Menntakerfi í krísu?
Eva Harðardóttir
Þegar ég útskrifaðist með doktorspróf í menntunarfræðum fékk ég að gjöf bol með áletruninni What would Hannah Arendt do? Þar var á ferðinni ákveðinn einkahúmor en nú sléttu ári eftir útskrift sit ég í bolnum og velti þessari spurningu alvarlega fyrir mér í ljósi þeirrar líflegu en oft og tíðum afar neikvæðu opinberu umræðu sem einkennir menntamálin á Íslandi. Daglega birtast greinar í fjölmiðlum sem viðra mismunandi skoðanir á kjörum og vinnuframlagi kennara, gæðum náms, árangri nemenda, líðan þeirra og möguleikum til farsællar framtíðar. Orðræðan er í þeim anda að krísuástand virðist ríkja á vettvangi menntunar. En í hverju nákvæmlega liggur þessi krísa?
Árið 1954 skrifaði heimspekingurinn Hannah Arendt (2006) stutta en þýðingarmikla grein sem bar heitið The Crisis in Education þar sem hún rýnir í bandarískt menntakerfi. Greinin hefst á þeim orðum að ekki þurfi auðugt ímyndarafl til að gera sér grein fyrir þeim hættum sem stafi af stöðugt hnignandi gæðum í skólakerfinu. Áhyggjuefni þess tíma voru meðal annars slök lestrarfærni drengja, agaleysi nemenda og efasemdir um störf kennara. Hljómar kunnuglega? Lesa meira…