Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Suðurnesja-Sprettur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja

í Greinar

Þjóðbjörg Gunnarsdóttir

Þegar hugmyndin að verkefninu Suðurnesja-Spretti vaknaði voru um 850 nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tæplega hundrað þeirra voru nemendur með annað móðurmál en íslensku. Haustið 2019 réði skólinn Þjóðbjörgu Gunnarsdóttur sem verkefnastjóra nemenda með annað móðurmál en íslensku. Helstu verkefni verkefnastjórans eru að kynna skólakerfið, skólareglur, námsbrautir, og stuðningskerfi skólans fyrir nemendum. Hann fylgist með námsframvindu nemenda, aðstoðar þá við námsval og er kennurum innan handar varðandi ýmis mál tengdum þessum nemendum. Verkefnastjóri er með um sjötíu nemendur í umsjón og er tengiliður þeirra við námsráðgjafa og kennara. Þörfin fyrir aðstoð og stuðning við nemendur af erlendum uppruna var fyrir hendi en varð enn greinilegri eftir ráðningu verkefnastjórans.

Þegar Háskóli Íslands fór af stað með tilraunaverkefnið Sprett, var óskað eftir aðstoð við að finna mögulega þátttakendur í verkefnið innan skólans. Fyrirstaða var í nemendahópnum með þátttöku í verkefninu þar sem nemendur þurftu að sækja það til Reykjavíkur. Þá kom upp sú hugmynd að fara af stað með sambærilegt verkefni í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í samstarfi við Háskóla Íslands. Þátttakendur væru nemendur FS með annað móðurmál en íslensku. Þar með væri stuðningurinn að koma frá nærsamfélaginu og væri innan nærþjónustu nemenda. Með samstarfi við Sprett innan Háskóla Íslands væri aukið við faglegan stuðning við nemendahópinn og aðstoðin gerð markvissari. Háskóli Íslands tók vel í þessa hugmynd og því var ákveðið að sækja um styrk hjá Þróunarsjóði innflytjendamála. Verkefnið fékk nafnið Suðurnesja-Sprettur.

Þróunarverkefnið Suðurnesja-Sprettur

Hópurinn í Ráðhúsi Reykjanesbæjar.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja fór af stað með þróunarverkefnið Suðurnesja-Sprett á haustönn 2021. Verkefnið fékk styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála. Styrkurinn var fyrir skólaárið 2020-2021 en vegna Covid-faraldursins fór verkefnið seinna af stað en áætlað var. Umsjónarmaður verkefnisins var Þjóðbjörg Gunnarsdóttir verkefnastjóri og starfsmaður þess Kolbrún Marelsdóttir, kennarar í FS. Suðurnesja-Spretts verkefnið var unnið í samstarfi við Reykjanesbæ, Háskóla Íslands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningar var tengiliður Reykjanesbæjar við verkefnið og Nílsína Larsen Einarsdóttir verkefnastjóri Spretts var tengiliður Háskóla Íslands. Ingibjörg Guðmunda Sveinsdóttir hjúkrunarfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja var Suðurnesja-Spretti innan handa með mál sem tengdust heilbrigði nemenda.

Meginmarkmið verkefnisins var að styðja við nemendur með markvissum hætti til að auka þau tækifæri sem þeim gefast í lífinu og á vinnumarkaði til framtíðar. Það felur í sér að nemendur þekki sitt nærumhverfi og hvað þeim stendur til boða innan þess, bæði er varðar afþreyingu og þjónustu. Að þeir séu upplýstir um hvar sú grunnþjónusta, sem þeir þurfa á að halda, sé og hvernig sé auðveldast að nálgast hana, fái upplýsingar um hvað þeim stendur til boða varðandi afþreyingu utan skólans og hvar þeir geti verið innan um jafnaldra sína innan nærsamfélagsins. Auk þess að nemendur fái stuðning af nemendum sem einnig eru að fóta sig í nýju landi og finni að það séu aðrir í þeirra sporum, geti deilt reynslu sinni með öðrum í sömu aðstæðum og fengið að heyra reynslu annarra. Enn fremur að þeir þekki það námsumhverfi sem þeir stunda nám sitt í, efli íslenskukunnáttu sína og geti haft samskipti við aðila innan nærsamfélagsins á íslensku.

Framkvæmd verkefnisins

Suðurnesja-Sprettur var kynntur erlendum umsjónarnemendum verkefnastjóra. Þar sóttu 11 nemendur frá átta þjóðlöndum um og skrifuðu undir námsamning. Þannig skuldbundu nemendur sig til að taka þátt í verkefninu. Foreldar nemenda undir 18 ára skrifuðu líka undir samninginn. Í upphafi voru tekin einstaklingsviðtöl við þátttakendur þar sem farið var yfir verkefnið og nemendur ræddu væntingar sínar til verkefnisins og framtíð sína. Þátttakendur hafa fengið margvíslega fræðslu og valdeflingu sem styður þá í námi og daglegu lífi. Nemendur og foreldrar þeirra hafa haft greiðan aðgang að verkefnastjóra verkefnisins og getað leitað til hans með vangaveltur sínar. Haft var samráð við nemendur við skipulagningu viðburða og fræðslu. Þannig fengu nemendur að taka þátt í uppbyggingu verkefnisins og vera hluti af mótun þess.

Upphaf verkefnisins á haustönn 2021

Haustönn 2021 byrjaði með því að Knattspyrnufélagið Njarðvík bauð nemendum á fótboltaleik Njarðvíkur og Tindastóls í slagveðursrigningu. Þar kynntust nemendur því að stuðningsmenn íþróttaliða láta veðrið ekki hafa áhrif þegar þeir styðja sitt lið. Þau fengu að upplifa stemmninguna á viðburði sem þessum og höfðu gaman af þó að ekki væri þurr þráður á hópnum í lok leiks.

Beðið eftir fræðslu á bókasafninu.

Bókasafn Reykjanesbæjar bauð hópnum í heimsókn. Forstöðumaður Bókasafnsins tók á móti þeim og afhenti öllum bókasafnskort að gjöf. Nemendur fengu fræðslu um hvað stæði þeim til boða á bókasafninu. Ráðhúsið var jafnframt sótt heim og nemendur fengu fræðslu um þjónustu bæjarins og sundkort að gjöf frá bænum. Margt kom þar fram sem nemendur vissu ekki fyrir. Þeir voru duglegir að spyrja og voru ánægðir með heimsóknina.

Fræðsla frá Helga Arnarssyni sviðstjóra fræðslusviðs og Hilmu Hólmfríði Sigurðardóttir verkefnastjóra fjölmenningar.

Móðir þriggja þátttakenda (systkina) í verkefninu kom til okkar og eldaði með hópnum kúrdíska þjóðarrétti. Með þessu fengu nemendur að kynnast hefðum og menningu samnemenda sinna í hópnum. Nokkrir úr hópnum könnuðust við réttina sem eldaðir voru, þar sem þeir eru einnig á borðum í þeirra heimalandi. Umræður sköpuðust við matarundirbúninginn um mismunandi þjóðarrétti nemenda og hvað væri á borðum hjá hverjum og einum. Allir tóku til hendinni bæði við undirbúning og tiltekt.

Nemendur hjálpast að við matarundirbúning.
Mæðgur glaðar í bragði.

Nemendur fengu að kynnast jólahefðum á Íslandi þegar þeir heimsóttu kennarann sinn í íslensku fyrir erlenda nemendur og skáru út laufabrauð. Hópurinn hlustaði á íslensk jólalög og fékk að smakka íslenskt jólanammi, piparkökur og malt og appelsín. Þau vildu vera alveg viss um að maltið og appelsínið væri ekki áfengur drykkur og treystu að lokum orðum verkefnastjóra að sú væri ekki raunin. Nemendur voru áhugasamir og voru fljótir að ná tökum á útskurðinum á laufabrauðinu. Laufabrauðið tók á sig hinar ýmsu myndir og var mikið hlegið og spjallað. Greinilegt var að tengsl voru að myndast meðal nemenda og andrúmsloftið var afslappaðra en áður.

Laufabrauð skorið út.

Hjúkrunarfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja heimsótti hópinn og fræddi hann um þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem var gagnlegt og upplýsandi fyrir þátttakendur. Þessi heimsókn varð til þess að nokkrir nemendur þáðu aðstoð við heilsufarslegar vangaveltur eftir kynninguna. Enn fremur höfðu nemendur samband við verkefnastjóra í framhaldinu varðandi þörf á heilbrigðisþjónustu. Hópurinn var ánægður með kynninguna og fannst hún hafa gagnast þeim á margan hátt.

Hápunktur haustannarinnar var svo heimsókn til forseta Íslands að Bessastöðum í desember. Mikil eftirvænting var hjá hópnum fyrir heimsókninni og fannst þeim ótrúlegt að hægt væri að fara í heimsókn til forsetans. Það var nokkuð sem þau myndu aldrei upplifa í heima-löndum sínum. Á Bessastöðum fékk hópurinn höfðinglegar móttökur en forsetinn tók á móti þeim með pönnukökum og hjónabandssælu.

Með forseta Íslands.

Forsetinn gaf sér góðan tíma og ræddi við nemendur, bæði við hópinn og einstaka nemendur. Hver og einn fékk mynd af sér með forsetanum. Eftir heimsóknina fór hópurinn í Hellisgerði og í miðbæ Reykjavíkur til að upplifa jólastemmninguna. Nemendum þótti þessi heimsókn merkileg og hún verður án efa lengi í minnum höfð.

Áframhald verkefnisins á vorönn 2022

Vorönn 2022 byrjaði með því að nemendur fengu kynningu á Innu, kennslukerfi skólans. Þar var farið yfir hvernig þeir gætu náð í margvíslegar upplýsingar um nám sitt. Þeim var sýnt hvernig þeir gætu fylgst með mætingu, heimanámi, efni áfanga, verkefnaskilum og stundatöflu. Kynningin var fyrir þátttakendur Suðurnesja-Spretts en einnig var öðrum umsjónarnemendum verkefnastjóra boðið á kynninguna.

Nemendur fengu fræðslu um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Þeir fóru í gegnum VR-Skóla lífsins en það er netnámskeið fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Námskeiðið var upplýsandi og í kjölfarið vöknuðu spurningar hjá þeim nemendum sem voru að vinna með skóla um réttindi og kjör.

Nemendur prófa aðstöðu 88 hússins.

Nemendur fengu kynningu á þjónustu 88-hússins sem er félagsmiðstöð fyrir unglinga í Reykjanesbæ.  Davíð Már Gunnarsson forstöðumaður tók á móti nemendum, sagði þeim frá þjónustunni og gekk með þeim um húsið. Nemendur fengu svo að skoða sig um og prófa aðstöðuna. Eftir heimsóknina gæddu nemendur sér á kínverskum mat en einn nemandi í hópnum er frá Kína.

Nemendur fóru að sjá leikritið Fyrsta kossinn sem Leikfélag Keflavíkur sýndi í Frumleikhúsinu í Reykjanesbæ. Stór hluti leikara í sýningunni voru félagar þeirra úr skólanum. Þetta var upplifun fyrir nemendur sem ekki höfðu farið í leikhús áður.

Liðin tilbúin í keilu.

Farið var í keiluferð til Reykjavíkur en margir nemendur voru að prófa keilu í fyrsta skipti. Eftir keiluna fór hópurinn á Shake and Pizza. Á þessum tímapunkti var greinilegt hve samskiptin innan hópsins voru orðin opin og afslöppuð. Gert var ráð fyrir um klukkustund til að borða eftir keiluna. Verkefnastjóri og starfsmaður sáu hve vel nemendur voru að njóta samvistanna og því varð samveran á matsölustaðnum um þrjár klukkustundir.

Nemendur skoðuðu Listahátíð barna og ungmenna í Duus safnahúsi. Nemendur í listnámi skólans voru með sýningu á hátíðinni. Hópurinn fylgdist með dagskrá hátíðarinnar og skoðaði verk nemenda skólans. Eftir hátíðina fór hópurinn á Rokksafnið í Reykjanesbæ og fékk leiðsögn um sýningar.

Í verkefninu hafa nemendur einnig fengið aðstoð við heimanám, fengið hjálp við leit að sumarvinnu og stuðning við hin ýmsu mál. Einnig hefur verkefnastjóri aðstoðað nemendur við að finna bjargir til að auka tungumáakunnáttu sína í íslensku.

Í lok vorannar var farið í heimsókn í HÍ og HR. Í Háskóla Íslands tók Nílsína Larsen Einarsdóttir verkefnastjóri Spretts á móti hópnum og fræddi hann um námsframboð ásamt því að sýna honum húsnæðið. Í HR tók Katrín Rut Bessadóttir á móti okkur og fengu nemendur fræðslu um námsbrautir, námsframboð, inntökuskilyrði og skólaumhverfið. Eftir fræðsluna var gengið um skólann og deildir hans skoðaðar og rætt við starfsfólk. Nemendur voru undirbúnir fyrir heimsóknirnar og voru tilbúnir með spurningar varðandi námið í skólunum.

Leiðsögn um Rokksafnið.

Viðhorf þátttakenda til verkefnisins

Í lok verkefnisins var uppgjörsfundur með nemendum þar sem þeir sögðu frá upplifun sinni af verkefninu. Þeim fannst verkefnið skemmtilegra en þau bjuggust við í upphafi, þau myndu vilja taka aftur þátt í svona verkefni og að þau myndu mæla með því við vini sína að taka þátt í sambærilegu verkefni.

Nemendum fannst gott að geta alltaf haft verkefnastjóra til að leita til ef það var eitthvað sem þau voru óviss með eða þurftu aðstoð við. Nemendum fannst þeir upplýstari um samfélagið og hvað þeim stæði til boða innan þess. Nemendur voru einnig öruggari í náminu. Þeir vissu betur hvernig framvinda náms þeirra væri, hvar þau gætu nálgast upplýsingar um námið og skólann og hvernig þau gætu fylgst með þeim áföngum sem þau væru í hverju sinni.

Hugleiðingar í lok verkefnisins

Verkefnið gekk nákvæmlega eins og væntingar stóðu til. Að sjálfsögðu komu upp áskoranir en ekkert sem ekki var hægt að leysa. Þeir sem koma að verkefninu voru allir af vilja gerðir að aðstoða sem er helsta ástæða þess að svo vel tókst til. Tíminn í rútum og bílum var svo notaður til að ræða upplifun nemenda af nýliðnum viðburði og þar fengu nemendur tækifæri til að ræða þær spurningar sem höfðu vaknað í heimsóknunum. Oft snerust spurningarnar um íslenskuna ef nemendur höfðu ekki náð öllu sem fram fór.

Í upphafi verkefnisins þekktust nemendur innan hópsins ekki og því höfðu þau lítil samskipti í byrjun. Þetta var þó fljótt að breytast og mörg vinasambönd hafa orðið til sem munu halda áfram eftir að verkefninu lýkur. Allir voru hluti af hópnum og með í öllu sem fram fór. Verkefnið efldi nemendur í að vera óhrædd við að leita eftir aðstoð í nærsamfélaginu. Þau sáu að hvert sem við fórum fengu þau jákvætt viðmót og allir sem þau hittu tóku þeim með opnum örmum.

Kennarar nemenda sem tóku þátt í verkefninu urðu þess varir að nemendur sem áður höfðu verið óvirkir í tímum og ekki blandað geði við samnemendur sína fóru að taka þátt í umræðum. Þátttakendur fóru að finna sig betur í skólanum og verða hluti af hópnum sem var sérstaklega ánægjulegt.

Til að verkefnið gengi sem best þurfti samstarf við fjölda mismunandi aðila innan nærsamfélagsins. Allir sem leitað var til tóku beiðninni vel og aldrei þurfti að hætta við viðburði vegna neitunar um aðstoð. Þetta á einnig við um háskólana og forseta Íslands.

Covid-faraldurinn var áskorun og þurfti að fresta viðburðum, heimsóknum og kynningum vegna veikinda. Ekki þurfti að hætta við neitt, aðeins endurskipuleggja og færa til.

Aukið utanumhald með þessum viðkvæma hópi skilar sér á margvíslegan hátt. Nemendum virðist líða betur, þeir eiga auðveldara með að taka frumkvæði í nemendahópnum og verða öruggari í framkomu. Þeir urðu upplýstari á margan hátt eins og að vita hvar þeir eiga að leita eftir ákveðinni þjónustu, hvað stendur þeim til boða eftir skóla og hvað hægt er að gera sér til dægrastyttingar innan nærsamfélagsins.

Það má með sanni segja að verkefnið hafi verið krefjandi á margan hátt en í leiðinni skemmtilegt fyrir alla sem að því komu. Staða nemenda í íslensku var mismunandi innan hópsins. Helmingur nemenda notar íslensku í samskiptum sínum en aðrir ensku. Flestar kynningar fóru fram á íslensku en stundum þurfti að grípa til enskunnar fyrir þá sem ekki skildu það sem sagt var. Nemendur innan hópsins notuðu bæði íslensku og ensku til að hafa samskipti sín á milli. Það má því segja að blanda af þessum tveimur tungumálum hafi verið tungumál hópsins.

Að fá að taka þátt í upplifun nemendanna á því sem fram fór í verkefninu er ógleymanlegt fyrir okkur sem fengum að deila því með þeim. Að fylgjast með þessu unga fólki eflast og vaxa þegar á leið  sannfærir okkur kennarana um að verkefnið skilaði miklu til nemendanna og hvetur okkur til að halda áfram með sambærileg verkefni.

Vinátta í lok verkefnisins.

Höfundur greinar og mynda

Þjóðbjörg Gunnarsdóttir starfar sem námstjóri við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hún lauk námi í iðnrekstrarfræði af markaðssviði Tækniskóla Íslands árið 1997 og sem grunnskólakennari frá Háskólanum á Akureyri 2009. Þjóðbjörg starfaði sem grunnskólakennari í 16 ár og hefur nú verið framhaldsskólakennari síðastliðin 8 ár. Hún var verkefnastjóri með málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku í FS í 4 ár með starfi sínu sem kennari.


Greinin hlaut viðurkenningu í samkeppni Samtaka áhugafólks um skólaþróun um ritun greina um áhugaverð þróunarverkefni í framhaldsskólum.


 

Grein birt 22. janúar 2023

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp