Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Látum draumana rætast

í Greinar

Fríða Bjarney Jónsdóttir

 

Í janúar 2017 var samþykkt einróma í borgarráði Reykjavíkur ályktun um að hefja mótun menntastefnu til ársins 2030. Vinnan hófst strax þá um vorið í víðtæku samráði fjölmarga aðila í skóla- og frístundasamfélagi borgarinnar. Gera má ráð fyrir að um 10.000 manns, börn, foreldrar, starfsfólk, stjórnendur og aðrir, hafi tekið þátt í samtali um mikilvægustu áherslur í menntun barna í borginni auk þess sem almenningur gat skilað inn hugmyndum í gegnum Betri Reykjavík. Leitað var til innlendra og erlendra ráðgjafa í ferlinu, en sú vinna var undir forystu dr. Pasi Sahlberg frá Finnlandi.

Menntastefna Reykjavíkur „Látum draumana rætast“ var samþykkt í borgarstjórn 20. nóvember 2018. Sú dagsetning, afmælisdagur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, er einkar vel við hæfi þar sem menntastefnan hvílir m.a. á samningnum. Í framtíðarsýn stefnunnar segir:

Í kraftmiklu skóla- og frístundastarfi öðlast börn og unglingar menntun og reynslu til að láta drauma sína rætast og hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag.

Stefnan byggir á aðalnámskrám, fyrri stefnumörkun borgarinnar á ýmsum sviðum og starfsáætlunum frístundamiðstöðva. Sjónum er beint að börnum og menntun þeirra í formlegu og óformlegu námsumhverfi borgarinnar en þarfir barna, styrkleikar, áhugasvið og möguleikar til að ná árangri sem virkir borgarar eru þarna í forgrunni. Með menntastefnunni er leitast við að ná saman öllum þeim sem koma að menntun barna nú og til framtíðar innan skóla- og frístundastarfsins. Litið er svo á að menntun eigi sér stað í víðu samhengi. Þar er samstarf við foreldra lykilatriði auk þess sem lögð er áhersla á gagnvirkt samstarf við stofnanir og samtök, innan sem utan borgarinnar. Þessi heildræna áhersla á menntun barna í Reykjavík hefur vakið athygli, en bent hefur verið á að það sé einstakt, hérlendis sem og erlendis, að draga fram mikilvægi bæði formlega og óformlega námsins í menntastefnu.

Með stefnunni er lagður grunnur að framsæknu skóla- og frístundastarfi sem byggir á styrkleikum íslensks samfélags. Um leið er henni ætlað að mæta þeim áskorunum og tækifærum er felast í stöðugum samfélags- og tæknibreytingum sem umbreyta uppeldisaðstæðum barna og hefðbundnum hugmyndum um menntun. Tilgangur stefnunnar er þríþættur að:

  • Ná víðtækri samstöðu um framtíðaráherslur,
  • Skerpa á forgangsröðun um mikilvægustu umbótaverkefni,
  • Þróa skóla- og frístundastarf í skapandi lærdómssamfélag sem mætir þörfum 21. aldarinnar.

Með hinu víðtæka samráði sem fór fram við mótun menntastefnunnar átti ákveðin grasrótarvinna sér stað, en það vakti athygli hversu sammála flestir þeir sem að samráðinu komu voru um lykiláherslur stefnunnar. Leiðarljós stefnunnar felast í því að líta á barnið sem virkan þátttakanda í mótun samfélags þar sem fagmennska og samstarf eu í öndvegi. Meginmarkmið stefnunnar hvíla á fimm grundvallarþáttum; félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði. Markmiðin fela m.a. í sér að „öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs“.

Hér má sjá dæmi um framlag nemenda til stefnunnar. Þessi atriði voru meðal þeirra sem fram komu á hugarflugsfundi þar sem þeir lýstu skoðunum sínum.

Með samþykkt menntastefnunnar má segja að vegferðin sé hafin, búið er að ákveða hvert skal stefna, en stærsti hluti verkefnisins, innleiðingin sjálf er framundan. Gera má ráð fyrir að á næstu þremur árum verði unnið að fyrsta hluta hennar. Í mars 2019 mun liggja fyrir innleiðingaráætlun unnin í samstarfi starfsfólks og stjórnenda í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Nú þegar hefur verið samþykkt að auka verulega framlög í þróunarsjóð skóla- og frístundaráðs þannig að allir geti hafið vinnu við innleiðingu stefnunnar. Þá hefur verið sett á laggirnar Nýsköpunarmiðja menntamála (NýMið) hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Hlutverk hennar er að styðja við nýsköpun í skóla- og frístundastarfi á grunni menntastefnu borgarinnar, auka og samræma ráðgjöf og fagþjónustu við skóla- og frístundastarf, efla símenntun og starfsþróun fyrir starfsfólk í samstarfi við háskóla og miðla niðurstöðum rannsókna í þágu skóla- og frístundastarfs í Reykjavík.

Að mínu mati felast fjölmörg tækifæri í því að innleiða framsækna menntastefnu þar sem raunveruleg áhersla er lögð á að jafna tækifæri allra barna til náms en þar þurfa margir og flóknir þræðir að vefast saman. Leggja þarf alúð við menntun og starfsþróun þeirra sem starfa í skóla- og frístundastarfi, tryggja þarf að úthlutun fjármagns taki tillit til félagslegs fjölbreytileika og vinna þarf að snemmtækri íhlutun og forvörnum alla skólagönguna. Þar gildir miklu að stuðningur og ráðgjöf sé á forsendum barnanna sjálfra og þeirra sem vinna með þeim. Erlendir fræðimenn hafa bent á að góð menntun snúist ekki um að börn séu svo heppin að lenda hjá góðum kennara eða í góðum skóla. Gott menntakerfi stuðlar markvisst að því að börn hljóti framúrskarandi menntun frá leikskóla til fullorðinsára. Slíkt menntakerfi felur í sér sameiginlega ábyrgð allra þar sem unnið er að því að efla kennaramenntun og starfsþróun, þróa fjölbreytta starfs- og kennsluhætti og tryggja samstarf menntastofnana við foreldra, aðrar stofnanir og félagasamtök (Hargreaves og Fullan, 2012; Sahlberg, 2017).

Það eru hinsvegar þrír þættir sem ég lít svo á að liggi til grundvallar en þeir eru samstarf, sjálfsþekking og trú á getu.  Allir fela þeir í sér mikilvægi þess að hver og einn sem starfar við menntun tileinki sér vaxtarhugarfar og vilja til þess að ígrunda eigið starf. Tengjast þessi atriði m.a. fjórðu leiðinni svokölluðu sem Oddný Sturludóttir (2018) fjallaði um á skemmtilegan og áhugaverðan hátt hér í Skólaþráðum. Minn draumur er að þessir þættir geti orðið grunnur að öflugu menntakerfi í Reykjavík þar sem fagmennska allra þeirra sem koma að menntun barna í borginni er í öndvegi.

Samstarf

Anna Kristín Sigurðardóttir (2018) hefur bent á að innan þeirra menntakerfa sem hafi náð góðum árangri sé lögð áhersla á samvirkni og markvisst umbótastarf sem byggir á faglegri ígrundun í rannsóknir og aðferðir. Grundvöllur að slíku menntakerfi byggist að stórum hluta upp í gegnum markvisst samstarf, teymisvinnu og fjölbreytt samtal. Opnum dyrnar í orðsins fyllstu merkingu, inn í skólann, inn í skólastofuna og um leið út í samfélagið. Í því sambandi er nærtækt að benda á niðurstöður norrænu rannsóknarinnar Learning Spaces for Inclusion and Social Justice: Education in multicultural societies  sem sýndu að með því að skapa traust á milli foreldra og kennara og eiga samtal um nám og velferð barna var byggð brú yfir í samfélagið sem auðveldaði fjölskyldum innflytjenda þátttöku (Hanna Ragnarsdóttir, 2015). Samtalið, samvinnan og sameiginlegur skilningur á menntun sem viðfangsefni þarf að eiga sér stað. Til þess að slíkt samtal megi þróast þurfum við að breyta ýmsu í menningu okkar innan menntakerfisins. Öll viljum við börnum það besta en okkur hættir stundum til þess að vera of fastheldin á eigin hugmyndir eða aðferðir og gleyma því að samtal um leiðir sem byggja á ólíkri sýn og reynslu leiða oft til bestu lausnanna. Grundvöllurinn að slíku samtali er „traust“ en áðurnefndur Sahlberg benti á það í vinnu við mótun menntastefnu í Reykjavík að breytingar gerist á hraða traustsins, þegar við erum farin að tala saman og treysta hvert öðru þá eru komin raunveruleg sóknarfæri til breytinga. Slíkt samtal þarf að mínu mati að vera marglaga, eiga sér stað innan barnahópanna, innan deildarinnar í leikskólanum, bekkjarins í grunnskólanum og hópsins í frístundastarfinu. Það þarf einnig að eiga sér stað innan kennarahópsins og starfsmannahópsins alls á hverjum stað en líka á milli foreldra og starfsfólks, vettvangs og fræðasamfélags, stefnumótenda, kennarafélaga og annarra.

Í tengslum við þróun menntakerfisins í Kanada, m.a. Alberta[1] og Edmonton, hefur verið unnið markvisst að því undanfarin ár að auka samvirkni og leiða nýsköpun í menntun með markvissum hætti undir formerkjum þess sem á íslensku mætti kalla samfélagslega nýsköpun (e. social innovation). Hún tengist í mínum huga lýðræðisstarfi og þróun lærdómssamfélagsins en gengur öllu lengra því hún felur í sér aukna samvirkni með því að skapa samtal við mikilvæga hagsmunaaðila í hvert sinn sem verið er að þróa leiðir til að takast á við áskoranir. Þannig er ekki hægt að leysa flóknar samfélagslegar áskoranir (svo sem eins og menntun fyrir alla, nám innflytjenda eða áhrif nýrrar tækni á líðan og heilsu ungmenna) með einföldum lausnum án þess að fara í samtal við börnin sjálf, foreldra þeirra, kennara eða aðra sem þekkja vel til. Samfélagsleg nýsköpun felur í sér samtal og samræðu sem byggir á gagnkvæmri virðingu fyrir því að ólík reynsla skapi grundvöll að þróun nýrra aðferða til að leysa flókin mál (e. wicked problems). Þeir sem taka þátt í samtalinu þurfa að setja sig í spor hvers annars og leitast við að skilja sjónarhorn annarra. Samfélagsleg nýsköpun er þannig mannúðleg og sjálfbær nálgun þar sem leitast er við að leysa flóknar áskoranir í nútíma samfélagi með því að byrja á því að greina vandann, skapa tilgangsríkt samtal um lausnir og framkvæma.

Áhugavert er að skoða þessar hugmyndir í samhengi við það hvernig við þróun samstarf innan okkar eigin starfsstaða. Bent hefur verið á mikilvægi teymisvinnu og teymiskennslu en þá er gott að spyrja sig hverjir koma að því samstarfi. Hverjir taka þátt í teymisvinnunni og hverjir eru kallaðir að borðinu til að þróa lausnir og fjölbreytta kennslu- og starfshætti? Til þess að teymisvinna og teymiskennsla skili árangri fyrir barnið verður eftir fremsta megni að skapa traust á milli fagstétta og hleypa öllum þeim sem geta lagt sitt af mörkum til að bæta menntun barna inn í samtalið. Foreldrar og fjölskyldur eru þarna í lykilstöðu. Gefa þarf foreldrum skýra hlutdeild í námi barna sinna, ekki á yfirborðslegan hátt með því að segja „þið eruð alltaf velkomin“ heldur með því hvetja þá ákveðið til að stíga fram. Það þarf að ljá ólíkum röddum vængi og við þurfum að æfa okkur í að tala við þá sem tala ekki eins og við og hugsa ekki eins og við. Þetta snýst ekki um rétt eða rangt eða best eða verst heldur það að þora að tala saman, miðla málum og skapa sameiginlegan skilning.

Það er mín reynsla að um leið og við sem kennarar eða fagfólk gefum öðrum hlutdeild í viðfangsefninu — hvert sem viðfangsefnið er og hvort sem það snýr að börnum eða fullorðnum — þá fara allir að gefa af sér, og ástríðan fyrir verkefninu eykst. Mig dreymir því um samtal og samstarf innan faghópa, innan starfsstaða en líka á milli ólíkra skóla og starfsstaða því saman getum við svo miklu meira heldur en ein og sér.

Sjálfsþekking

Til þess að geta tekið þátt í samtali þar sem við setjum okkur í spor hvers annars og þróum sameiginlegar lausnir þurfum við að byrja á okkur sjálfum. Við þurfum að læra að þekkja okkur sjálf – viðhorf okkar og styrkleika um leið og við kynnumst þeim sem við störfum með alla daga. Viðhorf okkar, sýn og skilningur á því sem gerir okkur einstök skiptir máli við að brjóta niður múra innra með okkur sjálfum og skilja aðra. Strax á leikskólaaldri þurfa börn að læra að setja sig í spor annarra og skilja að með hegðun sinni, orðum og athöfnum hafa þau áhrif á umhverfi sitt. Við hin fullorðnu þurfum að muna eftir því að vera góðar fyrirmyndir, tilbúin að líta í eigin barm og endurskoða viðhorf okkar og gjörðir. Minn draumur er að skóla- og frístundastarf þróist á þann hátt að þar sé í öllum aðstæðum gert ráð fyrir fjölbreytileikanum, það sé litið á það sem eðlilegan hlut að alltaf komi inn ný börn með nýjar þarfir. Þannig verði skóla- og frístundastarfið í borginni lagað að þeim börnum sem þar eru hverju sinni fremur en að börnin séu löguð að starfinu (Edda Óskarsdóttir, 2017).

Okkar eigin sjálfsþekking, viðhorf og hæfni til að takast á við sífellt fjölbreyttari barnahópa leikur þar stórt hlutverk. Á vegg í Veröld – húsi Vigdísar er vitnað í orð frú Vigdísar Finnbogadóttur sem lýsa vel hennar eigin vaxtarhugarfari: Allar skoðanir skal endurmeta um leið og ný viðhorf myndast. Gott er að hafa þetta í huga þegar við tökumst á við nýjar og stöðugt flóknari áskoranir í skóla- og frístundastarfi. Erum við tilbúin að líta fyrst í eigin barm, endurmeta eigið hugarfar og mæta framtíðinni á nýjan og skapandi hátt?

Trú á eigin getu og annarra

Það hefur löngum sýnt sig að miklar væntingar uppalenda til barna, trú fullorðinna á getu þeirra og aðferðir sem stuðla að því að þau upplifi sig tilheyra hafa grundvallaráhrif á sjálfsmynd þeirra, helgun til náms, ástríðu og viljann til þátttöku. Fræðikonan Sonia Nieto (2010) hefur bent á að jákvætt viðhorf og væntingar skólasamfélagsins til barna hafa grundvallaráhrif á möguleika þeirra til að ná árangri. „Blikið í augum barnanna,“ segir Nieto, gefur kennaranum til kynna að þau séu hæfileikarík, fær og verðug allrar athygli en til þess að kalla það fram þurfa kennarar að trúa einlæglega að öll börn geti lært. Jákvætt viðhorf og miklar væntingar til allra barna byggja á því að hinn fullorðni trúi því að þau séu fær og greind og geti lært, sama hver bakgrunnur þeirra er. Trú kennara á eigin getu hefur áhrif á trú þeirra á aðra. Talið er að kennarar með góða trú á eigin getu hafi jákvæð áhrif á þá þætti sem styrkja námsáhuga og sjálfstraust nemenda. Slíkur kennari er líklegri til þess að skapa lærdómssamfélag þar sem hann er stöðugt að endurskoða sjálfan sig, læra af nemendum sínum og þróa aðferðir sínar í starfi (Hanna Ragnarsdóttir og Fríða B. Jónsdóttir, 2016). Kennarar með góða trú á eigin getu líta svo á að hægt sé að kenna öllum nemendum og gefa þeim þau skilaboð að þeir geti lært. Um 25 grunnskólar í Reykjavík taka nú þátt í þróunarverkefni um leiðsagnarnám undir verkstjórn Nönnu Kristínar Christiansen verkefnastjóra á grunnskólaskrifstofu SFS. Þar er að finna góðar hugmyndir að verkfærum og leiðum til að vinna með aukna trú á eigin getu bæði í námi og kennslu. Vinnum að því að efla trú okkar á eigin getu og trúum á getu barna. Lítum á börn sem getumikil og tryggjum að þau verði virkir þátttakendur í að skapa sitt eigið umhverfi og samfélag og þróa menntun sem gerir þeim kleift að takast af aukinni þrautseigju á við daginn í dag og framtíðina.

Að lokum

Hér að framan hef ég dregið saman þá þrjá þætti sem ég tel einna mikilvægasta þegar kemur að aukinni fagmennsku og þróun menntakerfis.  Ég lít svo á að við stöndum á mikilvægum tímamótum, það eru spennandi tímar framundan og ég upplifi mikinn metnað fyrir því að öll börn geti látið drauma sína rætast í kraftmiklu skóla- og frístundastarfi. Í tengslum við innleiðingu Menntastefnu Reykjavíkur verður lögð aukin áhersla á samstarf við háskóla um starfsþróun starfandi kennara og starfsfólks sem og samstarf um þróun á námi þeirra fagstétta sem koma að skóla- og frístundastarfi í borginni. Þessir þrír þættir þurfa að mínu mati að endurspeglast í öllu námi, bæði grunnnámi og starfsþróun. Við sem komum að skóla- og frístundastarfi í Reykjavík vinnum öll með framtíð landsins, tendrum blikið í augum okkar og um leið augum barnanna og leggjum metnað okkar í að skapa framtíðina saman.

Greinin byggir á erindi sem flutt var á málþingi Samtaka áhugafólks um skólaþróun um mótun menntastefnu til 2030 sem haldið var í byrjun nóvember 2018.

Heimildir:

Anna Kristín Sigurðardóttir (29.11. 2018). Innleiðing menntastefnu og gæði skólastarfs. Sótt af: http://menntavisindastofnun.hi.is/malstofa_29_november_innleiding_menntastefnu_og_gaedi_skolastarfs_0

Edda Óskarsdóttir. (2017). Þurfum að hætta að breyta nemendum. Sótt af: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/09/25/urfum_ad_haetta_ad_breyta_nemendum/

Hanna Ragnarsdóttir og Fríða B. Jónsdóttir. (2016). Aðgengi tví- og fjöltyngdra barna að menntun á Íslandi. Í Dóra S. Bjarnason, Hermína Gunnþórsdóttir og Ólafur Páll Jónsson (ritstj.),  Skóli margbreytileikans, menntun og manngildi í kjölfar Salamanca (bls. 157-185). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Hanna Ragnarsdóttir (ritstj.). (2015). Learning spaces for inclusion and social justice: Success stories from immmigrant students and school communities in four Nordic countries. Report on main findings from Finland, Iceland, Norway and Sweden. Sótt af http://lsp2015.hi.is/sites/lsp2015.hi.is/files/sh/lsp_final_report_0.pdf.

Hargreaves, M. og Fullan, M. (2012). Professional Capital: Transforming Teaching in Every School. New York: Teachers College Press.

Nieto, S. (2010). The light in their eyes: Creating multicultural learning communities (10 ára afmælisútgáfa). New York: Teachers College Press.

Oddný Sturludóttir. (2018). Fjórða leið skólaumbóta. Frelsi til að kafa djúpt I. Sótt af: https://skolathraedir.is/2018/06/11/fjorda-leid-skolaumbota-frelsi-til-ad-kafa-djupt-i/ …

Sahlberg, P. (2017). Finnska leiðin 2.0. Hvað getur umheimurinn lært af breytingum í finnska skólakerfinu? Reykjavík: Félag grunnskólakennara.


Myndirnar með greininni eru fengnar hjá Reykjavíkurborg og eru frá stefnumótunarstarfinu.


Fríða Bjarney Jónsdóttir er deildarstýra Nýsköpunarmiðju menntamála hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Fríða er leikskólakennari í grunninn með meistaragráðu í menntunarfræðum með áherslu á fjölmenningu. Undanfarin ár hefur hún sinnt starfi sem verkefnastjóri fjölmenningar hjá leikskólum borgarinnar auk þess sem hún hefur stundað doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.


[1] Sjá um þetta t.d. þessa grein Sævars Þórs Helgason í Skólaþráðum – tímariti Samtaka áhugafólks um skólaþróun.

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp