Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Monthly archive

janúar 2021

Ráðuneytismaður af lífi og sál: Stefnumörkun menntamálaráðuneytis um grunnskólann í 35 ár – 1985 til 2020

í Viðtöl

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Guðni Olgeirsson í viðtali við Gerði G. Óskarsdóttur

 

Í þessu viðtali ræðir Guðni Olgeirsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, vinnu við stefnumörkun ráðuneytisins um málefni grunnskóla á þeim 35 árum sem hann hefur starfað þar.

Eitt af meginverkefnum mennta- og menningarmálaráðuneytis er að móta stefnu um öll svið menntakerfisins frá leikskóla til háskóla og fullorðinsfræðslu, ýmist með lagafrumvörpum til Alþingis, reglugerðum, útgáfu aðalnámskráa eða sérstakri stefnumörkun. Um þessar mundir er stefnumótun ráðuneytisins til ársins 2030 um allt menntakerfið að koma út. En hvernig ætli hafi verið staðið að stefnumörkun á undanförnum áratugum?

Guðni Olgeirsson, sérfræðingur á skrifstofu skóla-, íþrótta- og æskulýðsmála í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, hefur reynslu og yfirsýn yfir langt tímabil í störfum ráðuneytisins. Hann var fyrst ráðinn að skólaþróunardeild sem námstjóri í íslensku, en deildin var þá fyrst og fremst skipuð námstjórum í einstökum námsgreinum grunnskólans. Þá var unnið þar að nýrri aðalnámskrá grunnskóla og ráðgjöf við grunnskóla. Vettvangsheimsókn í deildina í kennsluréttindanámi við Háskóla Íslands vakti áhuga Guðna á að sækja um námstjórastarfið. Þar starfaði hann síðan á árunum 1985–1990 eða þar til deildin var flutt inn í húsnæði ráðuneytisins og varð hluti af nýrri grunnskóladeild. Sumir námstjórarnir hættu en aðrir fóru inn í ráðuneytið og var Guðni einn af þeim. „Þetta var allt annað umhverfi, skólaþróunardeildin hafði verið tiltölulega sjálfstæð fagleg eining og laustengd ráðuneytinu og viðhorf skólafólks til hennar almennt jákvæðara en til ráðuneytisins sjálfs,“ rifjar Guðni upp. Hann hefur sinnt margs konar stefnumótunarvinnu, undir stjórn 13 ráðherra, innlendu og erlendu nefndastarfi með megináherslu á skyldunámið og víðtækum tengslum við vettvanginn. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Hvernig smáfræ verður að meginstoð í sköpun lærdómssamfélags: Um áhugasviðsverkefni í Grunnskólanum á Suðureyri

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Jóna Benediktsdóttir

 

Grunnskólinn á Suðureyri er pínulítill skóli, svo lítill að þar þurfa kennarar að kenna fleiri greinar en sínar óskagreinar og eru yfirleitt ekki í samstarfi við neinn um sína kennslu. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og meira en helmingur þeirra á annan eða báða foreldra af erlendum uppruna og greiningar vegna frávika eru ekki sjaldgæfari hjá okkur en öðrum. Þessar aðstæður hafa litað skólastarfið gegnum árin og eins og við vitum öll sem störfum í grunnskólum er auðvelt að festast í ákveðnu fari sem skapast bæði af ytri og innri aðstæðum í skólasamfélagi. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Nýr skóli á nýrri öld – um þróunarstarf í Salaskóla í tuttugu ár

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Hafsteinn Karlsson

 

Í upphafi aldarinnar var mikil gerjun í skólastarfi. Sveitarfélögin höfðu nýlega tekið við rekstri grunnskólanna af ríkinu og víðast hvar var mikill metnaður og áhugi heimamanna á að gera skólana sína sem besta. Í Reykjavík var t.a.m. markvisst umbótastarf í gangi þar sem lagt var upp með einstaklingsmiðað og fjölbreytt skólastarf. Kennaraháskólinn var kominn vel af stað með sérstakt framhaldsnám fyrir skólastjórnendur með áherslu á faglega forystu skólastjórnenda í sínum skólum og mikilvægi þess að starf hvers skóla byggi á skýrri hugmyndafræði. Meistaranám í kennslufræðum hafði einnig fest rætur. Fjölgreindakenning Gardners var á hvers mann vörum og bók Thomasar Armstrongs um hana kom út í íslenskri þýðingu Erlu Kristjánsdóttur árið 2001. Hún opnaði augu margra kennara fyrir mikilvægi fjölbreytts skólastarfs. Einnig voru hugmyndir um samfellu skóla- og frístundastarfs, umhverfismál, jafnréttismál og möguleikar upplýsingatækninnar í námi og kennslu ofarlega á baugi. Þá voru gerðar tilraunir til að stokka upp kjarasamninga kennara m.a. í því skyni að auka möguleika á faglegu samstarfi og samvinnu kennara við undirbúning og skipulagningu náms. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Fjórar myndir: Kennslukona leitar fótfestu

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Súsanna Margrét Gestsdóttir

 

September 1985

„Reyðarfjörður, Eskifjörður, Fráskrúðsfjörður, Stöðvarfjörður!“ kallar rútubílstjórinn yfir flugvöllinn á Egilsstöðum með skrolli sem slær allt út sem áður hefur heyrst. „FRÁskrúðsfjörður? Heitir hann það?“ spyrja tveir táningar sem eru að troða farangri sínum inn í rútuna þetta blauta haustkvöld. Þau vita ekkert um það og reyndar ekkert um staðinn yfir höfuð, hafa aldrei komið þangað. Engu að síður hafa þau ráðið sig til kennslu við grunnskólann á staðnum þennan vetur og þó að skólinn hafi reyndar verið settur án þeirra nokkrum vikum fyrr þótti fagnaðarefni að fá þau til starfa því að þau eru nefnilega með glóðvolgt stúdentspróf. Þau gátu ekki mætt fyrr því að þau þurftu auðvitað að fara á Interrail með félögum sínum að sumarvinnu lokinni og í farangrinum er gott safn af vínilplötum, beint frá London – má þar nefna Cure, Stranglers og Talking Heads. Steinsnar er frá kjallaraíbúðinni í Skólabrekku yfir í grunnskólann og næsta dag má sjá þau skottast þangað. Stúlkan er rúmlega einn og hálfur metri á hæð, með leifar af unglingabólum í kinnum þó að hún sé orðin 19 ára og hefur vissulega áhyggjur af því að eiga að kenna 11 ára gömlum börnum að reikna. En hún er ekki fyrr komin inn í skólastofuna en hún fyllist vellíðan og gleði: Nemendur reynast gríðarlega skemmtilegir, námsefnið er allt viðráðanlegt og hún skrifar foreldrum sínum sendibréf í fyrstu viku þar sem segir í algerri einlægni: „Ég er fædd til að kenna.“ Þessi ummæli slá svo í gegn í Seljahverfinu að systir hennar nýtir sér aðstöðuna hjá Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins og býr til barmmerki með sömu orðum sem enn er til. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Spjaldtölvuskammdegið: Óljósar vangaveltur um uppsprettu andstöðu við viðleitni til að bæta skólastarf og valdefla nemendur

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Björn Gunnlaugsson

Ritvélin var fundin upp á nítjándu öld og var mikil völundarsmíð. Hnappar á lyklaborði voru prýddir öllum bókstöfum stafrófsins og þegar þrýst var á hnappana skutust hamrar leiftursnöggt úr sætum sínum, einnig prýddir sömu bókstöfum upphleyptum sem lentu með þunga á blekborða með þeim afleiðingum að á blaði undir borðanum sat eftir afrit bókstafsins. Þvílíkur galdur! Skrásetningargeta mannkyns margfaldaðist við þetta á einni nóttu en einn ljóður var á ráði þessa nýja galdratækis, eins og oft er með nýjungar. Hamrarnir áttu það til að rekast á þegar þeir flugu að blekborðanum og blaðinu og læsast saman. Nú voru góð ráð dýr.

Ráðist var í að raða hömrunum upp á nýtt og var beitt þeirri aðferð að rýna uppröðun bókstafa í orðum og setja saman hlið við hlið í ritvélinni þá bókstafi sem sjaldnast stóðu saman í orðum, því þannig mætti fækka árekstrunum. Þetta krafðist þess hins vegar að fram færi mikil þjálfun til að ritari lærði þessa nýju uppröðun stafanna en hún lá alls ekki í augum uppi. Þeirri þjálfun er enn haldið áfram í skólum þótt áratugir séu liðnir síðan síðast komu við sögu hamrar með upphleyptum stöfum, blekborðar og blöð þegar setið var við skriftir.

Þegar höfundur þessa pistils var að læra vélritun í grunnskóla á síðustu öld voru rafknúnar ritvélar til á mörgum heimilum og öllum vinnustöðum. Í skólanum var slíkum vélum ekki til að dreifa heldur þurfti að beita allnokkru afli með fingrunum til að fá hamrana til að gera sitt gagn. Nemendum var að sjálfsögðu bannað að nota rafmagnsritvélarnar heima til að vinna vélritunarverkefnin, því þá væri hætta á að þeir næðu ekki að þjálfa upp nægilegt afl í fingurna til að geta notað þessar úreltu ritvélar sem voru hvergi lengur til nema í skólum.

Í dag notast enginn lengur við ritvélar og þótt lyklaborðin hafi fylgt tölvum fyrstu áratugina eru þau nú á útleið því með tækniframförum má nú nota röddina til að gefa tölvunni fyrirmæli um hvað eigi að skrifa. Sé því ekki til að dreifa eru lyklaborð nú oftast á örlitlum skjá þar sem best er að nota þumlana til að þrýsta á stafina. Samt þráumst við við að þjálfa nemendur í vinnubrögðum fortíðar okkar.

Eins og góður skólamaður sagði eitt sinn: „Í skólastarfi erum við miklir sérfræðingar í að gera ranga hluti mjög vel.“ Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Þróun og nýsköpun í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Fríða Bjarney Jónsdóttir og Hjörtur Ágústsson

 

Menntastefna Reykjavíkur- „Látum draumana rætast“, var samþykkt í lok árs 2018 eftir tæplega tveggja ára mótunarferli með aðkomu um 10.000 aðila innan og utan borgarinnar. Í þeim hópi voru börn, foreldrar, kennarar og starfsfólk í skóla- og frístundastarfi, erlendir og íslenskir sérfræðingar um menntamál og almenningur í gegnum Betri Reykjavík. Áhugaverða samantekt á opnu samráði við mótun menntastefnunnar má lesa í niðurstöðum rannsóknarinnar Crowdsourcing Better Education Policy in Reykjavik (King, 2019). Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Samræmd eða ósamræmd próf – eða út fyrir rammann?

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Rúnar Sigþórsson

 

Til þess að ná þeim markmiðum sem ég hef lýst hér þarf róttæka breytingu á hugmyndum okkar um það sem skiptir máli í menntun. Einkunnir úr prófum þurfa að víkja fyrir annars konar viðmiðum um árangur náms sem er mikilvægari í menntunarlegu tilliti. Á meðan skólar líta á einkunnir úr prófum sem helsta mælikvarða á árangur nemenda og gæði menntunar mun okkur veitast erfitt að henda reiður á því sem raunverulega skiptir máli í skólastarfi. (Eisner, 2003/2004, bls. 10, íslensk þýðing greinarhöfundar)

Inngangur

Á síðasta ári (2020) gaf mennta- og menningarmálaráðuneytið út skýrsluna Framtíðarstefna um samræmt námsmat: Tillögur starfshóps um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag sam­ræmdra könnunarprófa. Í skýrslunni leggur starfs­hópurinn til að „samræmd próf í núverandi mynd verði ekki þróuð frekar og að notkun þeirra verði hætt“ (bls. 11). Jafnframt leggur hópurinn til að í stað prófanna verði þróað námsmatskerfi sem nefnt verði matsferill. Hann á, samkvæmt tillögum hópsins, að verða „heildstætt safn matstækja í mörgum námsgreinum“ (bls. 11) og gegna í grundvallaratriðum sama hlutverki og samræmd könnunarpróf í grunnskóla gera nú samkvæmt reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd þeirra (nr. 173/2017). Starfshópurinn leggur með öðrum orðum til að áfram verði opinbert ríkisrekið námsmatskerfi og markmið þess óbreytt enda þótt framkvæmdin verði í grundvallaratriðum önnur. Þetta er nokkuð róttæk tillaga og hún vekur ýmsar spurningar. Þrátt fyrir það hefur umræða um tillöguna orðið minni en efni standa til og lítil kynning á henni átt sér stað. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

„Hvað fékkstu á prófinu?“ Hugleiðing um námsmat í hálfa öld

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Svandís Ingimundardóttir

 

Námsmat þá

Fyrir ríflega hálfri öld fékk lítil 7 ára stúlka sína fyrstu einkunn á lífsleiðinni en svo sannarlega ekki þá síðustu. Hún fékk 3,7 ritað á lítinn miða sem hún skilaði samviskusamlega til móður sinnar þegar heim var komið. Þetta þótti bara nokkuð góð frammistaða hjá þeirri stuttu en talan endurspeglaði hversu mörg atkvæði á mínútu hún gat lesið skammlaust. Þetta vissu foreldrarnir enda hafði svo verið í tugi ára, sama mælistikan á alla og engum vafa undirorpið hvað þýddi. Héðan gat því leiðin einungis legið upp á við.

Sú stutta naut sín í skólanum, hafði framsýna kennslukonu sem m.a. fékk að kenna þeim dönsku, aðeins níu ára gömlum og 12 ára lék hún Grámann í Garðshorni á sviði í söngsalnum. Lífið var yndislegt, hún lagði sig í líma við að skila óaðfinnanlegum ritgerðum, myndskreyttum og vandvirknislega frágengnum og gat fengið allt að Mjög gott++ fyrir. Framtíðin var ráðin þá þegar, staðföst stefndi hún að því að verða kennari þegar hún yrði stór því hvergi leið henni betur en í skólanum. Hún lauk níu ára skyldunámi með viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn á landsprófi frá Rotary-klúbbi bæjarins, hvorki meira né minna, með tveimur aukastöfum því nákvæmt skyldi það vera. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Ræktun mennskunnar: Hvernig eflum við samskiptahæfni?

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Sigrún Aðalbjarnardóttir

 

Við skulum líta inn í skólastofu í grunnskóla. Kennarinn varpar fram klípu í samskiptum:

Erna og Dísa eru vinkonur. Dag nokkurn eru þær að undirbúa leikrit í skólanum. Dísa vill bjóða nýrri stelpu í bekknum að vera með þeim í leikritinu en Erna vill það ekki. Hún vill bara vera með vinkonu sinni einni í leikritinu.

      • Hver er vandinn hér? Hvers vegna er það vandi?
      • Hvernig ætli A (Ernu) líði? Hvers vegna ætli henni líði þannig?
        Hvernig ætli B (Dísu) líði? Hvers vegna ætli henni líði þannig?
      • Hvernig geta A og B leyst vandann (ýmsar tillögur)? Af hverju væri það góð leið?
        Væri sú leið sanngjörn? Að hvaða leyti/Að hvaða leyti ekki?
      • Hver er besta leiðin til að leysa vandann? Af hverju er það besta leiðin?

Með þessu dæmi um samskiptaklípu og spurningum kennara kemur fram að hann leitar eftir því að nemendur greini vandann, hugi að líðan hlutaðeiganda, finni ýmsar leiðir til að leysa vandann, hugi að sanngirni og velji bestu leiðina. Nemendur eru hvattir til að tjá sig og færa rök fyrir hugsun sinni. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal

Hvert skal haldið? Hugleiðing um skipan stuðnings við markvissa skólaþróun

í Greinar

Birt til heiðurs dr. Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum

 

Helgi Grímsson

 

Í ár er aldarfjórðungur frá því að allur rekstur grunnskólans fluttist frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna. Flutningur grunnskólans var stærsta skrefið sem stigið hefur verið á undanförnum áratugum til að efla sveitarstjórnarstigið í landinu og stuðla að skýrari verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Á sama tíma hefur leikskólinn eflst sem fyrsta skólastigið og er námskrá þessara tveggja skólastiga samræmd að nokkru. Ég tel að margt hafi heppnast afar vel við þennan flutning og við séum almennt með góða leikskóla og grunnskóla sem gengur vel að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin. Athyglisvert er þó að hvorki hafa verið gerðar heildstæðar óháðar úttektir á stöðu leikskóla né grunnskóla, í kjölfar þessara miklu kerfisbreytinga. Lesa meira…

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp