Hafþór Guðjónsson
Þannig varð til á bernskuárunum einhvers konar burðarvirki í sálinni eða hvað á að kalla þetta óáþreifanlega fyrirbæri, huga, tilfinningar, minni, … Burðarvirki sem heldur húsi persónuleikans saman, heldur því uppi, samt ósýnilegt eins og góð járnabinding í veggjum. – Þú sprettur eins og grasið. (Sigurður Pálsson, Bernskubók, bls. 138)
Fyrirsögn þessa pistils er tilvísun í eitt barnabarna minna. Hún er þriggja ára (bráðum fjögurra) og, líkt og flest börn á þessum aldri, sólgin í sögur. Býr í útlöndum en dvaldi um skeið hjá afa og ömmu í sumar. Fékk að venju hafragraut (afagraut) á morgnana. Þegar grauturinn var kominn á borðið, og hún tilbúin með skeiðina, sagði hún undantekningarlaust: „Afi, segðu mér sögu!“ Ég brást auðvitað vel við. Spurði kannski fyrst hvort ég ætti að segja söguna af stráknum sem fauk út í veður og vind (af því að hann borðaði ekki hafragrautinn sinn) eða mér þegar ég var lítill og fékk að fara á sjó með pabba og veiddi stóra fiskinn eða kannski hvalnum sem kom að landi þar sem við (sú litla, amma og ég) vorum að tína skeljar í fjörunni. Hún valdi og fór svo að borða grautinn og hlusta á afa í leiðinni. Gerði hún sig líklega til að hætta í miðju kafi hætti ég að segja frá og gaf merki með þremur fingrum en það þýðir „þrjár skeiðar af graut áður en ég held áfram“. Óbrigðult trix sem ég kem hér með á framfæri við aðra afa og ömmur (foreldrar mega ekki vera að því að segja börnum sögur með hafragraut).
Nú er hnátan farin til Svíþjóðar með pabba og mömmu. Töluðum við hana á Skype um daginn. Um leið og ég birtist henni á skjánum sagði hún: „Afi, segðu mér sögu!“ Ég maldaði í móinn og eftir strangar samningaviðræður sneri sú litla við blaðinu, brá sér frá og birtist von bráðar með stóra sænska barnabók sem hún hafði eignast nýlega: „Á ég að lesa fyrir ykkur?“ spurði hún og bætti við: “á íslensku?“ Veit sem er að afi og amma eru ekki góð í sænsku og því yrði hún að þýða fyrir okkur textann. Og svo byrjaði hún: „Einu sinni …“ og rakti söguna jafnframt því að snúa bókinni að okkur með hverri nýrri opnu svo við gætum séð myndirnar.
Byrjaði alveg eins og afi, með orðunum „EINU SINNI“. Þannig byrjum við gjarnan þegar við segjum börnum sögur. Okkur er það tamt og við skynjum líka að slíkt upphaf hefur töframátt. Hafi barnið verið órólegt verður það rólegt, hafi það verið á þeytingi hægir það á sér. Það slaknar á andlitsvöðvunum og augun verða mildari en áður. Amma notfærir sér töfraorðin þegar sú litla er með uppsteit og vill ekki fara í fötin, segir þá: „Á amma að segja þér sögu? EINU SINNI …“ Mótspyrnan dagar uppi. Sagan tekur völdin.
Undanfarið hef ég verið að rýna í bók sem heitir The meaning makers: Learning to talk and talking to learn. Í bókinni segir höfundurinn, Gordon Wells, frá Bristol rannsókninni, langtímarannsókn sem gerð var í Bristol á Englandi á níunda áratug síðustu aldar og beindist meðal annars að því að kanna menntunarleg tengsl heimila og skóla. Fyrri rannsóknir höfðu gefið vísbendingar um að sum börn kæmu sterkari til leiks en önnur við upphaf skólagöngu; komu til að mynda betur út á læsisprófum þar sem leitast var við að meta orðaforða og orðaskilning, samhæfingu augna og handa og skilning þeirra á prentmálshugtökum (Hvað er forsíða bókar? Hvar byrjar sagan? Hvað er stafur? Hvað er orð?).
Hvað veldur? – spurðu rannsakendur og beindu athyglinni að því hvað börn gerðu heima hjá sér sem tengdist læsi. Ákveðið var að skoða tíðni fjögurra læsisiðja í heimahúsum og hugsanleg tengsl þeirra við útkomur á læsisprófum: 1) skoða myndabók og tala um innihaldið; 2) hlusta á sögu; 3) teikna og lita; og 4) skrif – alvöruskrif og þykjustuskrif. Niðurstaðan var afdráttarlaus: Aðeins ein af þessum iðjum sýndi skýra fylgni við niðurstöður læsisprófa, nefnilega iðja 2: hlusta á sögu.
Eðlilega leitar höfundurinn (Wells) skýringa. Hvað er svona merkilegt við það að hlusta á sögur? Svar Wells er í stuttu máli á þá leið að með því að hlusta á sögur og taka þátt í umræðum um þær uppgötvar barnið táknmegn (symbolic potential) tungumálsins, hvernig tungumálið gerir okkur kleift að skapa merkingu úr því sem fyrir augu og eyru ber, skilja hegðun og tengsl hluta, finna skýringar og sjá fyrir afleiðingar, skapa nýja heima og ævintýri.
Frekari athuganir með hjálp kennara barnanna leiddu í ljós að börn sem lesið var fyrir áttu auðveldara með að tjá sig munnlega (segja frá atburðum og lýsa aðstæðum), fylgja leiðbeiningum og síðast en ekki síst, fylgjast með tali kennara sinna. Wells staldrar við þetta síðasta atriði. Ætti ekki að koma á óvart, segir hann, þegar haft er í huga að kennarar eru mjög oft að fjalla um fjarlæga eða ósýnilega hluti, til dæmis sértæk hugtök. Þegar þeir gera þetta verða þeir gjarnan formlegir í tali og þá reynir verulega á málskilning barnsins, hæfileika þess að „ferðast“ með kennaranum í táknheimi greinarinnar. Gáum að því, bætir Wells við, að skólastarf snýst fyrst og fremst um vinnu með tákn, fyrst í hversdagslegu tali, síðan í lestri og ritun og loks í táknkerfum námsgreinanna. Hvernig barni reiðir af með þessa vinnu er fyrst og fremst undir því komið að því takist að losa sig úr viðjum hversdagslegs tungutaks og fara á brott með kennurum að nema ný lönd, nýja táknheima. Hafi barnið áður og í ríkum mæli hlustað á sögur er viðbúið að það verði betur í stakk búið að fara í þetta ferðalag. Það hefur reynslu af að „fljúga“ með orðum. Í sögustundum heima. Ef að líkum lætur varð þá til hjá því „einhvers konar burðarvirki í sálinni“ svo ég vísi í orð Sigurðar Pálssonar fremst í þessum pistli, einhvers konar „táknlegt burðarvirki“ sem hjálpar því nú að fylgja kennurunum og nema ný lönd: táknkerfi námsgreinanna.
Barnið vex – „sprettur eins og grasið“.
Heimildir
Sigurður Pálsson. (2011). Bernskubók. Reykjavík: JPV útgáfa.
Wells, G. (2009). The meaning makers. Learning to talk and talking to learn. (2. útgáfa). Bristol: Multilingual Matters.
Hafþór Guðjónsson er fyrrverandi dósent við Menntavísindasvið HÍ. Hann er upphaflega lífefnafræðingur en hin síðari ár hefur áhugi hans einkum beinst að náttúrufræðikennslu og kennaramenntun. Helstu áhugasvið hans sem fræðimanns eru nám, kennaramenntun, náttúruræðimenntun og starfendarannsóknir.