Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Gerum gott betra – Að koma til móts við nemendur með sértæka námserfiðleika

í Greinar

Ingileif Ástvaldsdóttir

 

Þegar farið er á ráðstefnur eða í náms- og kynnisferðir er ekki alltaf ljóst hvað þær ferðir geta gefið í starfsþróun og breyttum starfsháttum. Þegar ég fór á ráðstefnu evrópskra skólastjórnenda (ESHA) í Maastrich í október 2016 tók ég þátt í skólaheimsókn sem var einn liður  ráðstefnunnar. Eitt af viðfangsefnum ráðstefnunnar var velferð nemenda á 21. öldinni og valdi ég mér að heimsækja skóla sem bauð heimsókn undir þeim formerkjum. Það var skólinn De Wijnberg í Venlo sem er sérskóli fyrir nemendur sem af einhverjum ástæðum gengur ekki vel að fóta sig í hefðbundnu skólastarfi.

Í þessari skólaheimsókn heillaðist ég af heildstæðri nálgun starfsmanna skólans að námi nemenda  og nærumhverfi þeirra og hvernig sterkar hliðar og áhugahvöt nemenda voru nýtt til að gefa þeim trú á eigin getu og að auka færni þeirra til að takast á við veikleika sína og að geta verið sjálfstæð og virk í námi, starfi og leik. Fyrir hvern nemanda eru búnar til stuttar en hnitmiðaðar áætlanir þar sem fylgst er með framvindunni með fjölbreyttum og formlegum aðferðum. Þættirnir sem eru tilgreindir í áætluninni og eru metnir eru: líðan, hegðun, námsframvinda og félagsleg virkni. Það var mat mitt að starfsfólki De Wijnberg takist vel, þrátt fyrir fjölda og fjölbreytileika nemenda, að koma til móts við þarfir hvers og eins og að byggja upp sjálfstæða og jákvæða einstaklinga ásamt því að nota ýmis matstæki til að meta framfarir nemenda á öllum sviðum.

Starfið í De Wijnberg minnti mig á það hvernig iðjuþjálfinn í Þelamerkurskóla, Sigríður Guðmundsdóttir, hagar starfi sínu með nemendum og í heimsókninni ákvað ég að hún þyrfti að sjá hvernig starf af þessu tagi getur verið í almennu skólastarfi . Ég fór strax á ráðstefnunni að leita ráða hjá kollegum mínum sem höfðu meiri reynslu en ég af styrkjakerfi Erasmus+ og fékk hjá þeim leiðbeiningar um umsóknarferli og fleira.

Það er skemmst frá því að segja að ári seinna var ég aftur komin til De Wijnberg og með mér voru Unnar Eiríksson aðstoðarskólastjóri í Þelamerkurskóla og smíðakennari skólans og Sigríður Guðmundsdóttir iðjuþjálfi skólans. Með góðum styrk frá Erasmus+ fengum við tækifæri til að kynnast starfi og innviðum De Wijnberg skólans. Með markvissum hætti skráðum við og héldum utan um lærdóminn í ferðinni og í lok ferðar gerðum við skýrslu um ferðina í formi heimasíðu. Á hana settum við meðal annars lista yfir það sem við vildum taka með okkur heim. Við lærðum að margt af því sem gert er á Þelamörkinni er vel gert og að það væri vissulega hægt að bæta með lærdómi ferðarinnar. Sumt af því voru lítil verkefni sem auðvelt var að koma fyrir í núverandi starfi en annað krafðist meiri vinnu við að breyta starfsháttum okkar. Það fólst aðallega í því hvernig vandi nemenda og nærumhverfis þeirra er kortlagður og hvernig niðurstöður kortlagningarinnar hafa áhrif á það hvernig námið er byggt upp og hvernig umhverfið styður við markmið námsins. Til viðbótar sáum við að við gætum á formlegri hátt en áður metið framfarir nemenda og hvernig viðbrögð námsumhverfisins hafa áhrif á framvinduna. Við vorum sammála um að verkfæri De Wijnberg í þessum þáttum myndu nýtast okkur og við fundum út að okkur myndi vanta aðstoð við að nýta þau og einnig að staðfæra.

Þegar leið á veturinn varð Sprotasjóðsverkefnið Gerum gott betra til og það hefur þrjú meginmarkmið:

  1. Að bæta þjónustu við nemendur með sértæka námserfiðleika og námsaðlögun.
  2. Að innleiða formlegt mat á framvindu náms, líðan og hegðunar nemenda sem fá námsaðlögun.
  3. Að auka hlut náms sem byggir á að efla virkni og færni hjá nemendum með sértæka námsörðugleika þar sem áhugi þeirra og styrkleikar eru nýttir til að stýra námsframvindunni.

Til að fleiri en Þelamerkurskóli njóti góðs af lærdómi námsferðarinnar til De Wijnberg og að verkefnið fengi fleiri sjónarhorn fengum við til liðs við okkur Dalvíkurskóla og Naustaskóla á Akureyri. Verkefni þeirra sem taka þátt í Gerum gott betra verður að æfa sig í að nota verkfæri De Wijnberg í daglegu starfi með nemendum. Verkefnið er sett upp sem starfendarannsókn þar sem starfsmenn skólanna þriggja innleiða og skoða saman hvernig tekst til. Þeim til aðstoðar verða svo starfsmenn Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands. Og til að enn fleiri fái að kynnast verkefninu er áformað að verkefninu ljúki með málþingi haustið 2019 þar sem þátttakendur í Gerum gott betra deila reynslu sinni og þekkingu. Tveir af starfsmönnum De Wijnberg hafa þegar boðað komu sína á málþingið og ætlar annar þeirra að vera aðalfyrirlesari málþingsins.

Af þessu ferli hef ég lært að það borgar sig að fylgja eftir þráðum, tengslum og hugmyndum sem fæðast á ráðstefnum eða í kynnisferðum. Eftirfylgnin getur opnað glugga og skapað tækifæri til að nýta styrkjaumhverfi og kjarasamning skólanna til þróunar skólastarfs sem hafa það að markmiði að bæta námsaðstæður allra nemenda.

Útinám fullum gangi. Mynd tekin af heimasíðu Þelamerkurskóla.

Um höfund

Ingileif Ástvaldsdóttir býr og starfar í Hörgársveit þar sem hún er skólastjóri Þelamerkurskóla. Árið 1999 lauk hún B.Ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og árið 2009 M.Ed gráðu frá sama skóla með áherslu á stjórnun menntastofnana. Frá árinu 2010 hefur Ingileif setið í stjórn Skólastjórafélags Íslands m.a. sem varaformaður þess 2010–2017. Ingileif stundar um þessar mundir meistaranám í upplýsingatækni í skólastarfi við Háskólann á Akureyri. Hún heldur úti blogginu Bara byrja þar sem hún skráir pistla um eigin starfsþróun og aðra iðju á Þelamörk og víðar.

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp