Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri hjá Sveitarfélaginu Árborg og Þórdís H. Ólafsdóttir, verkefnisstjóri hjá skólaskrifstofu Hafnarfjarðar
Í tengslum við umræðuna um PISA og þann samanburð sem hefur verið birtur milli átta stærstu sveitarfélaga landsins hefur margt verið ritað og rætt að undanförnu. Því hefur jafnvel verið haldið fram að bæting hjá Árborg, Hafnarfirði og Reykjanesbæ í PISA sé vegna þess að sveitarfélögin séu að vinna nánast eins í skólamálum. Einn forsvarsmanna vefritsins Skólaþráða hafði samband við fræðslustjóra til að spyrja nánar út í skólamálaáherslur Árborgar og í kjölfarið var ákveðið að skrifa grein í ritið sem gæti kynnt í stuttu máli það sem gert hefur verið í skólamálum sveitarfélagsins á undanförnum misserum. Greinarhöfundar hafa báðir tekið virkan þátt í breytingastarfinu í Sveitarfélaginu Árborg. Þorsteinn Hjartarson frá haustdögum 2011 og Þórdís H. Ólafsdóttir sem kennsluráðgjafi frá haustdögum 2013 fram undir mitt ár 2016 er hún færði sig í Hafnarfjörð. Þar tók hún við starfi verkefnastjóra í bættum námsárangri hjá skólaskrifstofu bæjarins. Greinarhöfundar eru sammála um að þeir geti ekki sagt nákvæmlega til um hvað það er sem hefur skilað bættum árangri Árborgar í PISA en bætinguna megi þó vafalaust rekja til samspils margra þátta sem hér fá nokkra umfjöllun.
Þróun skólamálanna síðustu 4–5 ár
Seinni hluta ársins 2011 var ákveðið að ráða fræðslustjóra hjá Sveitarfélaginu Árborg sem m.a. var falið að vinna að því að styrkja faglega umgjörð skólamála í samstarfi við skólastjórnendur, fræðslunefnd og fleiri hagsmunaaðila í sveitarfélaginu. Í beinu framhaldi var unnið að nýrri skólastefnu þar sem margir lögðu hönd á plóg. Hugarflugsfundir voru haldnir með foreldrum og skólaráðum og ábendingavefur var settur upp. Þar gat fólk sett fram hugmyndir sínar sem nýst gætu við gerð skólastefnunnar. Þá var hugarflugsfundur haldinn með stjórnum nemendafélaga grunnskólanna og loks var haldinn fundur með kennurum, skólastjórnendum og fulltrúum í fræðslunefnd þar sem lagt var mat á þær áherslur sem lágu fyrir frá fyrri fundum. Stýrihópur annaðist verkstjórn og samræmingarvinnu en í honum sátu Sandra Dís Hafþórsdóttir, formaður fræðslunefndar, Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, Guðbjartur Ólason, skólastjóri, og Kristín Eiríksdóttir, leikskólastjóri. Anna Kristín Sigurðardóttir, þáverandi deildarforseti á menntavísindasviði Háskóla Íslands, las stefnudrögin yfir og kom með góðar ábendingar.
Úttekt var gerð á skólaþjónustu sveitarfélagsins sem var á þeim tíma í höndum Skólaskrifstofu Suðurlands. Trausti Þorsteinsson, dósent við Háskólann á Akureyri, var ráðinn í þá vinnu en hann fékk Gunnar Gíslason fyrrverandi fræðslustjóra, með sér í verkefnið. Þeir félagar skoðuðu ýmis gögn, tóku rýnihópaviðtöl og unnu þétt með vinnuhópi sveitarfélagsins sem hafði það hlutverk að móta framtíðarsýn fyrir skólaþjónustuna. Niðurstöður má sjá í skýrslu á vefnum en lokaniðurstaða fræðslu- og bæjaryfirvalda í Árborg varð sú að fela fræðslustjóra að vera yfirmaður allrar skólaþjónustu við leik- og grunnskóla og stjórnkerfis skólanna um leið og fræðslusvið væri eflt í samræmi við nýjar og breyttar áherslur. Þannig væri auðveldara að efla samráð í skólamálum og fleiri tækifæri byðust skólastjórum, kennurum og foreldrum til að hafa áhrif á uppbyggingu skólaþjónustunnar. Þær áherslur voru í góðu samræmi við nýja skólastefnu Árborgar sem tók gildi á vordögum 2013. Þar er meðal annars lögð áhersla á sterk tengsl skólanna og ýmissa aðila í nærsamfélagi þeirra, talið var mikilvægt að sameina skólastjórnendur, starfsfólk og helstu hagsmunaaðila í sterka liðsheild sem stefndi í sömu átt.
Hvað var gert til að styrkja liðsheildina?
Í kjölfarið var farið í ýmsar breytingar, efnt var til námskeiða, samráðsfunda skólastjórnenda og starfsfólks skólaþjónustu og stofnaðir faghópar. Allt hefur þetta stuðlað að auknu faglegu samstarfi milli leikskóla, grunnskóla og skólaþjónustu og hefur meðal annars skilað sér í nýju verklagi í kringum vinnu með mál og læsi bæði í leik- og grunnskólum. Víkjum nú aðeins að upphafi þeirrar vegferðar.
Þegar horft var á megináherslur í skólastefnu Árborgar 2013–2016 lá beint við að nýta hugmyndafræði lærdómssamfélagsins (e. professional learning community) í uppbyggingu nýrrar skólaþjónustu þar sem margir kæmu að málum er gætu tekið að sér faglega ábyrgðarskyldu. Byggja þurfti upp traust og samstarfshugsun meðal skóla sveitarfélagsins, skólaþjónustu og fræðsluyfirvalda, en nokkur ágreiningur hafði verið uppi um formgerðarbreytingar á skólaþjónustunni. Lykilhugtök í þeirri nálgun voru dreifð forysta, styðjandi samvinna, traust og starfsþróun. Nýjar áherslur í skólamálunum snerust meðal annars um samstarf um lausnir á forsendum hvers skóla þar sem horft væri enn meira á þróun starfshátta. Breytingar á skólastarfinu standa alltaf og falla með kennurum og skólastjórnendum. Að efla samábyrgð skóla, foreldra, skólaþjónustu og fræðsluyfirvalda sveitarfélagsins skiptir því sköpum í allri skólaþróun og þar með talið fyrir bættan námsárangur og líðan nemenda.
Heiltæk forysta – aukin gæði í skólastarfi – lærdómssamfélagið
Þegar unnið var að undirbúningi nýrrar skólaþjónustu á haustdögum 2013 var ákveðið að leita í smiðju Önnu Kristínar Sigurðardóttur, þáverandi deildarforseta á menntavísindasviði HÍ, sem skipulagði og hélt utan um námskeiðið Heiltæk forysta – aukin gæði í skólastarfi Árborgar í samstarfi við Þórdísi H. Ólafsdóttur sem þá var nýráðin í starf kennsluráðgjafa. Allir skólastjórnendur grunnskóla og leikskóla tóku þátt í námskeiðinu en einnig skólameistari FSu sem tók með sér tvo góða samstarfsmenn. Með þátttöku FSu var stutt enn frekar við faglegt samstarf allra skóla og skólastiga í Árborg. Markmið námskeiðsins var að efla faglegan styrk stjórnenda til að leiða þróun skólastarfs til betri árangurs með áherslu á samvirkni bæði innan skóla og á milli þeirra. Áhersla var á að stjórnendur efldu tengsl sín á milli og nýttu samtakamáttinn í þróunarstarfi. Sameiginlegur ásetningur var bætt menntun í sveitarfélaginu sem heild. Skólastefna Árborgar 2013-2016 var útgangspunktur á námskeiðinu.
Meðal þess sem fjallað var um:
- Hugtök eins og heiltæk forysta, skóli sem lærdómssamfélag, valdefling og teymisvinna
- Stefnumótun og forgangsröðun verkefna
- Að leiða breytingar
- Áætlunargerð og mat á verkefnum
Þátttakendur voru sammála um að námskeiðið hefði skilað miklu en þar gafst gott tækifæri til samstarfs og ígrundunar þar sem fagleg ábyrgð var mikil sem og skapandi og lausnamiðuð hugsun. Á námskeiðinu var leitað leiða til að þróa samstarfsverkefni þvert á skóla og skólastig og leggja rækt við samstarfsmenningu sem hvetur til stöðugs náms meðal starfsfólks skólanna í þeim sameiginlega tilgangi að styrkja nám barnanna í Árborg. Hugmyndagrunnur námskeiðsins byggðist á heiltækri nálgun til skólaumbóta og í fyrirlestrum Önnu Kristínar kom fram að þar gilti ekkert „quick fix“ því venjulega þarf þrjú til fimm ár áður en árangur kemur í ljós (Anna Kristín Sigurðardóttir, 2013). Nú þegar börnin í Árborg eru að bæta sig í PISA, vinna með mál og læsi er að skila mælanlegum árangri og faglegt samstarf milli skóla og skólastiga í sveitarfélaginu að eflast verulega, er ljóst að þau orð áttu við rök að styðjast.
Þróunar- og samstarfsverkefni um mál og læsi
Nokkur samstarfsverkefni urðu til á stjórnendanámskeiðinu, Heiltæk forysta – aukin gæði í skólastarfi Árborgar, skólaárið 2013–2014. Tvennt stóð þó líklega upp úr, annars vegar sameiginleg ákvörðun leikskólastjóra að sækja um myndarlegan styrk í Sprotasjóð til að vinna markvisst með mál og læsi í öllum leikskólum sveitarfélagsins, hins vegar samstarf Þórdísar H. Ólafsdóttur, kennsluráðgjafa, við nokkra kennara, skólastjórnendur í Árborg og við Gyðu M. Arnmundsdóttur í Reykjanesbæ, um breytt verklag í vinnu með læsi í grunnskólum sveitarfélagsins. Skólarnir suður með sjó höfðu þegar á þessum tíma sýnt miklar framfarir í námi og kennslu meðal annars með því að nota markvisst bestu mögulegu skimunartæki, greina vel niðurstöður og vinna áfram með þær þannig að nemendur sýndu góðar framfarir í lestri og öðru námi.
Fyrstu skrefin sem lögðu grunn að nýju verklagi með læsi í grunnskólum Árborgar voru svo stigin á vordögum 2014. Þau skref færðu góð rök fyrir að hefja markvissa og samræmda vinnu í öllum grunnskólunum. Sú ákvörðun var tekin á samráðsvettvangi skólastjórnenda, fræðslustjóra og starfsfólks skólaþjónustu. Sama vor fóru skólastjórnendur í Árborg og starfsfólk skólaþjónustu í heimsókn í Reykjanesbæ þar sem afar vel var tekið á móti hópnum, m.a. með kynningu á áherslum bæjarins í skólamálum. Síðar komu svo stjórnendur og starfsfólk skólaþjónustu Reykjanesbæjar í heimsókn í Árborg og því var kominn góður grunnur að faglegu samstarfi þessara tveggja sveitarfélaga. Leituðu sveitarfélögin óhikað hvort í annars smiðju þótt þau væru ekki að innleiða sömu kennsluhættina. Þróun skólamála í Árborg byggðist ekki á miðlægum áherslum þó að skólastefna sveitarfélagsins væri vegvísir eða rammi fyrir helstu áherslur. Síðastliðin fjögur til fimm ár hefur meginstefnið verið sameiginleg ígrundun og gagnkvæmur stuðningur í skólasamfélaginu.
Árangursríkt læsi í leikskólum Árborgar
Eins og áður segir sóttu leikskólarnir um myndarlegan styrk í Sprotasjóð til að vinna að þróunarverkefni skólaárið 2014–2015 sem hefði það að meginmarkmiði að auka hæfni og þekkingu barna í læsi. Það var ánægjulegt að styrkumsóknin skyldi fá jákvæða afgreiðslu. Dr. Anna Magnea Hreinsdóttir, þáverandi leikskólafulltrúi í Garðabæ, tók að sér verkefnastjórn og í ágúst 2014 var haldin ráðstefna fyrir allt starfsfólk leikskóla í Árborg á starfsdegi þeirra. Eftir ávarp fræðslustjóra fjallaði Edda Björgvinsdóttir um gleði og húmor og mikilvægi starfsgleði. Því næst kynnti Anna Magnea Hreinsdóttir verkefnið og ræddi útgangspunkt þess; að starfsþróun kennara væri í þeirra eigin höndum og að talið sé að þróunarverkefni eins og hér um ræðir séu til þess fallin að efla vald kennara og annars starfsfólks. Meginstef þróunarverkefnisins var í anda hugmyndafræði lærdómssamfélagsins enda var öll vinnan um veturinn og samstarf milli leikskólanna í þeim anda. Unnið var að þróun daglegra og markvissra sögu- og samræðustunda með áherslu á aukinn hlustunar- og málskilning, orðaforða, hugtakaskilning og tjáningu, einnig með ýmis verkefni sem tengjast daglegu lífi barnanna. Þá var leitast við að fræða foreldra leikskólabarna og styðja þá í hlutverki sínu í málörvun. Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur, var fengin til að vera með fræðslu um málörvun og snemmtæka íhlutun, en skólar og skólaþjónusta hafa lagt aukna áherslu á að grípa sem fyrst inn í ef merki eru um einhvern vanda. Hægt er að nálgast lokaskýrsluna á vefsvæði Árborgar, sjá nánar í Árangursríkt læsi í leikskólum Árborgar.
![Unnið með læsi í leikskólanum Álfheimum](https://skolathraedir.is/wp-content/uploads/2017/01/Arborg_lestur.jpg)
Nýtt verklag í grunnskólum Árborgar
Þegar ákveðið var formlega á samstarfsfundi vorið 2014 að nota markvisst bestu mögulegu skimunartæki í grunnskólum sveitarfélagsins til að meta lestrarhæfni nemenda, þurfti auðvitað að ræða hvað ætti að gera við niðurstöður skimana, hvernig standa ætti að kynningu á niðurstöðum og hvernig hægt væri að nota þær til að styrkja nám og námsumhverfi nemenda á forsendum hvers og eins. Sjálfstraust nemenda er ein af miklvægustu námsundirstöðunum og því þurfti að passa vel að veikleikar nemenda væru ekki miðpunktur aðgerða. Ákveðið var að setja af stað hraðlestrarnámskeið í beinu framhaldi af LOGOS skimun og þá var mikilvægt að kynna vel fyrir nemendum hvaða gagn þeir gætu haft af þessum skimunum og lestrarnámskeiðum, sérstaklega þeim nemendum sem höfðu þörf fyrir námskeið. Ekki var nóg að horfa á tölulegar niðurstöður skimana heldur var lögð áhersla á öflugt samstarf skólastjórnenda, kennara, nemenda, foreldra og starfsfólks skólaþjónustu. Það samstarf skyldi styrkja sameiginlega ábyrgð hópsins á námi nemenda og bættum námsárangri í anda hugmyndafræði lærdómssamfélagsins. Einnig var stofnaður faghópur grunnskólanna og skólaþjónustu um læsi þar sem gafst tækifæri til faglegrar umræðu og þar skapaðist vettvangur fyrir gagnkvæman stuðning og miðlun á reynslu.
Hið nýja verklag var í fyrstu á þann veg að nota skimunartækið Leið til læsis í 1. bekk og LOGOS skimun í 3., 6. og 9. bekk. LOGOS er tölvutækt greiningarpróf sem er grundvallað á nýlegum rannsóknum á lestrarfærni. Skólaárið 2014‒2015 lögðu kennsluráðgjafar og sérkennarar við skólana LOGOS skimun fyrir og kennsluráðgjafar unnu úr niðurstöðum sem voru svo kynntar fyrir skólastjórnendum og kennurum viðkomandi árganga. Þessir fagaðilar ákváðu saman hvernig staðið skyldi að lestrarnámskeiði fyrir þá nemendur sem á þurftu að halda. Upplýsingabréf var sent til foreldra þar sem skimunarniðurstöður voru kynntar og LOGOS greiningartækið útskýrt nánar. Mikil áhersla var lögð á lestrarþjálfun heima og í skóla, einkum hjá þeim nemendum sem fóru á átta vikna lestrarnámskeið í kjölfar skimunar. Eftir lestrarnámskeiðið var skimað aftur og ánægjulegt var að sjá miklar framfarir hjá nemendum. Starfið miðar fyrst og fremst að því að bæta námsárangur nemenda, styrkja kennara í starfi og vinna vel með foreldrum. Þeir nemendur í Árborg sem tóku PISA 2015 höfðu einmitt farið í LOGOS skimun í 9. bekk og hluti þeirra fór í kjölfarið á lestrarnámskeið sem skilaði góðum framförum hjá þeim. Meðfylgjandi myndir sýna að framfarir geta verið góðar eftir átta vikna lestrarnámskeið sem vel er staðið að.
Verkefnið hefur svo þróast vel að undanförnu og nú er svo komið að hver skóli sér að mestu um framkvæmd læsisskimana og skipulag lestrarnámskeiða en kennsluráðgjafi kemur meira að faglegu samstarfi, ráðgjöf, tölfræðilegri úrvinnslu og greiningu á niðurstöðum fyrir sveitarfélagið. Allir skólar Árborgar nýta markvisst Lesferil sem er hið nýja lesskimunartæki sem Menntamálastofnun hefur smíðað. Þá hefur verið lögð meiri áhersla á að nýta niðurstöður samræmdra prófa sem skimunartæki bæði í íslensku og stærðfræði. Með nýjum upplýsingagrunni Menntamálastofnunar verður öll slík vinna mun auðveldari og fljótlegri.
Lífið er læsi
Unnið var af fullum krafti að gerð læsisstefnu Árborgar skólaárið 2015–2016 af faghópum leik- og grunnskóla og skólaþjónustu. Það verklag og þróunarstarf sem fjallað var um hér að framan var að sjálfsögðu megingrunnur læsisstefnunnar sem hefur fengið heitið Lífið er læsi. Grunnurinn var einnig Hvítbók um umbætur í menntun og Þjóðarsáttmáli um læsi sem gerður var í september 2015 milli mennta- og menningarmálaráðherra, Sveitarfélagsins Árborgar og Heimilis og skóla, landsamtaka foreldra. Fulltrúar Árborgar tóku virkan þátt í undirbúnings- og samráðsfundum þegar unnið var að gerð Hvítbókar skólaárið 2013–2014. Í læsisstefnu Árborgar, sem þegar hefur verið samþykkt af fræðslunefnd, er fjallað um megináherslur og markmið í læsi. Hver skóli útfærir leiðir með fjölbreytilegum og einstaklingsmiðuðum kennsluaðferðum. Sett eru fram ýmis viðmið um málþroska, hljóðkerfisvitund, orðaforða, leshraða og lesskilning. Lögð er áhersla á að foreldrar taki virkan þátt í námi barna sinna í samvinnu við skólana og foreldrafélögin í Árborg með það að leiðarljósi að vinna að jákvæðri skólaþróun, aukinni velferð nemenda og stuðla að besta mögulega námsárangri nemenda.
Það var gleðilegt og ákveðin viðurkenning fyrir alla sem hafa komið að þróun skólamálanna í Árborg að nýr læsissáttmáli Heimilis og skóla var kynntur við hátíðlega athöfn í Vallaskóla á Selfossi 1. september 2016. Frétt um viðburðinn er aðgengileg á heimasíðu Árborgar.
Framangreint verklag í leik- og grunnskólum auðveldaði gerð læsisstefnunnar, sem enn er í formi draga, en ákveðið var að bíða með útgáfu hennar þar til lesfimiviðmið Menntamálastofnunar væru komin. Hrund Harðardóttir, kennsluráðgjafi, vinnur nú að lokafrágangi í samstarfi við hóp áhugafólks um lestur. Hrund mun meðal annars kynna nýja útgáfu á fundi fræðslunefndar í janúar 2017.
Fjölbreytileg þróunarverkefni í anda lærdómssamfélagsins
Hér næst alls ekki að fjalla um öll þau umbóta- og þróunarverkefni sem hafa verið unnin í skólum og skólaþjónustu Árborgar á undanförnum árum. Eitt þeirra er samstarfsverkefni heilsugæslu, félagsþjónustu og skólaþjónustu þar sem sálfræðingar koma mikið við sögu, meðal annars með námskeiðahaldi fyrir börn, foreldra og starfsfólk. Þá hefur aukin áhersla á ráðgjöf og ýmis verkefni er tengjast námi og kennslu tvítyngdra barna ekki fengið neina umfjöllun að þessu sinni. Þó er ekki hægt ljúka þessari samantekt án þess að fjalla um þrjú verkefni sem snúa beint að eflingu starfshátta í leik- og grunnskólum. Fyrir þá sem vilja lesa meira um þessi verkefni og fleiri til er vísað í ársskýrslur fræðslusviðs sem eru aðgengilegar á Netinu ásamt öðru efni.
Erasmus+ verkefnið Nám, störf og lærdómssamfélag, sem var samstarfsverkefni grunnskóla sveitarfélagsins og skólaþjónustu skólaárið 2015‒2016, hefur breytt miklu fyrir skólasamfélag Árborgar. Verkefnið hefur stuðlað að skýrari sýn skóla og skólaþjónustu. Það hefur styrkt faglega skólamálasamræðu þar sem hugmyndum og aðferðum um betri kennslu, starfshætti og skólaþjónustu er miðlað. Það á ekki síst við gagnvart undirbúningi og framkvæmd Skóladags Árborgar, sem haldinn var í apríl 2016 fyrir allt starfsfólk leik- og grunnskóla. Nokkrir sem leiddu undirbúningsvinnuna tóku einnig þátt í Erasmus+ verkefninu.
![Undirbúningshópurinn](https://skolathraedir.is/wp-content/uploads/2017/01/Undirbuningshopurinn.jpg)
Allt skipulag Skóladagsins byggðist á hugmyndafræði lærdómssamfélagsins þar sem litið er svo á að skólastarf sé ekki hægt að þróa í einangrun. Góður árangur næst með nemendum okkar ef við hjálpum hvert öðru og erum tilbúin að deila góðum hugmyndum, þekkingu og reynslu. Erasmus+ verkefnið auðveldaði m.a. gerð umsóknar í Sprotasjóð fyrir stórt þróunarverkefni skólaárið 2016‒2017 sem nefnist Námsmat á mörkum skólastiga í Árborg. Verkefnið hlaut náð fyrir augum sjóðsstjórnar enda er um að ræða samstarfsverkefni allra leikskóla og grunnskóla sveitarfélagsins og Fjölbrautaskóla Suðurlands. Verkefnastjóri er Rúnar Sigþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Verkefnið beinist að því að þróun námsmats geti stuðlað að samfellu milli skólastiga með það að meginmarkmiði að bæta námsaðstæður, nám og árangur nemenda. Í hverjum skóla hefur verið stofnuð þróunarstjórn sem veitir verkefninu forystu, er samhæfingaraðili og veitir kennurum stuðning. Þróunarstjórnir allra skólanna koma saman þrisvar til fjórum sinnum yfir skólaárið til að bera saman bækur sínar og skiptast á reynslusögum. Í öllum skólunum er leitast við að bæta námsaðstæður nemenda og námsárangur, einnig að efla þekkingu og hæfni kennara á sviði námsmats og styrkja samspil náms, kennslu og námsmats sem stuðli að hæfni skólanna til varanlegra breytinga. Starfsþróun kennara og þróun skólamenningar í átt til lærdómssamfélaga er afar stór þáttur í þróunarverkefninu.
Að lokum
Eins og nefnt var í inngangsorðum var tilefni þessa greinarskrifa bæting Árborgar í PISA og fréttaflutningur í kjölfarið um það hvernig sveitarfélagið hefur verið að vinna að þróun skólamálanna. Frá árunum 2012–2013 hafa skólamálin verið í mikilli deiglu og mörg metnaðarfull umbóta- og þróunarverkefni hafa verið unnin í Árborg. Áhersla hefur verið lögð á góða líðan og þarfir barnanna og árangur á öllum sviðum. Þáttur foreldra er stór en þar hefur einnig verið unnið í anda hugmyndafræði lærdómssamfélagins, meðal annars með stofnun Samborgar sem eru samtök foreldrafélaga í Árborg. Samtökin voru tilnefnd til foreldraverðlauna Heimilis og skóla í maí 2016. Ein aðalástæðan fyrir stofnun Samborgar var að efla samstarf á milli foreldrafélaganna í sveitarfélaginu börnunum til hagsbóta. Það er í takt við þær áherslur sem fjallað hefur verið um í þessari grein. Í öllu okkar starfi megum við aldrei missa sjónar af því að börnin og þarfir þeirra eiga alltaf að vera í brennidepli þegar áherslur eru lagðar í námi, kennslu og skólaþjónustu.
„Nám á ekki að vera eins og fata sem fyllt er af vatni heldur á nám að snúast um hvernig við fáum neistann til að loga svo úr verði eldur“
Heimildir og krækjur
- Anna Kristín Sigurðardóttir. (2013). Skólinn sem lærdómssamfélag. Rúnar Sigþórsson, Rósa Eggertsdóttir og Guðmundur Heiðar Frímannson (ritstjórar). Skólastarf í ljósi fagmennsku bls. 35-54. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
- Árangursríkt læsi í leikskólum Árborgar (lokaskýrsla)
- Árborg bætir sig í PISA
- Ársskýrsla fræðslusviðs 2014‒2015
- Ársskýrsla fræðslusviðs 2015-2016
- Ársskýrsla skólaþjónustu 2013–2014
- Erasmus á Íslandi valdi Árborgarverkefnið sem „Best practice“
- Fjölmenni á Skóladegi Árborgar sem heppnaðist vel (frétt)
- Fréttabréf fræðslusviðs fyrir haustönn 2016
- Fréttabréf fræðslusviðs í apríl 2016
- Fréttabréf fræðslusviðs í maí 2016
- Fyrirlestrar á Skóladegi Árborgar
- Hargreaves, A. og Fullan, M. (2012). Professional Capital. Routledge: Teachers College, Columbia University.
- Heiltæk forysta – aukin gæði í skólastarfi Árborgar
- Hvítbók um umbætur í menntun
- Lestur í grunnskólum Árborgar 2014−2015 ― minnisblað Þórdísar H. Ólafsdóttur, kennsluráðgjafa
- Menntabúðir á Skóladegi Árborgar
- Nýjar leiðir í Árborg sem efla lestrarfærni barna og unglinga
- Nýr læsissáttmáli Heimilis og skóla kynntur við hátíðlega opnun í Árborg
- Nýtt samkomulag heilsugæslu Selfoss, skólaþjónustu og félagsþjónustu Árborgar
- Samborg var tilnefnd til foreldraverðlauna Heimilis og skóla
- Skólastefna Árborgar 2013−2016
- Skólaþróun í Árborg – efling lærdómssamfélagsins
- Skýrsla (Erasmus+) um námsferð faghóps Árborgar um nám og starf til Glasgow
- Skýrsla (Erasmus+) um námsferð faghóps um lærdómssamfélag Árborgar til Glasgow
- Skýrsla (Erasmus+) um námsferð faghóps um upplýsingatækni til Danmerkur og Svíþjóðar
- Viðtal við fræðslustjórann í Árborg um PISA í Suðra – Héraðsfréttablaði (22. desember 2016 – bls. 8-9)
- Þórdís H. Ólafsdóttir; Sjálfstraust nemandans er lykillinn á námi – skimanir sem stuðningur við nám nemenda