Kristín Lilliendahl
Á ráðstefnu Samtaka áhugafólks um skólaþróun 3. nóvember sl. kom í minn hlut að tala fyrir hönd samtakanna Erindis um samstarf heimila og skóla. Erindi er þjónustumiðstöð sem býður foreldrum og skólum aðstoð í málum sem varða samskipti og líðan barna upp að átján ára aldri. Hjá Erindi starfar fagfólk sem þekkir innviði grunnskólastarfs og hefur menntun og reynslu á sviði ráðgjafar og kennslu. Einnig hafa samtökin sálfræðing, félagsráðgjafa og fjölskyldufræðinga á sínum snærum sem koma að starfseminni eftir þörfum. Á þeim tíma sem Erindi hefur starfað hafa samtökin komið að fjölmörgum málum víða um land með ráðgjöf og fræðslu. Einnig hefur færst í aukana að foreldrar og skólar leiti til Erindis eftir talsmanni eða óháðum fagaðila til að sitja fundi þar sem úrlausna er þörf í samskiptum heimila og skóla. Þá hafa samtökin tekið að sér verkefni fyrir fræðsluyfirvöld svo sem ítarlegar athuganir, heildstæðar úrlausnir í eineltismálum og umbætur varðandi skólabrag svo eitthvað sé nefnt. Það er á grunni ofangreindrar reynslu sem hér er skrifað. Starfsemi Erindis hvílir á þeim manngildissjónarmiðum sem birtast í gildandi lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, barnaverndarlögum, Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna ásamt þeim áherslum sem fram koma í Aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 2011 um ábyrgð og skyldur nemenda, starfsfólks skóla og foreldra. Þrátt fyrir að ekki hafi verið unnin nákvæm rannsókn á eðli þeirra mála sem Erindi hefur sinnt, hafa ákveðnir þættir varðandi samskipti og skólastarf vakið oftar athygli okkar ráðgjafa en aðrir og verða þeir reifaðir hér. Til dæmis má nefna að flest þau mál sem Erindi hefur komið að, bæði að beiðni foreldra og skóla, varða börn á miðstigi. Allmargir skólastjórnendur, kennarar og aðrir fagaðilar sem við höfum átt samvinnu við hafa nefnt að samskiptavandi á miðstigi sé mun meiri nú en fyrir nokkrum árum. Það er í okkar huga verðugt rannsóknarefni að skoða hvort það sé reynslan í skólum landsins almennt og hvað hugsanlega veldur.
Í störfum okkar höfum við orðið vitni að framgöngu kennara og skólastjórnenda í samskiptum við nemendur og foreldra sem sýnir hvað starfsmenn skóla eru tilbúnir að seilast langt út fyrir skyldur sínar af umhyggju fyrir nemendum. Og sama gildir um framgöngu margra foreldra sem vitnar um áhuga og virðingu þeirra fyrir skólastarfinu. Það virðist þó sem formleg samskipti heimilis og skóla séu almennt frekar lítil og fari helst fram með kynningarfundi í upphafi skólaárs, með rafrænum upplýsingum á viku eða hálfs mánaðar fresti og með stuttum foreldraviðtölum einu sinni á misseri. Þetta er auðvitað ekki algilt og ónefnd þau óformlegu samskipti sem eiga sér stað í einstökum tilvikum. Þetta bendir þó til þess að heimili og skóli séu nokkuð aðgreindir heimar þrátt fyrir að gildandi lög um grunnskóla og aðalnámskrá undirstriki mikilvægi samstarfs þar á milli. Þetta getur komið sér illa þegar eitthvað bjátar á hjá nemendum og ekki er hægt að byggja á trausti sem búið er að festa í sessi með öflugu samstarfi. Þegar upp kemur vandi sem varðar nám, hegðun eða líðan barna er hætt við tortryggni og varnarháttum í samskiptum skóla og heimilis og jafnvel ásökunum sem geta valdið því að foreldrar hafna samstarfi við skólann. Og þá er stutt í að óvarlega sé talað á báða bóga. Þegar samskipti verða erfið milli heimilis og skóla er mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um hvað börn þeirra heyra um skólann heima. Á sama tíma er jafn mikilvægt að kennarar gæti vel að viðhorfum sínum gagnvart þeim foreldrum og nemendum sem eiga í hlut. Það er gott að minnast þess að börn koma með fleira í farteskinu í skólann en bækur og nestið sitt. Hvert barn á sína sögu sem kennarinn hefur takmarkaða vitneskju um. Það kemur með fjölskyldu sína í skólann og það fer líka með kennarann heim. Sú hugmynd hefur komið fram í starfshópi Erindis að hvetja til þess að öll heimili og skólar í landinu geri með sér heiðursmannasamkomulag um að tala vel um skólann í návist barna. Það styrkir öðru fremur viðhorf barna til menntunar og um leið til sjálfra sín. Sé illa talað um skólann getur það ögrað öryggiskennd barna, skaðað traust þeirra til kennara og dregið úr námsáhuga.
Starfsmenn Erindis verða æ meira varir við allskyns vandamál sem spretta af umræðum á samfélagsmiðlum, til dæmis á Facebook-síðum sem foreldrahópar halda gjarnan úti. Þar eiga foreldrar samskipti sín á milli um hin ýmsu mál sem varða skólagöngu barna þeirra. Slíkar síður geta verið afar gagnlegar en geta líka valdið skaða ef ekki er varlega farið. Ef foreldrar telja sig ekki fá viðunandi úrlausnir fyrir barn sitt í skólanum eða eru ósáttir við ákvarðanir eða vinnubrögð skólans, leita þeir gjarnan álits innan foreldrahópsins, deila reynslu sinni og kalla eftir reynslu annara foreldra. Við það verður til umræða sem erfitt er að stjórna. Þrátt fyrir að slíkar síður eigi einungis að vera aðgengilegar foreldrum bekkjarins eða árgangsins orkar það verulega tvímælis ef barn eða börn eru til umræðu án vitundar þeirra eða upplýsingar veittar sem varða önnur börn en eigið barn. Umræðan, hver sem hún er, getur hæglega borist út fyrir hópinn og það getur verið erfitt að greina hvenær hún er farin að vega að orðspori kennara, skólastjórnenda eða jafnvel farin að snúast gegn öðrum foreldrum eða börnum þeirra. Þetta getur haft í för með sér ásakanir um trúnaðarbrot, ærumeiðingar eða jafnvel einelti. Það er í okkar huga afar mikilvægt að skapa umræðu meðal skólafólks og foreldra um notkun slíkra samskiptamiðla og að báðir aðilar séu meðvitaðir um nauðsyn þess að notkunin samrímist lögum um persónuvernd og því siðferði sem almennt ætlast er til af þeim aðilum sem koma að uppeldi og skólagöngu barna. Hér er gagnlegt að skoða viðmið Skóla-og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um samstarf heimilis og skóla sem finna má á vefsíðu Reykjavíkurborgar, sjá hér.
Svo virðist sem almennt sé lagður sá skilningur í samvinnu heimilis og skóla að þar sé átt við samstarf foreldra og kennara eða skólastjórnenda. Nemendur virðast með öðrum orðum standa að miklu leyti utan við umfjöllun og ákvarðanir um eigin málefni þrátt fyrir að þess sé vænst í gildandi lögum um grunnskóla frá 2008 að þeir taki meiri ábyrgð á skólagöngu sinni en lögin áður gerðu ráð fyrir. Nemendur eru hluti af hvoru tveggja, heimili og skóla og eru þess vegna mikilvægir þátttakendur í samstarfi þessara aðila. Skólar reikna vissulega með þátttöku nemenda í skipulegum foreldraviðtölum og vafalaust eru nemendur víða kallaðir til ábyrgðar í málum sem þá varða í einhverjum mæli og er jafnvel innbyggt í þeirri hugmyndafræði sem sumir skólar starfa eftir. En hér má hugsanlega gera betur. Eitt af leiðarljósum Erindis er að hafa tiltrú á lausnarfærni barna, sýna hana í verki með því að virkja þau í lausnarferlinu og byggja á styrkleikum þeirra. Séu börn óvirk í eigin málum eru tekin frá þeim mikilvæg tækifæri til að glíma við raunverulegar þrautir undir leiðsögn sem tekur mið af aldri þeirra og þroska.
Í störfum okkar hefur komið berlega í ljós hversu óljóst er fyrir foreldrum og kennurum hver bera eigi ábyrgð á hverju þegar upp kemur vandi varðandi skólahegðun nemenda. Kennarar tjá okkur gjarnan að það sem þeim finnist erfiðast í kennslunni sé að glíma við persónuleg mál nemenda svo sem samskiptamál og hegðunarvanda og hafa áhyggjur af þeim tíma sem fer í slíkt á kostnað kennslunnar. Kennarar segja að það sé erfitt að átta sig á hvenær og í hvaða mæli þeir geti vísað til ábyrgðar foreldra í slíkum málum. Þrátt fyrir að lögin um grunnskóla skilgreini sérstaklega ábyrgðarhlutverk foreldra og starfsfólks skólans, eru þau ekki leiðbeinandi um hvar einu hlutverki sleppir og annað taki við í einstökum málum. Það er umhugsunarvert hversu fúslega foreldrar hafa á stundum látið uppeldishlutverk sitt af hendi til skólans og hversu fúslega skólinn hefur tekið við því. Í samtölum okkar við kennara kemur fram að þessi viðfangsefni eru ein erfiðasta áskorunin sem þeir telja sig mæta í störfum sínum. Það er að okkar mati brýnt að skilgreina nánar hlutverk skóla og foreldra og styðja þannig báða aðila við að gera heilbrigðar væntingar hvor til hins. Með því móti væri samstarfi heimilis og skóla búin betri skilyrði í tilfellum allra barna.
Erindi leggur áherslu á að líta ávallt á hvers kyns hegðunarvanda nemenda sem einkenni einhvers fremur en ásetning. Með því að horfa á hegðunarvanda barna með þeim augum og leita skýringa er hægt að leysa vandann í sameiningu. Algengar úrlausnir þegar hegðun barna brýtur í bága við skólareglur er að veita þeim tiltal og víst er að sum börn eiga langa reynslu af samtölum við kennara, skólastjórnendur og námsráðgjafa vegna hegðunar sinnar og fá endurtekið efnið heima. Þótt samtal við barn í hegðunarvanda sé afar mikilvægt virðist nokkuð vanta á að því fylgi aðgerðir í kjölfarið þar sem barnið getur æft sig við að tileinka sér hjálplegri hegðun og leiðrétt það sem fór úrskeiðis á áþreifanlegan hátt. Hér er kjörið að leita eftir eigin lausnarhugmyndum barnsins sem í hlut á og styðja það við að láta á þær reyna. Foreldrar barna með hegðunarvanda hljóta að leggja traust sitt á skóla sem lítur á óæskilega hegðun barna fyrst og fremst sem námstækifæri og hjálpar þeim að komast frá aðstæðum sínum með reisn.
Þá langar mig að víkja nokkrum orðum að skólabrag. Það hefur verið sérlega skemmtilegt að kynnast því hvernig margir skólar vinna með samskipti nemenda út frá einkunnarorðum skólans og halda þeim þannig lifandi og sýnilegum í daglegu skólastarfi. Að byggja upp skólabrag er jafnan samvinnuverkefni skólastjórnenda, kennara og nemenda og þar er að mörgu að hyggja. Hér er mikilvægt að gleyma því ekki að foreldrar eru hluti af skólabrag hvers skóla þótt þeir séu ekki á staðnum og að framlag þeirra og þátttaka er mikilvæg við að skapa það andrúmsloft og viðhorf í skólastarfi sem stuðlar að vellíðan og starfsgleði nemenda og starfsmanna. Hér er að okkar mati kjörin vettvangur til að styrkja samvinnu heimilis og skóla. Við leggjum til að það verði árviss viðburður innan allra grunnskóla að unnið sé að völdum umbótum á skólabrag á öllum stigum í samvinnu við foreldra.
Þátttaka foreldra í skólastarfi getur orðið viðkvæm þegar foreldrar vita ekki hvar þátttaka þeirra er best þegin og hvaða frumkvæði þeir mega taka. Til dæmis er ekki alltaf ljóst undir hvaða kringumstæðum þeim er heimilt eða óheimilt að koma inn í kennslustundir, fylgjast með í fríminútum eða taka börn sín úr skólanum. Af þessari óvissu hafa skapast erfiðleikar í samskiptum foreldra og starfsmanna skóla sem bendir til þess að hér mætti skýra hlutverk beggja betur. Samkvæmt umfjöllun skóla- og frístundasviðs á vefsíðu Reykjavíkurborgar um samskipti heimilis og skóla, berast sviðinu í æ meira mæli ábendingar um of mikil afskipti foreldra af skólastarfinu sem trufli nám og kennslu. Það er að okkar mati kjörið að virkja foreldra til samstarfs í áhugaverðum öruggum verkefnum eins og að vinna að betri skólabrag og að tryggja að öllum sé ljóst hvar mörkin liggja milli hefðbundins skólastarfs og aðkomu foreldra. Eftir heimsóknir í skóla úti á landi virðist okkur enn meiri ástæða til að undirstrika þessi mörk í smærri byggðum. Það getur skólastjórnendur við að halda úti metnaðarfullu skólastarfi og eðlilegu samstarfi við foreldra í óhjákvæmilegri nánd fólks í fámennum bæjarfélögum.
Eflaust hefur margt sem hér að ofan er nefnt verið ígrundað og stundað í starfi grunnskóla landsins. Þetta eru einungis þankar sem vaknað hafa í þeim verkefnum sem Erindi hefur komið að á þeim tveimur árum sem samtökin hafa starfað. Það er óhætt að segja að það hafi vakið aðdáun okkar ráðgjafa hve margbreytileg og áhugaverð starfsemi á sér stað í skólunum og almennt faglega unnið með foreldrum þegar kemur að hegðunar-og samskiptavanda nemenda. Samskipti heimils og skóla verða hinsvegar aldrei að fullu skipulögð eða fagleg og engar aðferðir eða áætlanir tryggja gott samstarf. Þau eru tilfinningahlaðin og aðstæðubundin og háð innsæi, samkennd og lausnarfærni allra viðkomandi. Undirstaðan er traustið sem þarf að huga að frá fyrsta skóladegi, næra og hlúa að til þess síðasta – af hálfu beggja.
Kristín Lilliendahl er starfandi aðjunkt við Menntavísindasvið HÍ og er jafnframt umsjónarmaður ráðgjafar samtakanna Erindis (sjá hér: https://www.erindi.is/). Hún er menntaður fjölskyldufræðingur og náms-og starfsráðgjafi ásamt með menntun í kennarafræðum. Kristín var fagstjóri sérkennslu við unglingastig grunnskólanna í Mosfellsbæ til margra ára.