Jón Torfi Jónasson
Jón Torfi Jónasson, fyrrverandi prófessor í uppeldis- og menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, átti stórafmæli á síðasta ári. Af því tilefni var gefið út afmælisrit honum til heiðurs (sjá hér). Jafnframt var efnt til ráðstefnu þar sem fjallað var um framtíð menntunar frá ólíkum sjónarhornum. Á ráðstefnunni flutti Jón Torfi stutt ávarp þar sem hann varpaði fram fullyrðingum um mennta- og skólamál sem hann taldi mikilvægt að ræða og deila um. Ritstjórn Skólaþráða falaðist eftir því að fá að birta þetta yfirlit og lét Jón Torfi það góðfúslega í té með þessum orðum: Umræða um menntun hefur ætíð verið flókin og verður það áfram. Ég tel að nokkur grundvallaratriði ætti að setja á stall og ræða áður en fjölmargt annað tekur völdin í mennta- eða skólaumræðunni og jaðarsetur það sem hér er nefnt. Ég set fram ákveðnar fullyrðingar sem ég tel að ættu að hafa forgang í umræðu um menntun og legg fram örstutta útskýringu í hverju tilviki. Aðeins fyrsta atriðið er séríslenskt.
Að tillögu Jóns Torfa er ávarpið birt hér í Skólaþráðum á íslensku, ensku (sjá hér) og pólsku (sjá hér).
Íslenskt skólakerfi og skólastarf er gott þegar á heildina er litið
Íslenska skólakerfið er opnara, sveigjanlegra og flokkar minna en flest erlend kerfi. Það er því að mörgu leyti mjög gott og ásamt annarri skyldri starfsemi, skilar af sér stórum hópum öflugs ungs fólks. Almennt er það vel mannað fagfólki. Þar eru samt sem áður brotalamir og áskoranir sem þarf að horfast í augu við og taka á af fullri einurð. Þær alvarlegustu snúast um börn sem ýmist glíma við námsörðugleika, eða annan sálrænan eða félagslegan vanda, innan skóla sem utan, Þetta á einnig við um nemendur sem tala mest annað tungumál en íslensku eða hafa annan menningarlegan bakgrunn en flest íslensk börn. Mér sýnist stjórnvöld taka þessar áskoranir alvarlega og að mestu leyti skynsamlega. Þau eiga augljóslega að beina sjónum sínum að þessu en tryggja um leið að kerfið hafi faglegt og fjárhagslegt bolmagn til að halda uppi gæðum, m.a. með því að styðja myndarlega fjölmörg frábær sprotaverkefni sem er að finna mjög víða í skólakerfinu.
Skólinn er til margs megnugur en hann ræður ekki við allt
Það er forgangsatriði að skilja að hann getur ekki leiðrétt eða útrýmt grundvallar mismunun eða misvægi í samfélaginu (en það er hægt að tryggja að hann viðhaldi ekki því sem er). Hann getur ekki upp á sitt eindæmi tekið á margvíslegum ójöfnuði og erfiðleikum í samfélaginu og má rekja til samfélagsgerðarinnar. En skólinn getur vissulega leikið veigamikið hlutverk – kannski stærra en hann áttar sig á. Möguleika skólans til þess glíma við þessar áskoranir verður að draga fram, ræða og virkja hans þátttöku.
Við vitum ýmislegt um framtíðina og menntakerfið verður að gefa henni gaum
Við ættum, í umræðu um samfélag og menntun að huga mun betur að þeirri margvíslegu framtíð sem bíður okkar og jafnframt hætta að leita sífellt og um of skjóls í þeirri fullyrðingu að um framtíðina sé erfitt að spá. Það má auðvitað til sanns vegar færa, en það er ótrúlega mikið vitað um hvað muni að öllum líkindum einkenna þróun mála næstu áratugina og hugmyndir okkar um hvað taki við eru þokukenndari en þær þurfa að vera. Fullyrðingin um óvissa framtíð er lífseig en ég tel hana óafsakanlegt tilefni til að láta sem engu sé hægt að spá því sannast sagna er margt þekkt. Sem dæmi þá vitum við mikið um fjórðu iðnbyltinguna, vinnumarkað sem breytist hratt og nýjar atvinnugreinar en allt þetta krefst nýrrar þekkingar og færni. Við vitum um stöðuga þróun í afköstum stórra tölva sem setja forritun ekki lengur nein mörk og smárra tölva sem þrengja sér inn í bókstaflega allt okkar líf. Við vitum um ofnotkun á nær öllum verðmætum hráefnum og um miklar loftslagsbreytingar (hverju sem um má kenna) og umskipti í lífríki dýra og gróðurs. Miklir fólksflutningar af ýmsum ástæðum eru vel sýnilegir og miklar menningarbreytingar eiga sér stað í lífi einstaklinga og samfélaga, – það er ljóst að sýnileg og fyrirsjáanleg átök menningarheima krefjast sífellt meiri athygli. Ótrúlegar breytingar hafa þegar orðið og munu áfram verða í samskiptum fólks hvort heldur er í einka- eða atvinnulífi og afdrifaríkar breytingar á barnæskunni vegna markaðsvæðingar og notkunar félagsmiðla og snjalltækja. Staðgóð þekking á öllum sviðum þekkingar vex með veldisvexti. Þetta gildir ekki aðeins um samskiptafræði, gervigreind, sameindalíffræði (t.d. erfðafræði), og siðfræði sem eru þær greinar sem við heyrum mest um og brýnast er að gefa gaum, heldur bókstaflega um allar greinar. Ný þekking, sem þegar er tiltæk, ætti að vega þungt þegar grunninntaki menntunar er umbylt eins og ætti að gerast. Hvert sem við lítum blasa breytingarnar við okkur og við vitum að þeim linnir ekki. Við eigum ekki að láta sem við sjáum þær ekki. Ný mikilvæg þekking stendur okkur til boða, m.a. innan nýrra fræðigreina, sem gæti hjálpað okkur að öðlast góðan skilning á nýjum heimi sífellds umróts. Auðvitað er margt sem við vitum ekki eða skiljum en það væri óráðlegt að láta það stýra hugsun okkar. Mér virðist það afar brýnt að menntun horfi mun ákveðnar til framtíðar, m.a. með því að ræða og ígrunda hvað er í þróun og hvernig best megi undirbúa að tekist sé á við það sem skiptir máli. En breytingar koma ekki að neinu gagni í skólastarfi né verða viðvarandi nema kennarar og nemendur eigi fullan þátt í þeim umbreytingum sem sífellt eru nauðsynlegar. Það er ekki aðeins æskilegt, heldur nauðsynlegt og óhjákvæmilegt skilyrði þess að framvindan verði varanleg.
Nútíma tækni og skólastarf
Það er öllum ljóst að tækni, einkum rafeindatækni muni hafa gríðarleg áhrif á alla þætti lífsins. En þetta þýðir ekki að það sé knýjandi þörf á því að kynna ungu fólki alla þessu nýju tækni til þess eins að læra á hana (til dæmis á tiltekin öpp og forrit) vegna þess að mest af því sem nú ber mest á verður úrelt um það leyti sem það lýkur námi. En grundvallareðli tækninnar ætti að kynna. Jafnframt má færa rök fyrir því að geti tölvur kennt börnum eitthvað af því sem þau hafa lært eftir hefðbundnum leiðum hingað til, þá ráði þær einmitt við þau verkefni. Því þurfi börn ekki að læra það sem tölvurnar geti vel gert og skólinn getur því snúið sér að öðrum þáttum menntunar og iðulega með tilstyrk tækninnar. Tölvutæknin opnar svo sannarlega dyr inn í nýja heima og svigrúm til að gera nýja hluti og hana skyldi nota einmitt til þess. En ekki mest til þess að gera úrelta hluti betur.
Nútíðin skiptir máli
Þótt mikilvægt hlutverk skóla sé að huga að undirbúningi undir fjölbreytta framtíð, hefur hann einnig mikilvægt hlutverk fyrir nemandann hér og nú, hvort sem um er að ræða barn, ungling eða fullorðna manneskju. Allt þetta fólk á sitt líf sem það ætti að njóta eða þarf að takast á við hvern einasta dag. Skólinn er ekki einungis undirbúningsstaður, heldur oft verulegur hluti í lífi hverrar manneskju sem þangað sækir. Fyrir ungt fólk er hann oft nánast annað heimili. Andleg og félagsleg vellíðan í þessu mikilvæga félagskerfi skiptir því höfuðmáli í daglegu lífi en er einnig mikilvægt skilyrði þess að menntun eigi sér stað í uppbyggjandi umhverfi. Farsæld á líðandi stund skiptir máli. Þetta hlutverk skólans má ekki vanmeta eða vanrækja en það hendir iðulega í umræðu um menntun. Skólastarf felur í sér stöðuga áskorun en verður ávallt að vera uppbyggilegt fyrir alla þá sem taka þátt og virða gerð þeirra og baksvið.
Tengsl við heiminn utan skólans eru mikilvæg
Skólinn verður jafnframt að fallast á að heimurinn utan skólans er fjölþættur og margar tengingar við hann eru iðulega dýrmætar og mikilvægur þáttur menntunar. Þessu verður skólinn að gefa góðan gaum og sýna áhuga sinn í verki á ríkulegu menningarlegu, félagslegu og náttúrulegu umhverfi sínu. Þetta ætti að vera meðal helstu viðfangsefna menntunar.
Rannsóknir og inngrip stjórnvalda eru flóknari en margir telja
Rannsóknir og fjölþætt gögn eru ómissandi til þess að skilja heiminn, greina hvernig ólíkir þættir hans tengjast og sýna hve margslunginn hann er og þess vegna til að skilja allar flækjurnar. Einnig til að skilja hvað miður fer og brýna til aðgerða. En rannsakendur verða að viðurkenna í hvaða mæli þekking þeirra byggir á hinu liðna, eða á því sem nú er, en mestu skiptir að þeir horfist í augu við hve erfitt það er „að stíga út úr kassanum“ og inn í framtíðina með rannsóknirnar eða gögnin að leiðarljósi. Það er að vísu hægt, en erfitt og gerist ekki sjálfkrafa eins og sumir virðast halda. Langt í frá. Gögn fela ekki í sér leiðsögn um hvað sé best að gera og gagnsemi þeirra er því iðulega ofmetin hvað það varðar. Gildi eru ekki byggð inn í þekkingu okkar í þeim mæli sem margir virðast halda. Sjálfstæð ígrundun og ákvarðanir á grundvelli gilda sem við höfum í hávegum og viljum rækta eru ekki síður verðmæt en vísindaleg þekking og gögn þegar við viljum grípa til aðgerða. Jafnframt ber að hafa hugfast að aðgerðir stjórnvalda og eða annarra samfélagslegra afla eru pólitískar – í bestu merkingu orðsins – en það þarf ekki að biðjast afsökunar á þeim þess vegna, heldur á að viðurkenna eðli þeirra og ræða þá stefnu sem tekin er á þeim grundvelli.
Umhugsun um hvað sé eðli og hlutverk menntunar ætti að setja í forgang
Þetta verkefni ætti að vera samofið eðlilegu skólastarfi – ekki eitthvað sem hengt er utan á til skrauts í hátíðarumræðu. Vönduð umræða um meginmarkmið faglegs starfs er kjarni allrar fagmennsku. Þegar við öxlum þá ábyrgð að ígrunda hvert sé hlutverk menntunar og skóla, hvort heldur er í nútíð eða í undirbúningi undir framtíð hvers og eins ættum við að beina sjónum að skóla og menntun engu síður en að framtíðinni. Beina skal athyglinni að margþættu menningarlegu eðli og hlutverki menntunar fyrir hvern og einn og jafnframt kappkosta að allir fái jafnt rými til athafna. Þetta krefst þess að hlúð sé að því að allir sem sinna menntun, taki þátt í ígrundun um einmitt þetta lykilefni og jafnframt verði tryggt að aðstaða, hæfni og kraftar þeirra til þess að takast á við nýja hugsun, efni og áskoranir séu virk og í sífelldri endurnýjun.
Um höfund
Jón Torfi Jónasson (jtj(hja)hi.is) er prófessor emeritus í uppeldis- og menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur fengist við rannsóknir á fjölmörgum þáttum menntunar og skólastarfs. Sjá nánar hér (á Vísindavefnum og hér (heimasíða Jóns Torfa).
Grein birt 24. febrúar 2023