Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Menntun og nám – sameiginleg vegferð nemenda og kennara: Um menntabúðir í Menntaskólanum á Akureyri

í Greinar

Anna Eyfjörð Eiríksdóttir, Arnfríður Hermannsdóttir og Eva Harðardóttir

 

Umbætur í skólastarfi tengjast nú í auknum mæli  miðlun þekkingar og upplýsinga sem og samskiptum kennara og nemenda. Á tímum heimsfaraldursins COVID-19 hefur upplýsinga- og samskiptatækni fengið umtalsvert stærri sess í skólahaldi en áður og það á undraskömmum tíma. Margir kennarar og nemendur hafa nú stigið inn í nýjan veruleika náms og kennslu þar sem stafrænar lausnir, samspil og samvinna leika stærra hlutverk en öllu jafna. Kórónuveiran hefur minnt alla, sem að skólahaldi koma, á hversu mikilvægt það er að deila reynslu okkar og upplifunum á jafningagrundvelli. Læra hvert af öðru og vera óhrædd við að kanna nýjar slóðir. Í þessari grein verður rætt um nýsköpunar- og þróunarverkefni í ofangreindum anda sem unnið hefur verið í Menntaskólanum á Akureyri á undanförnum þremur árum og hefur nú skipað sér mikilvægan sess í skólahaldinu.

Áherslan á umbætur og gæði í skólastarfi hafa ekki eingöngu tengst framförum í upplýsingatækni heldur einnig aukinni meðvitund um mikilvægi samvinnu allra þeirra sem að skólasamfélaginu koma. Hugmyndir Shirley Hord (2009) um faglegt lærdómssamfélag (e. professional learning community) og Fullan og Hargreaves (2016) og Hargreaves og Shirley (2009) um fjórðu leiðina í skólaþróun hafa meðal annarra varpað ljósi á mikilvægi samskipta og samvinnu kennara um sameiginleg gildi í skólastarfi sem og hlutverk nemenda við að móta markmið menntunar og skapa jákvæða skólamenningu. Í þeirri vegferð að efla þekkingu og samráð um mótun skólastefnu og -starfs hafa sprottið upp fjölmörg afbrigði af svo kölluðum menntabúðum þar sem góðum hugmyndum og  verkefnum á sviði náms og kennslu er deilt á meðal kennara og starfsfólks skóla eða á milli skóla.

Í Menntaskólanum á Akureyri kviknaði sú hugmynd á meðal upplýsingatækniráðgjafa, sem einnig eru kennarar í ólíkum deildum skólans, að koma á fót menntabúðum meðal starfsfólks. Markmið þeirra var m.a. að skapa tíma og vettvang fyrir kennara til að ræða málin og læra hver af öðrum. Menntabúðirnar voru skipulagðar í kringum stuttar málstofur eða erindi um ýmsar nýjungar, ráðstefnur sem kennarar höfðu sótt annars staðar frá og tækni í kennslu. Takmarkið var að gera menntabúðir að eðlilegum hluta skólastarfsins og með því skapa virkt og gefandi lærdómssamfélag þar sem kennurum gæfist aukinn möguleiki á að öðlast nýja þekkingu og færni með því að skapa, miðla og taka þátt í umræðum um nám og kennslu.

Samstarf og samvinna

Fyrstu menntabúðir skólans voru haldnar í nóvember árið 2017 og fylgdu þrjár aðrar í kjölfarið yfir skólaárið 2017–2018. Ýmis mál voru tekin fyrir en meginþema búðanna féll yfirleitt að tæknilegum þáttum kennslu og náms svo sem notkun ólíkra forrita eða námstækja. Upplýsingatæknifulltrúar skólans sáu að mestu um að leggja inn efni og stýra málstofum. Veturinn 2018 til 2019 var verkefninu fram haldið og markvisst sóst eftir því að fleiri kennarar og starfsfólk skólans tækju þátt í að miðla efni í menntabúðum. Málstofurnar urðu þannig fjölbreyttari með tímanum þar sem m.a. var fjallað um skapandi kennslu, áhættuhegðun unglinga og niðurstöður rannsókna á lýðræðislegum bekkjarumræðum.

Auk hefðbundinna menntabúða innan Menntaskólans á Akureyri var einnig ákveðið að efna til sameiginlegra menntabúða allra SAMNOR framhaldsskólanna.[1] Þær búðir tókust sérlega vel þar sem stjórnendur og kennarar skólanna skiptust á góðum hugmyndum ásamt því að ræða ýmis álitaefni í kennslu og námi út frá ólíku samhengi skólanna. Þá voru einnig haldnar í fyrsta skiptið svokallaðar nemendamenntabúðir sem sérstaklega verður fjallað um hér á eftir. Þar bauðst nemendum Menntaskólans á Akureyri að sjá um og stýra málstofum um þau efni sem helst brunnu á þeim í sambandi við nám og kennslu.

Í þessar grein, sem birtist í Skólaþráðum 9. apríl s.l., segir Sólveig Jakobsdóttir frá þróun menntabúða hér á landi

Í lok þessa reynslutíma var ljóst að menntabúðir voru komnar til að vera enda mikil og almenn jákvæðni fyrir stærri og virkari vettvangi kennara, starfsfólks og nemenda til að hafa áhrif á skólaþróun, stefnu og starf. Í kjölfarið var sótt um styrk til tveggja ára í Sprotasjóð til þess að útvíkka og efla menntabúðir innan Menntaskólans á Akureyri og einnig á milli SAMNOR skólanna. Á vordögum 2019 bárust þær gleðifréttir að verkefnið hefði hlotið styrkinn. UT-ráðgjafar héldu því ótrauðir áfram að vinna að menntabúðum innan Menntaskólans á Akureyri með sérstaka áherslu á aðild og þátttöku nemenda í gegnum ofangreindar nemendamenntabúðir.

Að hlusta á og efla raddir nemenda

Nemendur standa oft utan við þá umræðu sem beinist að skólamálum og skólaþróun þrátt fyrir að líta megi svo á að allar skólaumbætur hafi það að markmiði að tryggja velferð og heill þeirra. Hópurinn sem stóð að þróun menntabúðanna varð strax sammála um mikilvægi þess að skapa nemendum sambærilegan vettvang og kennurum til þess að geta tekið þátt í lærdómssamfélaginu og stuðlað með markvissum hætti að skólaþróun og umbótum. Fyrstu nemendamenntabúðirnar í Menntaskólanum á Akureyri voru haldnar vorið 2019 og stýrðu nemendur þeim alfarið. Þannig völdu áhugasamir nemendur og nemendafélög sjálf þau efni sem tengdust skólanum á einhvern máta og voru þau tekin til umfjöllunar í fjórum málstofum auk þess sem nemendur sinntu málstofustjórn og umræðum. Vinsælasta málstofan í fyrstu nemendamenntabúðunum var um kennsluaðferðir og sýn nemenda á ólíkar kennsluaðferðir kennara en fjórir nemendur, sem höfðu allir ólíkar skoðanir á kennsluaðferðum, héldu mjög líflegt erindi og stýrðu málstofunni. Kennarar lögðu til ritara fyrir hverja málstofu sem sá um að skrifa formlega samantekt á þeim umræðum sem fram fóru. Þessari samantekt var síðan deilt með öllu starfsfólki, kennurum og nemendum.

Nemendur jafnt sem kennarar sóttu búðirnar og mætti segja að í þessum fyrstu búðum hafi verið fámennt en góðmennt þar sem afar áhugasamur hópur bæði nemenda og kennara tók þátt í þýðingarmiklum umræðum um skólastarf og skólabrag. Eftir búðirnar fóru nemendur yfir ferlið með upplýsingatækniráðgjöfum þar sem fram kom að mikil ánægja ríkti með verkefnið en hópurinn var þó sammála um að nemendur gætu komið enn frekar og fyrr að verkefninu.

Með þessa þætti í huga voru haldnar nemendamenntabúðir í annað skiptið í febrúar 2020. Mjög vel tókst til í þetta skiptið og var þátttaka til að mynda umtalsvert betri. Málstofurnar að þessu sinni voru fjórar en farið verður stuttlega yfir þær hér til að varpa ljósi á þann fjölbreytileika sem ríkti í efnistökum og áherslum nemenda.

Aðgengismál í MA var heiti á málstofu þar sem fjallað var um hvernig MA stendur sig í aðgengismálum og hvernig hægt er að gera betur. Nemendur sem stóðu að þessari málstofu höfðu gert góða úttekt á húsnæði skólans, hugað að formlegu starfi sem og félagslífi nemenda auk þess að draga fram raddir þeirra nemenda sem þurfa til dæmis á hjólastól að halda. Á málstofunni kom fram að mikilvægt er að gera breytingar á aðgengi – ekki út af nemendum heldur fyrir nemendur og alla aðra sem á eftir koma.

Hinseginleikinn í MA var heiti á málstofu þar sem fram kom að þótt ekki væri beint misrétti í skólanum væri samfélagslegt misrétti þó til staðar. Meðal annars var fjallað var um neikvæða orðræðu og fordóma sem leynast undir yfirborðinu og mikilvægi þess að allir taki höndum saman til að vinna gegn fordómum innan skólans.

Jákvæð samskipti í skólastarfi var þriðja málstofan þar sem rætt var um samskipti meðal nemenda og nemenda og kennara í skólanum. Þar töldu nemendur að ýmislegt mætti bæta og var m.a. fjallað um formlegar leiðir til þess að tilkynna eineltismál, áreiti og áreitni auk þess sem fjallað var um leiðir til að bæta skólabraginn með gleði og jákvæðni að leiðarljósi.

Skipulag nemenda var heiti á fjórðu málstofunni þar sem nemendur miðluðu gagnlegum aðferðum til samnemenda og kennara til þess að skipuleggja sig. Farið varið yfir ýmis forrit sem gott væri að hafa sem og þá hugarfarsbreytingu sem þyrfti að eiga sér stað til að koma á góðu námsskipulagi. Það er sannarlega mikilvægt að vera með allt á hreinu í krefjandi námi og láta ekkert koma sér á óvart í þeim málum.

Lærdómurinn

Í kjölfar tveggja vel heppnaðra nemendamenntabúða er ljóst að þetta fyrirkomulag er komið til að vera. Allir sem hafa tekið þátt, með einum eða öðrum hætti, eru sammála um að verkefnið stuðli að góðu og mikilvægu samtali á milli kennara og nemenda og efli möguleika þeirra til þess móta skólastefnu og starf með virkum hætti. Nemendamenntabúðir gefa auk þess nemendum tækifæri á að láta raddir sínar heyrast sem hefur óneitanlega bein og jákvæð áhrif á skólasamfélagið. Lýðræðislegar umræður og þátttaka í þeim efla ekki einungis víðsýni og viðhorf nemenda (Sigrún Aðalbjarnardóttir, 2007; Sigrún Aðalbjarnardóttir og Eva Harðardóttir, 2018) heldur eru þær mikilvæg leið til þess að miðla reynslu og upplifun kynslóða og skapa þannig þýðingarmikið samtal um hvernig við mótum lýðræðislegt og réttlátt skólasamfélag.

Þá hefur vettvangurinn verið mikilvægur til að benda á fjölbreytileika innan skólans og á meðal nemenda. Oft eru nemendur ekki sammála um alla hluti og sem dæmi mynduðust afar áhugaverðar umræður um gildi og vægi kennsluaðferða á fyrstu nemendamenntabúðunum þar sem ólík viðhorf nemenda fengu að njóta sín á grundvelli gagnrýnnar hugsunar og virðingar.

Þátttaka nemenda í menntabúðum skólans er mikilvægt innlegg inn í skólaþróun, stefnumótun og starf og hefur verið afar áhugavert lærdómsferli. Ekki síst fyrir kennara og starfsfólk skólans sem hefur gefið sér aukinn tíma til þess að hlýða á og taka þátt í umræðum á jafnréttisgrundvelli. Þannig höfum við saman hlúð að mikilvægum grunnþáttum í skólastarfi er snúa að lýðræði og mannréttindum og jafnrétti. En ekki síður að læsi og sköpun þar sem nemendur hafa kynnt sér skólastarf og stefnu með ólíkum hætti, dregið ályktanir og miðlað með fjölbreyttum hætti í menntabúðum. Þá er ljóst að heilsa og vellíðan nemenda fær aukið vægi á þessum vettvangi þar sem umfjöllunarefnin beinast að þeirra hugðarefnum og vellíðan.

Við, sem staðið höfum að menntabúðum innan Menntaskólans á Akureyri, vonumst til þess að verkefnið stuðli að sjálfbæru og öflugu skólastarfi sem heldur áfram að þróast með aðkomu allra sem í því lifa og hrærast, ekki síst nemenda, sem hafa yfir að búa óþrjótandi krafti og möguleikum til að gera gott starf enn betra. Þessi kraftur sást glögglega þegar allir þurftu á einni helgi að skipta yfir í fjarkennslu- og nám þegar samkomubann vegna COVID-19 skall á. Bæði nemendur og kennarar tókust á við það verkefni af æðruleysi og samviskusemi tilbúin að vinna saman að þeirri sameiginlegu vegferð sem nám og kennsla er.

[1] Menntaskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Framhaldsskólinn á Húsavík og Framhaldsskólinn á Laugum.

Heimildir

Fullan, M. og Hargreaves, A. (2016). Bringing the profession back in: Call to action. Oxford: OH: Learning Forward.

Hargreaves, A. og Shirley, D. (2009). The fourth way: The inspiring future for educational change. London: SAGE.

Hord, S. (2009). Professional learning communities. Educators work together toward a shared purpose – improved student learning. NSDC. http://www.ecapvideos.ca/ecap/resources/Hord2009.pdf

Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2007). Virðing og umhyggja: Ákall 21. aldar. Reykjavík: Heimskringla Háskólaforlag Máls og Menningar.

Sigrún Aðalbjarnardóttir og Eva Harðardóttir. (2018). Students’ attitudes towards immigrants’ rights: The role of democratic classroom discussions. Í Hanna Ragnarsdóttir og Samúel C. Lefever (ritstj.) Iceland studies on diversity and social justice in education (bls 130–155). UK: Cambridge Scholars Publishing.

Sigrún Aðalbjarnardóttir og Eva Harðardóttir. (2012). Lýðræðislegar bekkjarumræður og viðhorf til réttinda innflytjenda: Sýn nemenda. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. http://netla.hi.is/menntakvika2012/013.pdf

 


Arnfríður Hermannsdóttir er efnafræðikennari og UT-ráðgjafi í Menntaskólanum á Akureyri.

Anna Eyfjörð Eiríksdóttir er frönskukennari og UT-ráðgjafi í Menntaskólanum á Akureyri. Hún er einnig faggreinastjóri annarra erlendra tungumála en ensku.

Eva Harðardóttir er félagsgreinakennari, jafnréttisfulltrúi og UT-ráðgjafi við Menntaskólann á Akureyri. Hún stundar auk þess doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og sinnir stundakennslu við HA og HÍ.

Störf þeirra sem UT-ráðgjafa felast í því að aðstoða aðra kennara og nemendur við tæknileg vandamál, að leita að tækninýjungum sem gætu nýst samstarfsfólki í kennslu og að aðstoða við að skipuleggja menntabúðir innan sem utan skólans.



Grein birt 4.5.2020

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp