Útvarp Óðal 101,3: Jólaútvarp nemenda í Grunnskólanum í Borgarnesi

í Greinar

kristin_m_valgardsdottirKristín M. Valgarðsdóttir, deildarstjóri, Grunnskólanum í Borgarnesi

Útvarp Óðal 101,3, jólaútvarp Nemendafélags Grunnskólans í Borgarnesi, er árviss viðburður á aðventunni og ómissandi liður í jólaundirbúningi í Borgarbyggð.  Útsendingar standa yfir í fimm daga og er það orðinn fastur liður í lífi margra  Borgnesinga að hlusta á ungmennin flytja efni af ýmsum toga meðan þeir vinna að jólaundirbúningnum eða sinna vinnu sinni. Síðustu ár hefur einnig verið sent út á netinu þannig að hvar sem er í veröldinni má hlusta á útvarpið. Fm Óðal hefur góðan hlustendahóp en samkvæmt hlustendakönnun sem gerð var árið 2012 hlustuðu 90% íbúa í Borgarnesi á þætti í jólaútvarpinu.

Jólaútvarpið hefur verið starfrækt frá árinu 1992 og hóf það göngu sína í félagsmiðstöðinni Óðali en hefur frá upphafi verið samstarfsverkefni skólans og félagsmiðstöðvarinnar. Indriði Jósafatsson, þáverandi íþrótta- og æskulýðsfulltrúi, átti hugmyndina  og í upphafi var sent út í tvo daga með töluvert styttri dagskrá en nú og allt í beinni útsendingu. Jólaútvarpið er nú alfarið á ábyrgð grunnskólans og Nemendafélags Grunnskólans í Borgarnesi en síðustu ár hefur nemendum úr  8.–10. bekk Grunnskóla Borgarfjarðar og Laugagerðisskóla einnig verið boðið að flytja þætti í útvarpinu auk þess sem nemendur í Menntaskóla Borgarfjarðar hafa tekið þátt.

Dagskráin hefst á mánudegi kl. 10.00 með ávarpi útvarpsstjóra sem yfirleitt er formaður nemendafélagsins. Síðan tekur við þétt og góð dagskrá sem samanstendur m.a. af  hljóðrituðum þáttum, fréttum og viðtölum. Daglega hefst útvarpið á þáttum fyrir yngstu hlustendurna, síðan eru fluttir þættir og leikin tónlist sem höfðar til þeirra sem hlusta í vinnunni eða heima við. Á kvöldin taka svo við þættir sem höfða einkum til ungs fólks.

Í Grunnskólanum í Borgarnesi eru allir nemendur skólans þátttakendur  í verkefninu og tekur undirbúningur jólaútvarpsins þrjár til fjórar vikur. Nemendur yngri bekkja gera sameiginlegan bekkjarþátt og fær hver  bekkur úthlutað einum klukkutíma til útsendingar. Þátturinn er hljóðritaður fyrirfram og vinna nemendur undir styrkri leiðsögn kennara sinna sem leggja á sig töluverða vinnu við undirbúninginn. Hér er um fjölbreytta þætti að ræða sem byggjast upp á töluðu máli og söng. Það er alltaf ákveðin eftirvænting og spenna í loftinu meðal nemenda á meðan þátturinn þeirra er sendur út, bekkurinn hlustar saman og enginn má missa af því að hlusta á sjálfan sig og bekkjarfélagana tala eða syngja í útvarpið.  

upptokur_i_3_bekk
Nemendur í 3. bekk við upptökur.

Nemendum í 8.10. bekk gefst kostur á að vera með þátt í beinni útsendingu.  Enginn fær þó að fara óundirbúinn í beina útsendingu, allir verða að skila inn handriti til kennara. Undirbúningur þáttanna fer allur fram í skólanum, íslenskukennarar bekkjanna stýra þeirri vinnu og er jólaútvarpið sérstakur liður í íslenskunáminu. Allir gera handrit hvort sem þeir fara í útvarp eða ekki og er lögð mikil vinna í upplýsingaöflun og gerð handritanna. Nemendur fá ákveðnar leiðbeiningar um hvernig staðið skal að handritsgerð og vinna gjarnan tveir til þrír saman. Handritsgerðin er nákvæmnisvinna og þar er einnig skráð sú tónlist sem leika á og  þátturinn tímamældur. Áhersla er lögð á gott og vandað málfar og kennarar lesa handrit yfir áður en farið er í útsendingu og fara þá fram á lagfæringar ef þörf er á. Handrit eru síðan metin til einkunna í íslenskunáminu ásamt flutningi nemenda á efni þáttarins. Umfjöllunarefnin eru mjög fjölbreytt, íþróttir, tónlist, spurningakeppni, tekin eru viðtöl og hvað annað sem vekur áhuga. Hápunkturinn hjá mörgum er síðan að fara í beina útsendingu og eiga margir fyrrum nemendur góðar minningar um þann viðburð.

taeknimenn_ad_stofrum
Tæknimenn að störfum.

Nemendur sjá einnig um fréttaflutning og í hádeginu er tekinn púlsinn á bæjarlífinu, fluttar fréttir dagsins ásamt íþróttafréttum. Hápunktur fréttastofunnar er síðan þátturinn „Bæjarmálin í beinni“sem er sendur út í hádeginu síðasta útsendingardaginn og enginn má missa af. Þar mæta góðir gestir til viðræðna við fréttamennina, til dæmis fulltrúar sveitarstjórnar, bæjarstjóri, gestir úr atvinnulífinu og íþrótta- og menningargeiranum. Mál nærsamfélagsins eru þá rædd í þaula og marvísleg mál jafnvel gerð upp í þættinum. Þar  gefa fréttamennirnir ungu ekkert eftir.

Fastur liður í jólaútvarpinu eru auglýsingar en mörg fyrirtæki í sveitarfélaginu styrkja útsendingu útvarpsins með því að kaupa auglýsingar sem fluttar eru á milli þátta. Nemendur sjá  um að semja auglýsingarnar og flytja þær á fjölbreyttan hátt með lestri, leik og söng. Margar hverjar eru þær mjög skemmtilegar og vel gerðar og setja skemmtilegan og líflegan svip á jólaútvarpið. Síðasta útsendingarkvöldið er síðan hátíð fyrir alla þá sem komu að útvarpinu og fagnað að loknu vel unnu verki.

Hitann og þungann af vinnu við undirbúning og útsendingar útvarpsins ber stjórn Nemendafélags Grunnskólans í Borgarnesi ásamt tæknimönnum sem sjá um tæknimál, bæði við upptöku þátta yngri bekkja og í beinni útsendingu þátta eldri nemenda. Það krefst mikillar vinnu og leggja krakkarnir nótt við dag til þess að láta allt ganga upp. Ekki er hægt að segja annað en að mikið og fjölbreytt nám fari fram við framkvæmd þessa verkefnis, nám fyrir tæknimenn, nám í íslensku, handritsgerð og framsögn og þjálfun í að koma fram. Auk þess sem hér er um mjög skemmtilegt verkefni að ræða sem setur sterkan svip á bæjarlífið og jólaundirbúninginn.

upptokur_i_4_bekk
Nemendur í 4. bekk taka upp efni.

Jólaútvarpið er sent út á tíðninni 101,3 dagana 12.16. desember frá kl. 10.00 23.00 alla daga. Netútsendingar má nálgast á www.grunnborg.is. Dagskránni er dreift í öll hús í Borgarnesi auk þess sem hún er birt í héraðsfréttablöðunum Skessuhorni og Íbúanum og á www.grunnborg.is. Jólaútvarpið er einnig á Facebook undir FM Óðal 101,3. Hér má hlusta á útsendingu frá árinu 2015 https://borgarnes.wordpress.com/jol/jolautvarp-2015/


Kristín M. Valgarðsdóttir er deildarstjóri, Grunnskólanum í Borgarnesi


Grein birt 10.12.2016

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal