Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Tag archive

heimili og skóli

Hvar er draumurinn? Draumur kennarans

í Pistlar

 Erla Björg Rúnarsdóttir

 

Í skólum eru nemendur með ólíka styrkleika og margbreytilegar þarfir. Þar starfar einnig fólk með ólíkan bakgrunn og fjölþætta þekkingu sem sinnir fjölbreyttum störfum innan skólans með það að leiðarljósi að auka hæfni nemenda. Það má þó ekki gleyma mannlega þættinum. Þetta fólk þarf vissulega að vera viðbragðasnjallt og geta tekist á við allskonar aðstæður sem geta jafnvel reynst ofurhetjum erfiðar en staðreyndin er sú að þetta er fólk.

Íslenskir skólar starfa eftir menntastefnunni um skóla fyrir alla eða skóla án aðgreiningar. Menntastefnu sem er alþjóðleg og kemur fyrst fyrir á íslensku máli í þýðingu á Salamanca – yfirlýsingunni sem var samþykkt af Sameinuðu þjóðunum árið 1994 (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2015). En  hverjir eru það sem bera ábyrgð á framkvæmd stefnunnar?  Eru það eingöngu skólarnir og sveitafélögin? Eða er það mögulegt að fleiri starfsstéttir og fleiri aðilar beri ábyrgð?  Gagnrýnisraddir eru margar og þeir sem gagnrýna hæst og mest halda því fram að skortur á fjármagi hamli því að hægt sé að framfylgja stefnunnu. Foreldrar standa í þeirri trú að ef barnið þeirra er með greiningu þá eigi það rétt á því að námið sé sniðið að þeirra þörfum og  greiningunni fylgi meira fjármagn. Málið er að skóli fyrir alla er einmitt  fyrir alla og á læknisfræðileg greining ekki að skipta neinu máli í því samhengi. Lesa meira…

Afi, segðu mér sögu!

í Pistlar

Hafþór Guðjónsson

 

Þannig varð til á bernskuárunum einhvers konar burðarvirki í sálinni eða hvað á að kalla þetta óáþreifanlega fyrirbæri, huga, tilfinningar, minni, … Burðarvirki sem heldur húsi persónuleikans saman, heldur því uppi, samt ósýnilegt eins og góð járnabinding í veggjum. – Þú sprettur eins og grasið. (Sigurður Pálsson, Bernskubók, bls. 138)

 

Fyrirsögn þessa pistils er tilvísun í eitt barnabarna minna. Hún er þriggja ára (bráðum fjögurra) og, líkt og flest börn á þessum aldri, sólgin í sögur. Býr í útlöndum en dvaldi um skeið hjá afa og ömmu í sumar. Fékk að venju hafragraut (afagraut) á morgnana. Þegar grauturinn var kominn á borðið, og hún tilbúin með skeiðina, sagði hún undantekningarlaust: „Afi, segðu mér sögu!“ Ég brást auðvitað vel við. Spurði kannski fyrst hvort ég ætti að segja söguna af stráknum sem fauk út í veður og vind (af því að hann borðaði ekki hafragrautinn sinn) eða mér þegar ég var lítill og fékk að fara á sjó með pabba og veiddi stóra fiskinn eða kannski hvalnum sem kom að landi þar sem við (sú litla, amma og ég) vorum að tína skeljar í fjörunni. Hún valdi og fór svo að borða grautinn og hlusta á afa í leiðinni. Gerði hún sig líklega til að hætta í miðju kafi hætti ég að segja frá og gaf merki með þremur fingrum en það þýðir „þrjár skeiðar af graut áður en ég held áfram“. Óbrigðult trix sem ég kem hér með á framfæri við aðra afa og ömmur (foreldrar mega ekki vera að því að segja börnum sögur með hafragraut). Lesa meira…

Undirstaðan er traustið – Þankar um samstarf heimilis og skóla varðandi börn í vanda

í Greinar

Kristín Lilliendahl

 

Á ráðstefnu Samtaka áhugafólks um skólaþróun 3. nóvember sl. kom í minn hlut að tala fyrir hönd samtakanna Erindis um samstarf heimila og skóla. Erindi er þjónustumiðstöð sem býður foreldrum og skólum aðstoð í málum sem varða samskipti og líðan barna upp að átján ára aldri. Hjá Erindi starfar fagfólk sem þekkir innviði grunnskólastarfs og hefur menntun og reynslu á sviði ráðgjafar og kennslu. Einnig hafa samtökin  sálfræðing, félagsráðgjafa og fjölskyldufræðinga á sínum snærum sem koma að starfseminni eftir þörfum. Á þeim tíma sem Erindi hefur starfað hafa samtökin komið að fjölmörgum málum víða um land með ráðgjöf og fræðslu. Einnig hefur færst í aukana að foreldrar og skólar leiti til Erindis eftir talsmanni eða óháðum fagaðila til að sitja fundi þar sem úrlausna er þörf í samskiptum heimila og skóla. Þá hafa samtökin tekið að sér verkefni fyrir fræðsluyfirvöld svo sem ítarlegar athuganir, heildstæðar úrlausnir í eineltismálum og umbætur varðandi skólabrag svo eitthvað sé nefnt. Það er á grunni ofangreindrar reynslu sem hér er skrifað. Starfsemi Erindis hvílir á þeim manngildissjónarmiðum sem birtast í gildandi lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, barnaverndarlögum, Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna ásamt þeim áherslum sem fram koma í Aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 2011 um ábyrgð og skyldur nemenda, starfsfólks skóla og foreldra. Þrátt fyrir að ekki hafi verið unnin nákvæm rannsókn á eðli þeirra mála sem Erindi hefur sinnt, hafa ákveðnir þættir varðandi samskipti og skólastarf vakið oftar athygli okkar ráðgjafa en aðrir og verða þeir reifaðir hér. Til dæmis má nefna að flest þau mál sem Erindi hefur komið að, bæði að beiðni foreldra og skóla, varða börn á miðstigi. Allmargir skólastjórnendur, kennarar og aðrir fagaðilar sem við höfum átt samvinnu við hafa nefnt að samskiptavandi á miðstigi sé mun meiri nú en fyrir nokkrum árum. Það er í okkar huga verðugt rannsóknarefni að skoða hvort það sé reynslan í skólum landsins almennt og hvað hugsanlega veldur. Lesa meira…

Fara í Topp