitið notað.

Erlendar rannsóknir gefa mikilvægar upplýsingar um talna- og aðgerðaskilning barna sem nýtast í íslensku skólastarfi, en lítið er til af rannsóknum um íslensk börn. Tilgangur rannsóknarinnar er tvíþættur. Annars vegar að skoða talna- og aðgerðaskilning íslenskra barna og hins vegar að búa til efni sem hægt er að nýta með kennaranemum og í þróunarvinnu með kennurum í leik- og grunnskóla. Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvernig fimm til tíu ára gömul börn hugsa þegar þau glíma við reikniþrautir sem tengjast samlagningu, frádrætti, margföldun og deilingu, hvaða lausnaleiðir þau nota og hvernig þau segja frá hugsun sinni og lausnum. Hluti af rannsóknarverkefninu er þróunarvinna með kennurum úr þremur skólum þar sem þeir kynnast hugmyndum um Stærðfræðikennslu byggða á skilningi barna (SKSB). Þar skoða kennarar og greina hvernig þeir geta brugðist við hugmyndum nemenda sinna til að styðja þá við að þróa stærðfræðihugsun sína.

Í þessari grein munum við ræða um hugsun barna og lausnaleiðir þeirra við einfalda margföldunarþraut til að gefa lesendum innsýn í nokkur lykilatriði í þróun skilnings barna á tölum og reikningi. Við greiningu lausnaleiða barnanna nýtum við þau greiningarviðmið sem sett voru fram í niðurstöðum rannsókna- og þróunarverkefnisins SKSB (Carpenter, Fennema, Franke, Levi og Empson, 2015). Að lokum fjöllum við um nokkur atriði sem vakið hafa okkur til umhugsunar um stærðfræðinám ungra barna í tengslum við rannsóknina.

Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Leiðsagnarnám. Hvers vegna, hvernig, hvað?

í Greinar

Nanna K. Christiansen

 

Ný bók Leiðsagnarnám. Hvers vegna, hvernig, hvað? er væntanleg eftir miðjan apríl. Höfundur er sú sem þetta ritar.

Eins og nafnið ber með sér er umfjöllunarefnið leiðsagnarnám. Fjölmargar erlendar bækur hafa verið skrifaðar um leiðsagnarnám og efni sem því tengist. Í bók Ernu Ingibjargar Pálsdóttur Fjölbreyttar leiðir í námsmati, að meta það sem við viljum að nemendur læri, er greinargóður kafli um leiðsagnarmat. Í nýju bókinni er fléttað saman fræðilegri umræðu, reynslu þekkingarskóla í leiðsagnarnámi, ráðgjöf og hagnýtum verkefnum með það að markmiði að styðja við einstaka kennara og skóla sem vilja stuðla að auknum framförum nemenda.

Síðustu árin hefur áhugi kennara á leiðsagnarnámi aukist verulega. Sem dæmi má nefna að námskeið og fræðslufundir um leiðsagnarnám sem skóla- og frístundasvið Reykjavíkur (SFS) stendur fyrir eru jafnan afar vel sótt og margir skólar bæði á grunn- og framhaldsskólastigi hafa markvisst lagt sig fram um að tileinka sér áherslur þess. Í gildandi aðalnámskrám fyrir grunnskóla og framhaldsskóla er lögð rík áhersla á leiðsagnarmat, sem er í rauninni sama orðið og leiðsagnarnám, hugmyndir um áherslur hafa hins vegar breyst. Í námskránum segir: Leggja skal áherslu á leiðsagnarmat þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í matinu (Aðalnámskrá framhaldsskóla, 2011, 3.1; Aðalnámskrá grunnskóla, 2011, 3.1.). Þessi orð endurspegla merkingu hugtaksins leiðsagnarmat/-nám en megintilgangur þess er að auka hlutdeild og ábyrgð nemenda á eigin námi og stuðla þannig að bættum árangri. Nemendur eiga alltaf að vita hvert þeir  stefna í námi sínu og hafa viðmið um árangur. Þeir þurfa að vita hvar þeir eru staddir á leið sinni og fá leiðsögn sem hjálpar þeim til að brúa bilið þar á milli. Þetta gæti virst einfalt er raunin er önnur. Horfa þarf til námsmenningar skólans í heild sinni, allt frá viðhorfum og væntingum kennara til skipulags náms og kennslu. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Kennsla sem praktískt, tæknilegt eða faglegt viðfangsefni

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson

Anna Kristín Sigurðardóttir

 

Talsverð gróska er í umræðu og skipulagi á starfsþróun kennara um þessar mundir og nýstárlegar leiðir farnar, t.d. með áherslu á starfendarannsóknir kennara (t.d. Hildur Jóhannesdóttir, 2021) og með menntabúðum bæði á neti og í raunheimum (t.d. Sólveig Jakobsdóttir o.fl., 2021). Önnur nýleg dæmi um starfsþróunarátak eru opnun vefsins Menntamiðju í breyttu formi í samstarfi helstu hagsmunaaðila og umfangsmikið verkefni sem kallast Menntafléttan og nær til allra skólastiga (sjá einnig í grein Oddnýjar Sturludóttur o.fl. um Menntafléttuna sem nýlega birtist í Skólaþráðum).

Sjónir hafa einnig beinst að mikilvægi starfsþróunar sem fer fram í faglegu lærdómssamfélagi, sem getur verið formlegt eða óformlegt, meðvitað eða ómeðvitað. Þetta er vissulega jákvætt og lofandi fyrir áframhaldandi framþróun í íslensku menntakerfi. Tilgangur minn með þessum greinarstúf er að leggja mitt af mörkum inn í þessa umræðu og draga saman það helsta sem rannsakendur á þessu sviði telja einkenna farsæla starfsþróun og tengja það við hugmyndir um eðli kennslustarfsins og fagmennsku kennara. Starfsþróun sem talin er farsæl er líkleg til að skila tilætluðum umbótum í kennsluháttum og námi nemenda. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

CRM líkanið frá Kanada: Skipulag að styðjandi menningu

í Greinar

Ingileif Ástvaldsdóttir

 

Í október 2019 var ég svo heppin að fá að vera þátttakandi í samstarfsverkefninu Exchanging Minds sem Skólastjórafélag Íslands og Kennarasambandið í Alberta í Kanada standa að. Samstarfsverkefnið felur í sér að þátttakendur eru paraðir saman, tveir og tveir og heimsækja hvor annan í tíu daga. Í verkefninu gefst þátttakendum tækifæri til að fylgja skólastjórnanda eftir eins og skuggi, bæði í leik og starfi því að meðan á dvölinni stendur búa þátttakendur heima hjá hvor öðrum og ná því að kynnast betur en ef um hefðbundna skólaheimsókn væri að ræða. Í mínu tilviki fékk ég ekki bara tækifæri til að kynnast starfinu í skóla samstarfskonu minnar heldur líka fleiri skólum í skólahverfi hennar.

Í einni slíkri heimsókn fékk ég að horfa á og meta kennarafund þar sem kennarar og stjórnendur skólans æfðu sig í að halda fund þar sem þeir studdu hver annan í að finna lausnir sem fólu í sér aðlögun námsumhverfisins að stöðu og þörfum nemendanna sem voru til umfjöllunar á fundinum. Á þessum fundi kynntist ég því hvernig einfalt skipulag ásamt nálgun og orðfæri fundarmanna getur meðal annars eflt fagmennsku þeirra og ýtt undir að þeir læri hver af öðrum og af eigin starfi. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp