Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Greinasöfn úr efnisflokkum

Ritdómar

Að vakna til vitundar: Um bókina World-Centred Education eftir Gert Biesta

í Ritdómar

Atli Harðarson

 

Undanfarinn einn og hálfan áratug hafa bækur og greinar eftir Gert Biesta haft umtalsverð áhrif á menntavísindi og heimspeki menntunar. Þessi áhrif ná langt út fyrir Vestur-Evrópu og hinn enskumælandi heim enda hafa verk eftir hann verið þýdd á um tuttugu tungumál.

Biesta hóf feril sinn í Hollandi þar sem hann fæddist og ólst upp, en hann hefur starfað víða, meðal annars í Noregi og Svíþjóð og er nú prófessor við Maynooth háskólann á Írlandi og við Edinborgarháskóla í Skotlandi. Í skrifum sínum tengir hann þekkingu á menntavísindum, menntastefnu og skólamálaumræðu samtímans við skilning á meginstraumum heimspeki síðustu aldar, einkum evrópskri tilvistarstefnu (existentialism) og amerískri verkhyggju (pragmatism).

Nýjasta bók hans (Biesta 2022), sem kom út í fyrra, heitir fullu nafni World-Centred Education: A View for the Present. Hún er fremur stutt, aðeins 113 blaðsíður, og textinn hverfist um eina meginhugmynd sem er að skólar hafi þrefaldan tilgang og menntun þrenns konar markmið. Það sem hér fer á eftir er um þessa einu bók og allt sem ég hef eftir Biesta er sótt í hana. Lesa meira…

Dýrir háskólar og þjóð í vanda: Um bókina After the ivory tower falls eftir Will Bunch

í Ritdómar

Atli Harðarson

 

Will Bunch er bandarískur blaðamaður og samfélagsrýnir. Bók hans After the ivory tower falls: How college broke the American dream and blew up our politics—and how to fix it (Þegar fílabeinsturninn er hruninn: Hvernig háskólarnir eyðilögðu ameríska drauminn og rústuðu stjórnmálum okkar – og hvað er til ráða) kom út í fyrra og hefur vakið verulega athygli. Í þessu 320 blaðsíðna riti segir Bunch sögu háskólamenntunar í Bandaríkjunum frá miðri síðustu öld til dagsins í dag og rökstyður að margt sem aflaga hefur farið í stjórnmálum þar í landi á síðustu áratugum tengist því hve dýrt er fyrir einstaklinga að afla sér háskólamenntunar. Lesa meira…

Hatur í heimalandi: Bók um liðsöfnun herskárra þjóðernissinna

í Ritdómar

Atli Harðarson

 

Árið 2020 kom út hjá Princeton University Press bók sem heitir Hate in the Homeland: The New Global Far Right (Hatur í heimalandi: Nýlegar hægriöfgar víða um heim). Höfundurinn, Cynthia Miller-Idriss, er prófessor við American University í Washington DC.

Bókin fjallar um liðsöfnun hreyfinga sem eiga það sameiginlegt að sjá suma íbúa í eigin landi sem óvini eða ógn við kynþátt sinn, þjóðerni, trú eða menningu. Hún er skrifuð fyrir almenning fremur en sérfræðinga en byggir samt á fræðilegri þekkingu enda hefur höfundur árum saman unnið að rannsóknum á öfgahreyfingum.

Í fyrra var bókin endurútgefin bæði sem rafbók og sem pappírskilja. Eftirfarandi umsögn er skrifuð í þeirri trú að efnið eigi erindi við foreldra, kennara, tómstundafræðinga, íþróttaþjálfara og aðra uppalendur. Lesa meira…

Meginiðja mannfólksins: Umsögn um bók eftir Philip Kitcher

í Greinar/Ritdómar

Atli Harðarson

 

Philip Kitcher er með þekktari heimspekingum samtímans. Hann fæddist í London árið 1947, ólst upp á Suður-Englandi en lauk doktorsprófi í vísindaheimspeki og vísindasögu frá Princeton háskóla í New Jersey árið 1974. Hann er nú prófessor emeritus við Columbia háskóla í New York.

Kitcher er höfundur fjölda bóka um heimspekileg efni. Með skrifum sínum um stærðfræði, líffræði og fleiri raunvísindi á árunum milli 1980 og 1990 skipaði hann sér í fremstu röð fræðimanna á sviði vísindaheimspeki og tók við keflinu af eldri samstarfsmönnum sínum, þeim Carli Hempel (1905–1997) og Thomasi Kuhn (1922–1996).

Á seinni árum hefur Kitcher líka skrifað um listir, trúarheimspeki, stjórnmálaheimspeki, siðfræði og fleiri efni. Nýjasta bók hans fjallar um heimspeki menntunar. Hún kom út í fyrra hjá Oxford University Press og heitir The main enterprise of the world. Á íslensku gæti hún kallast Meginiðja mannfólksins. Að mínu viti sætir þessi bók töluverðum tíðindum. Höfundur þorir að hugsa af djörfung og honum tekst afar vel að tengja heimspeki menntunar við stóran fræðaheim enda hefur hann, eins og áður segir, komið víða við í fyrri skrifum. En þótt hann klífi hátt slær hann hvergi af kröfum um rökstuðning og vandaða umfjöllun. Lesa meira…

Umsögn um bókina Leiðsagnarnám, hvers vegna, hvernig, hvað?

í Ritdómar

Fiona Elizabeth Oliver

Nýlega kom út bókin Leiðsagnarnám: Hvers vegna, hvernig, hvað? eftir Nönna Kristínu Christiansen. Það er ekki á hverjum degi að út kemur bók um kennslufræði á íslensku, að ekki sé minnst á bók um námsmat! Ritstjórn Skólaþráða leitaði til Fionu Elizabeth Oliver, enskukennara í Víkurskóla og bað hana að skrifa um bókina. Fiona tók þessu erindi vel enda mætti hún skrifa á móðurmáli sínu! Umsögn hennar er hér, en íslensk þýðing fylgir (sjá neðar). Lesa meira…

Griðastaður þess seinlega

í Ritdómar

Ólafur Páll Jónsson

Atli Harðarson. (2019) Tvímælis: Heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans. Reykjavík: Menntavísindasvið og Heimspekistofnun.

Á síðasta ári kom út lítil bók eftir Atla Harðarson um heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans. Við nánari athugun er þessi bók reyndar ekki svo lítil. Að vísu telur hún einungis 150 blaðsíður í litlu broti en við lestur bókarinnar fann ég að síðurnar áttu það til að tímgast í huga mér þannig að þegar ég lagði hana loks frá mér fannst mér ég ekki bara hafa lesið lítið kver um menntun og skólastarf heldur stóra bók, eiginlega margar bækur eftir ólíka höfunda. Atli hefur einstakt lag á að leiða lesandann inn í rökræður annarra fræðimanna og sjá síðan á þeim fleti sem gera þær í senn áhugaverðari og flóknari en mann hafði órað fyrir. Ég mæli hiklaust með þessari bók fyrir hvern þann sem vill hugsa um menntun og skólakerfi, en þeim sem sækjast eftir skjótfengnum svörum ráðlegg ég að forðast þetta rit. Tvímælis er bók sem leggur manni til fleiri spurningar en svör. Lesa meira…

Hið ljúfa læsi á viðsjárverðum tímum

í Ritdómar

Baldur Sigurðsson

 

Rósa Eggertsdóttir. (2019). Hið ljúfa læsi. Handbók um læsiskennslu fyrir kennara og kennaranema. Akureyri: Höfundur.

Síðastliðið haust (2019) sendi Rósa Eggertsdóttir frá sér bókina Hið ljúfa læsi, Handbók um læsiskennslu fyrir kennara og kennaranema. Rósa er mörgum kennurum að góðu kunn því hún er höfundur Byrjendalæsis, leiðbeininga um læsiskennslu í 1. og 2. bekk, sem um það bil helmingur grunnskóla á Íslandi hefur tekið upp. Byrjendalæsi (BL) má kalla hugmyndafræði um læsiskennslu, eða kennsluhætti, fremur en kennsluaðferð, þar sem BL snýst um að beita mörgum og fjölbreyttum kennsluaðferðum í læsiskennslu byrjenda, en á samvirkan hátt og innan ákveðins ramma eða skipulags, þannig að bæði nemendur og kennarar séu meðvitaðir um hvað þeir eru að gera hverju sinni.

Með hugtakinu læsi er ekki átt við að vera læs í þeim skilningi að geta tæknilega stautað sig gegnum texta. Hugtakið læsi í bók Rósu snýst fyrst og fremst um lesskilning, sem margir fræðimenn og alþjóðleg samtök líkt og UNESCO hafa stuðst við (Baldur Sigurðsson, [2013]): Í stuttu máli má segja að læsi snúist um að geta skilið og notað ritað mál (lesið og skrifað) sjálfum sér til gagns og gleði, skilnings og sköpunar. Lesa meira…

Um bókina Flourishing as the Aim of Education eftir Kristján Kristjánsson

í Ritdómar
Kristján Kristjánsson
Atli Harðarson

 Atli Harðarson

 

Kristján Kristjánsson er löngu vel þekktur meðal fræðimanna sem fjalla um heimspeki menntunar. Hann er einkum kunnur fyrir skrif sín um viðfangsefni sem liggja á mörkum siðfræði og menntavísinda. Í ritum sínum um þau efni nýtir hann dygðasiðfræði Aristótelesar sem leiðarljós og bækur hans (Kristján Kristjánsson, 2007, 2015, 2018) eiga mikinn þátt í því að slík siðfræði nýtur vaxandi viðurkenningar og áhuga meðal þeirra sem fjalla um siðferðilegt uppeldi. Kristján er líka frumkvöðull í því að nota nýjustu rannsóknir í sálfræði til að varpa ljósi á viðfangsefni á sviði siðfræði eins og hann gerir í nokkrum bóka sinna (Kristján Kristjánsson, 2002, 2006, 2010, 2013).[1]

Nýjasta bók Kristjáns heitir Flourishing as the Aim of Education og hefur undirtitilinn A Neo-Aristotelian View. Í henni koma saman allmargir þræðir úr fyrri verkum hans þar sem hún fjallar í senn um sálfræðileg efni, siðfræði og skólastarf. Bókin er afar læsileg og lesandi getur vel skilið textann án þess að þekkja fyrri verk Kristjáns. Það hjálpar þó að hafa einhver kynni af heimspekilegri siðfræði og rökræðu um hlutverk og tilgang skóla. Lesa meira…

Fara í Topp