Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Monthly archive

desember 2023

  Leiðsagnarnám eykur þátttöku og sjálfræði nemenda í námi sínu

í Greinar

Hjördís Þorgeirsdóttir

 

Í þessari grein er fjallað um starfendarannsókn sem hefur það markmið að þróa námshætti og námsmat í anda leiðsagnarnáms og byggja upp námsmenningu um námskraft nemenda í kennslu í félagsfræði í Menntaskólanum við Sund (MS). Ég var þátttakandi í starfendarannsóknarhópi kennara MS frá 2005 til 2022 en þar hefur verið stefna samkvæmt námskrá að byggt skuli á kennslufræði um virkni og ábyrgð nemenda á námi sínu (Hafþór Guðjónsson, 2013; Hjördís Þorgeirsdóttir, 2023b, 2016). Sjá grein um  starfendarannsóknarhóp MS í Skólaþráðum2023 hér.

Eftir að ný þriggja ára skólanámskrá til stúdentsprófs var innleidd í nýju þriggja anna kerfi í MS árið 2016 með megináherslu á verkefnabundið nám kom upp skýr þörf fyrir að innleiða leiðsagnarmat sem lið í símati sem viðhaft er í nýju kerfi í MS eftir að sérstakur prófatími í skóladagatalinu var lagður niður. Haustið 2017 var stofnaður þróunarhópur kennara um leiðsagnarmat í MS undir leiðsögn Sólveigar Zophoníusardóttur, aðjúnkts við Háskólann á Akureyri. Ég sem félagsfræðikennari tók þátt í starfi þessa hóps og hóf að innleiða leiðsagnarmat byggt á hugmyndum Dylan Wiliam (Black og Wiliam 2009; Wiliam, 2018) og hélt ég áfram á þeirri braut skólaárin 2018 til 2022. Jafnframt innleiðingu leiðsagnarnáms byggði ég á hugmyndafræði Guy Claxton og fleiri um námskraft nemenda (2018; 2002; Glaxton og Powell, 2019) þar sem áhersla er lögð á að beina athyglinni að námsvenjum, hugsun og viðhorfum nemenda til náms en einblína ekki eingöngu á miðlun innihalds námsefnisins. Sjá umfjöllun um námskraftinn í Skólaþráðum 2023 hér og rannsóknarskýrslu 2020 um leiðsagnarnám og námskraftinn hér.

Í þessari grein lýsi ég helstu aðferðum sem ég nýtti í leiðsagnarnáminu frá 2017 til 2022 út frá fimm lykilaðgerðum leiðsagnarmats samkvæmt flokkun Wiliam (2018). Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Að vakna til vitundar: Um bókina World-Centred Education eftir Gert Biesta

í Ritdómar

Atli Harðarson

 

Undanfarinn einn og hálfan áratug hafa bækur og greinar eftir Gert Biesta haft umtalsverð áhrif á menntavísindi og heimspeki menntunar. Þessi áhrif ná langt út fyrir Vestur-Evrópu og hinn enskumælandi heim enda hafa verk eftir hann verið þýdd á um tuttugu tungumál.

Biesta hóf feril sinn í Hollandi þar sem hann fæddist og ólst upp, en hann hefur starfað víða, meðal annars í Noregi og Svíþjóð og er nú prófessor við Maynooth háskólann á Írlandi og við Edinborgarháskóla í Skotlandi. Í skrifum sínum tengir hann þekkingu á menntavísindum, menntastefnu og skólamálaumræðu samtímans við skilning á meginstraumum heimspeki síðustu aldar, einkum evrópskri tilvistarstefnu (existentialism) og amerískri verkhyggju (pragmatism).

Nýjasta bók hans (Biesta 2022), sem kom út í fyrra, heitir fullu nafni World-Centred Education: A View for the Present. Hún er fremur stutt, aðeins 113 blaðsíður, og textinn hverfist um eina meginhugmynd sem er að skólar hafi þrefaldan tilgang og menntun þrenns konar markmið. Það sem hér fer á eftir er um þessa einu bók og allt sem ég hef eftir Biesta er sótt í hana. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp