Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Monthly archive

apríl 2024

Um inngildingu, innri útilokun og tæknivæðingu menntunar

í Greinar

Eva Harðardóttir

 

Á undaförnum vikum hefur hugtakið inngilding (e. inclusion) fengið nokkuð víðtæka athygli í opinberri umræðu hérlendis, ekki síst á sviði skóla- og menntamála, en nú liggur fyrir nýtt frumvarp til laga undir heitinu Inngildandi menntun (í samráðsgátt 27.2.–12.3.2024). Frumvarpið á samkvæmt viðtali við Mennta- og barnamálaráðherra að „breyta menntakerfinu eins og við þekkjum það í dag“. Ég gleðst yfir eldmóði og væntingum ráðherra til frumvarpsins enda tengi ég sjálf hugtakið inngilding óneitanlega við mikilvægi og möguleika menntunar til þess að vera umbreytandi afl í lífi fólks – þvert á mörk og mæri.

Enska hugtakið inclusive education var upphaflega þýtt sem skóli eða menntun án aðgreiningar hérlendis. Í fræðilegri kreðsu hefur hugtakið þróast frá því að fjalla nær eingöngu um aðgengi nemenda með sérþarfir að almennum námsrýmum til þess að eiga ekki síður við um gæði og markmið menntunar í staðbundnu jafnt sem alþjóðlegu samhengi. Þannig birtist til dæmis umfjöllun um inngildandi menntun í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Það er að segja ekki eingöngu í tengslum við aðgengi einstaklinga að menntun alla ævi heldur einnig í nánu sambandi við mannréttindi, menningarlegan margbreytileika og hnattræna borgaravitund.[1] Slíkar áherslur eru hins vegar lítt merkjanlegar í hinu nýju menntafrumvarpi þar sem inngildandi menntun (e. inclusive education) er skilgreind fyrst og fremst á grundvelli skipulags, starfshátta og stuðningsúrræða við nemendur með sérþarfir.

Hugtakið inngilding hefur einnig notið vaxandi vinsælda í umræðu um innflytjendur og flóttafólk þar sem notkun þess tekur á sig ólíkar myndir. Raddir innflytjenda, sem heyrast sem betur fer oftar en áður í opinberri umræðu um málaflokkinn, benda sterklega til þess að hugtakið beri í sér von um gagnkvæma virðingu og merkingarbæra þátttöku.[2] Á hinn bóginn virðist hugtakinu ekki síður beitt – af stjórnmálafólki úr ólíkum áttum –  í mun þrengri tilgangi, til dæmis í tengslum við breytingar á útlendingalöggjöf og þvingandi forsendur fyrir því að fólk geti flutt hingað til lands eða tekið hér fasta búsetu. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp