Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

 „Kannski voru það álfarnir?“ Álfaþema í Naustaskóla á Akureyri

í Greinar

Kristín Sigurðardóttir, Gréta Björk Halldórsdóttir, Sunna Alexandersdóttir og Birgitta Laxdal, kennarar í Naustaskóla


 

Í ársbyrjun heimsótti einn ritstjórnarmanna Naustaskóla á Akureyri. Hann rak, satt best að segja, í rogastans þegar hann sá einstaka kastalabyggingu á svæði yngstu barna skólans. Í ljós kom að reistur hafði verið Álfakastali og að hann tengdist verkefni sem nemendur höfðu verið að glíma við. Það var Álfaþema – sem nemendur og kennarar – höfðu nánast orðið heillaðir af. Ekki sakaði að hér hafði verið leikið af fingrum fram og mörg skemmtileg verkefni orðið til. Álfakastalinn hafði líka fengið viðbótarhlutverk og var orðinn leskrókur!

Þess var farið að leit við kennarana að þeir segðu okkur sögu umrædds verkefnis – sem segja má að sé sannkallað ævintýri – og urðu þeir góðfúslega við því.

Megum við óska eftir fleiri sögum af þessu tagi!?


Í 1. bekk í Naustaskóla á Akureyri eru 40 nemendur. Hver einasti nemandi er einstakur og við kennararnir höfum reynt að viðhalda virðingu og mikilvægi fjölbreytileika okkar mannfólksins í umræðum við þá, hvort sem þær fara fram í heimakrók, á bekkjarfundum eða bara í daglegu spjalli. Við bendum iðulega á hversu sorglegt það væri ef allir væru alveg eins, hefðu sömu áhugamál eða vildu lesa sömu bókina. Við reynum að benda á að það henti ekki öllum að læra á sama hátt þótt stundum þurfi að vinna verkefni eins og aðrir, því við þurfum jú líka að kunna það. Við reynum eftir bestu getu að koma því til skila að við þurfum ekki að vera sammála um alla hluti en samræðan sé mikilvæg og alltaf þurfi að bera virðingu fyrir þeim sem við eigum samskipti við í hinu daglega lífi.

Í kennslustofunni okkar, ef kennslustofu skyldi kalla, er borin mikil virðing fyrir því að enginn þurfi að vera staddur á nákvæmlega sama stað í náminu og reynt að vinna með styrkleika hvers og eins. Með því að auka ábyrgð nemenda á eigin námi og styrkja vitund þeirra um það hvernig þeim sjálfum henti best að læra teljum við að nemendur auki öryggi sitt og sjálfstæði og átti sig betur á því að þeir beri ábyrgð á námi sínu og viðhorf þeirra til náms skipti oft sköpum. Við vinnum í mjög fjölbreyttum hópum þar sem teymiskennslan gerir okkur kleift að leika af fingrum fram og búa til hópa sem henta hverju þema eða hverri námsgrein fyrir sig. Við erum einnig óhræddar við að víkja frá stundaskrá eins og hún lítur út þann daginn eða vikuna, ef þörf er á. Í stefnu skólans er mikil áhersla á námsaðlögun en þar er hún er skilgreind sem viðleitni til að koma til móts við þarfir, áhuga og getu hvers nemanda.

Skólaárið 2016-2017 hefur verið ótrúlega skemmtilegt ár. Við erum þrír umsjónarkennarar og einn stuðningsfulltrúi sem höfum komið að vinnu með þessum frábæra 40 barna hópi, foreldrum og forráðamönnum þeirra. Við höfum sett upp myndasíðu á Facebook sem hefur vakið mikla lukku og við höfum lagt okkur fram við að hafa regluleg samskipti við þennan góða hóp. Það er óhætt að segja að við höfum átt frábærar stundir. Einn umsjónarkennaranna hefur áður kennt í 1. bekk en hinir tveir kennararnir eru að kenna 1. bekk í fyrsta sinn. Hver morgunn hefst á því að við tökum allan hópinn saman í stóran krók þar sem farið er yfir daginn, tölu dagsins, viku- og mánaðardag, auk þess sem ómissandi er að vita hvað er í matinn. Við teljum að jákvæð samskipti á milli okkar kennaranna smitist yfir til barnahópsins og við leggjum okkur fram við að sýna jákvæð samskipti og nota orð sem börnin geta síðan notað um eigin athafnir eða í samskiptum sín á milli. Við notum þennan tíma einnig til að benda á það hversu ólík við erum og að það sé allt í lagi. Ýma tröllastelpa sem við unnum með í vetur hefur reyndar aldeilis aðstoðað okkur við það, því hún segir að það sé í góðu lagi þó maður sé eitthvað öðruvísi. Á hverjum degi syngjum við saman lag eða lög vikunnar og förum vel yfir textana, orðaforða þeirra og merkingu. Við erum með frábæran kór sem hefur á stuttum tíma lært ógrynni af lögum og textum, fyrir utan textana sem eru í bókunum sem unnið er með í Byrjendalæsi. Við tengjum textana við þema hverrar viku, bæði lag og texta, sem og bók vikunnar sem unnið er með hverju sinni. Í vetur höfum við fengist við mörg þemu en eitt þema varð okkur sérlega hjartfólgið og það var Álfaþemað okkar.

Þegar við lögðum upp með Álfaþemað er óhætt að segja að við kennararnir höfum verið spenntir. Álfaþema í 1. bekk er bara einhvern veginn svo upplagt en okkur óraði ekki fyrir þeim ótrúlegu áhrifum sem þetta þema hafði, bæði á okkur og börnin. Við lögðum upp með að vinna með bókina Gunnhildur og Glói eftir Guðrúnu Helgadóttur en bættum svo við bókinni Álfum því okkur þótti líklegt að hún höfðaði vel til barnanna. Álfar er fræðibók um álfa. Við kennararnir komumst síðan í einhver ótrúleg tengsl við okkar innra barn sem varð kannski til þess að þetta þema varð okkur svo kært. Við byrjuðum á því að lesa bókina Gunnhildur og Glói í heimakrók til að koma hlutunum af stað. Því næst fórum við í að útbúa KVL kort þar sem í fyrstu var skráð á lista hvað börnin vissu um álfa og því næst hvað þau vildu vita. Í lok þemans tókum við síðan saman það sem börnin höfðu lært. Hugmyndir barnanna komu okkur endalaust á óvart og væru í raun efni í annan pistil. Í þemanu sjálfu unnum við með Álfabókina í hringekju og komumst að mörgum nýjum staðreyndum um álfa, enda er bókin fræðibók og ýmislegt þar kom okkur heilmikið á óvart. Útlit og uppsetning bókarinnar er líka svo heillandi. Fyrr en varði fóru börnin í 1. bekk að reyna að lokka til sín álfa heima fyrir. Mörg settu hunang í gluggann sinn, tóku til í herbergjunum eða urðu virkari í heimilisstörfunum, því fæstir álfar hafa áhuga á því að búa á skítugum heimilum og þeir þola illa ef fólk rífst mikið eða er illkvittið. (Auðvitað eru líka til álfar sem eru stríðnir og enn aðrir ekkert alltof góðir eða velviljaðir en þeir eru ólíkir eins og við og við þurfum að virða þeirra flóru rétt eins og aðrar). Börnin bjuggu til sinn eigin álf með því að útbúa hugtakakort um hann þar sem fram kom nafn hans, útlit, eiginleikar og hvernig hann hegðaði sér. Því næst bjuggu þau til nafnspjald um hann þar sem fram kom nafn, aldur og heimilisfang auk þess sem þau teiknuðu mynd af honum. Einnig bjó hvert barn til sögu um álfinn sinn. Þegar hér var komið við sögu gerðust nokkrir spennandi hlutir á nánast sama tíma: 1) börnin voru orðin „álfasjúk“ og þyrsti bæði í fróðleik og nærveru álfanna, einhvers konar staðfestingu á því að þeir væru til, 2) okkur kennarana var farið að langa að ganga lengra með álfaþemað og útbúa einhvers konar heimsókn frá þeim, 3) Sigurgeir, kokkurinn okkar, fékk sér nýjan, risavaxinn gufusuðupott.

Þá varð til skemmtileg atburðarás: Kristín kennari gengur inn í matsal til að borða hádegismat, hún er í góðum tengslum við sitt innra barn vegna álfaþemans, sér þar stóran kassa og getur ekki látið vera að spyrja sig um innihald hans . Börnin voru einnig mjög áhugasöm um kassann en megnið af starfsfólkinu vildi helst losna við hann sem fyrst í endurvinnslu, enda tók hann frekar mikið pláss í matsalnum. Ákveðið var að setja kassann inn á svæði 1. bekkjar til að búa til eitthvað spennandi úr honum. Börnin mættu í skólann næsta dag og voru gríðarlega spennt fyrir kassanum. Á þeim tímapunkti höfðum við kennararnir ákveðið að flétta kassann inn í Álfaþemað og að úr honum yrði álfakastali. Það verður að segjast að í skólanum var mismikil trú á því að eitthvað yrði úr þessum kassa en okkur var mikið hjartans mál að að útbúa kastala úr honum til þess að reyna að veiða álfa til okkar.

Börnin tóku eins mikinn þátt og hægt var í að búa kastalann til. Kassinn var sagaður til og búnir til gluggar og dyr auk þess sem þakið var sperrt upp og jók það hæð hans töluvert. Kassinn var svo málaður í gráum lit og svartir múrsteinar teiknaðir á hann. Gleði barnanna í þessu ferli var ósvikin og þau voru mjög virk. Tjöld voru sett í gluggana, motta máluð og sett inn í kastalann auk þess sem hann var málaður í björtum litum að innan. Að þessu loknu var kastalinn orðinn hinn glæsilegasti. Við bjuggum til nokkrar reglur varðandi umgengni um hann og hann var síðan nýttur sem bæði lestrarkrókur og griðastaður (í tengslum við Jákvæðan aga). Börnin gengu mjög vel um kastalann og voru stolt af honum.

Við kusum um nafn á kastalann með lýðræðislegri kosningu og fékk hann heitið Álfahólar Naustaskóla. Við bjuggum svo til og máluðum póstkassa og leyfðum börnunum að skrifa bréf til álfanna. Börnin sögðu frá sjálfum sér, buðu álfana velkomna og spurðu ýmissa spurninga. Sumir lofuðu kökum, aðrir báðu álfana að gefa sér eitthvað nýtilegt eins og Playstation fjarstýringu eða nærföt auk þess sem þeir fengu afmælisboð. Bréfin fóru síðan í póstkassann. Þetta var mjög skemmtilegt og áhuginn leyndi sér ekki hjá börnunum. Póstkassinn fylltist á skömmum tíma en ekkert bólaði á álfunum. Það besta við þetta var hversu frjálst ímyndunarafl okkar og barnanna fékk að leika sér; börnin kenndu til dæmis álfunum um ef hlutir týndust eða hurfu. Stundum fundust þeir aftur. Sum börnin voru farin að sjá álfa hér og þar og einhver barnanna höfðu fengið álfa í heimsókn því eitthvað var búið að dreypa á hunanginu í gluggakistunum.

Við lásum bókina um Dísu ljósálf í nestistímanum og sungum bæði Eru álfar kannski menn? og Komdu nú með inn í álfanna heim og ræddum ítarlega bæði um texta og innihald laganna. Við lögðum áfram áherslu á fjölbreytileikann og ræddum til að mynda að hver og einn réði því hvort hann tryði á álfa og að við þyrftum að virða skoðanir annarra. Þar sem fjölbreytileiki álfanna var mjög mikill skapaðist góður vettvangur til umræðna í tengslum við þetta þema eins og mörg önnur og það gladdi okkur. Við fengum iðulega gæsahúð þegar börnin samsömuðu sig álfasveininum sem stóð bakvið steininn og spurði sig að því hvað hefði gerst í samskiptum álfa og manna eins og kemur fram í laginu Eru álfar kannski menn. Þar sem börnin vissu að álfar kæmu frekar í híbýli manna þar sem var hreint og fínt varð áberandi hversu vel börnin gengu frá eftir sig. Svo gerðist svolítið ótrúlegt einn daginn, algjört ævintýri sem við kennararnir vonum að börnin gleymi aldrei.

Smellið á myndina til að lesa framhald bréfsins

Þegar börnin komu í skólann dag einn mátti sjá glimmer út um allt, rauð, lítil fótspor lágu úr kastalanum okkar og inn í krók. Það var eins og einhver álfur hefði óvart stigið í málningu og skilið eftir sig fótspor. Bréf barnanna úr póstkassanum lágu á víð og dreif og tvær flöskur fylltar með glimmeri og dularfullum steinum voru á einu borðinu. Á töfluna inni í stóra krók var svo búið að hengja upp bréf skreytt glimmeri eða álfadufti og var það stílað á 1. bekk! Börnin voru gríðarlega spennt og sáu fljótt að álfurinn hlyti að hafa flogið með bréfið á töfluna, hann hefði stigið í málninguna og fótsporin hættu einmitt þar sem hann hefði hafið sig til flugs. Spurningar þeirra, útskýringar og eftirtekt var með ólíkindum og þau voru svo ólýsanlega stolt og glöð að hafa tekist ætlunarverk sitt; álfarnir höfðu heimsótt þau!

Í bréfinu útskýrðu álfarnir hvers vegna þeir væru komnir í Naustaskóla, þeir kynntu sig og báðu um að fá að búa í kastalanum. Þeir svöruðu spurningum barnanna og sögðu ýmislegt spaugilegt sem vakti kátínu hjá börnunum. Við skrifuðum nöfn og aldur álfanna upp á töflu og mældum jafnframt hversu stórir þeir væru. Eftir að skólaálfarnir okkar fjórir fluttu í kastalann má segja að hápunkti þemans hafi verið náð. Við ákváðum, vegna áhuga barnanna á þemanu, að framlengja það um eina viku og sjáum ekki eftir því. Við gleymdum okkur alveg í þessu og útbjuggum bæði mörg skemmtileg verkefni tengd álfum og náðum fram einhverjum töfrum. Börnin voru svo ótrúlega áhugasöm, vinnusöm og dugleg, mun meira en venjulega. Þegar þau voru svona full af eldmóð myndaðist einhver hvati sem varð til þess að hindranirnar urðu færri og börnin urðu öruggari í að spreyta sig í ýmsu, til dæmis ritun. Þau (og við) leyfðu ímyndunaraflinu að leika lausum hala og það urðu einhverjir töfrar til. Við urðum enn þéttari heild en áður og við kennararnir vorum líka jafnvel enn áhugasamari en venjulega. Þarna í opna rýminu okkar urðu allir að hálfgerðum álfum og engar hugmyndir eða spurningar voru „asnalegar“. Við vorum saman í þessu öllu og þetta varð virkilega skemmtilegt ævintýri.

Myndir af skólaálfunum fjórum. Nöfnin þeirra eru undir myndunum, sem og aldur þeirra. Þetta er álfafjölskylda; móðirin, Himnadís, faðirinn, Hreggviður og systkinin Heimdallur og Hera. Rætt var við börnin hversu sérstakt það væri að álfabörnin væru börn og væru samt á aldur við háaldrað fólk.

Álfarnir eru enn að stríða okkur annað slagið, stundum hverfur einn vettlingur eða töflutússpenni en þá vitum við að það eru bara vinir okkar, álfarnir. Gluggatjöldin hreyfast líka reglulega og stundum finnur einhver fyrir návist álfanna en það er allt í lagi því þeir eru góðir. Póstkassinn er áfram á sínum stað, fyrir bréf eða myndir til álfanna. Nú erum við einnig að æfa atriði fyrir árshátíðina sem byggir að miklu leyti á þemanu okkar og vinnunni í kringum það. Leikritið er um það þegar álfar og menn bjuggu saman í sátt og samlyndi þar til mennirnir fóru að ganga illa um náttúruna og hættu að vera vingjarnlegir í garð náungans. Þá hurfu álfarnir aftur í sinn heim þar til lítil stúlka, mennsk, nýtur liðsinnis álfsins Heimdalls við að snúa hlutunum aftur við svo álfar og menn geti búið saman í sátt og samlyndi á ný.

Kennararnir mæla og sýna hæð álfanna.

Álfarnir eru hjá okkur af góðum vilja, þeir vilja að það sé gengið vel um og öllum í skólanum sé sýnd virðing. Við í 1. bekk í Naustaskóla leggjum okkur fram við að halda þeim hjá okkur. Kastalinn verður áfram á svæðinu okkar og er fullkominn lestrarkrókur. Það er sannfæring okkar að allt þetta hefði ekki orðið svona skemmtilegt ef við hefðum ekki þorað að taka þennan pappakassa inn til okkar og ákveðið að stíga svolítið út fyrir rammann og bæta við og breyta áætlunum og skipulagi. Nú eigum við þennan frábæra lestrarkrók og griðastað sem við bjuggum til í sameiningu og þar búa nú fjórir álfar; Hera, Himnadís, Hreggviður og Heimdallur. Við getum alveg búið með þá hjá okkur, í sátt og samlyndi, því kannski eru álfar eftir allt bara menn … eða menn kannski hálfgerðir álfar? Það skiptir svo sem engu hvað eða hverjir við erum, allir hafa sama rétt til lífs og skoðana. Við erum í það minnsta mjög stolt af vinnunni okkar og hvetjum alla til að leyfa sér að vera börn eins lengi og hægt er, því það er bara svo skemmtilegt.

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp