Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Áhugaverð starfstengd verkefni á Menntavísindasviði

í Greinar

Ritstjórn Skólaþráða í samvinnu við kennara á Menntavísindaviði

 

Nýlega var í Háskóla Íslands úthlutað styrkjum sem ætlað er að styðja við virka þátttöku akademískra starfsmanna í samfélaginu í krafti rannsókna þeirra og sérþekkingar. Sjö kennarar á menntavísindasviði hlutu þessa styrki sem allir eru mjög forvitnilegir:

  • Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda: Bragðlaukaþjálfun – kennslumyndbönd fyrir skóla og fjölskyldur.
  • Erlingur Jóhannsson, prófessor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda: Heilsuhegðun ungra Íslendinga.
  • Guðrún Ragnarsdóttir, dósent við Deild kennslu- og menntunarfræði: Samtal um málefni framhaldsskólans í heimsfaraldri: Hlaðvarp nýtt til starfsþróunar.
  • Rannveig Björk Þorkelsdóttir, dósent við Deild faggreinakennslu: List augnabliksins. Börn og leikhús, samstarf við Þjóðleikhúsið.
  • Sara Margrét Ólafsdóttir, dósent við Deild kennslu- og menntunarfræði: Undirbúningstímar í leikskólum: Með hag barna að leiðarljósi.
  • Susan Elizabeth Gollifer, aðjunkt við Deild menntunar og margbreytileika: Creating cross-cultural spaces and places: A community outreach collaboration between the Red Cross and Menntavísindasvið.
  • Þórdís Lilja Gísladóttir, dósent við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda: Efling félagslegrar virkni barna í Breiðholti með ólíkan bakgrunn.

Ritstjórn Skólaþráða bað styrkþegana um að segja lesendum frá þessum verkefnum, markmiðum þeirra og framkvæmd og brugðust þau vel við.

Bragðlaukaþjálfun – kennslumyndbönd fyrir skóla og fjölskyldur

Matur er miðjan í lífi fólks. Matur snertir alla þætti líðanar og heilsu, styrkir félagstengsl og mótar manneskjuna, hvort heldur er sem efniviður í uppbyggingu líkamans eða sem undirstaða að góðri líðan. Samband manneskjunnar við mat er þó oft á tíðum flókið og tengingu við uppruna matvæla, hráefnaþekkingu og einfalda færni skortir. Heilbrigð og jákvæð upplifun af mat er grundvöllur þess námsefnis sem við leggjum upp með og ætlum að gera skólum og fjölskyldum aðgengilegt í formi myndbanda.

Bragðlaukaþjálfun, (sjá http://bragdlaukathjalfun.hi.is/) byggir meðal annars á nálgun og aðferðum SAPERE (sjá hér), þar sem börn eru markvisst þjálfuð í að smakka og upplifa mat með öllum skynfærum. Með nálguninni má auka orðaforða tengdan mat, byggja upp sjálfstraust og öryggi og umfram allt auka ánægjuna og gleðina sem fylgir mat og heilbrigðri matarupplifun. Undirbúningsvinna við verkefnið hófst á Íslandi árið 2017 og hafa meistaranemar í kennaranámi komið að þróun og prófun námsefnis á forstigum. Undanfarin tvö ár (2019-20) tók svo 81 fjölskylda þátt í íhlutun, sem byggð var á námsefninu, sem miðaði að því að vinna á matvendni hjá börnum með og án taugaþroskaraskana. Taugaþroskaraskanir eru meðal annars raskanir á einhverfurófi, sem og ADHD (athyglisbrestur með og án ofvirkni). Börn með þessar raskanir sem og matvendni almennt eiga gjarnan erfitt með ýmsa áferð, beiskt bragð og trefjaríka fæðu eins og grænmeti og heilkorn.

Í nýútkominni grein (Sigrún Þorsteinsdóttir o.fl. 2021) sem fjallaði um íhlutun okkar í bragðlaukaþjálfun mátti sjá að marktækt dró úr matvendni barna og vísbendingar voru um aukna ánægju af því að borða. Einnig jukust líkur á því að börn samþykktu fjölbreyttari fæðu, m.a. grænmeti, fræ og hnetur eftir íhlutun. Niðurstöður úr rannsókn okkar voru óháðar taugaþroskaröskunum sem bendir til að aðferðirnar hafi virkað vel á börn með margs konar vanda.

Með því að laga námsefnið, sem reynst hefur mjög vel í námskeiðsformi fyrir fjölskyldur, að hefðbundnu skólastarfi má ná til fleiri barna. Með því að aðlaga námsefnið að skólum getum við stutt við það heilsueflandi matarumhverfi sem börnin upplifa á hverjum degi, hvort sem er í námi, skólamötuneytinu eða heima hjá sér. Námsefninu er ætlað að hlúa í senn að líkamlegri, andlegri og félagslegri vellíðan og getur þannig stutt við fjölbreytt skólastarf án aðgreiningar. Jafnframt fellur námsefnið vel að heimsmarkmiðunum, grunnstoðinni Heilbrigði og velferð í Aðalnámskrá, Menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030 og heilsueflandi nálgunum embættis Landlæknis.

Það er styrkur námsefnisins hversu vel það hentar breiðum hópi barna og það má auðveldlega aðlaga t.d. að börnum með lesblindu, sjónskerðingu og börnum með annað móðurmál. Efnið er einnig myndrænt og hentar því vel til stuðnings fyrir börn sem eru að læra íslensku. Þannig er auðvelt að láta efnið höfða til barna sem ekki alltaf ná að njóta sín í skólastarfi en styrkleiki þeirra er gjarnan greinilegur í heimilisfræðistofunni. Hluti af innleiðingarferli í skólana verður að fylgja því eftir og sjá hvort þessi nálgun skili sér jafn vel í skólastofunni eins og hún gerði á námskeiðum með foreldrum.

Við viljum á sama tíma gera myndböndin sem hönnuð verða aðgengileg fyrir foreldra og verður efnið fyrst prufukeyrt í þeim hópi þar sem það fellur betur að tímarammanum út frá skólaárinu. Mikil eftirspurn er hjá foreldrum að fá aðgengi að þessu efni en við höfum ekki séð okkur fært að halda frekari námskeið að sinni. Okkur finnst þó brýnt að sem flestir fái tækifæri til að nýta sér aðferðirnar óháð búsetu og fjárráðum. Allt efnið verður því aðgengilegt á vef án endurgjalds.

Sigrún Þorsteinsdóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir. Ljósmynd: Kristinn Magnússon.

Umsjón með verkefninu er í höndum Önnu Sigríðar Ólafsdóttur, prófessors í næringarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands en Sigrún Þorsteinsdóttir barna- og heilsusálfræðingur hefur borið hitann og þungann af allri framkvæmd og mun vinna að myndbandagerðinni ásamt Önnu Sigríði. Bragðlaukaþjálfun og matvendni er viðfangsefni doktorsverkefnis hennar og mun hún verja ritgerðina sína 18.mars næstkomandi. Framleiðsla fræðslumyndbandanna er því rökrétt framhald þeirra tímamóta.

Frekari upplýsingar og fréttir um verkefnið á finna á heimasíðu þess; http://bragdlaukathjalfun.hi.is

Þar má jafnframt finna upplýsingar um útgefnar vísindagreinar okkar tengt verkefninu.

Vísindahlaðvarp: Heilsuhegðun ungra Íslendinga

Vísindahlaðvarpið Heilsuhegðun ungra Íslendinga (HHUÍ) hóf göngu sína vorið 2021 og í fyrstu þáttaröð voru framleiddir sjö þættir. Markmiðið með hlaðvarpinu er að efla vitund og þekkingu ungmenna á heilbrigðu líferni. Megináhersla er á að auka skilning þeirra á áhættuþáttum heilbrigðis, t.d. í tengslum við hreyfingu, kyrrsetu, skjánotkun, svefn og andlega líðan.

Viðfangsefni vísindahlaðvarpsins hafa beina skírskotun til niðurstaðna úr rannsóknarverkefninu HHUÍ sem er langtímarannsókn á stöðu heilbrigðisþátta ungra Íslendinga á aldrinum 7, 9, 15 og 17 ára og tengslum þeirra við ýmsa lífsstílsþætti. HHUÍ er eitt stærsta rannsóknaverkefni sem hefur ráðist hefur verið í hér á landi. Sjö doktorsnemar hafa lokið doktorsritgerðum sem byggja á niðurstöðum rannsóknarverkefnisins og nærri 30 ritrýndar vísindagreinar hafa á undanförnum tíu árum birst um niðurstöðurnar.

Hlaðvarpsþættirnir voru unnir í samvinnu við nemendafélög þriggja framhaldsskóla, en í hverjum þætti fer fram samtal milli fulltrúa framhaldsskólanema og vísindamanna Háskóla Íslands. Í ljósi aukinnar þekkingarsköpunar og betri vitneskju um breytingar á heilsufari og velferð ungs fólks er mikilvægt að ræða viðfangsefnið við þau og koma á samtali við fræðimenn. Vísindahlaðvarpið er hýst á vef HÍ, www.heilsuhegdun.hi.is og á Spotify. Móttökur hafa verið mjög góðar og virðist viðfangsefni þáttanna ná til ungs fólks, sem og foreldra, forráðamanna og kennara. Hlaðvörpin hafa einnig verið nýtt sem kennsluefni í nokkrum framhaldsskólum.

Erlingur Jóhannsson, prófessor, hefur leitt rannsóknarverkefnið. ©Kristinn Ingvarsson.

Aðstandendur vísindahlaðvarpsins stefna að því að framleiða 12 nýja hlaðvarpsþætti sem byggja á niðurstöðum HHUÍ. Í þetta skiptið verður sjónum beint í meira mæli að ákveðnum forvarnaraðgerðum, sem hægt er að útfæra og vinna með til að bæta heilsu, líðan og velferð ungs fólks. Sérstök áhersla verður lögð á að efla og stuðla að aukinni sjálfbærni þessara lífsstílsþátta.

Markús Þ. Þórhallsson.

Magnús Þ. Þórhallsson, sagnfræðingur og útvarpsmaður, mun sjá um gerð þessarar þáttaraðar eins og fyrri hlaðvarpanna. Í ritstjórnarhópi Vísindahlaðvarpsins eru þau Erlingur Jóhannsson prófessor, Sunna Gestsdóttir lektor, Vaka Rögnvaldsdóttir lektor og Rúna Sif Stefánsdóttir aðjúnkt og doktorsnemi, við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Samtal um málefni framhaldsskólans í heimsfaraldri

Eitt af stærstu rannsóknarverkefnum sem unnið er að á Menntavísindasviði um þessar mundir er rannsóknin Framhaldsskólinn á tímum COVID-19: Kreppa, áskoranir og aðlögun en verkefnið hlaut verkefnisstyrk Rannís 2021. Faraldurinn hafði, svo sem kunnugt er, gríðarleg áhrif á skólastarf og rannsóknin beinist meðal annars að því að kanna áhrif hans á kennslu, nám og líðan nemenda eftir þá miklu röskun sem varð. Rannsóknin byggir á yfirgripsmikilli gagnaöflun en búið er að safna 44 viðtölum í þremur ólíkum framhaldsskólum og leggja spurningalista fyrir starfsfólk, nemendur og foreldra. Seinni hluti gagnaöflunar fer fram eftir eitt til tvö ár en þá fara rannsakendur á vettvang til að leggja mat á það hvað lærdómar hafa verið dregnir af reynslunni.

Þorsteinn Sürmeli. ©Kristinn Ingvarsson.

Til að reyna að ná betur til kennara og starfsfólks framhaldsskólanna, framhaldsskólanema og almennings en hægt er að gera með hefðbundnum rannsóknargreinum, stefnir rannsóknarhópurinn að því að búa til hlaðvörp þar sem helstu niðurstöður verða reifaðar og ræddar. Einn úr rannsóknarhópnum, Þorsteinn Sürmeli, mun leiða þessa þáttagerð en hann er að vinna að doktorsverkefni sínu í tengslum við rannsóknina. Þorsteinn hefur um skeið haldið úti hlaðvarpinu Kennarastofan og er gert ráð fyrir því að þættirnir birtist þar.

Guðrún Ragnarsdóttir, dósent, ábyrgðarmaður verkefnisins.

Aðrir í rannsóknarhópum eru Guðrún Ragnarsdóttir dósent (ábyrgðarmaður rannsóknarinnar), Súsanna Margrét Gestsdóttir lektor, Elsa Eiríksdóttir dósent, Amalía Björnsdóttir prófessor og Ómar Örn Magnússon verkefnastjóri, en Ómar, eins og Þorsteinn, nýtir hluta rannsóknargagnanna í doktorsverkefni sitt. Einnig er Guðlaug Pálsdóttir skólameistari FS að ljúka meistaraverkefni sínu úr gögnunum.

Í hlaðvarpsþáttunum verður meðal annars rætt um þær kennsluaðferðir sem þróaðar voru meðan á faraldrinum stóð, um tæknistudda kennslu, samskipti nemenda og kennara, breytingar á námsmati, mikilvægi náms- og starfsráðgjafar, verkefni stjórnenda, stöðu foreldra og um ýmis siðfræðileg álitamál. Þess er vænst að þættirnir geti komið að notum við starfsþróun kennara í kjölfar heimsfaraldurs, sem og nýst skólastjórnendum og öðrum stefnumótandi aðilum við að móta skólastarf til framtíðar. Viðmælendur verða framhaldskólakennarar, skólastjórnendur, ráðgjafar, nemendur, stefnumótandi aðilar og jafnvel foreldrar.

List augnabliksins. Börn og leikhús, samstarf við Þjóðleikhúsið

Varla þarf að hafa mörg orð um mikilvægi lista fyrir börn. Öll börn hafa listræna hæfileika og geta verið bæði veitendur og þiggjendur listar; þar sem sköpun, ímyndun og leikur eru lykilþættir. Fyrir tilstuðlan lista geta nemendur skapað nýja fagurfræðilega þekkingu og dýpkað mannlegar langanir sínar og reynslu. Þeir öðlast skilning á samspili einstaklings og samfélags og félagslegra tengsla, hæfni til þess að setja sig í spor annarra og rækta lýðræðislega sýn. Að auki stuðlar leiklist og leiksýning að skilningi á menningararfi og listrænum verðmætum sem felast í leikbókmenntum og leiksýningum. Aðgengi nemenda að menningu eykur þeim víðsýni og umburðarlyndi, og þátttaka í menningarstarfi eykur vitund um lýðræði, réttlæti og sögulegt samhengi. Leiklist getur haft félagsleg, fagurfræðileg og tilfinningarleg áhrif á fólk. Leiksýning getur þroskað nemendur sem persónur og stuðlað að því að þeir öðlist skilning á sögu, menningu og samfélag. Þátttaka í flutningi á eigin texta og annarra gerir þeim einnig kleift að gagnrýna og rökræða efni á uppbyggilegan hátt og setja það í menningarlegt og sögulegt samhengi. . Í Barnasáttmála Sameinu þjóðana er talað um að öll börn eiga rétt á þátttöku í menningarlífi. Menningarlæsi og menningarþátttaka eru talin veigamikil atriði í uppvexti barna og unglinga og þarf aðgengi að menningarþátttöku að vera tryggð.

Rannveig Björk Þorkelsdóttir og Jóna Guðrún Jónsdóttir. ©Kristinn Ingvarsson.

Við, Rannveig Björk Þorkelsdóttir og Jóna Guðrún Jónsdóttir, hófum samstarf við fræðsludeild Þjóðleikhússins haustið 2021. Samstarfið miðar að því að auka aðgengi nemenda í grunnskólum að barnaleikhúsi og kennsluefni fyrir kennara og um leið að auka möguleika barna til að njóta tungumáls frá unga aldri. Það hjálpar þeim ennfremur að læra ný hugtök og styrkir tilfinningu þeirra fyrir tungumálinu.

Í samstarfi við Þjóðleikhúsið buðum við tveimur árgöngum í 5 bekk í tveimur grunnskólum í Reykjavík, á leiksýninguna Kafbátinn eftir Gunnar Eiríksson. Leikritið fjallar um tíu ára stelpu sem ferðast með pabba sínum um höfin eftir að öll lönd eru sokkin í sæ. Leikritið fjallar um sjálfbærni, siðferði, auðlindir, upplýsingalæsi og gagnrýna hugsun. Í framhaldi af því útbjuggum við kennslupakka með kennsluaðferðum leiklistar fyrir kennara til að nota í tengslum við sýninguna. Einnig var útbúið kennsluefni fyrir sýninguna Vloggið eftir Matthías Tryggva Haraldsson sem var sérstaklega skrifað fyrir 10. bekk grunnskóla. Leikritið fjallar um vináttu, misgóðar forvarnir og myndbandsveituna Youtube, en þar ætla sögupersónurnar Konráð og Sirrý að flytja alheiminum mikilvæg skilaboð. Þá skrifum við námsefni fyrir leikskólann út frá leiksýningunni Ég get sem sent var á alla leikskóla á höfuborgarsvæðinu.

Í vor er ætlun okkar að vera með leiklistarnámskeið í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Það felur í sér að við þjálfum leiðbeinendur fyrir Þjóðleik en Þjóðleikur er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og margra grunn- og framhaldsskóla, menningarráða, sveitarfélaga og áhugaleikfélaga á landsbyggðinni. Markmið Þjóðleiks er að styrkja leiklistariðkun ungs fólks með uppsetningu á leikritum og auka áhuga þeirra á leiklist, auk þess að efla íslenska leikritun. Þá munum við skrifa námsefni fyrir barnaleikritið Umskipting. Hvað ef systir þín væri tröll? eftir Sigrúnu Eldjárn. Allt námsefni sem samið verður í þessu samstarfi verður sett á kennsluvefinn okkar https://leikumaflist.com sem er kennslu– og veffræðaumhverfi á sviði kennslu og rannsókna í leiklist en þar er nú þegar safn af verkum nemenda og kennara ásamt fjölda rannsókna og heildstæðra ferla í leiklist. Vefsíðan er opin öllum sem vilja kynnast og nota leiklist og netmiðla.

Við teljum þetta verkefni vera mikilvægt til að tengja háskólann við menningarstofnanir ásamt því að stuðla að sýnileika listgreina með því að koma kennsluefni leiklistar út í samfélagið.

Félagsstarf umsækjenda um alþjóðlega vernd

Eitt af verkefnum Rauða krossins er Félagsstarf umsækjenda um alþjóðlega vernd. Markmið þess er að draga úr félagslegri einangrun skjólstæðinga, tengja þá við nærsamfélagið og bjóða þeim tækifæri til að vera virkir á meðan þeir bíða eftir afgreiðslu umsókna sinna hjá stjórnvöldum. Þetta gerir Rauði krossinn með því að bjóða skjólstæðingum og sjálfboðaliðum vettvang til að skipuleggja viðburði og verkefni með valdeflingu og virka þátttöku að leiðarljósi. Sjálfboðin vinna er undirstaðan í öllu starfi Rauða krossins og eru sjálfboðaliðar fulltrúar almennings og nærsamfélags.

Í Deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasvið verður þróað námskeið, í samvinnu við Rauða krossinn, þar sem nemendur munu vinna að því að undirbúa og hrinda í framkvæmd tilraunaverkefni (e. pilot project) sem beinist að stuðningi við umsækjendur um alþjóðlega vernd; í þessu tilviki að skipulegga tíu vikna enskunámskeið. Kannarnir meðal þeirra hafa einmitt leitt í ljós að margir óska eftir aðstoð við enskunám. Nemendurnir á Menntavísindaviði munu, í samráði við og með leiðsögn kennara sinna, skipuleggja enskunámskeið þar sem sérstök áhersla verður lögð á að koma sem best til móts við þarfir og aðstæður umsækjendanna. Þeir undirbúa námskeiðið, skilgreina markmið, semja kennsluáætlun, námsefni og verkefni og loks halda þeir námskeiðið. Meðan á enskunámskeiðinu stendur leggja þeir stöðugt mat á hvernig til tekst og leggja drög að því að til verði enskunámskeið sem áfram verði í boði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Tilraunaverkefnið tengist námskeiðinu Sjálfboðaliðastarf: Verkefni tengd menntun og velferð barna og ungmenna á Menntavísindasviði en á því námskeiði er meðal annars fjallað mikilvæga þætti í skipulagi og uppbyggingu sjálfboðaliðastarfs. Á námskeiðinu fá nemendur tækifæri til að kynnast sjálfboðaliðastarfi af eigin raun og taka þátt í starfi hjá stofnunum og félagasamtökum sem veita fólki aðstoð með félagslegt jafnrétti og velferð að leiðarljósi.

Ábyrgð á þessu verkefni er í höndum Þóris Hall Stefánssonar verkefnisstjóra fyrir Félagsstarf umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum og Susan Gollifer aðjúnkt á Menntavísindasviði og eins af kennurum á námskeiðinu Sjálfboðaliðastarf: Verkefni tengd menntun og velferð barna og ungmenna.

Undirbúningstímar í leikskólum: Með hag barna að leiðarljósi

Verkefnið er unnið af starfsmönnum Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) sem er ein þeirra rannsóknarstofa sem starfrækt er við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Byggir verkefnið á niðurstöðum rannsóknar um fyrirkomulag undirbúningstíma í leikskólum sem RannUng stóð fyrir árið 2021 með viðtölum við leikskólastjóra, deildarstjóra og leikskólakennara víða um land. Rannsóknin var unnin af Söru Margréti Ólafsdóttur dósent og forstöðumanni RannUng, Kristínu Karlsdóttur dósent, Önnu Magneu Hreinsdóttur aðjúnkt og Margréti S. Björnsdóttur aðjúnkt og verkefnastjóra RannUng.

Sara Margrét Ólafsdóttir forstöðumaður Rannung. ©Kristinn Ingvarsson.

Markmið verkefnisins er að koma niðurstöðum rannsóknarinnar sem best á framfæri til leikskólakennara og stjórnenda, meðal annars með því að veita ráðgjöf og leiðbeiningar um mögulegt fyrirkomulag og forgangsröðun verkefna sem unnin eru í kjarasamningsbundnum undirbúningstíma leikskólakennara. Yfirmenn leikskóla hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu hafa lýst yfir þörf á ráðgjöf og leiðsögn um fyrirkomulag og forgangsröðun verkefna sem unnin eru í undirbúningstíma leikskólakennara. Er þetta verkefni svar við ákalli þeirra um samvinnu með það fyrir augum að aukinn tími til samráðs, ígrundunar og þróunar leikskólastarfs bæti fagmennsku leikskólakennara og gæði starfsins.

Verkefninu verður miðlað á fjölbreyttan hátt. Fundað verður með yfirmönnum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúum Félags leikskólakennara og Félags stjórnenda leikskóla um heppilegar leiðir til að hefja samtal við leikskóla um ráðgjöf og leiðsögn sem unnið verður að á árinu 2022. Haldin verður morgunverðarfundur þar sem niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar og ræddar. Einnig geta niðurstöður nýst Kennarasambandi Íslands vegna vinnu Félags leikskólakennara og Sambandi íslenskra sveitarfélaga við að móta framtíðarsýn um skipulag og framkvæmd undirbúningstíma leikskólakennara. Sérstaklega munu niðurstöður þó nýtast til að efla fagmennsku í leikskólastarfi og auka þannig hag barna. Verða niðurstöður rannsóknarinnar að auki kynntar á árlegum ráðstefnum NERA og EECERA sem haldnar verða á þessu ári (2002).

Efling félagslegrar virkni barna í Breiðholti með ólíkan bakgrunn

Þórdís Lilja Gísladóttir, dósent, stýrir verkefninu. ©Kristinn Ingvarsson.

Verkefnið Efling félagslegrar virkni barna í Breiðholti með ólíkan bakgrunn beinist að því efla samfélagslega virkni barna og unglinga með ólíkan bakgrunn í gegn um íþrótta- og frístundaþátttöku. Verkefnið er unnið í samvinnu við Reykjavíkurborg / Þjónustumiðstöð Breiðholts. Verkefnið byggir á gerð myndbanda og annars fræðsluefnis á átta tungumálum um eftirfarandi þætti: Gildi þess að taka þátt í íþrótta- og frístundastarfi. Hvernig er að vera iðkandi / þátttakandi í íþrótta- og frístundastarfi? Hvaða íþrótta- og frístundakostir eru í boði í hverfinu og hvernig hægt er að skrá sig til þátttöku? Við gerð myndbandanna verður leitast við að fanga menningarmun milli landa og textinn verður aðlagaður að tungumáli og menningu hvers lands.

Víðtækt samstarf verður um dreifingu og nýtingu fræðsluefnisins við alla aðila sem koma að lífi barna og unglinga í hverfinu, leikskóla, grunnskóla, frístundamiðstöðvar, frístundaheimili, íþróttafélög, dansskóla, tónlistarskóla og félagasamtök og einkaaðila sem vinna með börnum í hverfinu.

Fræðsluefninu verður dreift í formi bæklinga inn á öll heimili í og myndböndunum dreift á netmiðlum og heimasíðum. Sérstakir fulltrúar íbúa, „sendiherrar“ af erlendum uppruna, koma að dreifingu fræðsluefnisins til sinna samlanda.

Hreyfing og þátttaka í íþrótta- og frístundastarfi meðal barna og unglinga hefur jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Jafnframt sýna rannsóknir að líkamleg hreyfing á unglingsaldri spái fyrir um þátttöku í íþróttum og hreyfingu á fullorðinsaldri. Þekkt er að börn og unglingar af erlendum uppruna og þau sem koma frá fjölskyldum með laka efnahagsstöðu taka síður þátt í íþrótta- og frístundastarfi. Sýnt hefur verið fram á að þátttaka barna og unglinga af erlendum uppruna í íþróttum með íþróttafélagi hefur jákvæð áhrif á lífsgæði þeirra og félagslega virkni í samfélaginu. Þátttaka í íþrótta- og frístundastarfi og nýting frístundakorts í Breiðholti er mun lægri en í öðrum hverfum borgarinnar. Sérstök ástæða er til að huga að þátttöku og félagslegri aðlögun barna af erlendum uppruna og barna sem búa við fátækt í hverfinu. Kannanir sem gerðar hafa verið í Breiðholti sýna að börn af erlendum uppruna, og börn sem búa við fátækt, taka síður þátt í íþrótta- og frístundastarfi. Stór hluti þessara barna fer því á mis við þá verndandi þætti sem felast í ástundun íþrótta- og frístundastarfs og þau tækifæri sem í þátttökunni felast til að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.



Ánægjulegt er að sjá Háskólann og Menntavísindasvið leggja sérstaka áherslu á verkefni sem hafa sterka samfélagslega skírskotun með þeim hætti sem hér er gert. Allt eru þetta þýðingarmikil verkefni og hér er verið að leggja af mörkum beint til samfélagsins, ekki síst til barna og ungmenna og byggt á traustum rannsóknargrunni. Fjölbreytin hlýtur að vekja athygli. Verkefnin ná til næringar og hollra lífshátta, hreyfingar, virkrar þátttöku í íþrótta- og frístundstarfi, kennsluhátta í framhaldsskólum, listkennslu og sköpunar, leikskólastarfs og stuðnings við flóttafólk. Til verða hlaðvörp, námskeið, fjölbreytt náms- og fræðsluefni, auk ráðgjafar. Margt af þessu efni mun vonandi nýtast í starfsþróun og það lengi. Vonandi verður framhald á.


Grein birt 4. mars, 2022

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp