Afi, segðu mér sögu!
Hafþór Guðjónsson
Þannig varð til á bernskuárunum einhvers konar burðarvirki í sálinni eða hvað á að kalla þetta óáþreifanlega fyrirbæri, huga, tilfinningar, minni, … Burðarvirki sem heldur húsi persónuleikans saman, heldur því uppi, samt ósýnilegt eins og góð járnabinding í veggjum. – Þú sprettur eins og grasið. (Sigurður Pálsson, Bernskubók, bls. 138)
Fyrirsögn þessa pistils er tilvísun í eitt barnabarna minna. Hún er þriggja ára (bráðum fjögurra) og, líkt og flest börn á þessum aldri, sólgin í sögur. Býr í útlöndum en dvaldi um skeið hjá afa og ömmu í sumar. Fékk að venju hafragraut (afagraut) á morgnana. Þegar grauturinn var kominn á borðið, og hún tilbúin með skeiðina, sagði hún undantekningarlaust: „Afi, segðu mér sögu!“ Ég brást auðvitað vel við. Spurði kannski fyrst hvort ég ætti að segja söguna af stráknum sem fauk út í veður og vind (af því að hann borðaði ekki hafragrautinn sinn) eða mér þegar ég var lítill og fékk að fara á sjó með pabba og veiddi stóra fiskinn eða kannski hvalnum sem kom að landi þar sem við (sú litla, amma og ég) vorum að tína skeljar í fjörunni. Hún valdi og fór svo að borða grautinn og hlusta á afa í leiðinni. Gerði hún sig líklega til að hætta í miðju kafi hætti ég að segja frá og gaf merki með þremur fingrum en það þýðir „þrjár skeiðar af graut áður en ég held áfram“. Óbrigðult trix sem ég kem hér með á framfæri við aðra afa og ömmur (foreldrar mega ekki vera að því að segja börnum sögur með hafragraut). Lesa meira…