Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum
Ólafur H. Jóhannsson
Í þessari grein segir Ólafur H. Jóhannsson, fyrrverandi skólastjóri og lektor við Háskóla Íslands frá skólagöngu sinni, sem hófst eins og nafn greinarinnar bendir til um miðbik síðustu aldar. Frásögnin sýnir meðal annars vel þær miklu breytingar sem orðið hafa frá þeim tíma á formlegri menntun barna og unglinga. Greinin byggir að stofni til á ávarpi sem Ólafur hélt þegar hann var að ljúka starfi sínu við Háskólann. Í niðurlagi greinarinnar má lesa mikilvæga útleggingu!
Ég lagði af stað menntaveginn einn svalan vetrarmorgun um miðjan október árið 1952, þá níu ára gamall. Foreldrar mínir höfðu ákveðið að senda mig í barnaskólann í Fremri Torfustaðahreppi, þótt ég yrði ekki skólaskyldur fyrr en að ári liðnu. Farskólinn var sem sagt á undanþágu frá ákvæðum fræðslulaga frá 1946 um skólaskyldu.
Við pabbi lögðum á Bleik og Grána sem var minn fararskjóti, ég kvaddi fjölskylduna, svo stigum við á bak og héldum út í heiminn. Við stefndum út og upp frá bænum sem leið lá norðvestur á Vegabarðið yfir Borgarkelduna og vestur hallann og áfram yfir hálsinn upp undan bænum um klukkutíma ferð eftir götum, sem farnar höfðu verið um aldir. Við stoppuðum á bæ í næsta dal og þágum góðgjörðir. Þar bættust tveir bræður í för. Áfram héldum við í klukkutíma yfir annan lágan háls og þá blöstu Skeggjastaðir við en þar var farskólinn til húsa árum saman og Lára Inga Lárusdóttir húsfreyja var kennarinn. Ferðin tók um þrjá klukkutíma, jafnlengd þess að fljúga til Kaupmannahafnar á okkar tímum.
Þegar pabbi ætlaði að halda heim leist mér ekkert á blikuna að vera skilinn eftir svo langt í burtu og bað um það, grenjandi, að fara aftur heim. Það var auðvitað ekki látið eftir mér og ég sá á eftir föður mínum hverfa yfir brúnina upp af bænum. Næstu daga kvaldist ég af leiðindum, en svo tók gleðin völd og eftir það hlakkaði ég til í hvert þeirra níu skipta eða svo sem ég fór í skólann og dvaldi tvær til þrjár vikur í senn. Fullnaðarprófi lauk ég vorið sem ég varð 12 ára, í skjóli undanþágunnar, og þá var formlegri skólaskyldu lokið.
En valkvæð menntun var í boði og næsta skref á menntaveginum var Bréfaskóli SÍS, sem var fjarnám án staðbundinna lota. Kennslubréfin voru á móleitum pappír og komu eitt af öðru með póstinum, sem barst einu sinni í viku. Þannig komu verkefni nemandans einnig til baka leiðrétt með kennararauðum lit.
Ég lagði stund á íslensku, stærðfræði og dönsku en man ekki lengur hvað ég hélt þetta nám lengi út en varla nema einn eða tvo vetur.
Ég var um kyrrt heima til 15 ára aldurs, sinnti bústörfum og nýtti tímann til að lesa bækur Lestrarfélagsins, fór allt að vikulega, og nú á Bleik, sjö km bæjarleið til að reiða heim lesefni í þverpokum. Fyrst las ég það sem áhuga vakti svo það sem þá var eftir. Man að ég gafst þó upp á ævisögu Einars Ásmundsson bónda og alþingismanns í Nesi í tveimur bindum en þá var mjög gengið á bókaforðann.
Síðasta veturinn heima var ég sendur á prestsetrið á Melstað um tveggja vikna skeið til að nema dönsku og píanóleik að hætti heldri stúlkna í kaupstöðum. Seinni vikuna lá ég í astmakasti svo þessi ferill varð heldur endasleppur. Á þessum árum kenndi amma mér að prjóna. Ég lærði m.a. að fitja upp gullfit og prjóna hæl. Átti sú hæfni eftir að reynast mér vel sem skólastjóri eins og síðar verður vikið að.
Oft voru steiktar pönnukökur þegar gesti bar að garði. Mamma átti ekki sérstaka pönnukökupönnu en steikti á stórri pönnu. Þegar búið var að sykra pönnukökurnar voru þær skornar í tvennt áður en þær voru bornar fram. Ég veitti því eftirtekt að misjafnt var hvort gesturinn beit fyrst í jaðarendann á pönnukökunni eða miðjuna sem var mun ríkari af sykri. Ég reyndi að koma mér upp skýringu á eftir hverju þetta færi. Hverjir byrjuðu á lakari endanum og geymdu besta bitann og hverjir byrjuðu á besta bitanum og enduðu á þeim lakari, en þannig haga húsdýrin sér. Sumir fylgdu sem sagt einhvers konar tyftunarstefnu en aðrir nautnastefnu. Eftir hverju þetta fór er enn óráðin gáta.
Eitt vetrarkvöld, 15 ára, var ég að snúast í fjósinu með föður mínum og þá færði ég í tal við hann hvort fjárhagslegur möguleiki væri að fara í Reykjaskóla á komandi hausti. Það var auðsótt mál fyrst ég hefði áhuga. Á Reykjaskóla var ég í tvo vetur og kom heim með landspróf og gagnfræðapróf upp á vasann og bílpróf að auki. Var þjálfaður í að aka fram og aftur um Hrútafjörðinn og einu sinni til Hvammstanga til að æfa akstur í þéttbýli og kannski mættum við kaupfélagsbílnum.
Seinni veturinn í Reykjaskóla var þar ungur kennari, Aðalbjörn Gunnlaugsson. Hann las stundum fyrir okkur efni sem snerti uppeldismál og einhvern veginn þróuðust mál þannig að við vorum fjögur bekkjarsystkini sem ákváðum að sækja um nám í Kennaraskóla Íslands haustið eftir.
Þetta tilkynnti ég heim kominn og fékk fremur jákvæð viðbrögð hjá foreldrum mínum. Man að pabbi spurði mig þó hvort þetta væri ekki nokkuð langt nám til að búa sig undir að segja til börnum. Samvinnuskólinn væri ekki nema tvö ár og gæti leitt til stöðu kaupfélagsstjóra ef lukkan væri manni hliðholl.
Menntaskólanám kom af einhverjum ástæðum aldrei til greina, held það hafi einkum verið vegna þess almenna viðhorfs að það væri fremur fyrir fólk af heldri sortinni, til þess þyrfti meira en meðalgreind og veitti auk þess engin réttindi. Kennaraskólinn væri fremur fyrir fólk af alþýðubergi brotið. Kannski hafa síðari tíma athuganir skotið stoðum undir að nokkuð var til í þessu. Svo fór þó þegar dró að hausti að ég taldi mig ekki hafa nægan farareyri og sló náminu á frest í eitt ár.
Kennaraskólaárin 1962–1966 voru góður tími og áhyggjulaus. „Þarna urðu mér örlög ráðin“ eins og þar segir. Skólastofan, skólinn og menntakerfið hafa verið umgjörð ævistarfsins og ég hef verið svo lánsamur að fá að sinna fjölþættum verkefnum sem öll hafa veitt mér mikla ánægju.
Við Æfingaskóla Kennaraháskólans og Kennaraháskólann, nú menntavísindasvið Háskóla Íslands, hef ég starfað í 39 ár, þar af sem skólastjóri Æfingaskólans um átta ára skeið, í hópi einstakra vinnufélaga og vina. Það er ómetanlegt þakkarefni.
Ég vék áður að mikilvægi þess að skólastjóri kunni að prjóna. Stutt saga til stuðnings þeirri staðhæfingu: Í námskrá var ákvæði um að bæði dregnir og stúlkur skyldu læra nokkuð bæði í smíðum og textílmennt. Í nokkrum tilvikum þótti strákunum minnkun í því að sýsla með prjóna, töldu þann starfa fremur hæfa kvenþjóðinni. Eitt sinn ræddi textílkennarinn við skólastjórann um að tveir níu ára strákar fengjust ekki til að prjóna, hvort ég gæti litið inn í næsta tíma og hvatt þá til dáða. Ég gerði það og þarna sátu piltarnir, þrjóskulegir á svipinn, með prjóna í höndum en höfðust ekki að. Ég bað þá að koma með mér upp á skrifstofu og þegar þangað kom voru þeir fremur niðurlútir, bjuggust kannski við ávítum. Ég bað annan fyrst að leyfa mér að sjá prjónaskapinn og spurði hvort ég mætti aðeins lagfæra þann herping sem á þessu var. Svo prjónaði ég nokkrar umferðir hjá hvorum þeirra og bað þá svo að halda áfram. Þeir störðu opinmynntir á skólastjórann haga sér eins og roskin amma og tóku svo til við að prjóna. Ég bauð þeim að koma aftur til mín ef þeir lentu í vandræðum með prjónaskapinn. Eftir tímann kom kennarinn til mín og spurði hvað ég hefði sagt við drengina því þeir hefðu komið til baka, sest niður og byrjað að prjóna af kappi.
Af þessu lærði ég að maður skyldi fara varlega í að fullyrða hvað nauðsynlegt er fyrir skólastjóra að kunna og hvað ekki. Sama gildir um aðrar fagstéttir sem sinna lífsstarfi, kennarar þar með taldir. Eftirfarandi skilgreining á hugtakinu lífsstarf (sem er þýðing á profession) er komin frá dr. Brodda Jóhannessyni:
Starfið veltur á viðurkenndum forða sameiginlegrar sérþekkingar, kunnáttu sem leikni, og sameiginlegu siðgæði starfsmanna. Gæta þeir þess sjálfir án ytri íhlutunar og af því hugarfari, að skyldur þeirra við skjólstæðinga sína séu æðri öðrum skyldum starfsins.
Kennarastarfið á tvímælalaust að falla undir þessa skilgreiningu. Trúnaður við nemendur með hagsmuni þeirra að leiðarljósi verður að vera grundvallarforsenda í störfum allra kennara. Hálfvelgjan er freistandi, að slá undan og fylgja vægari viðmiðum.
Við starfslok er það einlæg ósk mín að kennarar fylgi skuldbindingunni, sem í lífsstarfi felst, fast eftir og hljóti umbun að verðleikum. Á hitt er svo að líta að enginn gerir svo vel að ekki megi bæta um betur. Í þeirri reynd er fagleg þróun hvers kennara fólgin. Vinur minn, Jónas Pálsson, rektor Kennaraháskólans, lét þess einhvern tíma getið við mig að ég hefði getað náð lengra með vægðarlausari ósérhlífni, en ég verð að játa hér og nú að ég hef aldrei verið upplagður til vinnu árla morguns né heldur seint að kvöldi og hef sennilega fylgt sjónarmiðum í limru Þorsteins Valdimarssonar þar sem segir:
Að endingu standa sig
þeir einir, sem vanda sig
frá upphafi‘ í því
sem er innan handar
að standa sig í.
Sitjandi á Grána á leið í barnaskólann haustið 1952 skynjaði ég að ég var á leið út í heiminn og kvíðablandin óvissa varð förunautur minn æ síðan. En eftir á að hyggja hefði ég ekki viljað feta aðra braut þótt ég hefði átt þess kost.
Ólafur H. Jóhannsson (f. 1943) er frá Hnausakoti í Miðfirði. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum vorið 1966, BA-prófi frá Háskóla Íslands árið 1974 og meistaragráðu frá háskólanum í Bristol árið 1988. Hann var um árabil skólastjóri Æfingaskóla Kennaraháskólans og lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands (áður Kennaraháskóla Íslands).
Greinin er birt 26.11. 2020 til heiðurs Ingvari Sigurgeirssyni sjötugum