Vinaliðaverkefnið – forvörn gegn einelti!

í Greinar

Guðjón Örn Jóhannsson

 

Vinaliðaverkefnið er forvarnarverkefni sem hefur það að markmiði að styrkja nemendur í að stuðla að góðu og traustu umhverfi í frímínútum í skólanum í gegnum skipulagða leiki. Einnig er markmið verkefnisins að hvetja til aukinnar hreyfingar nemenda og jákvæðra samskipta. Verkefnið er norskt að uppruna og í dag eru um 1400 grunnskólar í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi sem taka þátt í verkefninu.

Árskóli á Sauðárkróki er móðurskóli Vinaliðaverkefnisins hér á landi. Vinaliðaverkefnið var prufukeyrt í grunnskólum í Skagafirði árið 2012. Í framhaldi af því var allt efni þýtt og staðfært yfir á íslenskar aðstæður á vegum fræðsluþjónustu Skagafjarðar. Í dag eru 46 íslenskir grunnskólar þátttakendur í verkefninu sem þýðir að um 1500 íslenskir nemendur starfa sem vinaliðar á hverjum tíma.

Frá afhendingu hvatningarverðlauna Dags gegn einelti, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og meningarmálaráðherra, Elísa Hildur Þórðardóttir starfsmaður Vinaliðaverkefnisins, Guðjón Örn Jóhannsson verkefnastjóri Vinaliðaverkefnisins og Selma Barðdal fræðslustjóri sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Vinaliðaverkefnið hlaut hvatningarverðlaun á degi gegn einelti 8. nóvember 2018. Slík hvatning styður okkur í að breiða út boðskapinn um að verkefnið sé sannarlega kærkomin viðbót í verkfærakistur skólanna er kemur að forvörnum gegn einelti. Vinaliðar vinna gegn því að nemendur séu einir í frímínútum og hafi lítið fyrir stafni, hvetja til samveru nemenda í frímínútum og til góðra samskipta. Því til viðbótar hvetja Vinaliðar nemendur til aukinnar hreyfingar og bjóða fram jákvæða leiðtogaþjálfun til nemenda sem starfa sem vinaliðar.

Mín upplifun er sú að Vinaliðaverkefnið sé kærkomin viðbót sem forvörn gegn einelti. Tilboð um jákvæða afþreyingu á skólalóðinni skiptir gríðarlega miklu máli, að nemendur hafi eitthvað fyrir stafni í frímínútum. Nemendur vita áður en þeir hlaupa út í frímínútur hvaða leikir eru í boði, allar leikjastöðvar eru tilbúnar þegar þeir koma út og allir eru hvattir til þátttöku.

Þeir nemendur sem veljast sem vinaliðar fá mikla og jákvæða leiðatogaþjálfun. Það er ákveðin upphefð fyrir nemendur að verða valdir sem vinaliðar af nemendahópnum. Skilyrðin fyrir því að vera valinn eru einföld en skýr, viðkomandi verður að koma vel fram við alla í bekknum. Okkar reynsla, eftir þessi ár með verkefnið, er sú að allir geta fengið tækifæri til að verða vinaliðar, sumir þurfa aðeins meiri stuðning en aðrir og almennt er ekki verið að velja þá sömu aftur og aftur.

Í hverjum skóla, sem þar sem Vinaliðaverkefnið hefur verið innleitt, eru starfandi verkefnisstjórar sem halda utan um verkefnið á hverjum stað. Árskóli sér hins vegar um allar uppfærslur á efni tengt verkefninu og um leikjanámskeið fyrir vinaliða og starfsmenn skólanna sem haldin erum með mjög reglulegu millibili eða tvisvar á ári. Á þessum námskeiðum er farið í gegnum hlutverk vinaliðanna á skólalóðinni og þeim kenndir nýjir leikir og það er mikið stuð og stemning sem skapast!

Verkefnisstjóri hvers skóla er í lykilhlutverki og er sá einstaklingur sem heldur utan um verkefnið og er í reglubundnum samskiptum við þá nemendur sem starfa sem vinaliðar á hverjum tíma. Mikilvægt er að nemendur upplifi vinaliðahlutverkið á jákvæðan hátt, finnist það eftirsóknarvert og skemmtilegt. Liður í því er að fá góðar leiðbeiningar og stuðning frá verkefnisstjóra og bakland, komi eitthvað upp sem erfitt getur verið að leysa fyrir vinaliða. Verkefnisstjóri fundar reglulega með vinaliðum og á þeim fundum gefst tækifæri til skipulagningar og samræðu. Nemendur vinna einnig saman að skipulagningu, þeir hvetja og styrkja hvern annan ásamt því að allir vinaliðarnir fara saman á leikjanámskeið.

Markmið með verkefninu snúa að því að vinna gegn einelti með því að bjóða upp á jákvæða afþreyingu á skólalóðinni í frímínútum. Einnig að nemendum líði vel í sínum skóla og taki þátt í að gera skólann sinn betri. Helst af öllu myndum við vilja útrýma einelti, en á sama tíma erum við meðvituð um að það getur reynst afar erfitt. Vinaliðaverkefnið er forvarnarverkefni sem getur stutt vel við áætlanir gegn einelti í grunnskólum.

Í grunnskólum í dag er skynsamleg notkun upplýsingatækninnar ofarlega á baugi. Ein af áskorunum foreldra og skóla er að setja börnum okkar mörk er kemur að notkun snjalltækja. Samskipti, heilsa og heilbrigði eru og verða alltaf mikilvægir þættir í skólastarfi, að eiga samskipti augliti til auglitis við annað fólk, fá nægan svefn og borða næringaríkan mat og hreyfa okkur. Í vinaliðafrímínútum eiga nemendur sannarlega í samskiptum við aðra, hreyfa sig og víðast hvar er lögð áhersla á að snjalltæki séu lögð til hliðar á meðan.

Það er mitt mat að Vinaliðaverkefnið sé mjög góð viðbót við allt það góða starf sem fram fer í skólum landsins. Verkefnið er ekki flókið í framkvæmd og hægt er að innleiða það í hvaða skóla sem er án mikillar fyrirhafnar. Það hefur sýnt sig að í þeim skólum sem verkefnið hefur verið innleitt hefur árangur þess komið hratt og örugglega í ljós, nemendum til hagsbóta.

Vinaliðar úr Árskóla á Sauðárkróki.

Heimasíða verkefnisins er á þessari slóð: http://vinalidar.is/


Um höfund

Guðjón Örn Jóhannsson íþróttafræðingur er verkefnastjóri Vinaliðaverkefnisins á Íslandi. Guðjón Örn hefur starfað sem íþróttakennari í Árskóla síðastliðin níu ár og sinnt Vinaliðaverkefninu samhliða undanfarin sex ár.

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal