Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Einstaklingsmiðað nám?

í Pistlar

Þórhildur Daðadóttir

Ég er alin upp í sveit. Átti góða æsku. Og þó að efnin væru ekki mikil, skorti mig ekkert. Nema eitt, bekkjarfélaga. Í sveitinni var lítill sveitaskóli. Við byrjuðum þrjú en svo fluttu bekkjarsystkini mín í burtu. Þannig að frá 4. bekk skorti mig bekkjarfélaga. Það var samt samkennsla í skólanum svo ég sat ekki ein í stórri skólastofu, en í sumum fögum voru árgangar ekki saman. Ég fékk t.d. einkakennslu í dönsku og ensku fyrstu árin. Einstaklingsmiðað nám? Nei, varla. Það var farið eftir námskránni og námsefnið var það sama og hafði alltaf verið; það sem bekkurinn á undan mér lærði, lærði ég, og það sem ég lærði, lærði bekkurinn á eftir mér. En er það þannig sem einstaklingsmiðað nám virkar? Einkakennsla? Að hver og einn læri á sinn hátt?

Í grein sem birtist í veftímaritinu Netlu árið 2005 fjallar Hafþór Guðjónsson um þetta hugtak ,,einstaklingsmiðað nám” (sjá hér) og setur fram þá skoðun að um meingallað verkfæri sé að ræða. Fólk virðist ekki vera á einu máli um hvað felst í þessu hugtaki. Getuskipting, eða einstaklingskennsla þar sem hver og einn er í sínu horni í ,,sínu prógrammi”, en aðrir virðast telja að hugtakið hvetji til meiri áherslu á hópastarf, samvinnu og blöndun árganga (Hafþór Guðjónsson, 2005). Minn skilningur á hugtakinu er sá að hér sé verið að hvetja kennara til að notast við fjölbreyttar kennsluaðferðir, þ.e.a.s í bekkjarkennslu.

Þegar ég svo skrifaði meistararitgerð mína í faggreinakennslu grunnskóla, sem fjallaði um samvinnu og hópastarf, fékk ég ábendingu sem ég tók fagnandi. Að nota ekki hugtakið einstaklingsmiðað nám, heldur nemendamiðað nám, sem ég og gerði. Við sem kennarar, kennum á hverjum degi hópi nemenda. Ef við ættum að kenna hverjum og einum eins og honum hentaði, myndi það æra óstöðugan. Því að hópur nemenda er margbreytilegur og þó að þetta séu einstaklingar þá tel ég að þetta sé fyrst og fremst hópur. Kannski tel ég að samvinna og að ólíkir einstaklingar vinni saman sé svo mikilvægt því mig skorti sjálfa bekkjarfélaga í æsku. En svo eru alltaf einhverjir sem þurfa einstaklingsnámskrá og einstaklingsmiðað nám ,,rekast ekki vel í hóp”.

Jón Torfi Jónsson gerir grein fyrir hugmyndinni um skóla fyrir alla í 2. bindi bókaraðarinnar um almenningsfræðslu á Íslandi. Þar kemur fram að til að byrja með voru settir á stofn sérstakir skólar fyrir þau börn sem þurftu sérstakan stuðning í námi (Jón Torfi Jónsson, 2008). Þar kemur einnig fram að á síðustu árum hefur áherslan í auknum mæli verið sú að skólastarf sé skipulagt sem heild, þar sem þó er tekið tillit til þarfa allra nemenda. Því eiga nemendur með sérþarfir líka heima í hinum almennu skólum. Enda er þar komin hugmyndin að skóla fyrir alla. Nemendur með sérþarfir eiga heima í hinu almenna skólakerfi og eiga rétt á að stunda nám í sínum hverfisskóla.  Skólanum ber að koma til móts við þarfir þeirra hverjar sem þær eru. Þar skiptir samvinna alls starfsfólks skólanna, stjórnenda, umsjónar- og sérkennara, sem og stuðningsfulltrúa, höfuðmáli. Því þó að nemendum sé kennt í hóp má þó alltaf tala um nemendamiðað nám. Ég sé það á hverjum degi í vinnu minni sem sérkennari að börn með sérþarfir, með einstaklingsnámskrá, eru vissulega hluti af hóp og eiga vera hluti af hóp. Þau geta kannski ekki allt, en þau geta margt. Því leyfi ég mér að halda fram þeirri skoðun að um tímaskekkju sé að ræða þegar talað er um einstaklingsmiðað nám. Sú orðanotkun getur líka valdið mistúlkun. En það ætti engum að dyljast hvað átt er við þegar talað er um nemendamiðað nám.

Heimildir

Hafþór Guðjónsson. (2005). (Einstaklingsmiðað) NÁM. Netla – Veftímarit um  uppeldi og menntun. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.
http://wayback.vefsafn.is/wayback/20201017180327/https://netla.hi.is/greinar/2005/009/index.htm

Jón Torfi Jónasson (2008). Skóli fyrir alla? Í Loftur Guttormsson (ritstjóri), Almenningsfræðsla á Íslandi 1880 – 2007 (2. bindi, bls 272 – 291. Háskólaútgáfan.

Myndin er fengin úr veftímaritinu Krítinni, þar sem hún birtist með grein eftir Nönnu Christiansen sem einmitt heitir Einstaklingsmiðað nám (smellið á myndina til að lesa grein Nönnu).

Um höfund

Þórhildur Daðadóttir (thorhildurd(hja)barnaskolinn.is)og er með M.Ed. í faggreinakennslu grunnskóla.  Hún er sérkennari í stoðþjónustuteymi Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þórhildur stundar viðbótardiplómanám í menntun fyrir alla og sérkennslufræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og er greinin byggð á verkefni í því námi.


Grein birt 12. desember 2022

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp