Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Monthly archive

desember 2020

Fátt mun breytast sem skiptir máli nema drifkrafturinn komi frá kennurum

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Jón Torfi Jónasson

 

Stöndum við á krossgötum í menntamálum? Sennilega, og líklegast er að við gerum það framvegis. Heimurinn breytist og mennirnir með og hugmyndir okkar um hvað skipti máli og að hverju þurfi að hyggja taka sífelldum breytingum. En sumt breytist hægt og innan skólakerfisins verða breytingar sennilega hægari en æskilegast væri. Oft ættum við að hugsa hlutina alveg upp á nýtt en stundum er einnig gott að rifja upp gamlar góðar hugmyndir. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Samþættar námsgreinar í Menntaskólanum á Akureyri: Menningar- og náttúrulæsi í tíu ár

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

 

Valgerður S. Bjarnadóttir

 

Eins og við aðra framhaldsskóla, hófust stjórnendur og kennarar við Menntaskólann á Akureyri handa við endurskipulagningu á skipulagi og inntaki náms þegar ný lög um framhaldsskóla voru samþykkt árið 2008. Það frelsi sem lögin fólu í sér buðu upp á ýmsa möguleika til að þróa og endurskipuleggja námskrá skólans út frá sérstöðu hans og þróunarvinnu sem hafði átt sér lengri aðdraganda. Undirrituð var þá kennari og verkefnastjóri við skólann og kom með virkum hætti að þróun nýrrar námskrár. Á þessum tíma hafði skólinn um nokkurt skeið boðið upp á kjörsviðsgrein í ferðamálafræði fyrir nemendur á málabraut, en um var að ræða röð samþættra áfanga þar sem tungumála- og upplýsingatæknikennarar brutu niður veggi milli námsgreina í gegnum verkefnamiðað nám með sterkri tengingu við samfélagið. Þessi nýjung hafði heppnast vel og gefið dýpt og raunveruleikatengingu í tungumálanám nemenda. Segja má að hið vel heppnaða ferðamálakjörsvið hafi verið kveikjan og grunnurinn að þeirri hugmynd að halda þróun slíkra kennsluhátta áfram með samþættum áföngum í 1. bekk þar sem mikil áhersla yrði lögð á þjálfun í vinnubrögðum, læsi í víðum skilningi og leiðsagnarnám. Tilurð áfanganna var ein stærsta breytingin sem gerð var á námskrá skólans við innleiðingu núgildandi laga og námskrár, og þeir hafa verið hluti af námi við skólann frá því að ný námskrá var innleidd skólaárið 2010–2011. Fyrsta veturinn gengu áfangarnir undir sameiginlega heitinu Íslandsáfanginn og var þá sem nú skipt í samfélags- og náttúruhluta. Seinna festust í sessi áfangaheitin menningar- og náttúrulæsi. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Trúarbragðafræði: Tækifæri, áherslur og áskoranir

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Gunnar Jóhannes Gunnarsson

 

Í kjölfar grunnskólalaganna 2008 hófst vinna við gerð nýrrar aðalnámskrár. Árið 2013 var gefin út ný námskrá fyrir greinasvið grunnskólans og fylgdi hún í kjölfar almenna hluta aðalnámskrárinnar sem kom út tveim árum fyrr. Í námskránni var lögð áhersla á að námsgreinar grunnskólans mynduðu stærri heildir en áður og því var fleiri greinum en áður steypt saman í greinasvið. Þar á meðal er námskrá í samfélagsgreinum. Sú námskrá felur í sér verulegar breytingar á stöðu trúarbragðafræðslu í grunnskólum þar sem hún er nú ekki lengur með eigin námskrá heldur er hún hluti samfélagsgreinasviðs. Þegar námskráin er skoðuð kemur í ljós að samfélagsgreinasviðið er orðið mjög umfangsmikið en það samanstendur af landafræði, sögu, þjóðfélagsfræði, trúarbragðafræði, lífsleikni, jafnréttismálum, heimspeki og siðfræði (Aðalnámskrá grunnskóla, greinasvið 2013, bls. 194–207). Þetta víðfeðma svið fær síðan einungis 11,46% af heildarstundafjölda grunnskólans samkvæmt viðmiðunarstundaskrá (Aðalnámskrá grunnskóla, almennur hluti, 2011, bls. 49). Því er eðlilegt að spyrja þeirrar spurningar hvort sá tími nægi til að sinna öllum viðfangsefnum þessara greina og hvort sú hætta sé ekki fyrir hendi að mikilvæg viðfangsefni eða jafnvel heilu greinarnar verði útundan þegar á reynir í knöppum tímafjölda. Þar gætu greinar eins og lífsleikni og trúarbragðafræði staðið veikt. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

„Við förum ekki að gagnrýna okkur sjálf, er það?“

í Greinar

Hugleiðingar um framfarir, varðveislu og menntun í tilefni af sjötíu ára afmæli Ingvars Sigurgeirssonar

Ragnar Þór Pétursson

 

Það er dæmigert fyrir Ingvar Sigurgeirsson að þessi grein megi helst ekki fjalla um hann þótt hann samþykki að fram komi að hún sé hugsuð og skrifuð í tilefni af sjötíu ára afmæli hans. Fáa þekki ég sem minni þörf hafa fyrir sviðsljósið nema ef væri til að beina því að öðrum. Ég veit þó að Ingvar mun fyrirgefa mér þá óhlýðni að draga nafn hans fram með þeim hætti sem ég geri. Annað er ekki hægt. Hann skilur líka mætavel að lífið er litakassi en ekki ljósritunarvél; ef ekki er litað út fyrir línurnar hættir myndin að stækka. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Útinám dýpkar skilning og eykur virðingu fyrir lífi

í Greinar
Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Hrefna Sigurjónsdóttir

 

Ég hef um árabil farið með kennaranema, líffræðinema og aðra hópa í alls konar vettvangsferðir út í náttúruna og það er reynsla mín að langflestir kunna vel að meta slíka upplifun. Námstækifærin eru margvísleg og auk þess hafa slíkar ferðir bæði félagslegt og heilsusamlegt gildi. Ég sem dýraatferlisfræðingur og vistfræðingur með áhuga á náttúruvernd hef lagt áherslu á að nota ferðir út í náttúruna til að auka skilning nemenda á því hvaða lífverur eru einkennandi fyrir mismunandi búsvæði og ekki síður hvernig þær mynda í sameiningu samfélag þess vistkerfis sem um ræðir. Með því að láta nemendur pæla í fæðukeðjum á staðnum, og útvíkka þá mynd í fæðuvef þegar heim er komið, dýpkar skilningurinn á því hvernig tegundir tengjast og eru háðar innbyrðis. Lífverur sem gjarnan gleymast við fyrstu skoðun, eins og sveppir, fléttur, smádýr í jarðvegi, bakteríur o.fl., koma eðlilega inn í umræðuna og sjónarhornið víkkar. Með þessu móti eykst skilningur á mikilvægi þess að huga að og varðveita fjölbreytileika lífvera en hnignun hans er nú talin ein mesta ógn sem steðjar að lífi að jörðinni, jafnvel meiri en loftslagsváin. Að mínu mati er eitt mikilvægasta markmið í líffræðikennslu að auka virðingu og væntumþykju fyrir öllu lífi. Lengi vel var þetta markmið í námskrám grunnskóla en einhverra hluta vegna sér þess varla stað í námskrám sem hafa komið út á þessari öld. Hrædd er ég um að þessu sé ekki alltaf haldið á lofti. Afleiðingarnar birtast í misnotkun okkar á lífverum, eyðingu búsvæða og mengun. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

CAT kassinn – verkfæri til að auðvelda samræður við börn og ungmenni

í Greinar
Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Ásgerður Ólafsdóttir

 

Við Sigrún Hjartardóttir, sérkennari og einhverfuráðgjafi, stofnuðum Einhverfuráðgjöfina ÁS árið 2001 (https://www.facebook.com/aseinhverfuradgjof).

Það sama vor sóttum við námskeið í Kaupmannahöfn um ýmsar leiðir í kennslu og þjálfun barna með Aspergerheilkenni.  Á þessu námskeiði var CAT kassinn kynntur í fyrsta skipti, en hann var þá í þróun og kom út á dönsku vorið 2002. Á þessum árum kenndi ég við starfsbraut í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og hóf strax að nýta þar ýmsar hugmyndir úr CAT kassanum. Rósa Eiríksdóttir, þá þroskaþjálfanemi, var samstarfskona mín á starfsbrautinni og hún vann þróunarverkefni um CAT kassann undir minni leiðsögn vorið 2004. Við fundum fljótt að þetta efni höfðaði afar vel til hluta nemenda okkar.

Sumarið 2004 fórum við Sigrún á framhaldsnámskeið til Danmerkur um notkun CAT kassans og fengum þá leyfi til að þýða hann á íslensku. Hann kom síðan út á íslensku árið 2005. Þá hefur kassinn einnig verið þýddur á ensku, norsku, sænsku, þýsku og ítölsku. Sameiginleg heimasíða er fyrir kassann á öllum þessum tungumálum, www.cat-kit.com.

Höfundar að CAT kassanum eru dönsku sálfræðingarnir Annette Møller Nielsen og Kirsten Callesen, í samstarfi við Tony Attwood, ástralskan sálfræðing sem er einn helsti sérfræðingur í heimi um Aspergersheilkenni og höfundur fjölmargra fræðirita. (sjá www.tonyattwood.com.au) Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Samfaglegt nám og framhaldsskólastarf á 21. öld

í Greinar
Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

 

Viðfangsefni þessarar greinar er námskrárfræðilegar hugmyndir um samfaglegt nám. Horft er á viðfangsefnið af sjónarhóli námskrár fremur en sjónarhóli nemenda og á inntak áfanga fremur en kennsluaðferðir – að því leyti sem hægt er að aðgreina inntak og kennsluaðferðir í samfaglegu námi. Í fyrri hluta greinarinnar er sagt frá ákvæðum um samfaglegt nám í aðalnámskrá framhaldsskóla 1999 og 2011. Í síðari hluta greinarinnar er sett fram róf (e. spectrum.) Á rófinu eru þemanám sem er óháð námsgreinum, samþætting tveggja eða fleiri námsgreina, námskrárpúslur, óbein samþætting og námsfléttun með auðgun efnis tiltekinnar námsgreinar. Þótt efnið sé hér sett í tengsl við framhaldsskólastarf getur rófið einnig átt við um grunnskólastarf og háskólakennslu. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp