Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Ég hef lært að meta lykilhæfnina betur eftir því sem ég hef unnið meira með hana

í Viðtöl

Rætt við Guðríði Sveinsdóttur, kennara við Giljaskóla á Akureyri, einn af fimm kennurum sem tilnefndir voru til Íslensku menntaverðlaunanna 2022

Íslensku menntaverðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 2. nóvember sl. Sýnt var frá athöfninni í sjónvarpsþætti á RUV kvöldið eftir. Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum: Framúrskarandi skólastarf, kennsla, þróunarverkefni og iðn- og verkmenntun. Að auki eru veitt hvatningarverðlaun (sjá nánar hér). Verðlaunahafar voru kynntir vel í fyrrnefndum sjónvarpsþætti (sjá hér), en ritstjórn Skólaþráða hafði áhuga á að fá að kynnast betur þeim kennurum sem tilnefndir voru fyrir framúrskarandi kennslu. Því var ákveðið að leita til þeirra og biðja þau að svara nokkrum spurningum um viðhorf sín og reynslu og urðu þau góðfúslega við þeirri beiðni. Hér eru svör Guðríðar Sveinsdóttur, kennara við Giljaskóla á Akureyri sem tilnefnd var fyrir framúrskarandi skapandi kennslu og fyrir að deila námsefni og reynslu með öðrum kennurum.

Guðríður lauk B.A. prófi í hagfræði frá Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands 2007 og kennaraprófi frá Háskólanum á Akureyri 2010. Þá hefur hún lagt stund á framhaldssnám um stærðfræðimenntun við Háskóla Íslands. Auk kennslu við Dalvíkurskóla og Giljaskóla hefur hún unnið á leikskóla og fengist við þjálfun í fimleikum. Guðríður hefur verið leiðbeinandi á námskeiði fyrir stærðfræðileiðtoga á vegum Menntafléttunnar. Auk stærðfræðimenntunar hefur hún lagt sig sérstaklega eftir upplýsingatækni. Guðríður hefur leitt þróunarstarf meðal annars um stærðfræðimenntun og upplýsingatækni í kennslu og hefur verið ötul við að deila reynslu sinni með öðrum kennurum bæði með fyrirlestrum og á heimasíðum sem hún heldur úti:

Guðríður svaraði fyrst spurningu um Íslensku menntaverðlaunin og hvort tilnefningin hefði haft einhverja þýðingu fyrir hana?

Mér finnst verðlaunin mikilvæg fyrir skólastarf og væri gaman að sjá enn meiri umfjöllun um það jákvæða starf sem unnið er í grunnskólum landsins. Ég var bæði hissa og stolt yfir tilnefningunni og gaman að fá viðurkenningu fyrir störf sín því yfirleitt er maður duglegastur við að hrósa og peppa aðra kennara áfram og gleymir að líta inn á við og sjá hvað maður er að gera. Mér fannst líka gaman hvað tilnefningin mín vakti mikla athygli hér á Akureyri og var ég mikið stoppuð út í búð og óskað til hamingju með hana.

Hvers vegna ákváðstu að að verða kennari?

Þetta hafði blundað í mér frá tíu ára aldri. Ég lærði undir próf í grunnskóla með ímyndaða nemendur í herberginu og veggfóðraði vegginn með A4 blöðum sem var taflan mín. Áherslur breyttust síðan í kringum tvítugt og fór ég í hagfræði í háskóla og kláraði það nám, en fann að kennarinn togaði alltaf sterkt í mig. Ég skráði mig í kennsluréttindi og hef ekki séð eftir þeirri ákvörðun.


Í umsögn um Guðríði sem fylgdi tilnefningu sagði meðal annars:

Guðríður er framúrskarandi kennari sem margt er hægt að læra af. Henni er umhugað um að allir nemendur hennar nái árangri og til að ná því besta fram í nemendum er hún sífellt að þróa sig í starfi. Hún hefur lagt sig fram um að beita fjölbreyttum kennsluaðferðum sem hún er ævinlega tilbúin til að deila með samstarfsfólki sínu, jafnt í eigin skóla sem annars staðar. Guðríður er ein þeirra kennara sem af mikilli fagmennsku hefur m.a. tekist að tileinka sér notkun rafrænna kennsluhátta á fjölbreyttan og skapandi máta þannig að þeir auðgi námsaðstæður nemenda og styðja þá í að ná framförum. 

Guðríður hefur sýnt að hún er leiðtogi á marga vegu og áhrifa fagmennsku hennar gætir víða í skólastarfi; hún er ein af þeim fyrstu sem nýtti sér speglaða kennslu með því að taka upp kennslumyndbönd í stærðfræði og deildi með nemendum og foreldrum. Þannig auðveldaði hún m.a. þátttöku foreldra í námi barna sinna. Frá upphafi menntabúða #Eymennt hefur hún hvatt og stutt við aðra kennara með því að vera ávallt viðbúin til að deila þekkingu sinni og reynslu … Hún hefur því með áhuga sínum, áræðni og elju lagt sitt af mörkum við að hvetja til þátttöku og stutt á marga vegu við uppbyggingu á námssamfélögum kennara og þar með átt þátt í að auka fjölbreytni í kennsluháttum svo allir nemendur hafi tækifæri til að ná framförum.


 

Hefur kennslan þín breyst með aukinni reynslu?

Sjálfstraustið hefur aukist með reynslunni sem gerir það að verkum að verkefnin verða fjölbreyttari og með árunum sleppir maður bókunum alltaf meira og meira. Ég fann þegar ég kenndi stærðfræði á unglingastigi, að eftir því sem ég var betur að mér um markmiðin, gat ég búið til skemmtilegri og fjölbreyttari verkefni sem tengdust markmiðunum. Með auknu sjálfstrausti þorði ég líka að fara út fyrir þægindarammann og prófa verkefni sem ég var kannski ekki 100% örugg með og þorði frekar að gera mistök fyrir framan nemendur.

Því er haldið fram að kennarastarfið sé að breytast. Auknar kröfur séu gerðar til kennara og álag að aukast. Hver er skoðun þín á þessu? 

Já, heldur betur hefur það breyst þó að ég hafi ekki verið í kennslu nema í 13 ár þá finn ég breytinguna síðan að ég var sjálf í grunnskóla. Áherslurnar í starfinu eru orðnar meira á hæfni nemenda í samvinnu, þrautseigju, gagnrýninni og skapandi hugsun. Það er sem betur fer hætt að einblína á utanbókarlærdóm og færnina í að sitja kyrr í sæti sínu og hafa hljóð :). Foreldrasamstarf hefur aukist mikið og tekur orðið þó nokkuð mikinn tíma af undirbúningi kennara en ég tel það vera jákvætt að foreldrar séu meira inni í starfinu í skólum barnanna.

Á hvað leggur þú megináherslu í kennslunni þinni?

Eins og sjá má á myndinni leggur Guðríður áherslu á að nemendur geti fundið þægilegan stað til að vinna og geta því nemendur valið um sæti í sófa, á dýnu a gólfi, grjónapúða eða við borð. Mynd: Íris Theódóra Unnsteinsdóttir.

Ég legg mesta áherslu á að kennsluaðferðir mínar séu eins fjölbreyttar og mögulegt er, að festast ekki í sama gamla „örugga” farinu og leitast við að gera kennsluna skemmtilega en samt sem áður árangursríka. Það að nemendum þyki gaman í skólanum er lykillinn að námsárangri og því hef ég haft það lengi að leiðarljósi að nemendur mínir hlakki til að koma í skólann og takast á við verkefnin. Virðing og umhyggja gagnvart nemendum skipar líka stóran sess í kennslustundum hjá mér, að hlusta á nemendur og skilja að á bak við litla vinnusemi er yfirleitt ástæða og er það mitt hlutverk að komast að því hvað er að angra nemandann. Eitt verkefni óunnið skiptir ekki öllu máli og mikilvægara að nemandinn finni að ég láti mér líðan hans varða heldur en að skila verkefni. Síðast er það upplýsingatæknin sem hefur breytt miklu í minni kennslu og er ég þakklát fyrir þann tækjakost sem við í Giljaskóla höfum fyrir nemendur.

Getur þú  nefnt dæmi um viðfangsefni í kennslu sem eru þér sérstaklega minnistæð? Stendur eitthvað upp úr?

Held að það sem standi mest upp úr er að sjá nemendur hlakka til stærðfræðitíma, bæði á unglingastigi í Dalvíkurskóla og núna á miðstigi í Giljaskóla. Mín tilfinning, bæði þegar ég var sjálf í grunnskóla og sem kennari, er að nemendur vilja þróa með sér neikvætt hugarfar gagnvart stærðfræði og því var ég fljót að setja mér það markmið að útskrifa sem flesta nemendur með jákvætt hugarfar gagnvart stærðfræði. Held að mér hafi tekist það nokkuð vel, allavega er mjög stór hluti nemenda í umsjónarbekknum mínum núna sem finnst stærðfræði skemmtilegasta námsgreinin í skólanum.

Hvert er mat þitt á kennaramenntuninni og hvernig getum við gert hana (enn) betri?

Ég fór ekki í gegnum hefðbundna kennaramenntun, heldur klára fyrst hagfræði og tek síðan kennsluréttindi í HA. Þá voru kennsluréttindin eins árs nám og ekkert starfsnám þar inni og því hefði ég getað útskrifast sem kennari án þess að hafa stigið fæti inn í kennslustofu. En ég var þá farin að kenna í Dalvíkurskóla og því fékk ég að kynnast starfinu á meðan ég var í náminu. Þetta hefur sem betur fer breyst en ég velti því fyrir mér hvort að starfsnám mætti vera meira í grunnnáminu þannig að kennaranemar kynnist starfinu sem fyrst og viti út i hvað þeir eru að fara. Áhersla á upplýsingatækni hefur einnig aukist en ég tel að hún mætti vera enn meiri þar sem að flestir skólar stefna á að tæknivæða sig sem allra fyrst og þá þurfa kennarar að vera tilbúnir fyrir þá þróun.

Ef þú gætir komið einni breytingu á menntakerfinu til leiðar – hver yrði þá fyrir valinu?

Að allir grunnskólar landsins fengu tækifæri til að vera með tæki 1:1 og kennarar fengu tæki sem þeir geta nýtt í kennslunni. Upplýsingatæknin hefur breytt svo miklu hjá mér í kennslu og vona ég að enn fleiri kennarar uppgötvi hversu mögnuð tæknin er, en mér finnst enn vera of mikið af kennurum sem treysta tækninni ekki nægilega vel og sumir eru hræddir við að prófa því þeir kunna ekki nægilega vel. Námsefni ætti síðan að vera gefið út á formi sem kennarar geta breytt, ekki staðlað efni sem ekkert er hægt að breyta og bæta.

Hvaða skoðun hefur þú á aðalnámskrá? Viltu breyta henni?

Það hefur tekið mig nokkurn tíma að ná utan um öll þessi hæfniviðmið sem gefin eru út í aðalnámskrá og oft finnst mér viðmiðin oft of yfirgripsmikil, þ.e. margir þættir inni í einu hæfniviðmiði. Mest hef ég skoðað stærðfræðihlutann og finnst stundum erfitt að staðsetja viðmið um árangur innan hæfniviðmiða. Sem dæmi þá eru aðeins þrjú hæfniviðmið undir algebru hlutanum á unglingstigi, en algebra skipar mjög stóran sess í stærðfræðinámi á unglingastigi. Ég hef lært að meta lykilhæfnina betur eftir því sem ég hef unnið meira með hana og þykir hún vera jákvæð þróun í námsmati í íslenskum grunnskólum, því hún tekur á þáttum sem nemendur þurfa að búa yfir þegar grunnskóla lýkur, hvort sem þeir fara áfram í framhaldsskóla eða vinnumarkaðinn.

Hvaða ráð myndir þú helst vilja gefa ungum kennurum?

Að þora að taka áhættu og að það sé í góðu lagi að gera mistök. Prófa nýja hluti þó að þeir séu ekki 100% með þá á hreinu og hafa gaman. Passa sig fyrsta árið að ætla ekki að sigra heiminn :). 

Guðríður aðstoðar nemanda við stærðfræðiverkefni sem unnið er í töflureikni. Mynd: Íris Theódóra Unnsteinsdóttir.

 


Viðtal:
Ingvar Sigurgeirsson og Anna Magnea Hreinsdóttir.

Viðtal birt 28. desember 2022

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp