Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Author

Ingvar Sigurgeirsson

Ingvar Sigurgeirsson has 267 articles published.

Að kenna gervigreind í framhaldsskóla

í Greinar

Geir Finnsson

 

Á vorönn 2025 bauð Menntaskólinn við Sund upp á nýjan áfanga um gervigreind og ábyrga notkun á henni. Áfanginn, sem ber heitið Gervigreind & samfélag, var settur á laggirnar í kjölfar ört vaxandi áhrifa gervigreindar, nánar tiltekið spunagreindar (e. generative AI) á skólastarfið auk umræðu innan skólans um mikilvægi þess að fræða nemendur um áhrif, tækifæri og áskoranir sem fylgja þessari nýju tækni. Með spunagreind er átt við skapandi gervigreind sem getur útbúið alls kyns texta, mynd- og hljóðefni út frá sérstökum skipunum. Markmið áfangans var að undirbúa nemendur undir nýjan veruleika þar sem gervigreind gegnir sífellt stærra hlutverki, jafnt í námi sem og starfi. Hér verður fjallað um reynslu mína af kennslu þessa áfanga, innihaldi hans og þær kennsluaðferðir sem stuðst var við. Lesa meira…

Spjallmenni í kennslu

í Greinar

Fríða Gylfadóttir og Tinna Ösp Arnardóttir

 

Umræða er nú mikil um hvaða tækifæri notkun gervigreindar býður upp á í námi og kennslu. Margir álíta að hún bjóði upp á framfarir á meðan aðrir hafa efasemdir um gildi hennar í menntun. Í ljósi þessa þurfa kennarar að íhuga markvisst þá möguleika sem gervigreind býður uppá í kennslu en líka þær áskoranir sem tilkoma hennar inn í skólastarf hefur í för með sér. Með notkun gervigreindar hafa kennarar tækifæri til að endurskipuleggja vinnu sína og jafnvel hugsa kennsluna upp á nýtt. Gott dæmi um slíka nýsköpun er notkun spjallmenna í kennslu, en þeim er hægt að beita til að veita nemendum persónulega einstaklingsmiðaða aðstoð, þau má nota til að dýpka skilning og auka virkni nemenda í kennslustofunni. Hér verður sagt frá dæmi um þetta sem byggir á reynslu okkar sem kennarar í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Lesa meira…

Námsumhverfi K2 (Tækni- og vísindaleiðinni) í Tækniskólanum

í Greinar

Sigríður Halldóra Pálsdóttir

 

Í september 2024 efndu Samtök áhugafólks um skólaþróun til „samkeppni“ um áhugavert námsumhverfi. „Samkeppninni“ var fylgt úr hlaði með þessum orðum:

Margir kennarar, sem og þeir sem skipuleggja félags- og tómstundastarf, leggja rækt við að skipuleggja frjótt og skapandi umhverfi fyrir nemendur (og stundum með þátttöku þeirra). Nefna má umhverfi í leikskóladeildum eða skólastofur eða önnur námsrými í grunn- og framhaldskólum. Ekki má gleyma list- og verkgreinastofum, verkstæðum eða öðrum rýmum fyrir skapandi starf. Enn má nefna útikennslustofur, leikvelli, skólasöfn og aðstöðu fyrir tómstundir og félagsstarf. Snjallar lausnir við að skipuleggja rafrænt námsumhverfi koma einnig til greina.

Við hvetjum ykkur til að senda okkur myndir af námsumhverfi sem þið hafið skipulagt og látið fylgja greinargóðar lýsingar, skýringar, uppdrætti eða teikningar eftir því sem nauðsynlegt er. Efnið á að vera tilbúið til birtingar og áskilja samtökin sér rétt til að birta efnið í Skólaþráðum í samráði við þá sem leggja það til.

Gæsalappirnar utan um orðið „samkeppni“ vísa til þess að dregið  var um það hver fengju verðlaunin, en alls bárust á annan tug lýsinga. Meðal þeirra sem sendu framlag var Sigríður Halldóra Pálsdóttir brautarstjóri á K2: Tækni- og vísindaleið Tækniskólans.

Hér lýsir hún þessu sérstaka og áhugaverða námsumhverfi: Lesa meira…

Útisvæði við leikskólann Árbæ á Selfossi

í Greinar

María Ösp Ómarsdóttir

 Í september 2024 efndu Samtök áhugafólks um skólaþróun til samkeppni um áhugavert námsumhverfi. Meðal þeirra sem sendu framlag var María Ösp Ómarsdóttir leikskólastjóri í leikskólanum Árbæ á Selfossi. María Ösp tilnefndi útileiksvæði við leikskólann.

Leikskólinn Árbær á sér sögu frá árinu 2002 er hann hóf starfsemi. Leikskólinn var stækkaður árið 2006 og er nú með sex kjarna. Frá því í ágúst á þessu ári 2024 hefur leikskólinn verið rekinn af Hjallastefnunni. Leikskólastjórinn María Ösp Ómarsdóttir kom til starfa í leikskólanum 1. nóvember 2023 og fljótlega vaknaði sú hugmynd að gera breytingar á útisvæði leikskólans. Leiksvæðið var orðið lúið og var ekki í anda Hjallastefnunnar, en einn af grunnþáttum Hjallastefnunnar er opinn efniviður; leik- og námsefni sem ekki hefur eina lausn eða hlutverk, heldur hefur marga athafnakosti og getur þjónað mismunandi tilgangi eftir því hver meðhöndlar hann.

Hafist var handa við breytingarnar á útileiksvæði Árbæjar í febrúar 2024. Í fyrstu voru það Linda Mjöll Stefánsdóttir og Daníel Hjörtur Sigmundsson sem fylgdu verkefninu úr hlaði. Verkefnið er hugsað sem þróunarverkefni til langs tíma í samstarfi kennara, foreldra og barna. Markmiðið er að til verði náttúrulegt, skapandi og sjálfbært leiksvæði þar sem tækifæri eru til ræktunar á matvælum og til heilsdags útináms. Þá er leitast við að skapa kjöraðstæður til sjálfbærnináms Síðast en ekki síst að styrkja tengsl leikskólans við fjölskyldur barnanna með þátttöku þeirra í mótun útisvæðisins. Lesa meira…

Áhugavert námsumhverfi: Námsrými í 8. bekk Brekkubæjarskóla á Akranesi

í Greinar

Aldís Aðalsteinsdóttir, Helgi Reyr Auðarson Guðmundsson og Þorbjörg María Ólafsdóttir

Í september 2024 efndu Samtök áhugafólks um skólaþróun til „samkeppni“ um áhugavert námsumhverfi. „Samkeppninni“ var fylgt úr hlaði með þessum orðum:

Margir kennarar, sem og þeir sem skipuleggja félags- og tómstundastarf, leggja rækt við að skipuleggja frjótt og skapandi umhverfi fyrir nemendur (og stundum með þátttöku þeirra). Nefna má umhverfi í leikskóladeildum eða skólastofur eða önnur námsrými í grunn- og framhaldskólum. Ekki má gleyma list- og verkgreinastofum, verkstæðum eða öðrum rýmum fyrir skapandi starf. Enn má nefna útikennslustofur, leikvelli, skólasöfn og aðstöðu fyrir tómstundir og félagsstarf. Snjallar lausnir við að skipuleggja rafrænt námsumhverfi koma einnig til greina.

Við hvetjum ykkur til að senda okkur myndir af námsumhverfi sem þið hafið skipulagt og látið fylgja greinagóðar lýsingar, skýringar, uppdrætti eða teikningar eftir því sem nauðsynlegt er. Efnið á að vera tilbúið til birtingar og áskilja samtökin sér rétt til að birta efnið í Skólaþráðum í samráði við þá sem leggja það til.

Gæsalappirnar utan um orðið „samkeppni“ vísa til þess að dregið  var um það hver fengju verðlaunin, en alls bárust á annan tug lýsinga. Meðal þeirra sem sendu framlag voru þrír kennarar við Brekkubæjarskóla á Akranesi, þau Aldís Aðalsteinsdóttir, Helgi Reyr Auðarson Guðmundsson og Þorbjörg María Ólafsdóttir.

Hér lýsa þau þessu skemmtilega námsumhverfi í orðum og myndum. Lesa meira…

Skapandi námsumhverfi í leikskólanum Jörfa

í Greinar

Vessela  Stoyanova Dukova

 

Í september 2024 efndu Samtök áhugafólks um skólaþróun til samkeppni um áhugavert námsumhverfi. Meðal þeirra sem sendu inn framlag var Vessela Dukova leikskólastjóri í leikskólanum Jörfa í Reykjavík. Vessela tilnefndi breytingar sem gerðar hafa verið á sameiginlegu leiksvæði innan leikskólans.

Vessela Dukova leikskólastjóri hóf störf við leikskólann sumarið 2024 og hóf innleiðingu á nýrri skólastefnu í anda Reggio Emilia. Ein af megi áherslum Reggio Emilia hugmyndafræðinnar er að virða sjónarhorn barna, hvetja þau til sköpunar og efla rannsóknargleði þeirra í gegnum leik og samskipti.  Umhverfið leikur mikilvægt hlutverk í námi barnanna þar sem það getur ýtt undir rannsóknarvinnu og sköpun barna. Þessi hugmyndafræði dregur fram að vel skipulagt umhverfi getur stutt við nám með því að vera hvetjandi og opið fyrir ýmsum aðferðum. Áhersla er lögð á skapandi starf í öllum listgreinum, á jákvæða sjálfsmynd, sjálfstæði og frumkvæði í uppeldinu. Áhugi, sköpun og skoðanir eru virtar í samspili barna við önnur börn, fullorðna og umhverfi sitt. Lesa meira…

Áhugaverð myndmenntastofa í Grunnskóla Snæfellsbæjar

í Greinar

Ingiríður Harðardóttir

 

Í september 2024 efndu Samtök áhugafólks um skólaþróun til „samkeppni“ um áhugavert námsumhverfi. „Samkeppninni“ var fylgt úr hlaði með þessum orðum:

Margir kennarar, sem og þeir sem skipuleggja félags- og tómstundastarf, leggja rækt við að skipuleggja frjótt og skapandi umhverfi fyrir nemendur (og stundum með þátttöku þeirra). Nefna má umhverfi í leikskóladeildum eða skólastofur eða önnur námsrými í grunn- og framhaldskólum. Ekki má gleyma list- og verkgreinastofum, verkstæðum eða öðrum rýmum fyrir skapandi starf. Enn má nefna útikennslustofur, leikvelli, skólasöfn og aðstöðu fyrir tómstundir og félagsstarf. Snjallar lausnir við að skipuleggja rafrænt námsumhverfi koma einnig til greina.

Við hvetjum ykkur til að senda okkur myndir af námsumhverfi sem þið hafið skipulagt og látið fylgja greinagóðar lýsingar, skýringar, uppdrætti eða teikningar eftir því sem nauðsynlegt er. Efnið á að vera tilbúið til birtingar og áskilja samtökin sér rétt til að birta efnið í Skólaþráðum í samráði við þá sem leggja það til. Lesa meira…

Gæði menntakerfis markast af starfsskilyrðum

í Greinar

Berglind Rós Magnúsdóttir

 

Susan Robertson (2016) prófessor við Cambridge háskóla, hefur vakið athygli á að eftir árið 1990 hafi orðið umskipti í alþjóðlegri orðræðu um kennara. Frá þeim tíma hefur skilgreining á „góðum“ kennara verið drifin áfram af nákvæmum samanburði á ýmsum mælanlegum þáttum sem varða kennslu og árangur frá stofnunum á borð við OECD og Alþjóðabankann sem gefa síðan út ráðleggingar um hvernig móta beri kennara, kennsluaðferðir og kennaramenntun. Robertson hefur orðræðugreint fjölþjóðleg stefnuskjöl um kennara, skjöl sem hafa fengið mikla athygli og útbreiðslu. Hún rekur hvernig skýrslan Teachers matters sem kom út árið 2005 hjá OECD hafi markað þáttaskil í orðræðu um kennara, þar sem fagmennska þeirra var gerð tortryggileg og orðræðan um hinn skilvirka kennara ruddi sér til rúms. Þar kom fyrst upp þessi setning sem hefur gengið ljósum logum um heimsbyggðina, þ.e. að gæði menntakerfis geti ekki orðið meiri en gæði þeirra kennara sem þar starfa. Eflaust er hæpið að menntakerfi sé gott ef þeir sem vinna innan þess eru upp til hópa ekki fagmenn. En einnig hefur verið ályktað í hina áttina, þ.e. þegar verr gengur þá sé það ávallt til marks um að kennararnir og stjórnendurnir séu slakir. Í þessari staðhæfingu felst sú hugmynd að skólinn sem stofnun sé eins konar eyland, að félagslegt samhengi sé aukaatriði, þ.e. hvers konar starfsaðstæður séu í skólanum, hvers konar velferðarkerfi séu við lýði eða hvernig efnahagsleg og félagsleg formgerð einkenni samfélagið. Þessi hugsun er kjarninn í því sem kallað er frammistöðuvæðing (e. performativity). Þá er frammistaða nemenda í menntakerfinu sem mæld er á einum tímapunkti spyrt saman við gæði eða gildi fagmanneskjunnar, þ.e. kennarans, sem kennir þeim þegar mælingin fer fram, óháð uppeldis- og skólasögu nemenda eða þeim aðstæðum sem kennari og nemendur eru sett í. Þessi mæling er svo nýtt til að leggja mat á framleiðni og gæði stofnunar (Ball, 2003). Lesa meira…

Stóru-Vogaskóli, 150 ára saga: 1872–2022

í Greinar

Þorvaldur Örn Árnason

 

Haustið 2022 átti Stóru-Vogaskóli 150 ára afmæli. Af því tilefni birti ég vikulega þátt úr sögu skólans í Víkurfréttum. Alls urðu þetta 46 þættir sem þar birtust. Síðar bættust fjórir við.

Haustið 2021 fékk ég þá hugmynd að vinna úr gögnum sem ég hafði safnað í tengslum við 140 ára afmæli skólans 2012, hvattur til þess af Snæbirni Reynissyni skólastjóra og Hauki Aðalsteinssyni sagnfræðigrúskara, sem höfðu þegar um aldamótin safnað dálitlu efni og haldið upp á 130 ára afmælið 2002. Talsvert af handskrifuðum gögnum frá allri 20. öld voru varðveitt í skólanum. Þau nýttust vel við skrif þessi en auk þess leitaði ég víða fanga eins og gerð er grein fyrir 49. þætti, sjá hér.

Eftir að hafa birst í Víkurfréttum var öllu efninu safnað saman á vefsíðu Stóru-Vogaskóla, sjá hér: Þættir úr sögu skólans – Stóru-Vogaskóli. Einnig er hægt að nálgast efnið í prentvænni útgáfu, sjá hér.

Hvatinn að þessum skrifum var ekki síst sá að mér fannst skólinn hafa verið sniðgenginn þegar fjallað var opinberlega um elstu barnaskóla landsins. Sem dæmi má nefna í tveggja binda verki Kennaraháskóla Íslands og Háskólaútgáfunnar frá 2008, Almenningsfræðsla á Íslandi, er skólinn ekki nefndur á nafn. Mér þótti því brýn ástæða til að draga sögu skólans fram í dagsljósið. Stóru-Vogaskóli er þriðji elsti barnaskólinn á Íslandi sem hefur starfað samfleytt. Lesa meira…

Menntakerfi í krísu?

í Greinar

Eva Harðardóttir

 

Þegar ég útskrifaðist með doktorspróf í menntunarfræðum fékk ég að gjöf bol með áletruninni What would Hannah Arendt do? Þar var á ferðinni ákveðinn einkahúmor en nú sléttu ári eftir útskrift sit ég í bolnum og velti þessari spurningu alvarlega fyrir mér í ljósi þeirrar líflegu en oft og tíðum afar neikvæðu opinberu umræðu sem einkennir menntamálin á Íslandi. Daglega birtast greinar í fjölmiðlum sem viðra mismunandi skoðanir á kjörum og vinnuframlagi kennara, gæðum náms, árangri nemenda, líðan þeirra og möguleikum til farsællar framtíðar. Orðræðan er í þeim anda að krísuástand virðist ríkja á vettvangi menntunar. En í hverju nákvæmlega liggur þessi krísa?

Árið 1954 skrifaði heimspekingurinn Hannah Arendt (2006) stutta en þýðingarmikla grein sem bar heitið The Crisis in Education þar sem hún rýnir í bandarískt menntakerfi. Greinin hefst á þeim orðum að ekki þurfi auðugt ímyndarafl til að gera sér grein fyrir þeim hættum sem stafi af stöðugt hnignandi gæðum í skólakerfinu. Áhyggjuefni þess tíma voru meðal annars slök lestrarfærni drengja, agaleysi nemenda og efasemdir um störf kennara. Hljómar kunnuglega? Lesa meira…

1 2 3 27
Fara í Topp