námsmat

„Í skólum þar sem áhersla er á leiðsagnarnám er rík jafningjamenning“ Viðtal við Ívar Rafn Jónsson

4. ágúst, 2023

Ingvar Sigurgeirsson ræðir við Ívar Rafn Jónsson

Föstudaginn 13. maí 2022 varði Ívar Rafn Jónsson doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands. Ritgerðina nefndi hann: Námsmatsmenning skiptir máli: Upplifun kennara og nemenda af námsmati og endurgjöf.

Ívar Rafn stundaði nám í sálfræði við Háskóla Íslands og lauk BA gráðu í þeirri grein 1998. Hann lauk kennsluréttindanámi frá sama skóla 2006 og meistaranámi í kennslufræðum 2010. Hann kenndi við Borgarholtsskóla 2006‒2012 en flutti sig síðan í Framhaldsskólann í Mosfellsbæ 2011 og kenndi þar til 2020. Ívar Rafn réðst til Háskóla Íslands 2018 og gegndi þar aðjúnktstöðu. Hann hefur nú verið ráðinn lektor við Háskólann á Akureyri. 

Ég naut þeirra forréttinda að sitja í doktorsnefnd Ívars Rafns, sem fyrst hafði vakið athygli mína þegar hann skrifaði grein í Netlu 2008 sem bar heitið „Að virkja sjálfstæða hugsun nemenda“. Sálfræðikennari rýnir í sjálfan sig (sjá hér). Ég leyni því ekki að þessi grein, var og er ein af uppáhaldsgreinum mínum í Netlu, en þar segir hann frá starfendarannsókn sem hann gerði og beindist að því að kveikja áhuga nemenda á námi með fjölbreyttum kennsluaðferðum.

Ívar Rafn birti 2015 aðra grein í Netlu, sem hann skrifaði með samkennara sínum, Birgi Jónssyni, um og fjallar um aðferð sem þeir beittu til að bæta leiðsagnarmat í áföngum sínum sem þeir kenndu í FMOS með aðferðum sem þeir kenndu við Vörðuvikur og byggðust á því að taka viðtöl við nemendur þar sem áherslan er lögð á nemandi og kennari eigi samtal um námið og kennsluna.

Ívar Rafn hóf doktorsnám árið 2015 og ákvað að helga það leiðsagnarnámi. Í tengslum við doktorsverkefni sitt birti hann þrjár fræðigreinar í viðurkenndum vísindatímaritum, sjá hér

Eftirfarandi viðtal unnum við Ívar með þeim hætti að ég sendi honum spurningar sem hann svaraði og hann fékk líka umboð til að setja fram eigin spurningar. Textann höfðum við á svæði sem báðir höfðu aðgang að og smám saman tók textinn á sig þá mynd sem hér birtist. (meira…)

Leiðsagnarnám. Hvers vegna, hvernig, hvað?

Nanna K. Christiansen

Ný bók Leiðsagnarnám. Hvers vegna, hvernig, hvað? er væntanleg eftir miðjan apríl. Höfundur er sú sem þetta ritar.

Eins og nafnið ber með sér er umfjöllunarefnið leiðsagnarnám. Fjölmargar erlendar bækur hafa verið skrifaðar um leiðsagnarnám og efni sem því tengist. Í bók Ernu Ingibjargar Pálsdóttur Fjölbreyttar leiðir í námsmati, að meta það sem við viljum að nemendur læri, er greinargóður kafli um leiðsagnarmat. Í nýju bókinni er fléttað saman fræðilegri umræðu, reynslu þekkingarskóla í leiðsagnarnámi, ráðgjöf og hagnýtum verkefnum með það að markmiði að styðja við einstaka kennara og skóla sem vilja stuðla að auknum framförum nemenda.

Síðustu árin hefur áhugi kennara á leiðsagnarnámi aukist verulega. Sem dæmi má nefna að námskeið og fræðslufundir um leiðsagnarnám sem skóla- og frístundasvið Reykjavíkur (SFS) stendur fyrir eru jafnan afar vel sótt og margir skólar bæði á grunn- og framhaldsskólastigi hafa markvisst lagt sig fram um að tileinka sér áherslur þess. Í gildandi aðalnámskrám fyrir grunnskóla og framhaldsskóla er lögð rík áhersla á leiðsagnarmat, sem er í rauninni sama orðið og leiðsagnarnám, hugmyndir um áherslur hafa hins vegar breyst. Í námskránum segir: Leggja skal áherslu á leiðsagnarmat þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í matinu (Aðalnámskrá framhaldsskóla, 2011, 3.1; Aðalnámskrá grunnskóla, 2011, 3.1.). Þessi orð endurspegla merkingu hugtaksins leiðsagnarmat/-nám en megintilgangur þess er að auka hlutdeild og ábyrgð nemenda á eigin námi og stuðla þannig að bættum árangri. Nemendur eiga alltaf að vita hvert þeir  stefna í námi sínu og hafa viðmið um árangur. Þeir þurfa að vita hvar þeir eru staddir á leið sinni og fá leiðsögn sem hjálpar þeim til að brúa bilið þar á milli. Þetta gæti virst einfalt er raunin er önnur. Horfa þarf til námsmenningar skólans í heild sinni, allt frá viðhorfum og væntingum kennara til skipulags náms og kennslu. (meira…)

  Leiðsagnarnám eykur þátttöku og sjálfræði nemenda í námi sínu

Hjördís Þorgeirsdóttir

Í þessari grein er fjallað um starfendarannsókn sem hefur það markmið að þróa námshætti og námsmat í anda leiðsagnarnáms og byggja upp námsmenningu um námskraft nemenda í kennslu í félagsfræði í Menntaskólanum við Sund (MS). Ég var þátttakandi í starfendarannsóknarhópi kennara MS frá 2005 til 2022 en þar hefur verið stefna samkvæmt námskrá að byggt skuli á kennslufræði um virkni og ábyrgð nemenda á námi sínu (Hafþór Guðjónsson, 2013; Hjördís Þorgeirsdóttir, 2023b, 2016). Sjá grein um  starfendarannsóknarhóp MS í Skólaþráðum2023 hér.

Eftir að ný þriggja ára skólanámskrá til stúdentsprófs var innleidd í nýju þriggja anna kerfi í MS árið 2016 með megináherslu á verkefnabundið nám kom upp skýr þörf fyrir að innleiða leiðsagnarmat sem lið í símati sem viðhaft er í nýju kerfi í MS eftir að sérstakur prófatími í skóladagatalinu var lagður niður. Haustið 2017 var stofnaður þróunarhópur kennara um leiðsagnarmat í MS undir leiðsögn Sólveigar Zophoníusardóttur, aðjúnkts við Háskólann á Akureyri. Ég sem félagsfræðikennari tók þátt í starfi þessa hóps og hóf að innleiða leiðsagnarmat byggt á hugmyndum Dylan Wiliam (Black og Wiliam 2009; Wiliam, 2018) og hélt ég áfram á þeirri braut skólaárin 2018 til 2022. Jafnframt innleiðingu leiðsagnarnáms byggði ég á hugmyndafræði Guy Claxton og fleiri um námskraft nemenda (2018; 2002; Glaxton og Powell, 2019) þar sem áhersla er lögð á að beina athyglinni að námsvenjum, hugsun og viðhorfum nemenda til náms en einblína ekki eingöngu á miðlun innihalds námsefnisins. Sjá umfjöllun um námskraftinn í Skólaþráðum 2023 hér og rannsóknarskýrslu 2020 um leiðsagnarnám og námskraftinn hér.

Í þessari grein lýsi ég helstu aðferðum sem ég nýtti í leiðsagnarnáminu frá 2017 til 2022 út frá fimm lykilaðgerðum leiðsagnarmats samkvæmt flokkun Wiliam (2018). (meira…)

Oddaflugið: Sagan af þróun námsmats í Sæmundarskóla

Eygló Friðriksdóttir

Líkja má skólaþróun við oddaflug. Kennarar skólans skiptast á að leiða flugið og taka á sig mesta vindinn. Á milli er hægt að hvíla örlítið, fljúga aftar í hópnum, en það er aldrei hægt að stoppa. Hópurinn er á hreyfingu, stöðugt þarf að skipuleggja, undirbúa, kenna nemendum, meta vinnu þeirra, endurmeta kennslufyrirkomulagið. Nám og kennsla er endalaus vegferð.

Skólastarf hófst í Sæmundarseli við Ingunnarskóla haustið 2004, en skólinn varð sjálfstæður um áramótin 2006-2007. Fyrstu nemendur skólans voru fimmtíu talsins í 1.-4. bekk. Nú eru þeir um fimm hundruð í 1.-10. bekk. Í upphafi voru áherslur skólans samþætting námsgreina, einstaklingsmiðað nám og útikennsla en þær hafa breyst. Nú má segja að sýn skólans snúist um góða samræmda starfshætti. Gæðakennslu þar sem hægt er að fara fjölbreyttar leiðir í námi og námsmati. Frasi sem Vivian Robinson (2011) vitnar í hefur orðið að okkar starfskenningu: Aðalatriðið er að hafa aðalatriðið alltaf aðalatriðið. Þetta aðalatriði er nám og kennsla. Þetta hljómar einfalt en er það alls ekki. Stöðugt þarf að leita nýrri og betri leiða, vanda undirbúning, velja viðeigandi námsleiðir. Stundum að nota útikennslu, stundum eru námsgreinar samþættar. Ávallt er reynt að koma til móts við ólíka nemendur, ekki lengur með því að nemendur vinni námsáætlanir eins og unnið var að í árdaga skólans. Nú er áherslan á hæfnimiðað nám, að hafa markmið og hæfniviðmið skýr og möguleika á fjölbreyttum verkefnaskilum. Nemendur hafa gjarnan bæði val um hvernig þeir læra og hvernig þeir sýna það sem þeir kunna.

Þessi greinarstúfur fjalla um þetta síðastnefnda, námsmatið sem vísar veginn og um þróun þess í Sæmundarskóla. (meira…)

Mat á hæfni og framförum nemenda: Leiðin að hæfnimiðaðri matsgjöf

27. ágúst, 2025

Erna Ingibjörg Pálsdóttir

Á undanförnum árum hefur ákall verið um breytingar og aukna áherslu á fjölbreytni í námsmati. Áherslur í námsmati breyttust í Aðalnámskrá grunnskóla 2011 og í greinasviðum hennar frá 2013. Þar var gerð breyting á því hvað lagt er til grundvallar í námsmati og þá boðaðar umtalsverðar breytingar á skipulagi og framsetningu námsmats. Áherslurnar endurspegla þær breytingar sem hafa átt sér stað í þróun námskrár í nágrannalöndum okkar og fylgir sú þróun leiðbeiningum alþjóðlegra stofnana á borð við OECD (2019). Markmið náms sem áður höfðu beinst fyrst og fremst að þekkingu og leikni eru nú sett fram sem lýsingar á hæfni nemenda. Með hæfni er átt við það hvernig einstaklingur notar þá þekkingu og leikni sem hann aflar sér, það er hvað hann gerir með það sem hann veit og getur. Áherslubreytingin felst í því að viðmiðin eru nemendamiðuð, þ.e. lögð er áhersla á hvað nemandinn á að tileinka sér. Við mat á hæfni nemenda er mikilvægt að nota fjölbreyttar matsaðferðir sem jafnframt hæfa markmiðum náms og kennslu. (meira…)

Að kenna gervigreind í framhaldsskóla

9. júní, 2025

Geir Finnsson

Á vorönn 2025 bauð Menntaskólinn við Sund upp á nýjan áfanga um gervigreind og ábyrga notkun á henni. Áfanginn, sem ber heitið Gervigreind & samfélag, var settur á laggirnar í kjölfar ört vaxandi áhrifa gervigreindar, nánar tiltekið spunagreindar (e. generative AI) á skólastarfið auk umræðu innan skólans um mikilvægi þess að fræða nemendur um áhrif, tækifæri og áskoranir sem fylgja þessari nýju tækni. Með spunagreind er átt við skapandi gervigreind sem getur útbúið alls kyns texta, mynd- og hljóðefni út frá sérstökum skipunum. Markmið áfangans var að undirbúa nemendur undir nýjan veruleika þar sem gervigreind gegnir sífellt stærra hlutverki, jafnt í námi sem og starfi. Hér verður fjallað um reynslu mína af kennslu þessa áfanga, innihaldi hans og þær kennsluaðferðir sem stuðst var við. (meira…)

Umsögn um bókina Leiðsagnarnám, hvers vegna, hvernig, hvað?

30. júní, 2021

Fiona Elizabeth Oliver

Nýlega kom út bókin Leiðsagnarnám: Hvers vegna, hvernig, hvað? eftir Nönna Kristínu Christiansen. Það er ekki á hverjum degi að út kemur bók um kennslufræði á íslensku, að ekki sé minnst á bók um námsmat! Ritstjórn Skólaþráða leitaði til Fionu Elizabeth Oliver, enskukennara í Víkurskóla og bað hana að skrifa um bókina. Fiona tók þessu erindi vel enda mætti hún skrifa á móðurmáli sínu! Umsögn hennar er hér, en íslensk þýðing fylgir (sjá neðar). (meira…)

„Hinn góði kennari“ og kennarinn sem er góður í að kenna

26. febrúar, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Ómar Örn Magnússon

Hvernig er í skólanum?

Fyrir nokkrum árum bjuggum við fjölskyldan í Englandi í eitt ár þar sem ég var í meistaranámi í forystufræðum og stjórnun menntastofnana. Ég valdi að læra í University of Warwick, sem er í útjaðri Coventry, en ein af ástæðunum fyrir valinu var að í grennd við háskólann voru fínir skólar fyrir börnin okkar sem þá voru í fimmta og tíunda bekk en eitt barn var skilið eftir heima í menntaskóla. Aðlögunin gekk vel en eins og foreldrar gera vorum við stöðugt að spyrja börnin hvernig væri í skólanum og hvað þau hefðu gert þann daginn. Svörin voru yfirleitt í styttri kantinum og hefðbundin. Þau gáfu okkur ekki miklar upplýsingar. Þeim fannst bara fínt í skólanum og þau sögðu að skólarnir þeirra væru bara svipaðir skólunum þeirra heima á Íslandi. Framan af var helsti munurinn sá að maturinn í mötuneytinu var betri í Englandi, það var nefnilega boðið upp á kökur og ís í eftirrétt. Mér, skólamanninum, fannst þetta nú ekki málefnalegt. Svo gerðist það þegar við vorum búin að vera úti í nokkurn tíma og ég hættur að nenna að spyrja þau daglega hvernig væri í skólanum að sonur okkar, sem þá var fimmtán ára, kom til mín og sagði mér að ég væri alveg hættur að spyrja hann hvernig skólinn væri. Hann hefði nefnilega verið að hugsa málið aðeins og þó svo að honum þætti skólinn í Englandi fínn að þá tæki hann eftir einum áhugaverðum mun á honum og skólanum sínum á Íslandi. Munurinn væri að hann tryði því að kennararnir hans á Íslandi væru góðar manneskjur en að hann vissi ekkert um kennarana sína í Englandi. Þetta fannst mér athyglisvert og ég velti fyrir mér í nokkrar sekúndur hvort þetta væri vegna nándarinnar á Íslandi og að allir þekki alla. Kennararnir hans á Íslandi eru oft fólk sem við fjölskyldan þekkjum persónulega. Ég ákvað hins vegar að spyrja hvað hann meinti og hvernig hann vissi að kennararnir á Íslandi væru góðar manneskjur. Hann svaraði til útskýringar að hann vissi svo sem ekkert endilega hvort þeir væru góðar manneskjur og að hann væri alls ekki að segja að kennararnir hans í Englandi væru vondar manneskjur en munurinn væri sá að kennararnir á Íslandi hefðu áhuga á nemendum og sýndu nemendum og þeirra hugðarefnum áhuga en kennararnir hans í Englandi virtust aðeins hafa áhuga á námsefninu að undanskildum Mr. Jones (ekki hans rétta nafn) sem kenndi tónlist. (meira…)

Að byggja námsmat á traustum heimildum

25. febrúar, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Meyvant Þórólfsson

Megineinkenni þess námsmatskerfis sem nú ríkir í skyldunámi hérlendis eru svonefnd hæfni- og matsviðmið. Hliðstæða þess er matskerfi sem ruddi sér til rúms í Bandaríkjunum og víðar við upphaf 9. áratugar síðustu aldar (sjá m.a. Guskey og Baily, 2001). Um leið og fjaraði undan hinu hefðbundna matskerfi, er byggði á tölulegum upplýsingum um mældan námsárangur, beindist athyglin í vaxandi mæli að stöðugu og leiðbeinandi mati með áherslu á upplýsingar um það hversu vel nemandi hefði ákveðna hæfni á valdi sínu með hliðsjón af gefnum viðmiðum (sbr. e. standards-based grading). (meira…)

Samræmd eða ósamræmd próf – eða út fyrir rammann?

14. janúar, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Rúnar Sigþórsson

Til þess að ná þeim markmiðum sem ég hef lýst hér þarf róttæka breytingu á hugmyndum okkar um það sem skiptir máli í menntun. Einkunnir úr prófum þurfa að víkja fyrir annars konar viðmiðum um árangur náms sem er mikilvægari í menntunarlegu tilliti. Á meðan skólar líta á einkunnir úr prófum sem helsta mælikvarða á árangur nemenda og gæði menntunar mun okkur veitast erfitt að henda reiður á því sem raunverulega skiptir máli í skólastarfi. (Eisner, 2003/2004, bls. 10, íslensk þýðing greinarhöfundar)

Inngangur

Á síðasta ári (2020) gaf mennta- og menningarmálaráðuneytið út skýrsluna Framtíðarstefna um samræmt námsmat: Tillögur starfshóps um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag sam­ræmdra könnunarprófa. Í skýrslunni leggur starfs­hópurinn til að „samræmd próf í núverandi mynd verði ekki þróuð frekar og að notkun þeirra verði hætt“ (bls. 11). Jafnframt leggur hópurinn til að í stað prófanna verði þróað námsmatskerfi sem nefnt verði matsferill. Hann á, samkvæmt tillögum hópsins, að verða „heildstætt safn matstækja í mörgum námsgreinum“ (bls. 11) og gegna í grundvallaratriðum sama hlutverki og samræmd könnunarpróf í grunnskóla gera nú samkvæmt reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd þeirra (nr. 173/2017). Starfshópurinn leggur með öðrum orðum til að áfram verði opinbert ríkisrekið námsmatskerfi og markmið þess óbreytt enda þótt framkvæmdin verði í grundvallaratriðum önnur. Þetta er nokkuð róttæk tillaga og hún vekur ýmsar spurningar. Þrátt fyrir það hefur umræða um tillöguna orðið minni en efni standa til og lítil kynning á henni átt sér stað. (meira…)

„Hvað fékkstu á prófinu?“ Hugleiðing um námsmat í hálfa öld

12. janúar, 2021

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

Svandís Ingimundardóttir

Námsmat þá

Fyrir ríflega hálfri öld fékk lítil 7 ára stúlka sína fyrstu einkunn á lífsleiðinni en svo sannarlega ekki þá síðustu. Hún fékk 3,7 ritað á lítinn miða sem hún skilaði samviskusamlega til móður sinnar þegar heim var komið. Þetta þótti bara nokkuð góð frammistaða hjá þeirri stuttu en talan endurspeglaði hversu mörg atkvæði á mínútu hún gat lesið skammlaust. Þetta vissu foreldrarnir enda hafði svo verið í tugi ára, sama mælistikan á alla og engum vafa undirorpið hvað þýddi. Héðan gat því leiðin einungis legið upp á við.

Sú stutta naut sín í skólanum, hafði framsýna kennslukonu sem m.a. fékk að kenna þeim dönsku, aðeins níu ára gömlum og 12 ára lék hún Grámann í Garðshorni á sviði í söngsalnum. Lífið var yndislegt, hún lagði sig í líma við að skila óaðfinnanlegum ritgerðum, myndskreyttum og vandvirknislega frágengnum og gat fengið allt að Mjög gott++ fyrir. Framtíðin var ráðin þá þegar, staðföst stefndi hún að því að verða kennari þegar hún yrði stór því hvergi leið henni betur en í skólanum. Hún lauk níu ára skyldunámi með viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn á landsprófi frá Rotary-klúbbi bæjarins, hvorki meira né minna, með tveimur aukastöfum því nákvæmt skyldi það vera. (meira…)

Þurfa allir alltaf að gera það sama? Nemendur með í ráðum um val á verkefnum og námsmati

18. ágúst, 2020

Fríða Gylfadóttir og Tinna Ösp Arnardóttir

Sem starfandi framhaldsskólakennarar erum við stöðugt að leita nýrra leiða, bæði í kennslu og í námsmati, til að höfða til fjölbreyts nemendahóps, með það að markmiði að auka sjálfstæði og ábyrgð nemenda í námi. Fyrir nokkrum árum byrjuðum við að leyfa nemendum að velja að hluta til námsmat í ákveðnum áföngum sem við kennum. Við höfum alltaf haft áhuga á nemendamiðuðu námi með áherslu á verkefnavinnu. Báðar störfum við sem kennarar við Fjölbrautaskólann í Garðabæ þar sem við kennum ensku og viðskiptagreinar. (meira…)

Af tossum og táknfræði

23. febrúar, 2019

Hafþór Guðjónsson

 En svo kom að skrift og stafsetningu og þá hrundi veröldin.
(Bubbi Mortens)

Hinn 12. janúar síðasliðinn birtist viðtal við Bubba Mortens í Fréttablaðinu. Í upphafi viðtalsins er vikið að skólagöngu Bubba. Hann segir:

Ég er skrifblindur. Ég var undrastrákur á bækur. Bráðger og varð snemma læs. Ég var búinn að lesa Tolstoj og Gorkí fyrir 10 ára aldur. Ég stóð mig líka vel í lestri í skóla. En svo kom skrift og stafsetning og þá hrundi veröldin. Ég var settur í geymslu í grunnskóla, tossabekkinn í Vogaskóla. Þar brotnaði auðvitað eitthvað og ég fann fyrir ótta við orð og skrif.

Fjórtán ára gamall var Bubbi sendur í heimavistarskóla í Danmörku. „Þar losnaði hann að einhverju leyti undan óttanum við að setja hugsanir sínar í orð“, skrifar blaðakonan, Kristjana Björg Baldursdóttir og vitnar aftur í Bubba:

Þar var sagt við mig: Þú ert bara í toppstandi, þú þarft ekki að taka nein skrifleg próf í þessum skóla. Áherslurnar voru svo allt aðrar en ég hafði kynnst á Íslandi. Ég fékk að vera ég. (meira…)

„Þú getur ekki sagt að þetta sé leiðinlegt því þú ákveður hvað þú ert að gera.“ Ferilmöppur – leið til að efla sjálfstæði og ábyrgð nemenda

6. september, 2018

Björk Pálmadóttir

Sýnt hefur verið fram á að nemendasjálfstæði, eða það sem á ensku er kallað learner autonomy, sé  mikilvægur þáttur í að byggja upp áhugahvöt nemenda en hún er talin vera lykillinn að árangri og metnaði  í námi. Ég hef ódrepandi áhuga á nemendasjálfstæði og valdeflingu nemandans og því valdi ég að skrifa meistararitgerð um nemendasjálfstæði í enskukennslu og notkun ferilmappa (e. portfolio) sem leið að aukinni ábyrgð og sjálfstæði nemenda.

Ástæðan fyrir því að þetta efni varð fyrir valinu var að fyrir nokkrum árum sagði mér framhaldsskólakennari að það sem honum þætti mest ábótavant við undirbúning grunnskólanemenda undir nám í framhaldsskóla væru vinnubrögð. Nemendur væru ekki nógu skipulagðir í vinnubrögðum og þeim gengi ekki vel að halda utan um gögn sín. Þá hafði ég verið enskukennari í grunnskóla í mörg ár og þó svo að umræddur kennari hafi ekki verið að tala um nemendur mína sérstaklega ákvað ég að leggja mitt af mörkum og kenna bætt vinnubrögð. Ég hafði kynnst ferilmöppum og notað þær talsvert í kennslu minni á unglingastigi.  Ég  ákvað því að rannsaka áhrif þeirra í tveimur hópum sem ég hafði kennt. (meira…)

Færslusafn

Fara íTopp