Lucinda Árnadóttir og Þorsteinn Hjartarson
Nýlega hélt velferðarráðuneytið opna ráðstefnu um snemmtæka íhlutun í málefnum barna þar sem áhugaverð erindi voru í boði fyrir þátttakendur. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagðist binda miklar vonir við að ráðstefnan yrði mikilvæg hvatning við upphaf þeirrar vinnu sem stjórnvöld hafa boðað um aukna áherslu á málefnum barna og fjölskyldna með samþætta þjónustu og samstarf þvert á stofnanir. Áhersla á snemmtæka íhlutun felur í sér að börn fái aðstoð og hjálp sem fyrst á lífsleiðinni og að liðsinni sé veitt áður en vandinn ágerist með skaðlegum og óafturkræfum afleiðingum. Í erindi ráðherra kom eftirfarandi fram: „Forsendur slíkrar snemmtækrar íhlutunar eru að stofnanir samfélagsins sem koma að málefnum barna leggi sig fram við að brjóta niður múra milli málaflokka, stjórnsýslustiga og stofnana og tryggja þverfaglega nálgun og samstarf allra sem bera ábyrgð gagnvart börnum.“
Greinarhöfundar, sem starfa báðir hjá skólaþjónustu Árborgar, fagna áherslum ráðherra enda hefur áhersla verið lögð á að vinna í þessum anda hér í Árborg að undanförnu. Svo að vel takist til í allri vinnu með snemmtæka íhlutun þarf að efla umræðu og þverfaglega samvinnu um málefnið og eru þessi greinarskrif innlegg í þá mikilvægu umræðu.
Rannsóknir sýna að hægt er að hafa áhrif á líðan og þroskaframvindu barns með því að bregðast sem fyrst við með viðeigandi úrræðum þegar barnið sýnir merki um frávik í þroska, námi og/eða hegðun. Síðastliðin fjögur til fimm ár hefur leiðarljósið í umbóta- og þróunarstarfi skóla og skólaþjónustu Árborgar verið að efla snemmtæka íhlutun og faglega hæfni kennara og annars starfsfólks skóla. Við höfum leitast við að huga vel að starfsþróun kennara og þar með talið umbóta- og þróunarstarfi á ýmsum sviðum. Við höfum bætt verkferla í samvinnu við skólana og félagsþjónustu sveitarfélagsins svo hægt sé að veita nemendum stuðning við hæfi. Aukin áhersla hefur verið lögð á vinnu með læsi á báðum skólastigum í góðri samvinnu við foreldra en það er liður í því að efla málskilning og orðaforða sem og að auka áhuga barnanna á bókum og lestri. Læsi er ein meginundirstaða og forsenda farsællar skólagöngu. Góð lestrarfærni stuðlar m.a. að góðum námsárangri og hefur jákvæð áhrif á samskiptahæfni og viðhorf nemenda til náms. Í læsisvinnunni hér í Árborg hefur verið unnið í anda hugmyndafræði lærdómssamfélagsins sem felur meðal annars í sér að byggja upp þétt samstarf og traust milli kennara, foreldra, skólastjórnenda og starfsfólks skólaþjónustu.
Faglegt samstarf
Í þróunarstarfi okkar höfum við meðal annars átt faglegt samstarf við ýmsa aðila bæði hérlendis og erlendis en höfum þó leitað einna mest til Þjónustumiðstöðvar Breiðholts. Þar hefur til margra ára verið unnið markvisst að því að samþætta félags- og skólaþjónustu við börn, foreldra og skóla og gera hana skilvirkari með breyttu verklagi. Þar hefur meðal annars tekist að fækka kostnaðarsömum og tímafrekum greiningum með því að stórauka áherslu á ráðgjöf, fræðslu og fjölbreytileg úrræði/námskeið fyrir börn og foreldra. Brugðist er við mismunandi þörfum barna sem fyrst og oft áður en greiningarferli er sett af stað, til dæmis við ADHD eða öðrum vanda og stundum án þess að senda börnin í greiningu. Árið 2007 enduðu 41% erinda til Þjónustumiðstöðvar Breiðholts vegna nemenda í grunnskólum í greiningarferli en í dag enda um 7% erinda í slíku ferli. Þá hefur börnum í hverfinu sem leita til göngudeildar BUGL fækkað á undanförnum fimm árum um rúmlega 50% sem er eftirtektarvert. Breytt verklag á undanförnum árum í Breiðholti sem byggir á hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar hefur því augljóslega borið árangur.
Í Erasmus-námsferð skólafólks úr Árborg til Póllands í september 2017 vakti það athygli að þeir leik- og grunnskólar sem hópurinn heimsótti lögðu áherslu á snemmtæka íhlutun. Í þeim skólum var öflug stoðþjónusta en þar voru oftast til staðar aðstoðarkennarar, talmeinafræðingar og sálfræðingar. Einnig sums staðar kennsluráðgjafar eða félagsráðgjafar. Í kynningum skólastjórnenda kom fram að þétt samstarf og gagnkvæmur stuðningur ólíkra fagaðila innan veggja skólanna skipti sköpum fyrir kennara en einnig börnin og fjölskyldur þeirra.
Breytt verklag í Árborg
Breytt verklag skólaþjónustu hefur það meginmarkmið að auka aðgengi að starfsfólki hennar og efla snemmtæka íhlutun meðal annars með fræðslu og ráðgjöf til starfsfólks skóla, nemenda og foreldra þeirra. Þannig hefur verið unnið markvisst að því að efla skólana enn frekar sem faglegar stofnanir sem geta mætt þörfum fjölbreytts nemendahóps. Áhersla hefur meðal annars verið lögð á fjölgun úrræða/námskeiða fyrir börn og foreldra á ýmsum sviðum. Um leið hefur tímafrekum greiningum sálfræðinga fækkað og þverfaglegt samstarf við félagsþjónustu og heilsugæslu verið eflt. Þrátt fyrir að enn sé langt í land að allir fagaðilar vinni þétt saman í anda snemmtækrar íhlutunar erum við að þokast í rétta átt. Allir skólar hafa stofnað lausna- eða samstarfsteymi þar sem stjórnendur og aðrir fagaðilar í skólanum leita lausna við þeim vanda sem staðið er frammi fyrir hverju sinni. Ef þörf er á frekari ráðgjöf eða íhlutun er málum vísað til nemendaverndarráðs. Þar sitja skólastjórnandi og aðrir fagaðilar innan skólans ásamt sálfræðingum, félagsráðgjafa, kennsluráðgjafa og skólahjúkrunarfræðingi. Einnig er hægt að kalla til fleiri fagaðila til ráðgjafar eins og til dæmis ráðgjafa í kennslu tvítyngdra barna og ráðgjafa frá sérdeild Suðurlands. Fundum ráðsins hefur verið fjölgað í vetur í tveimur stærstu grunnskólunum en þar er rýnt þverfaglega í hvert mál og verkefnum skipt milli fundarmanna. Þau verkefni geta m.a. verið ráðgjöf, fræðsla, þátttaka í námskeiði, hegðunarmótun, stuðningur við foreldra, aðstoð inni í bekk og beiðni um formlega greiningu. Skýringarmyndin sýnir skipulagið í grófum dráttum.
Í leikskólunum eru samráðsfundir haldnir með reglubundnum hætti með sálfræðingi, leikskólaráðgjafa, sérkennslustjóra og deildarstjórum. Í leikskólum sveitarfélagsins er öflug stoðþjónusta enda eru sérkennslustjórar til staðar í þeim öllum. Síðastliðin tvö skólaár hefur ráðgjafi í kennslu tvítyndra barna, sem starfar hjá skólaþjónustu, hitt foreldra allra tvítyngdra leikskólabarna ásamt deildarstjóra og/eða sérkennslustjóra viðkomandi skóla til að veita þeim ráðgjöf, fræðslu og upplýsingar. Þar er gagnlegu námsefni miðlað og leiðbeiningar gefnar um hvernig hægt er að styðja við nám barnanna og þroska. Fjallað er um mikilvægi móðurmálsins og almennt um tvítyngi/fjöltyngi og hlutverk foreldra í námi barnanna. Einnig er fjallað um hvernig hægt er að hvetja börnin til jákvæðrar hegðunar og samskipta. Loks er leitast við að svara spurningum frá foreldrum af erlendum uppruna um áherslur og reglur leikskóla og skólakerfið almennt. Á næstu misserum þarf að efla enn frekar allt starf í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins sem snýr að því að auka orðaforða og málþroska tvítyngdra nemenda. Það er umhugsunarefni að meira en helmingur barna af erlendum uppruna hér á landi nái ekki góðum tökum á íslenskunni þrátt fyrir að hafa verið mörg ár í leikskóla og grunnskóla. Þarna þurfum við öll að gera betur (sjá erindi Elínar Þallar Þórðardóttur 2018).
Úrræði, námskeið og þverfaglegt teymi
Fyrir rúmum þremur árum var undirritaður formlegur samstarfssamningur milli heilsugæslu Selfoss, félagsþjónustu Árborgar og skólaþjónustu. Frá þeim tíma hafa verið haldnir samráðsfundir á sex vikna fresti með aðkomu félagsráðgjafa, barnalæknis, heimilislækna, sálfræðinga og hjúkrunarfræðinga, og frá upphafi ársins 2018 hefur BUGL tekið þátt í þessum fundum í gegnum fjarfundabúnað. Allir þessir aðilar geta vísað málum í teymið þegar þörf er á þverfaglegum samráðsvettvangi vegna vanda barns að höfðu samráði við foreldra þess. Það hefur tekið sinn tíma að fínpússa þetta þverfaglega samstarf en núna eru allir sammála um mikilvægi þess. Hluti markmiða í áðurnefndum samstarfssamningi fjallar um samhæfingu úrræða fyrir einstaklinga, börn með heilsufarsleg og félagsleg vandamál og fjölskyldur þeirra. Einnig að þróa nýjar leiðir og verklag í þjónustu í Árborg við einstaklinga, börn og fjölskyldur þeirra, til dæmis með sameiginlegum námskeiðum. Þau markmið hafa náð fram að ganga og er það samstarf í raun öðrum til eftirbreytni. Hér gefur að líta nokkur fræðsluverkefni og úrræði sem hafa verið í boði en hafa þó ekki öll verið í boði á hverju ári:
- Klókir litlir krakkar ‒ námskeið fyrir foreldra ungra barna með fyrstu einkenni kvíða. Umsjón: sálfræðingar skólaþjónustu.
- Klókir krakkar ‒ kvíðanámskeið fyrir nemendur á miðstigi. Umsjón: sálfræðingar skólaþjónustu og heilsugæslu.
- Mér líður eins og ég hugsa – hugræn atferlismeðferð við þunglyndi og kvíða fyrir nemendur á unglingastigi. Umsjón: sálfræðingar skólaþjónustu og heilsugæslu.
- Uppeldi sem virkar ‒ færni til framtíðar –námskeið fyrir foreldra ungra barna; bæði á íslensku og pólsku. Umsjón: ráðgjafar frá skólaþjónustu og heilsugæslu og kennarar.
- Uppeldi barna með ADHD – námskeið fyrir foreldra. Umsjón: sálfræðingar skólaþjónustu og ráðgjafar félagsþjónustu.
- Peers námskeið fyrir börn á mið- og unglingastigi ásamt foreldrum þeirra. Ætlað börnum sem glíma við slaka félagsfærni. Umsjón: ráðgjafar á vegum félagsþjónustu.
Fleiri úrræði og námskeið hafa verið á boðstólum í Árborg sem ekki eru nefnd hér, meðal annars námskeið í samstarfi félagþjónustu, félagsmiðstöðvar og forvarnarhóps Árborgar. Þá hefur yfirsálfræðingur skólaþjónustu (annar greinarhöfunda) samið námsefni vegna kvíðafræðslu fyrir kennara og nemendur í 7.‒10. bekk og foreldra þeirra. Fræðslan verður í boði í öllum þessum bekkjum á haustönn 2018.
Fræðsla og starfsþróun
Ef takast á að vinna vel að snemmtækri íhlutun kallar það á mikla ígrundun og annað faglegt samstarf allra þeirra sem vinna með börnunum. Í Sveitarfélaginu Árborg hefur verið lögð mikil áhersla á starfsþróunarverkefni í skólunum, til að mynda hafa mörg Erasmus+verkefni verið unnin, skóladagur Árborgar hefur verið haldinn fyrir allt starfsfólk leik- og grunnskóla árið 2016 og aftur 2018. Þá hafa verið haldin námskeið, meðal annars um læsi, stærðfræði, skólaforðun, hegðunarmótun, námsmat, fjölmenningarlega kennsluhætti, foreldra og skóla, upplýsingatækni og fjölbreyttar kennsluaðferðir og heiltæka forystu/lærdómssamfélagið. Allt þetta er liður í því að efla faglega hæfni starfsfólks skóla og skólaþjónustu.
Næstu skref í þróun snemmtækrar íhlutunar
Enn er mikil þörf á að styrkja þverfaglegt samstarf fagsviða Árborgar og heilsugæslu Selfoss með það að markmiði að bregðast alltaf við sem fyrst þegar upp kemur vandi, þ.e. að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í. Því er mikilvægt að grípa snemma inn í mál barnanna og áður en þau verða barnaverndarmál. Gott aðengi að félagslegri ráðgjöf og stuðningsþjónustu stuðlar að því að vel takist til. Þannig minnkum við álag á kennara skólanna en afar mikilvægt er að hafa gott samráð við þá um hvernig málin eru unnin. Horfa þarf á styrkleika barna og ungmenna og styrkja tengslanetið, fylgja málum vel eftir og byggja upp öryggisnet í kringum foreldra. Efling stuðningsþjónustu er eitt af því sem úttektaraðilar frá Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir telja að þurfi að styrkja hér á landi, sjá nánar í Menntun fyrir alla: Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi.
Í öllu starfi með börnum og unglingum í skólum, íþróttafélögum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum þarf að leggja áherslu á virka þátttöku í skólanum og nærsamfélagi hans þar sem unnið er með styrkleika hvers og eins og virðing borin fyrir réttindum barna til að lifa eins eðlilegu lífi og kostur er. Eins og fram kom í orðum ráðherra á ráðstefnunni um snemmtæka íhlutun er afar mikilvægt að stofnanir samfélagsins, sem koma að þessu málefni, leggi sig fram við að brjóta niður múra og efla þverfaglegt samstarf og á það bæði við um stofnanir ríkis og sveitarfélaga. Það er í raun forsenda þess að hægt sé að ná góðum árangri í snemmtækri íhlutun með börnum í leik- og grunnskólum landsins.
Um höfunda
Lucinda Árnadóttir, sálfræðingur. Helstu verkefni Lucindu hjá skólaþjónustu Árborgar eru á sviði sálfræðilegra athugana, ráðgjafar, fræðslu og þverfaglegs samstarfs um málefni barna. Einnig ráðgjöf við nemendur, foreldra og kennara vegna hegðunar- og tilfinningavanda, kvíða, þunglyndis, námserfiðleika og vanlíðunar nemenda. Lucinda er með cand.psych próf frá Háskóla Íslands og hefur fengið leyfisbréf frá landlækni. Áður lauk hún MS-prófi í sálfræði með áherslu á klíníska barnasálfræði frá Háskóla Íslands. Lucinda hefur starfað sem sálfræðingur á Sálstofunni og verið stundakennari við sálfræðideild Háskóla Íslands.
Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri. Skólaþjónustan og skrifstofa fræðslusviðs heyra undir fræðslustjóra. Fræðslustjóri er yfirmaður allra skólastjóra leik- og grunnskóla í Árborg og er m.a. starfsmaður fræðslunefndar. Þorsteinn hefur kennsluréttindi í grunnskóla og framhaldsskóla, er með M.Ed.-próf í stjórnun menntastofnana frá Kennaraháskóla Íslands. Hann hefur margra ára reynslu sem kennari og skólastjóri og var framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts áður en hann tók við starfi fræðslustjóra í Árborg haustið 2011.
Heimildir og krækjur er tengjast efni greinarinnar
Árborg skoraði hátt á afmælishátíð Erasmus+
Árborgarmódelið í skólamálum – hvað gerðum við?
Ársskýrsla fræðslusviðs Árborgar 2016-2017
Erasmus á Íslandi valdi Árborgarverkefnið sem „Best practice“
Erasmus+verkefni skólaþjónustu, Álfheima og Vallaskóla (Lokaskýrsla 2017)
Erindi Elínar Þallar Þórðardóttur 2018
Fjölmenni á Skóladegi Árborgar (2016) sem heppnaðist vel
Fréttabréf fræðslusviðs Árborgar, maí 2018
Lífið er læsi – læsisstefna Árborgar
Menntun fyrir alla: Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi (Lokaskýrsla)