Ólafur H. Jóhannsson
Laugardaginn 11. október árið 1986 fékk Æfinga- og tilraunaskóli Kennaraháskóla Íslands óvæntan gest í heimsókn og vakti atburðurinn heimsathygli. Þessa helgi fór fram fundur tveggja valdamestu manna veraldar í Höfða í Reykjavík. Þar hittust Mikhail Sergeyevich Gorbachev leiðtogi Sovetríkjanna og Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna. Efni fundarins var að ræða aðgerðir til að draga úr vopnaframleiðslu þessara stórvelda og þar með vígbúnaðarkapphlaupi. Telja margir að fundurinn hafi markað upphafið að lokum kalda stríðsins. Talsverðar vangaveltur voru um það í fjölmiðlum hvort eiginkonurnar yrðu með í för, þær Raisa Gorbacheva og Nancy Reagan. Er nær dró varð ljóst að Raisa kæmi en Nancy ekki. Eftir á að hyggja töldu margir að það hefðu verið mistök af hálfu Bandaríkjastjórnar því augu alheimsins beindust mjög að Raisu Gorbachevu meðan fundurinn stóð yfir enda lítið að frétta af viðræðum valdsmannanna meðan þær fóru fram. Fréttahaukur frá New York Times (12. okt. 1986) spurði Raisu hvort henni þætti ekki leitt að Nancy skyldi ekki hafa komið líka. Hún svaraði: „Það hlýtur að vera ástæða fyrir því að hún kom ekki. Kannski hafði hún öðru að sinna, kannski er hún lasin.“
Forsætisráðuneytið hafði yfirumsjón með dagskránni sem Raisa Gorbacheva fylgdi meðan á dvöl hennar stóð. Ein af óskum hennar var að heimsækja nemendur níunda bekkjar í Æfingaskólanum. En hvers vegna?
Forsagan málsins er sú að árið 1985 var ár æskunnar. Nemendur í áttunda bekk Æfingaskólans ræddu hvað þau gætu gert af því tilefni. Í viðtali við Þjóðviljann 17. okt. segja nemendur þetta um aðdragandann:
Það byrjaði á bekkjarfundi í fyrrahaust. …Við vorum að ræða um ár æskunnar og langaði að gera eitthvað í tilefni af því, en okkur langaði ekkert til að halda ball eða eitthvað svoleiðis sem við hefðum munað eftir í tvö ár. Nei, okkur langaði til að gera eitthvað stórt, eitthvað sem við myndum muna eftir tuttugu ár. Þá kom þessi hugmynd upp að safna undirskriftum gegn vígbúnaðarkapphlaupinu.
Kristín Helga Þórarinsdóttir nemandi í 8. bekk átti hugmyndina og segir hún að vitneskjan um að þessi stórveldi hvort um sig gætu grandað heiminum hafi vakið raunverulegan ugg í brjósti margra jafnaldra hennar. Hugmyndin féll því í góðan jarðveg meðal bekkjarfélaga og var ákveðið að hrinda henni í framkvæmd með stuðningi umsjónakennara árgangsins, Páls Ólafssonar og Önnu Sigurðardóttur. Þá var samið bréf sem er svohljóðandi:
Háttvirti leiðtogi Bandaríkjanna/Sovétríkjanna, Ronald Reagan/Michael Gorbatsjef
Í tilefni af ári æskunnar höfum við æska Íslands útbúið undirskriftarlista gegn vígbúnaðarkapphlaupinu.
Okkar einlæga ósk er sú að við og komandi kynslóðir fái að lifa í heimi friðar og bróðernis. Það er hræðileg tilhugsun að öll þau kjarnorkuvopn sem til eru geti grandað heiminum á svipstundu.
Stöðvið vígbúnaðarkapphlaupið áður en það verður of seint!
Jacqueline Friðriksson enskukennari við skólann aðstoðaði við enska þýðingu og Ingibjörg Hafstað snaraði á rússneska tungu. Þegar bréfin voru tilbúin var haft samband við Menntamálaráðuneytið sem gaf leyfi fyrir sitt leyti. Í ráðuneytinu fékkst einnig listi yfir alla grunnskóla á landinu sem héldu uppi kennslu á unglingastigi (7., 8. og 9.bekkur). Áskorunin var send hverjum þessara skóla í pósti. Hver sending innihélt áskorunina bæði á ensku og rússnesku og fylgdu sérstök undirskriftarblöð með hvorum hluta. Síðan var beðið eftir svörum og einhverjum skólum þurfi að senda ítrekun. Að lokum höfðu borist undirskriftir frá öllum skólum landsins, alls um 8000 undirskriftir sem lætur nærri að vera um 65% nemenda í þessum aldurshópi. Þá var að flokka bréfin og raða undirskriftalistunum snyrtilega í „enska” og „rússneska” kassann.
Nemendur fóru með kassana með áskoruninni og undirskriftalistunum í sendiráðin. Heldur þóttu þeim móttökurnar í bandaríska sendiráðinu stuttaralegar, þar var vopnaður vörður við dyrnar og ekki fóru fram mikil samskipti við starfsmanninn sem tók við kassanum. Nemendur minnir að móttökurnar væru alúðlegri í sovéska sendiráðinu. Á einhverjum tímapunkti var fulltrúum nemenda ásamt Páli umsjónarkennara boðið þangað í sérstaka móttöku til þáverandi sendiherra. Hann tjáði þeim að borist hefði bréf frá Gorbachev vegna þessa erindis. Ekki las hann bréfið en spjallaði við þau góða stund og boðið var uppá te og sætabrauð. Ekki barst svar frá forseta Bandaríkjanna. Raunar bjuggust bréfritarar ekki við neinum viðbrögðum, enda hefðu viðtakendur öðrum hnöppum að hneppa en svara íslenskum unglingum. Leið svo af sumarið.
Þegar ljóst var að leiðtogafundurinn yrði haldinn í Reykjavík, hófst mikill undirbúningur. Í Vesturbænum varð röskun á skólastafi því húsnæði skólanna þurfti að nota fyrir fréttamenn sem flykktust til landsins vegna fundarins. En í Æfingaskólanum tókum við lífinu með ró og þar gekk tilveran sinn vanagang.
Dagana fyrir þessa helgi sótti ég þing Kennarasambands Vesturlands sem haldið var í Munaðarnesi í Borgarfirði. Uppúr hádegi á fimmtudegi er ég kallaður í símann og sagt að það væri áríðandi. Í símanum var Guðmundur B. Kristmundsson sem þá var yfirkennari á unglingastigi og var honum talsvert niðri fyrir. Hann sagði mér að forsætisráðuneytið hefði haft samband við sig og tilkynnt að Raisa Gorbacheva hefði óskað eftir að koma í heimsókn í skólann og hitta að máli nemendurna sem skrifuðu bréfið góða. Og gestirnir kæmu eftir hádegi næstkomandi laugardag. Enn fremur gat hann þess að hópur sovéskra öryggisvarða hefði komið í skólann til að skoða aðstæður og leggja á ráðin um hvar væri komið að byggingunni og hvar í húsinu móttakan færi fram. Þeir lögðu þunga áherslu á að hvergi yrði út af þessu brugðið og engar veitingar mætti bjóða gestunum. Þess var getið að Edda Guðmundsdóttir, eiginkona Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra, væri fylgdarkona Raisu í heimsóknum hennar. Dagskrána ætti að skipuleggja þannig að hún tæki tuttugu mínútur, stæði hvorki lengur né skemur.
Ég hraðaði för minni heim á föstudeginum og hafði samband við Jónas Pálsson, rektor Kennaraháskólans. Kennararnir Páll og Hannes Sveinbjörnsson ásamt ræstingafólki voru að langt fram eftir föstudagskvöldi við þrif. „Þegar húsmóðir á stærsta heimili í veröldinni kemur í heimsókn þá verður allt að vera hreint“ sagði Hannes.
Að morgni laugardagsins mættum við snemma í skólann ásamt aðstoðarfólki og snyrtum til eftir föngum, skutumst svo heim til að fara í sparifötin áður en gestirnir kæmu. Nemendur með aðstoð kennara sinna höfðu allan veg og vanda af að undirbúa dagskrá fundarins en ég var í hlutverki fundarstjóra.
Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 14. október 1986 birtist frétt undir fyrirsögninni: Raisa hvatti unglinga til bjartsýni. Blaðamaður tók, Kristínu Helgu Þórarinsdóttur nemanda 9. bekkjar, tali og gefur henni orðið. Hún segir svo frá:
Áður en Raisa kom birtust fimm öryggisverðir, sem höfðu meðferðis styttu sem Raisa færði skólanum. Krakkar úr hverfinu höfðu safnast saman fyrir utan skólann og þegar Raisa kom flykktust þeir að henni og hún talaði við þau. Síðan ávarpaði Elfa Ýr Gylfadóttir Raisu á rússnesku og færði henni blóm. Elfa hafði lært ávarpið kvöldið áður og æft sig alla nóttina. Raisu fylgdi mikill fjöldi fréttamanna og þegar móttökunefndin ætlaði að fylgja henni upp í skólastofuna þar sem hinir krakkarnir biðu gekk það illa vegna þess að fréttamenn voru svo aðgangsharðir. Á töfluna í skólastofunni höfðum við skrifað „Gorbacheva, velkomin í skólann okkar“, en að vísu sagði einn öryggisvörðurinn okkur að það væri ekki alveg rétt stafsett. Það skipti þó ekki höfuðmáli. Athöfnin í skólastofunni byrjaði á því að þrjár stelpur úr hópnum léku syrpu af Reykjavíkurlögum á fiðlu, selló og þverflautu. Það voru Ásta Hallgrímsdóttir, Solveig Thorlacius og Sigurbjörg Bóel Hjartardóttir, en tónlistarkennarinn okkar í fyrra, Friðrik Guðni Þorleifsson, sá um útsetningar. Þá var röðin komin að mér og ég flutti stutt ávarp, þar sem ég sagði m.a. að við hefðum aldrei búist við að hún kæmi til okkar vegna undirskriftanna. Svo afhenti ég Raisu bréf frá okkur til Gorbachevs, þar sem við þökkum honum fyrir að hafa svarað bréfum okkar.
Hildur Hafstað túlkaði ræðurnar jafnóðum yfir á rússnesku.
Frumgerð bréfsins á íslensku finnst ekki en bréfið er svohljóðandi á rússnesku.
Уважаемый господин Горбачёв.
Мы хотим воспользоваться неожиданно предоставившейся возможностью – вашим приезд в рейкьявик, чтобы поблагодарить ваc за ответ на наше письмо с подписями исландских школьников, в котором мы призывали остановит гонку вооружений. Мы надеемся, что ваша встреча с президентом рейганом в рейкьявике будет успешной.
ученики девятого класса базовой школы исландского педагогического института.
Og í enskri þýðingu Páls Þórarinssonar:
Dear Mr. Gorbachev.
We want to take advantage of an unexpected opportunity – your visit to Reykjavik, to thank you for responding to our letter with the signatures of Icelandic schoolchildren, in which we urged to stop the arms race. We hope that your meeting with President Reagan in Reykjavik will be successful.
Pupils of the ninth grade of primary school of the Icelandic Pedagogical Institute.
Í fyrrnefndu viðtali í Þjóðviljanum eru nemendur spurðir hvort þessi heimsókn yrði þeim minnisstæð. Þau svara. „Jaháá. Alla æfi án vafa. Það tókst vonum framar að vekja athygli á málstaðnum og þetta er nokkuð sem maður gleymir ekki svo glatt.“
Við þessa frásögn nemenda er litlu að bæta. Raisa var afar elskuleg og náði með einlægni vel til nemendanna og eins og segir í myndatexta í umræddri frétt Morgunblaðsins. „Raisa talaði lengi við nemendur og bað þá að halda áfram að undirbúa framtíðina með bjartsýni að leiðarljósi.“ Styttan sem Kristín víkur að heitir Vongleði og sýnir þrjár ungar stúlkur sem bera nöfnin trú, von og kærleikur og er áletruð af Mikhail Gorbachev.
Fundurinn stóð mun lengur en áformað hafði verið og Raisu virtist ekkert liggja á, en fylgdarmenn voru mjög farnir að ókyrrast. Hún spurði margs, m.a. hversu margar kennslustundir á viku þau væru í íþróttum. Þegar svarið kom: „þrjár stundir“, spurði hún undrandi: Er höfuðið á ykkur ekki að springa af öllu þessu bóknámi?
Svo leið að lokum heimsóknar. Við kvöddum góða gesti og fylgdum þeim til dyra og úti beið bílalestin svört og gljáfægð. Umkringd öryggisvörðum steig gestur okkar inn bifreiðina og lestin þaut af stað í fylgd blikkandi ljósa. Þessi umgjörð verkaði eins og leiksýning á sveitamanninn og svo fannst okkur Jónasi miður að mega hvorki bjóða gestinum vott né þurrt, ekki svo mikið sem molasopa. En látlaus framkoma Raisu og innihaldsrík hvatningarorð til nemenda gerðu þessa heimsókn minnisstæða.
Margar sennilegar tilgátur hafa verið settar fram um það hvers vegna leiðtogarnir ákváðu Ísland sem fundarstað. En mig langar að skjóta fram einni til, þ.e. að einlægt sendibréf íslenskra ungmenna hafi átt sinn þátt í valinu. En staðreynd er að bréfið náði eyrum eins valdamesta leiðtoga heimsins og konu hans. Af því má draga þann lærdóm að ungt fólk á Íslandi getur haft áhrif á gang heimsmála. Það sakar ekki að reyna. Og þessi frásögn á að minna á að unglingar eru alvarlega þenkjandi og á þá ætti að hlusta meira en gert er og hvetja þá til dáða og fylgja þar fordæmi Raisu Gorbachevu.
Hver var Raisa Gorbacheva?
Raisa Gorbacheva var fædd 5. janúar árið 1932 í borginni Rubtsovsk í Síberíu og var elst þriggja systkina. Hún hitti verðandi eiginmann sinn þegar hún var við nám í heimspeki við Ríkisháskólann í Moskvu. Hún lauk prófi í heimspeki og kenndi um tíma við Moskvuháskóla. Raisa giftist Mikhail Gorbachev í september árið 1953 og flutti með honum á heimaslóðir hans í Suður-Rússlandi. Þar varði hún lokaritgerð sína í félagsfræði og fjallaði um stöðu bænda og samyrkjubú. Árið 1956 eignuðust þau hjón einkadóttur sína. Þau fluttu til Moskvu þegar pólitískur frami manns hennar jókst. Raisa kenndi heimspeki við Moskvuháskóla þar til Gorbachev varð leiðtogi Sovétríkjanna. Raisa var fyrsta eiginkona leiðtoga þessa stóra ríkis sem kom fram opinberlega með manni sínum. Hún naut mikilla vinsælda og virðingar sem byggðust ekki síður á hennar eigin ágæti en frægð manns hennar. Mikhail Gorbachev var vikið frá völdum árið 1991 og þá féllu þau í skuggann fyrir nýjum valdhöfum. Hún lést af völdum hvítblæðis árið 1999, 67 ára gömul. Raisa lét sig velferð barna miklu varða og lagði áherslu á að rödd þeirra heyrðist. Árið 2006 stofnaði fjölskylda hennar góðgerðarsamtök sem safna fé til stuðnings börnum með krabbamein. Í æviminningum sínum segir hún um lífshlaup sitt með Mikhail Gorbachev; https://www.gorby.ru/en/gorbacheva/biography/ Við hjónin höfum fengið að reyna allt um ævina; gleði og sorgir, óhemju erfið verkefni sem tóku á taugarnar, árangur og mistök, fátækt, hungur og efnislega velmegun. Við höfum komist í gegnum þetta allt án þess að missa sjónir á þeim grunni sem samband okkar byggist á og þeim hugmyndum og hugsjónum sem við trúum á. |
Heimildir
Morgunblaðið, 14, október 1986
New York Times, sótt 15. febrúar 2019 af slóðinni: https://www.nytimes.com/1986/10/12/world/iceland-summit-charm-cough-drops-raisa-gorbachev-s-reyjkavik-visit-public.html
Þjóðviljinn, 12. október 1986.
Munnlegar heimildir:
Guðmundur B. Kristmundsson, yfirkennari.
Kristín Helga Þórarinsdóttir, nemandi í 9. bekk og eigandi að hugmyndinni.
Páll Ólafsson, umsjónarkennari í 9. bekk.
Ólafur H. Jóhannsson (f. 1943) er frá Hnausakoti í Miðfirði. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum vorið 1966, BA-prófi frá Háskóla Íslands árið 1974 og meistaragráðu frá háskólanum í Bristol árið 1988. Hann var um árabil skólastjóri Æfingaskóla Kennaraháskólans og lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands (áður Kennaraháskóla Íslands). Rannsóknir Ólafs hafa einkum beinst að störfum skólastjóra.