Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Monthly archive

febrúar 2021

„Hinn góði kennari“ og kennarinn sem er góður í að kenna

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Ómar Örn Magnússon

 

Hvernig er í skólanum?

Fyrir nokkrum árum bjuggum við fjölskyldan í Englandi í eitt ár þar sem ég var í meistaranámi í forystufræðum og stjórnun menntastofnana. Ég valdi að læra í University of Warwick, sem er í útjaðri Coventry, en ein af ástæðunum fyrir valinu var að í grennd við háskólann voru fínir skólar fyrir börnin okkar sem þá voru í fimmta og tíunda bekk en eitt barn var skilið eftir heima í menntaskóla. Aðlögunin gekk vel en eins og foreldrar gera vorum við stöðugt að spyrja börnin hvernig væri í skólanum og hvað þau hefðu gert þann daginn. Svörin voru yfirleitt í styttri kantinum og hefðbundin. Þau gáfu okkur ekki miklar upplýsingar. Þeim fannst bara fínt í skólanum og þau sögðu að skólarnir þeirra væru bara svipaðir skólunum þeirra heima á Íslandi. Framan af var helsti munurinn sá að maturinn í mötuneytinu var betri í Englandi, það var nefnilega boðið upp á kökur og ís í eftirrétt. Mér, skólamanninum, fannst þetta nú ekki málefnalegt. Svo gerðist það þegar við vorum búin að vera úti í nokkurn tíma og ég hættur að nenna að spyrja þau daglega hvernig væri í skólanum að sonur okkar, sem þá var fimmtán ára, kom til mín og sagði mér að ég væri alveg hættur að spyrja hann hvernig skólinn væri. Hann hefði nefnilega verið að hugsa málið aðeins og þó svo að honum þætti skólinn í Englandi fínn að þá tæki hann eftir einum áhugaverðum mun á honum og skólanum sínum á Íslandi. Munurinn væri að hann tryði því að kennararnir hans á Íslandi væru góðar manneskjur en að hann vissi ekkert um kennarana sína í Englandi. Þetta fannst mér athyglisvert og ég velti fyrir mér í nokkrar sekúndur hvort þetta væri vegna nándarinnar á Íslandi og að allir þekki alla. Kennararnir hans á Íslandi eru oft fólk sem við fjölskyldan þekkjum persónulega. Ég ákvað hins vegar að spyrja hvað hann meinti og hvernig hann vissi að kennararnir á Íslandi væru góðar manneskjur. Hann svaraði til útskýringar að hann vissi svo sem ekkert endilega hvort þeir væru góðar manneskjur og að hann væri alls ekki að segja að kennararnir hans í Englandi væru vondar manneskjur en munurinn væri sá að kennararnir á Íslandi hefðu áhuga á nemendum og sýndu nemendum og þeirra hugðarefnum áhuga en kennararnir hans í Englandi virtust aðeins hafa áhuga á námsefninu að undanskildum Mr. Jones (ekki hans rétta nafn) sem kenndi tónlist. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Að byggja námsmat á traustum heimildum

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Meyvant Þórólfsson

Megineinkenni þess námsmatskerfis sem nú ríkir í skyldunámi hérlendis eru svonefnd hæfni- og matsviðmið. Hliðstæða þess er matskerfi sem ruddi sér til rúms í Bandaríkjunum og víðar við upphaf 9. áratugar síðustu aldar (sjá m.a. Guskey og Baily, 2001). Um leið og fjaraði undan hinu hefðbundna matskerfi, er byggði á tölulegum upplýsingum um mældan námsárangur, beindist athyglin í vaxandi mæli að stöðugu og leiðbeinandi mati með áherslu á upplýsingar um það hversu vel nemandi hefði ákveðna hæfni á valdi sínu með hliðsjón af gefnum viðmiðum (sbr. e. standards-based grading). Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

FOSS: Fjölbreytt og sveigjanlegt skólastarf

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Lilja M. Jónsdóttir

 

Grein þessi á rætur að rekja til ritgerðar sem ég skrifaði í meistaranámi mínu við The Ontario Institute for Studies in Education sem nú er hluti af háskólanum í Toronto. Námsbrautin sem ég var á kallast Holistic Education eða heildstætt skólastarf og eitt verkefnið var að gera grein fyrir áherslum í minni kennslu sem gætu fallið undir þessa hugmyndafræði. Þar sem lokaritgerð mín til B.Ed. prófs frá Kennaraháskóla Íslands 1978 fjallaði um sveigjanlegt skólastarf í opinni skólastofu hafði ég alla tíð leitast við að skipuleggja kennslu mína í þeim anda. Eftir heimkomu frá Toronto hélt ég áfram að þróa þessar aðferðir og sýn mína á kennslu; þ.e. hugmyndir um hvernig skipuleggja má fjölbreytt, sveigjanlegt og skapandi skólastarf í anda opinnar skólastofu og heildstæðrar menntunar og byggir greinin einnig á því þróunarstarfi. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Lífssagan og lærdómurinn

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Grein I

Soffía Vagnsdóttir

 

Þessi grein er sú fyrsta af þremur sem ég skrifa til heiðurs mínum kæra vini, Ingvari Sigurgeirssyni, sem nýlega fagnaði sjötugsafmæli sínu.

Greinarnar eru samofnar, en fyrsta greinin er að hluta til byggð á erindi, sem ég flutti á skólaþingi sveitarfélaga þann 4. nóvember síðastliðinn. Hún er fyrst og fremst hugleiðing mín um þá vegferð sem skólinn hefur verið á allt frá því að foreldrar mínir voru börn og byggðu undir sína framtíð og fram til þess sem börn í skólum nútímans þurfa og ættu að læra. Samfélagið breytist og þróast og þörfin fyrir þekkingu og hæfni breytist líka. Nám er alltaf mikilvægt; það að læra eitthvað nýtt. Við lærum svo margt nýtt á hverjum degi sem ekki er endilega kennt í skólum. En við þurfum hæfnina til að vega og meta hvað er mikilvægt á hverjum tíma og hvort sá tími sem við höfum skipulagt í formlegt skólakerfi sé orðinn of stór hluti af lífi barna. Pasi Sahlberg hefur til að mynda bent á mikilvægi leiksins í lífi barna.

Þegar allt kemur til alls þá lítur maður sér nær þegar kemur að því að skoða hvernig ég hef lært það sem ég kann og hvað hefur komið sér best í lífinu. Ósjálfrátt máta ég mig við það sem ég er að reyna að leggja af mörkum inn í skólaumræðuna. Alltaf með barnið að leiðarljósi – barnið í miðjunni og hæfni þess til að skapa framtíð sína og hamingju. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Traust, þrautseigja og góður liðsandi – lykill að menntaumbótum

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Þorsteinn Hjartarson

 

Það er mér sönn ánægja að vera boðið að skrifa grein til heiðurs Ingvari Sigurgeirssyni sem fagnaði sjötugs afmæli sínu á síðasta ári. Í rúma tvo áratugi hafa leiðir okkar Ingvars legið saman með hléum og hefur samstarf okkar alltaf verið gott. Í þessari grein er fjallað um menntaumbætur og hvernig unnið hefur verið að þeim hér á landi á undanförnum árum. Um aldamótin var ég bjartsýnn á að umbótastarf yrði kröftugt í kjölfar nýrrar aðalnámskrár (Menntamálaráðuneytið, 1999) og spyr hvort innistæða hafi verið  fyrir þessari bjartsýni. Í þessu sambandi er fjallað um hvernig staðið var að menntaumbótum í Kanada á sama tíma. Einnig er vikið að því hvernig til hefur tekist við að fylgja eftir stefnunni um skóla án aðgreiningar og hvernig gott skólastarf getur stuðlað að félagslegum hreyfanleika. Litið er inn í skóla í Eistlandi og Svíþjóð og færð fyrir því rök að menntaumbætur náist best fram ef hugmyndafræðin um faglegt lærdómssamfélag er höfð að leiðarljósi. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Fjórar meginstoðir teymiskennslu

í Greinar

    Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

 

Viðfangsefni þessarar greinar er um leiðir til að innleiða teymiskennslu í skipulag grunnskólastarfs. Kveikja greinarinnar er meistararitgerðin, Það er óttalegur línudans, og fjallar greinin um niðurstöður þeirrar rannsóknar en fléttað er inn í dæmum um hvernig hægt er að styðja við þá undirstöðuþætti sem þurfa að vera til staðar svo að teymiskennsla gangi sem best. Í dæmunum er starfsfólk nafngreint eftir persónum úr uppáhaldsskáldsögu höfundar þessarar greinar og því geta lesendur haft gaman að því að finna út hvaða saga það er um leið og þeir lesa greinina.

Í teymiskennslu felst að kennarar sameina krafta sína og þekkingu við að leysa sameiginleg verkefni og ná fram ákveðnum markmiðum. Tveir eða fleiri kennarar eru samábyrgir fyrir einum árgangi eða aldursblönduðum hópi, undirbúa sig saman og kenna einnig að einhverju marki saman. Faglegt teymi hefur yfir að ráða kennsluúrræðum sem henta öllum nemendum. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

„Hann er umhverfisvænn og sjálfbær“. Nemendur í skóla margbreytileikans

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Kristín Björnsdóttir, prófessor.

Grunnskólanemar í 3.–10. bekk ásamt Kristínu Björnsdóttur

Snemma árs 2020 hafði Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins samband við mig og bauð mér að halda inngangserindi á vorráðstefnu þeirra um menntun og margbreytileika. Viðbrögð mín voru sambland af gleði, eftirvæntingu og efasemdum. Margt fræða- og skólafólk hefur, í ræðu og riti, fjallað um fjölbreytta nemendahópa, skóla án aðgreiningar, skóla margbreytileikans, skóla fyrir alla, algilda hönnun náms og kennslu, einstaklingsmiðun í námi, inngildandi menntun og ýmsar þarfir nemenda. Í ljósi ofangreindrar skilgreiningasúpu fannst mér ég knúin til að finna nýjan flöt á viðfangsefninu. Nemendur eru þeir sérfræðingar í skólamálum sem gjarnan vilja gleymast og því fór ég í samstarf við grunnskólanemendur í nokkrum mismunandi skólum. Sameiginlegt markmið okkar var að komast að því hvað það væri sem gerði skóla góða en öll tilheyrðu þau skólum þar sem nemendahópurinn var margbreytilegur. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Í hvað erum við að flýta okkur? Ofuráhersla á bóklega færni ungra barna dregur úr hæfni þeirra í því sem mestu máli skiptir

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Ingvi Hrannar Ómarsson

Við höfum öll takmarkaðan tíma og það hvernig við notum hvern dag safnast saman í það sem við gerum. Ekki það sem við ætlum kannski að gera á morgun, heldur er hæfni okkar, heilsa og þekking byggð á því sem við gerðum, borðuðum og lærðum í dag. Lífið er fullt af deginum í dag … ekki morgundögum. Ef við ætlum að verða góð í einhverju þurfum við að gera það í dag. Ekki mögulega á morgun.

Hvernig börn verja sínum tíma skiptir gríðarlegu máli. Árin, frá eins til sex ára, eru líklega þau mikilvægustu í lífi hverrar manneskju. Þá byggjum við upp mikið af hæfni okkar til samskipta og það er einmitt á þessum aldri sem samhygð (e. empathy) barna þroskast og mótast. Án hennar er grundvöllur fyrir nær öllum eðlilegum samskiptum og velgengni í lífinu á veikum grunni byggður. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Að þekkja uppruna sinn: Nemendur skyggnast um á síðum Íslendingabókar, á vef Landmælinga Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Rósa Eggertsdóttir

Þegar móður minni fannst það eiga við sagði hún: „Þriðja kynslóðin gleymir“. Henni fannst fenna fljótt í spor forfeðranna. Nýjar kynslóðir væru fáfróðar ef ekki alls ófróðar um hagi fólks fyrr á tímum. Í bréfi sem hún skrifaði frænku sinni í nóvember 1940, segir m.a.:

Einu sinni ráfaði ég úti heila jólanótt í snjó og kulda með einum kunningja mínum, vegna þess að við áttum hvergi heima – mér fannst það ákaflega broslegt, næstum því grátbroslegt. … Allstaðar þar sem við gengum framhjá húsum sáum við ljósadýrð, glöð börn sem nutu þess að jólin voru komin. Við ráfuðum úti frá kl. 9 til kl. 5 um morguninn. Það sem mér fannst ergilegast var að samferðafélagi minn var alltof „melankólskur“ hann gat ekki notið þess að vera heimilislaus flökkukind og sjá jólin koma til annarra.

Skiptir það máli fyrir afkomendur að hafa vitneskju um kjör formóður sinnar á krepputímum? Er mikilvægt að vita að langamma eignaðist tíu börn, þar af náðu sjö fullorðinsaldri? Í janúar 1907 fæddi hún tvíbura, annar dó eftir viku. Níu mánuðum síðar missti hún mann sinn þegar bátur fórst með allri áhöfn, fimm manns. Hún varð í einni svipan ekkja með fimm börn á framfæri, elsta 11 ára, það yngsta hvítvoðungur. Ekkert stoðkerfi var innan seilingar. Hún gat hvorki greitt húsaleigu né brauðfætt börnin. Fjórum börnum var komið fyrir hjá vandalausum. Það urðu örlög hvítvoðungsins að verða ómagi. Hún fékk starf sem fanggæsla[1] í verbúð og hafði hjá sér þriggja ára son sinn. Þau voru til heimilis á lofti verbúðarinnar. Á einu og sama árinu missti hún manninn, öll börnin utan eitt og heimilið sitt. Eftir þetta deildu börnin aldrei sama heimili. Það er ekki flókið að gera sér í hugarlund hvernig henni hefur liðið þegar þessi ósköp dundu yfir. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Um meint ólæsi drengja við lok skyldunáms

í Greinar

Þorlákur Axel Jónsson

 

Oft er rætt um slaka frammistöðu drengja á PISA prófunum. Stór hluti þeirra er sagður illa læs við lok skyldunáms og er jafnvel ályktað sem svo að skólakerfið bregðist drengjum við undirbúning fyrir líf og starf í nútímasamfélagi. Spurning um hvort grunnskólar mismuni piltum og stúlkum hangir í loftinu. Henta grunnskólar stúlkum vel en strákum ekki?

Almennt standa stúlkur sig betur en piltar á lesskilningshluta PISA rannsóknarinnar sem lögð hefur verið fyrir á þriggja ára fresti frá aldamótum. Í skýrslu Menntamálastofnunar um síðasta PISA-prófið segir: „Stúlkur stóðu sig töluvert betur en drengir í lesskilningshluta PISA 2018 á Íslandi. Þetta er óbreytt staða frá fyrri könnunum því kynjamunur í lesskilningi á Íslandi (og að meðaltali í löndum OECD) hefur verið stúlkum í hag síðan í fyrstu könnun PISA“ (bls. 29). Munurinn var 40 stig á mælikvarðanum fyrir lesskilning sem er meira en þær framfarir sem gert er ráð fyrir að verði á einu skólaári. Samtals voru 19% stúlkna og 34% drengja undir hæfniþrepi 2 í PISA 2018 „og teljast því ekki búa yfir grunnfærni í lesskilningi“ (bls. 30). Við bætist að frammistaða bæði pilta og stúlkna hefur versnað jafnt og þétt frá aldamótum.

Ég vil benda á nokkur atriði sem ættu að hvetja okkur til þess að álykta varlegar um slæma stöðu drengja en tíðkast hefur. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp