Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Menntamálastofnun hefur gefið út tvær rafrænar handbækur um viðkvæm álitamál í skólastarfi. Önnur ber yfirskriftina Viðkvæm álitamál og nemendur (Teaching Controversial Issues) og er einkum ætluð kennurum. Hin nefnist, Stjórnun á tímum ágreinings og átaka (Managing Controversy), og er handbók fyrir skólastjórnendur. Handbækurnar voru upphaflega unnar í tengslum við Aðgerðaáætlun um tilraunaverkefni um lýðræði og mannréttindi, í samvinnu við Evrópuráðið og Evrópska efnahagsbandalagið. Norræna ráðherranefndin styrkir íslensku útgáfuna. Handbókunum er ætlað að taka á þeim erfiðleikum sem upp kunna að koma þegar fjallað er um viðkvæm álitamál í skólum.
Hvers vegna eru viðkvæm álitamál umdeilt kennsluefni?
Viðkvæm álitamál eru mál sem valda miklum ágreiningi um gildismat og hagsmuni og oft þrætum um fyrirliggjandi staðreyndir. Þau eru gjarnan flókin og engin auðveld lausn í sjónmáli. Þau vekja sterkar tilfinningar og hafa þá tilhneigingu að skapa eða styrkja skil á milli manna og viðhalda tortryggni og vantrausti. Ef setja á þessi álitamál í skólana vakna alls kyns kennslufræðilegar vangaveltur, eins og til dæmis hvernig vernda eigi viðkvæma nemendur með ólíkan bakgrunn og menningu, hvernig koma megi í veg fyrir átök innan kennslustofunnar og hvernig kenna eigi umdeilt efni á hlutlausan hátt án þess að taka gagnrýna afstöðu. Þetta vekur einnig spurningar um faglegt frelsi og hlutverk kennara varðandi hugmyndir þeirra og skoðanir.
Viðkvæm álitamál í íslenskum skólum
Verkefnið Viðkvæm álitamál og nemendur á fullt erindi í íslenska skóla. Hlutverk framhaldsskóla er skv. 2. grein að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi.
Framhaldsskólar eiga m.a. að leitast við að efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til þekkingarleitar.
Grunnskólum er samkvæmt lögum ætlað að efla víðsýni nemenda. Í markmiðsgrein grunnskólalaga (2. gr.) segir að grunnskólinn eigi, í samvinnu við heimilin, að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem sé í sífelldri þróun. Í formála að Aðalnámskrá grunnskóla skrifaði þáverandi menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, að skólar væru í raun einu stofnanir samfélagsins sem gætu tryggt öllum uppvaxandi kynslóðum tækifæri til að búa sig undir þátttöku í virku lýðræði, þjálfa gagnrýna og skapandi hugsun og mæta ólíkum félagslegum og menningarlegum aðstæðum (apríl 2013).
Vinnubúðir í Útey, Noregi
Að íslensku útgáfunni standa Bryndís Haraldsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Linda Heiðarsdóttir og Jón Páll Haraldsson. Hópnum gafst kostur á að sækja vinnubúðir fyrir kennara, skólastjórnendur og fulltrúa skólamálayfirvalda á Norðurlöndunum um verkefnið Teaching Controversial Issues í maí 2017. Vinnubúðirnar sem voru á vegum Wergeland stofnunarinnar í Ósló voru haldnar í Útey, Noregi. Útey lætur engan ósnortinn og óhjákvæmilegt er að setja sig í spor þeirra sem voru í eynni 22. júlí 2011. Hroðaverkin í Manchester gerðust á meðan á dvölinni stóð og öllum mátti vera ljóst að sama kvöld væru skólastjórnendur í Englandi skipuleggja hvernig skólar gætu best tekið á móti nemendum sínum morguninn eftir.
Viðkvæm álitamál og nemendur, handbók fyrir kennara
Kennarahandbókinni er ætlað að hjálpa kennurum að sjá mikilvægi þess að virkja ungt fólk í umræðu um viðkvæm álitamál og efla sjálfstraust og hæfni kennara til að gera þetta að reglubundnu viðfangsefni einkum þó með því að:
- Skapa öruggt svæði, griðastað í skólastofunni þar sem nemendur geta rætt ýmis álitamál opinskátt og óhræddir.
- Nota kennsluaðferðir og leiðir sem stuðla að opinni umræðu þar sem virðing ríkir.
Viðkvæm álitamál geta komið upp á öllum skólastigum, í öllum skólagerðum og í hvaða námsgrein sem er. Viðkvæm álitamál verða hins vegar ekki eingöngu rædd innan kennslustofunnar, heldur koma þau upp annars staðar í skólanum, á göngunum, í matsalnum, á skólalóðinni og kaffistofu starfsfólks. Í handbókinni Viðkvæm álitamál og nemendur eru margar handhægar leiðbeiningar og ýmsum kennslufræðilegum spurningum sem upp kunna að koma þegar fjallað er um viðkvæm álitamál með nemendum velt upp. Eins og t.d. hvernig hægt sé að bregðast við óskum nemenda um að fá að vita hvað sé rétt eða satt þegar ekki liggja fyrir áreiðanlegar bakgrunnsupplýsingar eða hvernig hægt er að vernda og taka tillit til nemenda sem tengjast málefninu persónulega.
Stjórnun á tímum ágreinings og átaka, handbók fyrir skólastjórnendur
Handbókin Stjórnun á tímum ágreinings og átaka fyrir skólastjóra er byggð á kennarahandbókinni. Í henni eru tillögur um hvernig skólastjórar geta tekið frumkvæði í að stjórna og bregðast við viðkvæmum álitamálum innan skólans sem utan. Bókin skiptist í níu kafla. Hver þeirra fjallar um ólík svið skólastarfsins sem geta haft áhrif á það hvernig umræðum um ágreining og viðkvæm álitamál er stjórnað. Í köflunum eru dæmisögur úr evrópskum skólum og bent á gagnlegar leiðir. Í hverjum kafla eru líka spurningar sem skólastjórar geta notað til að ígrunda eigin hugmyndir og stöðu innan skólans.
Námskeið þar sem farið er yfir efni handbókanna
Flestir gera sér í hugarlund hversu vandasamt það getur verið að ræða viðkvæm, flókin og umdeild málefni við nemendur eins og til dæmis hryðjuverk, sjálfsvíg eða #metoo hreyfinguna einkum ef haft er í huga það sem segir í 13. grein grunnskólalaga að nemendur eiga rétt á því að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans.
Kennarahandbókin, Viðkvæm álitamál og nemendur, er þannig sett upp að nota megi hana í kennaramenntun og í endurmenntun fyrir kennara. Hún á því bæði að geta nýst á námskeiðum fyrir kennara og eftir atvikum sem kennsluefni. Hópurinn sem stendur að íslensku þýðingunni býður skólum upp á námskeið til að fylgja verkefninu eftir. Námskeiðið hentar bæði kennurum og skólastjórnendum á öllum skólastigum, og öllum þeim sem vilja ná tökum á því að fjalla um viðkvæm álitamál með börnum og unglingum.
Leiðbeinendur á námskeiðunum eru: Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Páll Haraldsson og Linda Heiðarsdóttir.
Áhugasamir hafi sambandi við Guðrúnu Ebbu gudrun.ebba.olafsdottir@rvkskolar.is og Lindu Heiðarsdóttur Linda.Heidarsdottir@rvkskolar.is
Um höfund
Guðrún Ebba Ólafsdóttir kennir lífsleikni og ensku við Laugalækjarskóla. Hún útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands vorið 1980 og lauk diplómanámi í starfstengdri leiðsögn vorið 2015. Guðrún Ebba var um árabil í forystu Kennarasambands Íslands, m.a. sem varaformaður en var einnig fyrsti formaður Félags grunnskólakennara. Guðrún Ebba hefur setið í fjölmörgum nefndum og ráðum og haldið námskeið og erindi. Hún stýrði nefnd sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þáverandi menntamálaráðherra skipaði til að endurskoða grunnskólalögin sem síðar voru samþykkt á Alþingi 2008. Haustið 2011 kom út saga hennar, Ekki líta undan, sem hún skráði ásamt Elínu Hirst. Guðrún Ebba situr m.a. í ráði Rótarinnar.