Birna Bjarnarson
Það er ekki algengt að leikskólar haldi dýr. Heilsuleikskólinn Urdarhóll hefur undanfarið verið með sex hænur í litlu húsi á leikskólalóðinni og skiptist starfsfólk og börn leikskólans á að sjá um þær á virkum dögum og fjölskyldur barnanna um helgar. Hænurnar fá matarafganga eftir matartímann í leikskólanum og þannig minnkar magnið af lífrænu sorpi sem annars er sent í burtu. Hænurnar gefa svo frá sér egg sem síðan nýtast í leikskólanum.
Umhverfismál er okkur flestum ofarlega í huga. Við heyrum af því í fjölmiðlum að tími sé kominn til að við breytum hegðun okkar og neyslu ef ekki á illa að fara. Fjöldi heimila, fyrirtækja og opinberra stofnana eru nú þegar byrjuð að breyta rekstri sínum með því að minnka neyslu og sóun. Þar er helst að nefna flokkun á rusli og forgangsröðun í rekstri auk breytinga á orkugjöfum með því að nota rafmagn frekar en bensín og olíu. Mörg bæjarfélög bjóða nú upp á sorpflokkun þar sem hægt er að flokka plast, pappa, málma og jafnvel lífrænt sorp.
Fjölmargir leikskólar eru að vinna að Grænfánaverkefni sem er alþjóðlegt umhverfismenntunarverkefni rekið af Landvernd. Markmið Grænfánaverkefnisins er að auka umhverfisvitund í skólum landsins, vinna að aukinni menntun varðandi sjálfbærni og styrkja umhverfisstefnur skólanna, meðal annars með því minnka úrgang og notkun á vatni og orku.
Heilsuleikskólinn Urðarhóll í Kópavogi, hlaut styrk úr Sprotasjóði árið 2020, en sjóðurinn er sameiginlegur sjóður fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Sjóðurinn styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá. Leikskólinn hlaut styrk fyrir verkefnið Sjálfbærni, spornum gegn matarsóun. Í umsókninni til Sprotasjóðs var áhersla lögð á tengingu við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Markmiðin eru samþætt, órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Heimsmarkmiðin fela í sér fimm meginþemu; mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Markmiðin, sem gilda á tímabilinu 2016–2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið. Heimsmarkmið númer 12, „Ábyrg neysla og framleiðsla“, hafði leikskólinn að leiðarljósi í verkefninu.
Þegar Heilsuleikskólinn Urðarhóll sótti um styrk í Sprotasjóð var markmiðið að auka sjálfbærni, minnka matarsóun og spara innkaup og þannig úr neyslu. Einnig var ákveðið að reyna að vinna saman með fjölskyldum barnanna til að auka ábyrgð allra á neyslu, auk þess að kenna börnunum hringrás og sjálfbærni náttúrunnar.
Heilsuleikskólinn Urðarhóll er starfræktur í þremur byggingum. Aðalbyggingin er við Kópavogsbraut 19, þar eru 83 börn. Í Stubbaseli, sem er á sömu lóð og aðalbyggingin, eru 19 börn. Í þriðja húsinu, Skólatröð, eru 33 börn, en sú deild er nýlega flutt við Hábraut. Í heildina eru því 135 börn í heilsuleikskólanum. Markmið leikskólans er að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Í skólanum er unnið eftir heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur. Stefnan snýst um að auka á vellíðan barnanna með hollum mat, hreyfingu og útiveru. Einnig að allskonar sköpun sé góð aðferð til að fá útrás fyrir tilfinningar sínar, t.d. með söng, leiklist, dansi og fá að skapa óhindrað úr efnivið sem dæmdur hefur verið verðlaus.
Samkvæmt námskrá leikskólans er eitt af markmiðum hans umhverfisvernd og er umhverfisstefna Urðarhóls fléttuð í daglegt starf skólans. Markmiðið er m.a. að börn og starfsfólk geri sér grein fyrir því að þau vistspor sem sérhver einstaklingur skilur eftir sig, skipti máli í nútíð og um alla framtíð.
Áður en verkefnið hófst var leikskólinn þegar byrjaður að huga að því hvað hægt væri að gera betur í umhverfismálum. Við leikskólann eru flokkunartunnur þar sem mest allt sorp er flokkað, reynt var að minnka plastnotkun, farið var að plokka rusl með börnunum til að gera þau meðvitaðri um umhverfi sitt, börn og kennarar söfnuðu birkifæum á haustin og fleira.
Í upphafi verkefnisins var skoðað hversu mikið af lífrænu sorpi fór frá leikskólanum. Var hægt að minnka lífræna sorpið og jafnvel minnka matarinnkaup? Vigtun matarafganga var eitt af fyrstu skrefunum. Allar deildir fengu vigt og skráð var niður það sem eftir var af matnum eftir hverja máltíð og hvað börnin leyfðu af diskum sínum. Starfsfólk í eldhúsinu vigtaði einnig þann mat sem afgangs var í eldhúsinu eftir matmálstíma.
Skráningarnar sýndu að of mikið var eldað af sumum fæðutegundum. Magnið var minnkað af þeim tegundum sem gerði það að verkum að innkaup minnkuðu og sjálfkrafa minnkaði lífrænt sorp sem fór frá leikskólanum. Með því að bjóða börnunum að aðstoða við að vigta það sem þau hentu af diskum sínum gerði börnin meðvitaðri um matarsóun. Kennarar settust niður með þeim og ræddu um hvaðan maturinn kæmi. Margar tegundir af ávöxtum er t.d. ræktaðir erlendis og eru fluttir til okkar langa leið með flugvélum eða skipum. Fiskurinn kemur úr sjónum og það er fólk sem er á fiskiskipum að veiða í allskonar veðrum, sem oft getur verið hættulegt. Þessi umræða hafði þau áhrif að börnin fengu sér oft minna á diskana og fengu sér í staðinn ábót, í stað þess að fylla diskana af mat sem ekki var kláraður. Notaðar voru stafrænar vigtar en þannig áttuðu börnin sig betur á þyngdum mismunandi hluta. Miklar umræður voru við matarborðið: Hvað er kartafla þung eða diskur? Er það jafn þungt og glas? Hvað er það sem við hentum af disknum þungt?
Lífrænt sorp var ennþá að safnast upp þrátt fyrir að reynt væri að minnka það og því voru aðrar leiðir skoðaðar. Haugánar komu sterklegar til greina en það eru ánamaðkar sem brjóta niður lífrænan heimilisúrgang og dagblöð. Leikskólinn var svo heppinn að fá þá gefins til að sjá hvort þeir gætu nýst við minnkun á lífrænu sorpi frá skólanum. Maðkarnir eru afkastamiklir og gefa með skít sínum úrvals gróðurmold. Haugána moltugerð er ein leið af mörgum aðferðum til að jarðgera lífrænan heimilisúrgang. Haugánarnir náðu þó ekki að vinna úr öllum matarafgöngunum frá leikskólanum svo farið var í að kanna önnur úrræði.
Ákveðið var að fá hænur á leikskólann sem gætu étið matarafganga og fært leikskólanum egg í staðinn. Gömul geymsla var við eina bygginguna, Stubbasel, sem nýttist lítið sem ekkert og hentaði vel fyrir hænur. Haft var samband við nokkur fyrirtæki sem gáfu byggingarefni til að gera geymsluna að hænsnakofa, auk girðingarefnis svo hænurnar hefðu smá útisvæði.
Gott samstarf við foreldra er leikskólanum ofarlega í huga og var leitað til þeirra þegar vinna hófst við að gera aðstöðu fyrir hænurnar. Viðbrögðin voru mjög góð og hittust áhugasamir foreldrar í nokkur skipti við að flísaleggja, setja upp girðingu og annað sem þurfti til að gera aðstöðuna sem besta fyrir hænurnar. Þessi vinna styrkti samstarf leikskólans við foreldra og einnig kynntust foreldrarnir betur innbyrðis. Í október 2021 kom Ragnar Sigurjónsson hænsnabóndi í Gaulverjabæjarhreppi með sex ung Papahænur á Urðarhól.
Skipulagið í kringum hænurnar er í stuttu máli þannig að hver deild sér um þær í eina viku í senn. Börnin á deildinni ásamt kennara, gefa þeim afganga frá matartímanum, þrífa kofann í lok vikunnar, taka eggin daglega og auglýsa eftir fjölskyldum til að gæta hænanna um helgar. Börnin sem gæta þeirra um helgar fá lykil af hænsnakofanum með heim á föstudegi og bók sem þau skrifa í hvernig gekk að passa, hvað þær fengu að éta, hversu mörg egg þær gáfu og setja jafnvel myndir með. Hingað til hefur aðsóknin verið mikil í að passa hænurnar og auk þess leggja margir úr hverfinu leið sína á leikskólalóðina um helgar að skoða þær, því hænurnar eru úti yfir daginn, alla daga. Hænurnar fara í svo í sveitapössun í sumarlokun leikskólans.
Hænurnar voru fljótar að ná fullum þroska og byrja að verpa eggjum. Börnin fóru að velta fyrir sér hvort það væru ekki ungar í einhverjum af eggjanna. Það var úr að leikskólinn fékk 10 frjóvguð egg vorið 2021 og ein hænan, Grænahæna, lá á þeim og var beint streymi frá varpkassanum. Það komu því miður ekki lifandi ungar en Ragnar hænsnabóndi kom með fjóra unga á leikskólann sem voru í hænsnakofanum í 10 daga og vakti það mikla lukku.
Úrgangur frá hænunum var nokkuð mikill og kom sú hugmynd upp á leikskólanum að nýta hann í moltugerð. Ofan á hænsnakofanum er svæði sem síðan var hellulagt og voru útbúnir moltukassar undir úrganginn. Til að nýta sem mest efni úr umhverfinu, tína kennarar laufin á haustin með börnunum og setja á gólfið í hænsnakofanum. Við þrif á kofanum fer allt efni af gólfinu í moltukassann. Þegar ekki er til lauf yfir veturinn er notað sag á gólfið sem leikskólinn fær frá smíðaverkstæði í Kópavogi eða kaupir, sé ekki möguleiki á öðru.
Efnið úr moltukössunum fer í ræktunarkassa á leikskólalóðinni en þar er ræktað grænmeti yfir sumartímann; kartöflur, blaðlaukur, graslaukur, blómkál og jarðarber sem eldhúsið hefur getað nýtt sér eða börnin gætt sér á í útiveru. Einnig hefur verið inniræktun á deildum á agúrku og maís. Auk þess hafa börnin sett niður fræ af tómötum og papriku og tekið með heim.
Verkefnið, Sjálfbærni, spornum gegn matarsóun, á Heilsuleikskólanum Urðarhóli gekk framar vonum. Þátttaka kennara, barna og fjölskyldna þeirra var mjög góð og allir mjög áhugasamir. Þegar foreldraverðlaun Heimilis og skóla voru veitt í maí 2021, hlaut Heilsuleikskólinn Urðarhóll hvatningaverðlaun fyrir verkefnið.
Hver deild á Urðarhóli fékk það hlutverk að velja nafn á eina hænu og komu börnin með margar skemmtilegar hugmyndir. Að endingu urðu þessi fyrir valinu: Grænahæna, Lofthæna, Gullhæna, Jasmín, Gulahæna og Hænulína.
Við þetta má bæta að það er leyfilegt að halda sex hænur í þéttbýli, en ekki hana. Nokkrum vikum eftir að hænurnar fengu heimili á leikskólalóðinni kom barn sem var í útiveru til kennara og tilkynnti að ein hænan væri ekki hæna, heldur hani. Farið var að skoða Guluhænu, sem reyndist heldur betur vera Guli hani. Honum var skipt út samdægurs í nýja Guluhænu og lifir Guli hani núna góðu lífi í Gaulverjabæjarhreppi með nokkrum hænum og nýja Gulahæna unir sér vel á Urðarhóli ásamt hinum hænunum.
Það er margt sem hægt er að gera á leikskólum í umhverfismálum og án efa margar hugmyndir frá kennurum sem hægt er að framkvæma í þessu þarfa málefni. Nauðsynlegt að starfsfólk leikskóla ræði saman um hvernig er best er að gera hlutina og fá hugmyndir sín á milli.
Bæjarstjórn Kópavogs hefur samþykkt að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í stefnu Kópavogsbæjar. Mun Kópavogur þá verða fyrsta sveitarfélag á Íslandi til þess að innleiða markmiðin formlega. Þannig stefnir Kópavogsbær að því að árið 2030 verði markmiðum um sjálfbæra og skilvirka nýtingu náttúruauðlinda náð. Heilsuleikskólinn Urðarhóll hefur stigið fyrstu skrefin í að uppfylla þessi markmið bæjarins, en margt smátt gerir eitt stórt. Það er kannski ekki endilega spurning hvernig sé best að byrja á að hugsa um umhverfið heldur bara að byrja, ekki seinna en strax!
Myndirnar í greininni eru höfundar.
Birna Bjarnarson er deildarstjóri á Stubbaseli, einni af eldri deildum á Heilsuleikskólanum Urðarhóli. Birna er verkefnastjóri verkefnisins Sjálfbærni, sporna gegn matarsóun. Hún útskrifaðist frá Garðyrkjuskóla ríkisins árið 2000 og frá Kennaraháskóla Íslands með B.Ed gráðu árið 2005. Birna er formaður 2. deildar Félags leikskólakennara.
Birna starfaði á Heilsuleikskólanum Urðarhóli í eitt ár eftir útskrift og flutti þá til Álaborgar í Danmörku ásamt fjölskyldu sinni. Þar starfaði hún í fimm ár á leikskólanum Hyldehaven sem er leikskóli eingöngu fyrir börn með ofnæmi og astma. Árið 2012 flutti fjölskyldan aftur til Íslands og Birna hóf störf á Urðarhóli á ný.
Greinin hlaut viðurkenningu í samkeppni Samtaka áhugafólks um skólaþróun um ritun greina um frjótt og skapandi leikskólastarf til birtingar í Skólaþráðum. Dómnefnd skipuðu: Anna Magnea Hreinsdóttir, Bryndís Garðarsdóttir, Kristín Dýrfjörð og Sveinlaug Sigurðardóttir.
Grein birt 24. febrúar, 2022