Anna Reynarsdóttir
Í daglegu tali er talað um fagmennsku þegar eitthvað er gert vandlega og af mikilli færni (Sigurður Kristinsson, 2013). Þessi orð eiga mjög vel við um kennarastarfið því að í kennslu þurfum við stöðugt að vanda okkur og leita leiða til að gera hlutina á betri hátt í sífellt breytilegu samfélagi. Í Aðalnámskrá grunnskóla (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011) er fagmennska kennara skilgreind sem sérfræðileg starfsmenntun, þekking, viðhorf og siðferði, ásamt því að snúast um nemendur, menntun þeirra og velferð. Þrátt fyrir sameiginlegan skilning yfirvalda á fagmennskunni er sannleikurinn samt sá að við kennarar þurfum að stöðugt að berjast fyrir fagmennsku okkar þar sem sífellt er horft framhjá henni af sérfræðingum sem vilja gera stéttina að starfsmönnum á plani og ítrekað hefur samfélagið sent þau skilaboð að kennarar séu í farþegasætinu þegar kemur að eigin starfi.
Þau eru mörg dæmin þar sem kennarar eru ekki hafðir með í ráðum um þeirra eigin störf og má hér nefna nokkur. Flokkur fólksins telur sig vita betur en kennarastéttin hvernig best sé að kenna börnum að lesa (Birna Dröfn Jónasdóttir, 2022). Lilja Alfreðsdóttir þáverandi menntamálaráðherra skipaði starfshóp um bætta kynfræðslu í skólum landsins þar sem kennarastéttin átti tvo fulltrúa af þrettán, grunnskólinn átti engan fulltrúa þrátt fyrir að faghópurinn ætti að fjalla um málefni sem snerta hann beint (Stjórnarráð Íslands, 2020). Í Kópavogsbæ þar sem ég kenni voru kennarar aldrei spurðir hvort þeir vildu taka upp spjaldtölvur í kennslu og í síðustu borgarstjórakosningum þar sem eina umræðan um menntamál voru biðlistar á leikskólum vildi frambjóðandi hefja grunnskólann við fimm ára aldur (Hildur Björnsdóttir, 2022). Hugmyndir þessar eru misgóðar en eiga þó allar sameiginlegt að horft var framhjá fagmennsku kennara og þeim ekki treyst til að taka sjálfir ákvörðun er snertir þeirra starf.
Hér að ofan hef ég sýnt svart á hvítu hvernig þrengt hefur verið að fagmennsku kennara og hljótum við að spyrja okkur hvort sú vanvirðing sem kennarastéttinni er ítrekað sýnd leiði til óánægju í starfi og jafnvel kulnunar en rannsóknir hafa sýnt að líðan kennara hefur farið versnandi frá árinu 2008 (Sif Einarsdóttir, Regína Bergdís Erlingsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Ásta Snorradóttir, 2019 ). Það er erfitt að sinna starfi þar sem traust er ekki til staðar og sjálfræðið stöðugt tekið af starfsmanninum. Af þessum sökum verðum við kennarar að snúa vörn í sókn, ef við berjumst ekki fyrir fagmennsku okkar þá gerir það enginn. Gerum þá kröfu til kennara að þeir hlúi að eigin fagmennsku með því að setja sér markmið, fylgist með nýjustu rannsóknum og sinni endurmenntun til að gera kennsluna og starfið betra. Ekkert er hættulegra fagmennskunni en stöðnun og þess vegna verða kennarar að leita leiða til að halda áfram að þróast í starfi sínu. Að bera höfuðið hátt, vera stolt af því frábæra starfi sem unnið er innan veggja skólanna og vera óhrædd við að taka þátt í umræðunni um menntamál því að við erum jú sérfræðingarnir.
Heimildir
Birna Dröfn Jónasdóttir. (2022, 13. maí). Leggja til breytingar á lestrarkennslu í grunnskólum. Fréttablaðið. https://www.frettabladid.is/frettir/leggja-til-breytingar-a-lestrarkennslu-i-grunnskolum/
Hildur Björnsdóttir. (2022, 3. maí). Ætti grunnskólinn að hefjast fimm ára? Vísir. https://www.visir.is/g/20222256187d
Mennta – og menningarmálaráðuneytið. (2011). Aðalnámskrá grunnskóla.
Sif Einarsdóttir, Regína Bergdís Erlingsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Ásta Snorradóttir. (2019, nóvember). Kulnun kennara og starfsaðstæður: Þróun og samanburður við aðra opinbera sérfræðinga. Netla – Veftímarit um Uppeldi og Menntun. https://ojs.hi.is/netla/article/view/3057/1796
Sigurður Kristinsson. (2013). Að verðskulda traust: Um siðferðilegan grunn fagmennsku og starf kennara. Í Rúnar Sigþórsson, Rósa Eggertsdóttir og Guðmundur Heiðar Frímannsson (ritstjórar), Fagmennska í Skólastarfi (bls. 237-255). Háskólaútgáfan.
Stjórnarráð Íslands. (2020, desember). Sólborg leiðir starfshóp um eflingu kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/12/15/Solborg-leidir-starfshop-um-eflingu-kynfraedslu-i-grunn-og-framhaldsskolum-/
Anna Reynarsdóttir er kennari við Vatnsendaskóla í Kópavogi. Hún kennir á unglingastigi og tengist þar einkum samþættum viðfangsefnum sem kennd eru við Sprett, sjá hér: https://sites.google.com/vatnsendaskoli.is/sprettur-2021/heim. Anna lauk kennaraprófi 2013 og kenndi einkum samfélagsgreinar. Anna segir: „Eftir að hafa kynnst bæði bekkjarkennslu og teymiskennslu þá hefur teymiskennslan vinninginn enda möguleikarnir miklu meiri.“ Pistillinn Er okkur ekki treystandi? Skrifaði hún á námskeiðinu Kennsla í margbreytilegum nemendahópi þar sem viðfangsefnið var fagmennska kennara.
Pistill birtur 28. október 2022