Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Menntakerfi í krísu?

í Greinar

Eva Harðardóttir

 

Þegar ég útskrifaðist með doktorspróf í menntunarfræðum fékk ég að gjöf bol með áletruninni What would Hannah Arendt do? Þar var á ferðinni ákveðinn einkahúmor en nú sléttu ári eftir útskrift sit ég í bolnum og velti þessari spurningu alvarlega fyrir mér í ljósi þeirrar líflegu en oft og tíðum afar neikvæðu opinberu umræðu sem einkennir menntamálin á Íslandi. Daglega birtast greinar í fjölmiðlum sem viðra mismunandi skoðanir á kjörum og vinnuframlagi kennara, gæðum náms, árangri nemenda, líðan þeirra og möguleikum til farsællar framtíðar. Orðræðan er í þeim anda að krísuástand virðist ríkja á vettvangi menntunar. En í hverju nákvæmlega liggur þessi krísa?

Árið 1954 skrifaði heimspekingurinn Hannah Arendt (2006) stutta en þýðingarmikla grein sem bar heitið The Crisis in Education þar sem hún rýnir í bandarískt menntakerfi. Greinin hefst á þeim orðum að ekki þurfi auðugt ímyndarafl til að gera sér grein fyrir þeim hættum sem stafi af stöðugt hnignandi gæðum í skólakerfinu. Áhyggjuefni þess tíma voru meðal annars slök lestrarfærni drengja, agaleysi nemenda og efasemdir um störf kennara. Hljómar kunnuglega?

Þessi tilteknu atriði voru hins vegar ekki rót vandans, að mati Arendt, heldur fólst krísan frekar í ákveðnum samfélagslegum þáttum sem hún taldi grafa undan umboði (e. authority) kennara til þess að vinna að eiginlegu markmiði menntunar. Gagnrýni Arendt beindist að einhverju leyti að þeirri framsæknu menntastefnu sem ruddi sér til rúms í Bandaríkjunum á sjötta áratug síðustu aldar og fólst meðal annars í  auknu frjálsræði nemenda. En hún var ekki síður ádeila á íhaldssöm öfl á vettvangi menntunar sem stóðu fyrir hefðbundnu námi og skólahaldi. Þannig tók Arendt hvorki afstöðu með eða á móti ákveðnum aðilum en gagnrýndi frekar þá almennu hugmynd að menntun hefði afmörkuðu og fyrirfram gefnu hlutverki að gegna (Eva Harðardóttir, 2022).

Í greininni leggur hún fram eigin kenningu um menntun sem hefur það að leiðarljósi að tengja ungt fólk með merkingarbærum hætti við hvert annað og heiminn í heild. Markmið menntunar sé því hvorki bundið við samræmdan árangur nemenda eða fjölda vinnustunda kennara. Markmiðið sé miklu frekar, með hennar eigin orðum, „að forða heiminum frá glötun“ sem hún skrifar að sé óumflýjanlegt ef ekki komi til hugmynda nýrra kynslóða um hvað það er sem gerir heiminn að góðum stað til að lifa í. Hverri kynslóð og hverju samfélagi hættir nefnilega til að viðhalda afmarkaðri sýn á heiminn og þarfnast því nauðsynlega hinna „ungu og nýju“ með orðum Arendt til þess að endurnýja heiminn. Í doktorsverkefni mínu færi ég rök fyrir því að tækifærið til endurnýjunar felist ekki eingöngu í hugmyndum barna og ungmenna heldur einnig í þeirri sýn sem innflytjendur og flóttafólk færir okkur (Eva Harðardóttir, 2023).

Þessi dramantíska afstaða Arendt á ágætlega við í samtímanum þar sem samfélög glíma við margvíslegar áskoranir sem virðast sannarlega stefna mörgu af því sem telja má hið dýrmætasta í heiminum til glötunar. Nægir að nefna umhverfis- og loftslagsmál, skort á samábyrgð og samkennd, vopnuð átök, ofbeldi og bakslag á sviði mannréttinda og lýðræðis. Það er því ekki að undra að fræðafólk máti nú í auknum mæli hugmyndir Arendt við menntamál dagsins í dag með það að leiðarljósi að rýna í markmið og mikilvægi menntunar fyrir sameiginlegan heim.

Menntun mikilvæg í sjálfu sér

Arendt hélt því fram að menntun ætti ávallt að skipuleggja og meta á grundvelli menntunarinnar sjálfrar og um þetta hafa ýmsir fræðimenn hérlendis og erlendis skrifað (sjá t.d. Biesta, 2006 og Ólafur Páll Jónsson, 2016). Hvað er átt við með því? Jú, einfaldlega það að þegar rætt er um markmið menntunar er mikilvægt að gera það fyrst og fremst út frá sjónarhorni menntunarinnar sjálfrar frekar en tæknilegu, markaðslegu eða hagfræðilegu sjónarhorni. Með öðrum orðum, menntun er mikilvæg í sjálfu sér. Þrátt fyrir að tölfræðilegar greiningar geti veitt nytsamlegar upplýsingar fyrir stefnumótun og stjórnun á vettvangi menntunar má líka benda á að lítið mál er að mæla og meta margvíslega þætti skólastarfs út frá afmörkuðum þáttum án þess að koma auga á, eða vinna að, hinu eiginlega markmiði menntunar.

Við þetta má bæta að menntun er í senn persónulegt og menningarlegt fyrirbæri, sem á sér stað með formlegum jafnt sem óformlegum hætti. Í formlegu námi, sem oftast fer fram í skólum, fléttast saman hæfnimarkmið, félagsleg markmið og markmið sem varða manneskjuna sjálfa – það er hvernig hún tengist heiminum, öðrum og sjálfri sér á merkingarbæran hátt (Biesta, 2006).

Í nýlegri hugvekju um aðgerðaráætlun stjórnvalda í menntamálum bendir Berglind Rós Magnúsdóttir (2024, sjá hér) á mikilvægi þess að litið sé á menntun sem samfélagslegt verkefni þar sem hugmyndir kennara og fagfólks móti vettvanginn og vegferðina sem framundan er. Kennarar eru jú þeir sem raungera þá opinberu stefnu sem er við lýði á hverjum tíma fyrir sig. En þeir gera líka allt hitt. Allt það sem ekki er minnst á í opinberum skjölum en á sér engu að síður stað á hverjum degi innan menntastofnana.

Daglegar greinar sem kennarar skrifa nú af krafti í fjölmiðla eru til vitnis um það margþætta starf sem þeir sinna – oft og tíðum langt umfram eiginlegar starfsskyldur. Berglind bendir á að umhyggju- og ástarkraftur kennara sé ekki óþrjótandi auðlind og því sé nauðsynlegt að huga að því með hvaða hætti hægt sé að skapa starfsvettvang þar sem félagslegar og tilfinningalegar hliðar náms og menntunar hljóti aukna virðingu og vægi.

Sama umræða var uppi á teningnum á alþjóðlegri ráðstefnu um framtíð kennara og kennaramenntunar á vegum háskólans í Helsinki og UNESCO í Finnlandi síðast liðið sumar. Ég sótti ráðstefnuna ásamt breiðum hópi rannsakenda og kennara víðsvegar að úr heiminum. Þvert á lönd og þjóðir, skólastig og starfsaldur, var ljóst að kennara skorti sárlega tíma og rými til að sinna markmiðum menntunar sem snúa að manneskjunni sjálfri. Svipaðar áhyggjur endurspeglast síðan í röddum ungmenna sem lýsa því hvernig þau skortir gjarnan áheyrn og aðild að ákvörðunum í málefnum sem að þeim lúta innan skólakerfisins.

Börn og ungmenni á Norðurlöndunum sem beðin voru um að líta til baka á reynslu sína af skólastarfi á tímum heimsfaraldurs COVID19 lýstu meðal annars ótta við félagslega einangrun og erfiðleikum við að mynda vinatengsl (Nordic Welfare Center, 2023). Þannig minna þau okkur á að skólinn gegnir ekki síst því hlutverki að vera griðarstaður barna og ungs fólks þar sem þau upplifa að tilheyra samfélagi. Á nýafstöðnu málþingi um áhrif styttingu náms til stúdentsprófs hér á landi ræddi fræðafólk sömu áhyggjur (Elsa Eiríksdóttir o.fl., 2024). Ungt fólk skortir tíma til að tengjast hvert öðru.

Það er nefnilega þannig að menntun sem byggir ekki á öruggum og inngildandi tengslum öðlast sjaldan merkingu í hugum og hjörtum fólks til lengri tíma. Jafnvel þó hún líti vel út í nýju tækniappi eða skili arðsemi í viðurkenndu reiknilíkani.

En bökkum aftur um 70 ár. Arendt var meðvituð um að einhverskonar krísa stæði menntun og skólahaldi fyrir þrifum á þeim tíma sem hún settist niður við skriftir. Hún gerir því hins vegar skóna að krísan eigi rætur að rekja til samfélagslegra, efnahagslegra, og pólitískra þátta frekar en að rótin sé menntunarlegs eðlis. Rót vandans liggi í því að litið sé á menntun sem tæki til þess að vinna að fyrir fram gefinni útkomu eða afurð frekar en að undirstrika mikilvægi menntunar sem vettvangs fjölbreytileika og frelsis. Frelsi til að læra úr ólíkum áttum og aflæra þar sem ekki gagnast okkur lengur. Frelsi til að gera tilraunir, æfa okkur, gera mistök og reyna aftur. Frelsi til að skapa, gagnrýna, ígrunda og mynda okkur skoðun. Frelsi til að upplifa, taka þátt og umbreyta. Frelsi til lifa með öðru fólki á grunni fjölbreytileika.

Að læra að lifa með öðrum 

Í bókinni Bearing With Strangers rekur danski menntunarfræðingurinn Morten Korsgaard (2019) hugmyndir Arendt um menntun og veitir skólastarfi sérstaka athygli. Eitt stærsta verkefni skólans er, að hans mati, að tryggja börnum og ungu fólki sameiginlegan grundvöll eða samastað í heiminum. Þetta sé ekki síst mikilvægt í menntakerfi nútímans sem einkennist öðru fremur af samanburði og samkeppni á milli einstaklinga og hópa. Til þess að skapa sameiginlegan grundvöll þarf skólinn að geta tekið utan um fjölbreyttan bakgrunn nemenda og foreldra og fundið ólíkum hugmyndum þeirra og reynslu merkingarbæran stað í samskiptum og samvinnu. Við þurfum öll að læra að lifa  hvert með öðru. Sérstaklega þeim sem eru ekki eins og við sjálf.

Í raun held ég að þetta sé akkúrat það sem langflestir skólar og kennarar leitast við að ástunda á hverjum degi en skortir tíma og rými til að gera að sínu aðalverkefni. Og miðað við fjölmiðlaumræðuna skortir líka traust.

Hvað ef viðurkennt markmið menntunar væri einfaldlega að vinna markvisst með margbreytileika nemenda með það fyrir augum að efla skilning þeirra á eigin stöðu og annarra í heiminum? Að leggja grunn að félagslegri samheldni hefur lengi verið eitt af mikilvægustu markmiðum menntunar en eins og Arendt benti á fyrir 70 árum, þá verður sú samheldni að mótast á grunni fjölbreytileika; öll erum við eins að því marki að við erum, hvert eitt og einasta okkar, ólík og frábrugðin öllum öðrum sem lifa, hafa lifað eða munu lifa á þessari jörð.

Hannah Arendt (1906–1975). Myndin er fengin af vefsíðu The Ethicks Center (https://ethics.org.au/big-thinker-hannah-arendt/),

Skólastarf í þessum anda, þar sem áhersla er lögð á að vinna með menningarlegan margbreytileika sem endurspeglast í ólíkri þekkingu, hugmyndum og reynslu fólks af heiminum, liggur einnig til grundvallar fræðilegum kenningum um menntun til hnattrænnar borgaravitundar (Pashby, 2015; Torres, 2017). Þar er meðal annars vísað til þess að hafa vitund um víðara samfélag og sameiginlega mennsku og þess að geta rýnt með markvissum hætti í hugtök á borð við sjálfbærni og jafnrétti, mannréttindi og lýðræði. Allt eru þetta atriði sem fá sífellt veigameiri sess í alþjóðlegri menntastefnu, til dæmis í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Merkilegt nokk eigum við líka góða og gilda stefnumótun í þessum anda hér á landi í grunnþáttum menntunar þó lengi haft skort á stuðning við kennslufræðilegar útfærslur jafnt í kennaramenntun sem og í starfsþróun kennara (Edda Óskarsdóttir o.fl., 2021).

Spurning um krísu

Þegar litið er til þess ógnarástands og ófriðar sem ríkir víðsvegar um heiminn er það deginum ljósara að íslenskt skólastarf er ekki í neinni sérstakri krísu þó svo að opinber umræða beri þess ýmis merki. Við höldum úti menntakerfi á grunni hugmynda um lýðræði og inngildingu  og öflugu skólastarfi þar sem breiður hópur kennara og sérfræðinga vinnur á degi hverjum við að koma til móts við afar fjölbreyttan nemendahóp.

Í þessari samsetningu liggur einmitt, að mínu mati, hið eiginlega umboð og markmið menntunar; í lýðræðislegum undirstöðum menntakerfisins og fjölbreytileika fólksins sem tekur þátt í því.

Ég spurði mig að því í upphafi greinar hvað Hanna Arendt myndi gera? Það er erfitt að segja. Mögulega myndi hún bara kveikja sér í sígarettu (hún reykti heil ósköp) og finna sér útsmogna leið til taka ekki afstöðu með neinum (sem hún var mjög góð í). En ég veit þó fyrir víst að hún myndi óhikað benda okkur á að vegna þess hve mikils virði menntun er hverju samfélagi beri okkur að taka allt tal um krísur alvarlega. Jafnvel þótt þær liggi frekar í samfélaginu utan skólanna en í skólastarfinu sjálfu.

Þar er ég líka sammála henni. Krísur eru  nefnilega sérlega menntandi. Að takast á við krísur felur í sér tækifæri til þess að staldra við, spyrja erfiðra spurninga og taka hugrakkar ákvarðanir. Slíkar spurningar varða manneskjuna í heild, ákvarðanirnar varða möguleika okkar til að lifa góðu lífi. Slíkar spurningar varpa ljósi á stöðu mála í heiminum, okkur sjálf og tengsl okkar við aðra og ákvarðanirnar leiða fólk saman frekar en að skilja það að.

Það er ljóst að spurningar og ákvarðanir í þessum anda eru ígrundaðar daglega innan íslenskra skóla en mættu sannarlega fá aukið vægi í samfélaginu í heild, ekki síst í opinberri umræðu um menntamál.

Heimildir

Arendt, H. (2006). Between past and future. Penguin Classics.

Berglind Rós Magnúsdóttir. (2024). Hugvekja á Menntaþingi 2024 um nýja aðgerðaráætlun ráðherra. Skólaþræðir, tímarit samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2024/10/08/hugvekja-a-menntathingi-2024/

Biesta, G. (2006).  Beyond Learning Democratic Education for a Human Future. Routledge.

Edda Óskarsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Birna M. Svanbjörnsdóttir og Rúnar Sigþórsson (2021). Framkvæmd stefnu um menntun fyrir alla á Íslandi: Viðhorf skólafólks og tillögur um aðgerðir. Netla, veftímarit um uppeldi og menntun. https://netla.hi.is/greinar/2021/rynd/07.pdf

Elsa Eiríksdóttir, Guðrún Ragnarsdóttir, María Jónsdóttir og Valgerður S. Bjarnadóttir (2024). Stytting námstíma til stúdentsprófs: Sjónarhorn menntarannsókna. Vísir. https://www.visir.is/g/20242629614d/stytting-namstima-til-studentsprofs-sjonarhorn-menntarannsokna

Eva Harðardóttir. (2022). Að varðveita heiminn. Hannah Arendt og menntakrísan. Netla, veftímarit um uppeldi og menntun.  https://ojs.hi.is/index.php/netla/article/view/3623

Eva Harðardóttir. (2023). Að finna sig heima í hnattvæddum heimi. Borgaravitund, inngilding og menningarlegur margbreytileiki í íslensku menntakerfi. Doktorsverkefni. Háskóli Íslands.

Korsgaard, M. (2019). Bearing with Strangers. Arendt, Education and the Politics of Inclusion. Routledge.

Nordic Welfare Center. (2023). Nordic Youth Voices. https://www.norden.org/en/publication/nordic-youth-voices

Ólafur Páll Jónsson. (2016). Democratic and Inclusive Education in Iceland: Transgression and the Medical Gaze. Nordic Journal of Social Research. http://dx.doi.org/10.15845/njsr.v7i0.904

Pashby, K. (2016). Conflations, possibilities, and foreclosures: Global citizenship education in a multicultural context. Curriculum Inquiry, 45(4), 345-366.

Torres, A. (2017). Theoretical and empirical foundations of critical global citizenship education. Routledge.


Um höfund

Eva Harðardóttir (evahar(hja)hi.is er lektor við Deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Rannsóknaráhugi hennar liggur á sviði alþjóðlegra stefnufræða með áherslu á hnattræna borgaravitund, inngildingu og menningarlegan margbreytileika.


Grein birt 26. októbr 2024
image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp