Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Monthly archive

nóvember 2024

Gæði menntakerfis markast af starfsskilyrðum

í Greinar

Berglind Rós Magnúsdóttir

 

Susan Robertson (2016) prófessor við Cambridge háskóla, hefur vakið athygli á að eftir árið 1990 hafi orðið umskipti í alþjóðlegri orðræðu um kennara. Frá þeim tíma hefur skilgreining á „góðum“ kennara verið drifin áfram af nákvæmum samanburði á ýmsum mælanlegum þáttum sem varða kennslu og árangur frá stofnunum á borð við OECD og Alþjóðabankann sem gefa síðan út ráðleggingar um hvernig móta beri kennara, kennsluaðferðir og kennaramenntun. Robertson hefur orðræðugreint fjölþjóðleg stefnuskjöl um kennara, skjöl sem hafa fengið mikla athygli og útbreiðslu. Hún rekur hvernig skýrslan Teachers matters sem kom út árið 2005 hjá OECD hafi markað þáttaskil í orðræðu um kennara, þar sem fagmennska þeirra var gerð tortryggileg og orðræðan um hinn skilvirka kennara ruddi sér til rúms. Þar kom fyrst upp þessi setning sem hefur gengið ljósum logum um heimsbyggðina, þ.e. að gæði menntakerfis geti ekki orðið meiri en gæði þeirra kennara sem þar starfa. Eflaust er hæpið að menntakerfi sé gott ef þeir sem vinna innan þess eru upp til hópa ekki fagmenn. En einnig hefur verið ályktað í hina áttina, þ.e. þegar verr gengur þá sé það ávallt til marks um að kennararnir og stjórnendurnir séu slakir. Í þessari staðhæfingu felst sú hugmynd að skólinn sem stofnun sé eins konar eyland, að félagslegt samhengi sé aukaatriði, þ.e. hvers konar starfsaðstæður séu í skólanum, hvers konar velferðarkerfi séu við lýði eða hvernig efnahagsleg og félagsleg formgerð einkenni samfélagið. Þessi hugsun er kjarninn í því sem kallað er frammistöðuvæðing (e. performativity). Þá er frammistaða nemenda í menntakerfinu sem mæld er á einum tímapunkti spyrt saman við gæði eða gildi fagmanneskjunnar, þ.e. kennarans, sem kennir þeim þegar mælingin fer fram, óháð uppeldis- og skólasögu nemenda eða þeim aðstæðum sem kennari og nemendur eru sett í. Þessi mæling er svo nýtt til að leggja mat á framleiðni og gæði stofnunar (Ball, 2003). Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Stóru-Vogaskóli, 150 ára saga: 1872–2022

í Greinar

Þorvaldur Örn Árnason

 

Haustið 2022 átti Stóru-Vogaskóli 150 ára afmæli. Af því tilefni birti ég vikulega þátt úr sögu skólans í Víkurfréttum. Alls urðu þetta 46 þættir sem þar birtust. Síðar bættust fjórir við.

Haustið 2021 fékk ég þá hugmynd að vinna úr gögnum sem ég hafði safnað í tengslum við 140 ára afmæli skólans 2012, hvattur til þess af Snæbirni Reynissyni skólastjóra og Hauki Aðalsteinssyni sagnfræðigrúskara, sem höfðu þegar um aldamótin safnað dálitlu efni og haldið upp á 130 ára afmælið 2002. Talsvert af handskrifuðum gögnum frá allri 20. öld voru varðveitt í skólanum. Þau nýttust vel við skrif þessi en auk þess leitaði ég víða fanga eins og gerð er grein fyrir 49. þætti, sjá hér.

Eftir að hafa birst í Víkurfréttum var öllu efninu safnað saman á vefsíðu Stóru-Vogaskóla, sjá hér: Þættir úr sögu skólans – Stóru-Vogaskóli. Einnig er hægt að nálgast efnið í prentvænni útgáfu, sjá hér.

Hvatinn að þessum skrifum var ekki síst sá að mér fannst skólinn hafa verið sniðgenginn þegar fjallað var opinberlega um elstu barnaskóla landsins. Sem dæmi má nefna í tveggja binda verki Kennaraháskóla Íslands og Háskólaútgáfunnar frá 2008, Almenningsfræðsla á Íslandi, er skólinn ekki nefndur á nafn. Mér þótti því brýn ástæða til að draga sögu skólans fram í dagsljósið. Stóru-Vogaskóli er þriðji elsti barnaskólinn á Íslandi sem hefur starfað samfleytt. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp