Að skapa frið í óvissutímum – þátttaka ungs fólks

30. október, 2025

Eva Harðardóttir

Umræða um öryggi og varnir hefur á síðustu misserum orðið æ háværari hér á landi í takt við þróun heimsmála. Við fáum fréttir af fjölþátta ógnum og fylgjumst með skoðanaskiptum um aukið varnarsamstarf samhliða nýjum áherslum í netöryggismálum. Allt er þetta mikilvægt og jafnvel löngu tímabært fyrir lítið land eins og Ísland sem reiðir sig að verulegu leyti á alþjóðasamvinnu og samninga. Ég sakna þess þó að heyra fjallað um ákveðið lykilhugtak í þessari umfjöllun og það er hugtakið friður. Það virðist oft gleymast að öryggi verður ekki tryggt án friðar. Staðreyndin er nefnilega sú að friður er ekki afleiða öryggis heldur forsenda þess og frumorka. Að sama skapi hefur farið of lítið fyrir því að ungu fólki sé treyst til að taka þátt í umræðu um það með hvaða hætti við stuðlum að öruggu og friðsamlegu samfélagi.

Friður er meira en fjarvera frá átökum

Friður er gjarnan skilinn sem fjarvera átaka. Sú skilgreining dugar hins vegar skammt í hnattvæddum og samtengdum veruleika þar sem okkur ber siðferðisleg skylda til að bregðast við því ástandi sem ríkir annars staðar í heiminum. Í feminískri heimspeki og siðfræði er lögð áhersla á frið sem lifandi samfélagsgerð byggða á umhyggju, réttlæti og trausti.

Heimspekingurinn Sissela Bok (1978) benti fyrir margt löngu á að traust sé sameiginleg auðlind sem samfélög verði að rækta og vernda. Í einni bóka hennar lýsir hún því hvernig líkja megi trausti við loftið sem lýðræðið andi að sér. Samfélag sem glatar trausti – hvort sem er milli borgara eða milli fólks og stjórnvalda – getur ekki byggt varanlegan frið eða öryggi. Um þetta sammæltist íslenskt samfélag á Þjóðfundinum árið 2009 en í bók sinni Þjóðgildin áréttar Gunnar Hersveinn (2010) að þjóðir verði að ávinna sér traust „ekki aðeins með því að standa við samninga sína, heldur einnig með framkomu og viðmóti fulltrúa sinna“ (bls. 75-76). Þannig birtist traust okkur ekki síst í nærumhverfi okkar og athöfnum.

Í alþjóðlegri umræðu má greina aukið vantraust til stofnana og ferla sem leiða eiga til friðar og réttlætis. Eftir því sem almenningur ‎‎ýmist reynir á eigin skinni, eða fær yfir sig endalausar fréttir af átökum og ofbeldi, afmást mannleg tengsl og trúin á sanngirni og sátt fer þverrandi. Þannig myndast ákveðinn vítahringur vantrausts sem hindrar möguleika fólks til þess að rýna í eigin rann, hlusta á sjónarhorn annarra og leita í sameiningu eftir farsælli lausn.

Samfélag sem tekur öryggi og varnarmál alvarlega getur ekki byggt eingöngu á neikvæðum friði þar sem talið er nóg að að leggja niður vopn, tryggja yfirráð eða einfaldlega halda sig í hæfilegri fjarlægð frá ófriðnum. Samfélag sem vill byggja sjálfbæran frið þarf að huga að jákvæðum þáttum friðar. Þeim sem felast í viðhorfum fólks og samvinnu og þeim sem festa sig í sessi í kerfisbundnum breytingum sem leiða til frekara jafnréttis og réttlætis.

Slíkur friður krefst uppbyggingar, samtals, fræðslu og menntunar og verður eingöngu til með þátttöku næstu kynslóðar. Börn, ungmenni, fjölbreyttir samfélagshópar og félagasamtök þurfa öll að eiga aðild að umræðunni um frið. Fyrir herlausa og friðsama þjóð eins og Ísland er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að byggja öryggi og frið á hugmyndum um l‎ýðræðislega þátttöku og tengsl frekar en að falla í þá gryfju að ala á hræðslu eða óttablandinni virðingu fyrir valdi í skjóli fjarlægðar og fámennis.

Ungt fólk á Íslandi vill og á að fá að taka þátt í að móta heiminn

Ungmenni á Ísland kalla eftir því að fá fleiri tækifæri til þess að láta sig samfélagsleg málefni varða. Í nýlegri rannsókn á borgaravitund og sjálfbærum lífsstíl kom í ljós að 14 og 18 ára ungmenni sem fá tækifæri til þess að ræða málefni líðandi stundar innan síns skóla eru jafnframt þau sem hafa meiri áhuga á samfélagslegri þátttöku og leggja ríkari áherslu á mannréttindi og frið. Fræðsla um málefni sem snerta heiminn í heild reynist þannig besta forspárgildið fyrir öflugri borgaravitund og virkni ungs fólks. Það sem vakti athygli í rannsókninni var hins vegar að einungis um 30% nemenda töldu sig fá raunveruleg tækifæri til lýðræðislegrar þáttöku í skólanum (Ragný Þóra Guðjohnsen o.fl., 2024).

Sambærilegar niðurstöður birtast okkur þegar litið er til rannsókna á nemendaráðum sem gjarnan eru talin vera sá vettvangur sem veitir ungu fólki bestu tækifærin til lýðræðislegrar þátttöku í skólastarfi. Ungmenni hér á landi sem hafa reynslu af því að taka þátt í nemendaráðum lýsa hins vegar mörg ólýðræðislegum og útilokandi valferlum og telja sig hafa lítið um verkefni nemendaráða að segja (Aníta Jasmín Finnsdóttir, 2025). Í norrænu samhengi má sjá sambærilegt mynstur þar sem ungt fólk hefur sífellt minni trú á mikilvægi nemendaráða og telur þátttöku sína í þeim ekki koma að gagni í skólasamfélaginu (Ragný Þóra Guðjohnsen og Eva Harðardóttir, 2025).

Bilið sem birtist hér svo skýrt á milli stefnu og starfs eða fræða og framkvæmda er ekki óyfirstíganlegt eilífðarverkefni heldur gífurlega mikilvægt tækifæri. Því það er akkúrat í þessu bili þar sem við höfum val um að hlúa að merkingarbærri þátttöku ungs fólks eða láta hana afskipta. Það kemur nefnilega í ljós, að þegar börn og ungmenni fá tækifæri til að tjá sig og móta málefnin sem þau telja mikilvægust, þá teiknast upp heimsmynd sem byggir með óyggjandi hætti á hugmyndum um réttlæti og frið.

Friður, jafnrétti og réttlæti eru forgangsmál ungs fólks

Í meistaraverkefni Guðrúnar Birnu Guðmundsdóttur (2025) var leitað sérstaklega eftir sýn ungs fólks á heiminn. Í rannsókninni fengu 100 ungmenni úr fimm UNESCO-framhaldsskólum á Íslandi það verkefni að skrifa örsögu um helstu áskoranir heimsins og eigin getu til að bregðast við þeim. Sögurnar spönnuðu flest svið mannlegs samfélags og vísuðu gjarnan til alþjóðlegra sáttmála á borð við heimsmarkmiðin og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í sögunum var ljóst að loftslagsmál eru þeim hugleikin. En þó ekki eingöngu vegna umhverfislegra áhrifa heldur einnig í samhengi friðar og réttlætis. Þá var unga fólkið sammála um að menntun hefði afar mikilvægu hlutverki að gegna til að bregðast við alþjóðlegum áskorunum. Í sögunum mátti greina skýr merki þess að friðsælt og réttlát líf byggist á tækifærum okkar til menntunar, samtals og samvinnu – þvert á mörk og mæri.

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi heldur utan um verkefni UNESCO-skóla á Íslandi með stuðningi Mennta- og barnamálaráðuneytisins. UNESCO-skólanetið er eitt elsta skólanet í heimi með rúmlega 180 þátttökulönd þar sem meira en tólf þúsund skólar um allan heim setja það í forgang að stuðla að friði í gegnum hnattræna vitund, traust og tiltrú á alþjóðasamvinnu. Áhugi á þessu og öðrum sambærilegum verkefnum í íslenskum skólum hefur farið ört vaxandi undanfarin ár sem endurspeglar ekki síst vilja nemenda til að tengjast heiminum með markvissari hætti.

Sem viðbragð við þeirri þróun opnaði Félag Sameinuðu þjóðanna, í samvinnu við sænsku Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, kennsluvef sem ber heitið Verður heimurinn betri. Þar má finna fræðsluefni um helstu áskoranir heimsins og leiðir til sjálfbærrar þróunar. Á vefnum geta ungmenni nálgast fjölbreyttar fréttir, skipst á skoðunum og mótað málefnin með því að kjósa um ólík áherslumál. Vefurinn var opnaður með viðhöfn í lok september þar sem rúmlega 100 ungmenni úr Fjölbrautaskólanum við Ármúla tóku þátt. Lifandi kosning um málefni leiddi í ljós að ungu fólki er enn á ný friðurinn hugleikinn líkt og meðfylgjandi mynd sýnir.

Mynd 1. Skjáskot frá kosningu um mikilvægustu málefnin að mati ungs fólks. Sjá nánar á www.verdurheimurinnbetri.is

Yfirgnæfandi áhersla ungs fólks á að velja frið sem eitt mikilvægasta málefni samtímans er ákall sem við megum ekki hunsa. Friðaráherslur þeirra tengjast jafnframt hugmyndum um jafnrétti, réttlæti og loftslagsógnum. Þetta eru því án nokkurs vafa þau málefni sem ungt fólk veit, vill og verður að fá að vera þátttakandi í að móta til framtíðar.

Friður er ekki aðeins markmið – heldur mikilvæg athöfn

Heimspekingurinn Hannah Arendt (2006) minnti á að það sem gerir okkur að pólitískum verum er hæfileikinn til að bregðast við og hefja eitthvað nýtt – skapa nýja athöfn. Þögn og aðgerðaleysi í þágu friðar þýðir ekki hlutleysi heldur samþykki fyrir óbreyttu ástandi. Í heimi þar sem átök, loftslagskreppa og útilokun ógna samfélögum í stórum stíl er það ekki valkostur að vera aðeins áhorfandi og ungt fólk kallar skýrt eftir því að láta sig málin varða.

Arendt (2006) talaði jafnframt um mikilvægi þess að axla ábyrgð á heiminum með því að læra að elska hann. Því eins og við vitum, vex það og dafnar sem okkur þykir vænt um. En það getur reynst flókið að elska þann heim sem maður þekkir takmarkað og ber ekki traust til. Til þess að kynnast heiminum betur er því mikilvægt að sjá hann út frá eins mörgum ólíkum sjónarhornum og mögulegt er (Eva Harðardóttir, 2022, 2024). Að skilja heiminn út frá reynslu annarra er siðferðileg forsenda lýðræðis og jafnframt lykilforsenda friðar. Einungis þegar við getum séð aðra sem deila heiminum með okkur sem jafn verðuga allra þeirra lífsgæða sem veröldin býður upp á verður friður raunhæfur möguleiki til framtíðar.

Ábyrgð okkar gagnvart heiminum felst því ekki í því að þegja eða fylgja öðrum heldur að bregðast við og taka þátt í opinberu lífi. Getan til þess að umbreyta samfélaginu til hins betra liggur óumdeilanlega hjá næstu kynslóð. Það er hins vegar jafn óumdeilanlegt að ábyrgðin sem felst í því að styðja við og virkja ungt fólk til athafna liggur hjá þeim sem eldri eru. Hjá stjórnvöldum, ráðafólki, kennurum, leiðbeinendum, foreldrum og forráðamönnum.

Friður til framtíðar með þátttöku ungs fólks á Íslandi

Ísland er í lykilstöðu til að styðja ungt fólk til lýðræðislegrar þátttöku. Það getum við til dæmis gert í gegnum skólastarf með því að leggja áherslu á sögulega rýni, opnar samræður um samfélagsleg málefni og gagnrýna lausnaleit. Við getum líka lagt aukna áherslu á samvinnu við stofnanir, frjáls félagasamtök og fyrirtæki sem veitt geta ungu fólki áhugaverð tækifæri til að kynnast ólíkum verkefnum sem stuðla að betri heimi. Ungt fólk verður einfaldlega að fá fleiri og fjölbreyttari tækifæri í daglegu lífi til þess að heyra ólíkar skoðanir, móta sínar eigin og leggja sitt af mörkum. Slíkar áherslur ættu án nokkurs vafa að vera þungamiðja í stefnu stjórnvalda, ekki eingöngu á sviði menntamála, heldur einnig sem hluti af opinberri stefnu um ungt fólk, öryggi og langvarandi frið.

Í ár og til loka árs 2027 situr Ísland í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og erum við því í einstakri stöðu til efla enn frekar áhuga og þátttöku ungs fólks í umræðu um mannréttindi, öryggi og frið. Slíkt væri ekki einungis mikilvægt fyrir íslenskt samfélag heldur einnig í fullu samræmi við umbótastefnu António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, sem hefur kallað eftir því að Sameinuðu þjóðirnar þróist í að verða ekki eingöngu vettvangur ríkja heldur alls fólks og þá sérstaklega ungs fólks.

Ísland getur verið fyrirmynd annarra ríkja í þeirri þróun með því að taka ákveðin skref sem styðja með fjölbreyttum hætti við hreyfingu ungs fólks á Íslandi sem hefur áhuga á að móta heiminn. Ef við ætlum að skapa frið til framtíðar, verðum við að treysta ungu fólki, ekki aðeins til að tjá sig, heldur líka til að hafa áhrif á þær leiðir sem við teljum að tryggi öryggi okkar og frið. Þau hafa þegar sýnt að þau vilja frið sem grundvallast á réttlæti, jafnrétti og ábyrgð – nú er rétti tíminn til að taka höndum saman og gera þá framtíð að veruleika.

Heimildir

Aníta Jasmín Finnsdóttir. (2025). Útvalin eða útilokuð. Valferli og aðgengi nemendaráða í íslenskum grunnskólum. (MA-ritgerð). Háskóli Íslands.

Arendt, H. (2006). Between past and future. Penguin.

Bok, S. (1978). Lying: moral choice in public and private life. Pantheon Books.

Eva Harðardóttir. (2022). Að varðveita heiminn: Hannah Arendt og menntakrísan. Netla – veftímarit. https://doi.org/10.24270/serritnetla.2022.92

Eva Harðardóttir. (2024). Menntakerfi í krísu? Skólaþræðir. Tímarit áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2024/10/26/menntakerfi-i-krisu/

Guðrún Birna Guðmundsdóttir. (2025). Hnattræn borgaravitund ungs fólks í UNESCO framhaldsskólum á Íslandi. (MA-ritgerð). Háskóli Íslands.

Gunnar Hersveinn. (2010). Þjóðgildin. Skálholtsútgáfa.

Ragný Þóra Guðjohnsen, Karen Jordan, Ólafur Páll Jónsson og Unnur Edda Garðarsdóttir. (2024). Good citizenship and sustainable living: Views, experiences, and opportunities among young people in Iceland. Í N. E. Snow (ritstj.), The self, civic virtue, and public life (bls. 59-78). Routledge.

Ragný Þóra Guðjohnsen og Eva Harðardóttir (2025). Student councils and democratic participation in the Nordic region. Nordic Welfare Center. https://nordicwelfare.org/pub/Student_councils_and_democratic_participation_in_the_Nordic_region/index.html


Um höfund

Eva Harðardóttir (evahar(hja)hi.is) er lektor við Deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Rannsóknaráhugi hennar liggur á sviði alþjóðlegra stefnufræða með áherslu á hnattræna borgaravitund og lýðræðislega þátttöku ungs fólks. Eva hefur starfað sem sérfræðingur á sviði menntamála hjá UNICEF í Malaví og sem framhaldsskólakennari á Íslandi.


 

Grein birt 30. október 2025

 

 

 

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Færslusafn

Fara íTopp