Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Skynreiða að leiðarljósi í námi barna

í Greinar

Anna Sofia Wahlström, Hildur Vilhelmsdóttir og Ingibjörg Jónsdóttir

Hver einasta mannvera uppgötvar heiminn í gegnum skynfæri. Í Gefnarborg leitum við leiða til að viðhalda þessari eðlislægu leið barna til að læra og þroskast. Við leggjum áherslu á að vinna með skilningarvitin fimm: heyrn, sjón, lykt, bragð og snertingu, ásamt jafnvægisskyni, líkamsstöðuskyni og líffæraskyni. Hugtakið „skynreiða“ vísar til úrvinnslu, samþættingar og skipulags skynupplýsinga frá líkamanum og umhverfinu. Með öðrum orðum: Hvernig við upplifum, túlkum og bregðumst við upplýsingum sem koma frá skynfærum okkar. Skynreiða þroskast samhliða eðlilegum þroska hjá börnum, þegar börn byrja að velta sér, skríða, ganga og leika. Skynreiða er mikilvæg í öllu því sem við gerum daglega.

Í leikskólanum Gefnarborg eru margir kennarar og starfsfólk með langa og víðtæka reynslu af starfi með börnum. Við upplifum að þrátt fyrir reynslu okkar höfum við ekki verið nægjanlega meðvituð um þann möguleika að vinna með skynjun í leikskólastarfi á skipulagðan hátt. Skynjun fer fram án þess að við gefum því sérstakan gaum alla daga, ótal sinnum á dag. Ljóst er að allt frá fæðingu nýta börn skynfærin og skynjun til að áskapa sér þekkingu og skilning. Svo virðist sem við höfum haft tilhneigingu til að „gleyma“ að nýta okkur þessa eðlislægu aðferð barna til náms og förum ósjálfrátt að leggja meiri áherslu á talað mál. Þegar við kynntumst hugtakinu skynreiða og þeim fræðum sem að baki búa fundum við að þar var komin aðferð sem við gátum nýtt okkur til þróa leikskólastarfið.

Hvað er skynreiða?

Þegar við fjöllum um skynreiðu er gott að líta til skrifa Þóru Þóroddsdóttur í bókinni „Að hreyfa sig og hjúfra“. Þar er skynreiða (e. sensory integration) skilgreind þannig: „Heilinn sameinar skilaboð frá fleiri en einu skynsviði, þannig að úr verður skiljanleg heild“ (2001). Dæmi: Þegar við hugsum um sítrónu tengjum við strax við reynslu okkar. Í huga okkar finnum við bragð, lykt og áferð sítrónunnar og við sjáum einnig fyrir okkur lit og form hennar. Hér skiptir máli að í raun er ekki hægt að einangra skynjun og að ein skynjun styrkir aðra. Það sem skynjað er á fleiri en einn hátt hjálpar til við að festa í minni, hvort sem er í vinnsluminni eða langtímaminni. Áhugi okkar fyrir því að vinna með skynreiðu fékk byr undir báða vængi þegar byggt var við leikskólann árið 2019, en þá sköpuðust forsendur til að útbúa skynjunarrými í miðju hússins. Hins vegar skorti okkur hugmyndir að útfærslu að því að vinna með skynreiðu. Ein í starfsmannahópnum hafði verið í Erasmus+ samstarfsverkefni við leikskóla í Póllandi sem sérhæfir sig í að nota skynjun í vinnu með börnum og því var ákveðið að fara þangað í námsferð.

Námsferð til Póllands

MYNDIR ÚR NÁMSFERÐ OKKAR TIL PÓLLANDS.

Haustið 2019 fóru fjórir kennarar leikskólans til Póllands á námskeið í skynreiðu þar sem kennarar Przedszkole nr. 48 í Zabrze tóku á móti okkur. Þar sáum við margt áhugavert og komum til baka með hafsjó af fróðleik og hugmyndum sem hafa nýst okkur vel í leikskólastarfinu.

Í skynjunarrýminu sem samanstendur af þremur herbergjum útfærðum við ýmsar hugmyndir sem við höfðum kynnst í ferðinni. Í einu rými er lögð áhersla á hreyfiskynjun. Í öðru rými er hægt að hafa algjört myrkur og þar gerðar tilraunir t.d. með ljós og skugga. Í þriðja rýminu er fjölbreyttur efniviður í boði til ýmiskonar skynjunar sem er aðgengilegur bæði fyrir börn og kennara. Við leggjum áherslu á að í skynjunarrýminu sé efniviður sem örvar öll skynfærin.

BÖRNIN NJÓTA SÍN Í SKYNJUNARRÝMI LEIKSKÓLANS.

Í tengslum við ferðina til Póllands kom upp hugmynd að fá dýr til liðs við okkur til að örva skynjun barna. Fyrir valinu varð hundurinn Veca, Ungversk vizsla, sem er í eigu kennara skólans. Veca fór í gegnum viðurkennt mat hjá Rauða krossi Íslands og heimsækir nú reglulega börnin í Gefnarborg og fer með þeim í vettvangsferðir. Það er margt sem börnin læra og njóta góðs af í heimsóknum Vecu þar sem hundar örva flest skynfæri. Börnin fá að snerta Vecu og velta fyrir sér ýmsum spurningum. Hvernig er að koma við feldinn? Er hann mjúkur eða harður, kaldur eða heitur? Er öðruvísi að koma við feldinn eða eyrun? Hvernig líður Vecu? Er hún glöð eða leið? Hvernig er lyktin af Vecu? Heyrist hljóð í henni? Hvernig er hún á litinn o.s.frv. Börnin fá að njóta nærveru við hund. Þau sem eru hrædd við hunda fá tækifæri til að komast yfir hræðsluna. Þau læra að bera virðingu fyrir dýrum og hvernig eigi að haga sér á öruggan og viðeigandi hátt í kringum hunda.

BÖRNIN NJÓTA SAMVISTAR MEÐ VECU.

Alþjóðleg samstarfsverkefni

Póllandsförin kveikti hjá okkur löngun til að fara í frekara samstarf við aðra skóla og við ákváðum í framhaldinu að sækja um styrk í Erasmus+ til að þróa starfið tengt skynjun enn frekar. Við leituðum eftir samstarfsskólum í öðrum löndum. Gleði og tilhlökkun var mikil þegar við fengum jákvætt svar við umsókn okkar. Í ágúst 2020 hóf því leikskólinn Gefnarborg að vinna Erasmus+ samstarfsverkefni milli skóla. Samstarfsskólarnir koma frá Króatíu, Grikklandi, Rúmeníu og Svíþjóð. Verkefnið heitir á ensku Inclusion through sensory integration og er starfendarannsókn. Markmið verkefnisins er að jafna stöðu barna og efla þau til þátttöku með skynreiðu að leiðarljósi í eftirfarandi áhersluþáttum: Læsi, útinámi, sköpun og námshvetjandi umhverfi. Í anda inngildingar er í Erasmus+ verkefninu lögð áhersla á aðkomu kennara, barna og foreldra.

Þátttaka kennara í verkefninu er leið til starfsþróunar þar sem þeir mynda faglegt námssamfélag innan leikskólans. Þeir vinna og rýna í skráningar til að læra um það nám sem á sér stað hjá börnunum, læra um áhugasvið þeirra og ákveða framvindu verkefnisins með skynreiðu að leiðarljósi. Á hverju tímabili eru farnar ein til tvær skólaheimsóknir til þátttökulanda. Heimsóknirnar standa yfir í fimm daga þar sem þátttakendur fá tækifæri til að kynnast daglegu starfi skólanna, taka þátt í vinnusmiðjum, fá fræðsluerindi, námskeið og kynnast landi og þjóð. Umræður eru mikilvægur þáttur í heimsóknunum þar sem kennarar fá tækifæri til að miðla af reynslu sinni, deila hugmyndum og þróa verkefnið áfram. Í ferðunum og í samstarfi okkar kynnumst við ólíkum aðstæðum, tengslamyndun á sér stað og í umræðum koma fram fjölbreyttar skoðanir og viðhorf. Við fáum tækifæri til að kynnast öðrum menningarheimum og víðsýni okkar eykst.

ÞÁTTTAKENDUR Í ERASMUS+ VERKEFNINU Í HEIMSÓKN Á ÍSLANDI.

Kennurum og börnum gefst einnig tækifæri til að vinna saman í eTwinning verkefnum. eTwinning er rafrænn samstarfsvettvangur kennara í Evrópu. Í eTwinning skiptast börnin á upplýsingum, fá tækifæri til að eiga í rafrænum samskiptum og vinna að sameiginlegum verkefnum. Í heimsóknum milli aðildarlanda ákveða kennarar viðfangsefni næstu eTwinning verkefna út frá því sem þeir hafa séð og upplifað í ferðinni sjálfri. Þannig fá kennarar tækifæri til að koma í verk og láta reyna á hugmyndir sem voru til umræðu.

Til að tengja foreldra við verkefnið er þeim boðin þátttaka í námssamfélagi. Markmiðið með þessari samvinnu er að skapa samábyrgð í samfélaginu. Við viljum efla tengsl milli heimila og skóla og gefa foreldrum tækifæri til að taka virkan þátt í leikskólastarfinu og kynnast hversu öflug námsleið skynjun getur verið. Kennarar skipuleggja og undirbúa stöðvar, taka á móti foreldrum og skýra frá hlutverki þeirra, fylgjast með tímanum og aðstoða börnin við að fara á milli stöðva. Hlutverk foreldra er að sjá um eina stöð en barnahópurinn færist á milli stöðva á 15 mínútna fresti. Foreldrar hafa sýnt hugmyndinni áhuga og þeir sem hafa tekið þátt fannst það áhugavert, skemmtilegt og lærdómsríkt. Námssamfélagið nýttist þeim sem frábært tækifæri til að læra meira um skynjun og upplifa hvað börnin eru að gera í leikskólanum.

Erasmus+ verkefninu er skipt upp í þrjú tímabil með mismunandi áherslum. Skólaárið 2020–2021 þróuðum við það sem við köllum læsistengda skynjun. Skóláárið 2021–2022 er lögð áhersla á skynjun í útinámi og skólaárið 2022–2023 ætlum við að skoða nánar skynjun í tengslum við sköpun og námshvetjandi umhverfi. Hér fyrir neðan segjum við frá læsistengdri skynjun og tengingu hennar við inngildingu ásamt skynjun í útinámi.

Læsistengd skynjun

Til að vinna með læsisþætti og skynreiðu barna var ákveðið að fara þá leið að vinna með ákveðnar barnabækur. Kennarar komu sér saman um ákveðnar bækur og leituðu eftir tækifærum til að vinna með skynjun út frá innihaldi bókanna. Sem dæmi var unnið með bókina Greppikló og vakti hún mikla lukku meðal kennara og barna. Greppikló gaf okkur tækifæri til að vinna á fjölbreyttan hátt með öll skynfæri. Hér eru nokkur dæmi: Í bókinni er músin að segja við ugluna að Greppikló finnist best að borða ugluís og því var ákveðið að búa til ugluís. Í því ferli reyndi t.d. á sjónskyn, lyktarskyn, bragðskyn og snertiskyn. Börnin fóru í „skógargöngu“ þar sem reyndi á jafnvægisskyn og liðamótaskyn. Þau voru hvött til að fara úr skóm og ganga berfætt eins og dýrin í skóginum. Börnin bjuggu líka til „slönguhakk“ sem er sandleir að viðbættum matarlit og kryddjurtum í mismunandi lykt sem börnin völdu sjálf að setja út í sitt „slönguhakk“. Jafnframt var unnið á fjölbreyttan hátt með Rauðhettu í eTwinning. Þar unnum við t.d. með líffæraskynið eins og svengd, hjartslátt og þá tilfinningu sem við fáum þegar við þurfum að gera þarfir okkar. Við unnum með heyrnarskynið og veltum fyrir okkur hvernig hljóð heyrist í maga úlfsins þegar hann er svangur? Hvernig hljóð heyrist þegar við göngum í gegnum skóg? Hvaða hljóð heyrist þegar mamma er að baka köku fyrir ömmu? Hvaða hljóð heyrist þegar úlfurinn er búinn að éta ömmu og Rauðhettu og er sofnaður?

Unnið með Greppikló á fjölbreyttan hátt.

Læsistengd skynjun – inngilding

Í Gefnarborg höfum við hátt hlutfall barna af erlendum uppruna, börn sem hafa oft ekki náð góðum tökum á íslensku tungumáli. Ein af áskorunum okkar er því að jafna stöðu þessara barna til inngildingar þar sem tungumálakunnátta er mikilvæg forsenda fyrir því að geta tekið virkan þátt í samfélaginu. Í starfi sem kennari er mikilvægt að rýna í viðhorf og starfsaðferðir sem viðgangast í leikskólanum. Rannsóknir hafa t.d. sýnt fram á að kennarar ýta ósjálfrátt meira undir mál barna með íslensku að móðurmáli. Niðurstöður meistaraprófsritgerðar Ástrósar Þóru Valsdóttur (2021) sýndu t.d. að leikskólabörn með íslensku sem annað tungumál (ísl2 börnin) til samanburðar við börnin með íslensku sem móðurmál (ísl1);

… fengu færri orð á mínútu og orðin voru að meðaltali algengari en orðin sem notuð voru í samræðum við ísl1 börnin. Þá fengu ísl2 börnin í meira mæli beina orðræðu á meðan ísl1 börnin fengu meira af orðainnlögnum og opnum spurningum (Ástrós Þóra Valsdóttir, 2021).

Við spurðum okkur hvað mætti gera til að styðja við samræður við börnin, auka skilning þeirra og leggja inn ný orð og hugtök. Með læsistengdri skynjun að leiðarljósi reynum við að skapa tækifæri til að efla málfærni barnanna. Á rýnifundum í leikskólanum hefur komið fram í umræðum að við val á bók er mikilvægt að hafa í huga:

  • að velja bók sem hæfir aldri barnanna,
  • að velja bók sem kennarar hafa áhuga á,
  • að velja bók þar sem auðvelt er að kveikja áhuga barnanna.

Kennurum þykir jákvætt að nota hugstormun um viðkomandi bók í sameiningu til að kanna möguleika á að vinna með skynjun. Bókin er lesin fyrir börnin í hverri stund. Nauðsynlegt er að kennarinn hafi gaman af lestrinum og lesi af innlifun. Börnin eru hvött til að taka þátt í lestrinum og rifja upp innihald og söguþráð bókarinnar. Mikilvægt er að gæta þess að allir séu með og taki þátt í endursögninni. Börnin skynja og læra ný hugtök í tengslum við bókina sem hefur jákvæð áhrif á hlustunarskilning þeirra. Við eflum hljóðkerfisvitund barnanna með því að klappa atkvæði þegar verið er að leggja inn ný orð, hljóða fyrstu stafina í hugtökum eða tengja við rím, þulur og lög. Við reynum að skapa og nýta tækifæri til þess að börnin öðlist skilning á að ritað mál og tákn hafi merkingu. Við sköpum börnunum tíma og tækifæri til að túlka það sem fram fer í gegnum skynjun, leik og sköpun þar sem áhugi, virkni og frumkvæði þeirra er í fyrirrúmi. Í umræðunum hefur einnig komið fram að þegar unnið er með tvítyngdum börnum er mikilvægt að vera meðvituð um:

  • að spyrja opinna spurninga og gefa börnunum tækifæri til að svara,
  • að börnin skilji spurninguna sem verið er að leggja fyrir þau,
  • að börnin hafi tækifæri til að tjá sig á mismunandi hátt, t.d. myndrænt,
  • að við gætum að því að veita þeim athygli og tíma til virkrar þátttöku.

Ef börn hafa ekki skilning á hugtökum sem verið er að nota til að halda áfram að byggja ofan á fyrri þekkingu þeirra, lenda þau og kennarar á vegg. Í vinnu með læsistengdri skynjun virðast börn með annað móðurmál finna sig betur og líða vel þar sem aðaláherslan er ekki á talað mál heldur skynjun í víðtækum skilningi. Við höfum upplifað mikla gleði, öryggi og áræðni hjá þessum börnum sem hefur síðan skilað sér í að þau verði opnari og óhræddari við að tjá sig í orðum.

Skynjun í útinámi

UMHVERFIÐ Í NÁGRENNI LEIKSKÓLANS BÝÐUR UPPÁ FJÖLBREYTT TÆKIFÆRI TIL SKYNJUNNAR.

Útinám býður upp á fjölmörg tækifæri til skynreiðu, auk þess sem útinám stuðlar að líkamlegri, andlegri og félagslegri vellíðan barna. Í þróunarverkefni sem unnið var í íslenskum leikskóla kom í ljós að náttúrulegt umhverfi gaf börnunum kost á því að takast á við áskoranir og tækifæri til að afla sér nýrrar færni og þar með auka sjálfstraustið. Börnin þurftu að hjálpast að í erfiðleikum, minna var um árekstra og börnin voru í betra jafnvægi að mati leikskólakennara (Kristín Norðdahl, 2005). Á skólaárinu 2021–2022 er í verkefninu okkar lögð áhersla á skynjun í útinámi. Til að finna út hvar áhugi og virkni barnanna liggur eru gerðar skráningar. Starfsfólk leikskólans hittist á þriggja vikna fresti til að rýna í skráningarnar og finna leiðir til að efla skynreiðu á leiksvæðinu og í vettvangsferðum. Þar fara fram umræður um leik og samskipti, áhrif útináms á vellíðan barnanna og tækifæri til að styðja við nám og inngildingu. Sem dæmi um hvernig skráning er nýtt til að styðja við áhuga barnanna og til að þróa starfið voru börnin að velta og rúlla dekkjum niður brekkuna á leikskólalóðinni. Skemmtilegur leikur, en því miður hættulegur fyrir yngstu börnin, sem gátu orðið fyrir dekkjunum og meitt sig og því var leikurinn bannaður. Þegar rýnt var í skráninguna var rætt um þær áskoranir sem börnin fóru á mis við og í framhaldinu var reynt að koma á móts við áhuga barnanna með því t.d. að nota húllahringi eða bolta í stað dekkjanna. Einnig var farið í vettvangsferð þar sem dekkin voru sett upp á vagn og hann dreginn að næstu brekku í byggðarlaginu. Dekkjaleikurinn varð því þróaður og fékk með þessu móti nýtt líf.

LEIKUR MEÐ DEKKJUM Í VETTVANGSFERÐ.

Að lokum

Eftir fyrsta veturinn var ljóst að starfsfólk var betur meðvitað um hvaða skynfæri væri verið að vinna með hverju sinni og hvaða leiðir mætti fara til að örva þau. Við vinnu með bækur áttaði það sig t.d. á því að hver bók býr yfir hafsjó af tækifærum til að efla málþroska og skynreiðu barna eða eins og einn starfsmaður nefndi ,,Þú ert ekki bara að lesa, heldur hugsar þú hvað þú ætlar að gefa börnunum með lestrinum“. Starfsfólkið upplifði meiri skilning hjá börnunum, aukinn og fjölbreyttari orðaforða, upplifði meiri spennu og ánægju bæði hjá sér og börnunum. Verkefnið hefur skilað starfsfólki auknum skilningi á hvernig hægt er að vinna með börnum á fjölbreyttan hátt. Það hefur lært inn á mismunandi skynsvið og mikilvægi þeirra. Í vinnu okkar með skynreiðu höfum við tekið eftir því að börnin njóta sín vel og hún styður við nám, þroska og vellíðan barna. Til að öðlast betri sýn og skilning á verkefninu má skoða heimasíðuna:inclusionthroughsensoryintegration.wordpress.com. Þar má t.d. sjá myndband um verkefnið okkar: https://inclusionthroughsensoryintegration.wordpress.com/dessimination-iceland/ 

Heimildaskrá

Ástrós Þóra Valsdóttir (2021). Málleg samskipti í leikskóla : samræður starfsmanna leikskóla við börn sem hafa íslensku sem annað mál. Skemman. hhtp://hdl.handle.net/1946/37644

Kristín Norðdahl. (2005). Að leika og læra í náttúrunni. Um gildi náttúrulegs umhverfis í uppeldi og menntun barna. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. http://netla.khi.is/greinar/2005/022/prent/index.htm

Þóra Þóroddsdóttir. (2001). Að hreyfa sig og hjúfra. Ásútgáfan.


Myndirnar eru úr myndasafni Gefnarborgar.


Anna Sofia Wahlström útskrifaðist sem leikskólakennari árið 2002 og lauk meistaranámi árið 2012 í náms- og kennslufræði við Háskóla Íslands í listasögu, list- og verkmenntun. Hún starfaði sem deildarstjóri frá útskrift til ársins 2021 í leikskólanum Holti í Reykjanesbæ. Anna hóf störf við leikskólann Gefnarborg 2019 sem verkefna- og starfsmannastjóri. Anna er ein af þremur verkefnastjórum Erasmus+ verkefnisins „Inclusion through sensory integration“ í leikskólanum Gefnarborg. Áður hefur hún verið verkefnastjóri í Erasmus+ KA2 verkefninu „Through democracy to literacy“ (2015-2017) og Erasmus+ KA1 verkefninu „Skapandi börn í stafrænum heimi“ (2018-2019).

Hildur Vilhelmsdóttir útskrifaðist sem leikskólakennari árið 1992. Hún hefur starfað við leikskólann Gefnarborg síðastliðin 19 ár sem leikskólakennari og deildarstjóri. Undanfarin ár hefur hún haft umsjón með og stýrt skynjunarrými leikskólans. Hún er ein þremur verkefnastjórum Erasmus+ verkefnisins „Inclusion through sensory integration“ í leikskólanum Gefnarborg.

Ingibjörg Jónsdóttir útskrifaðist sem leikskólakennari árið 2002 og lauk meistaranámi árið 2018 í náms- og kennslufræði við Háskóla Íslands í mál og læsi. Hún starfaði í leikskólanum Hjallatún í Reykjanesbæ frá árunum 2003 – 2015. Þar starfaði hún í byrjun sem deildarstjóri, síðan sem sérkennslustjóri. Síðustu 8 árin á Hjallatúni starfaði hún sem aðstoðarleikskólastjóri samhliða því sem hún sinnti íslenskukennslu fyrir börn með annað móðurmál en íslensku. Árið 2015 hóf Ingibjörg störf í Gefnarborg sem leikskólastjóri og í byrjun þessa árs tók hún einnig við sem rekstrarstjóri leikskólans. Hún er ein þremur verkefnastjórum Erasmus+ verkefnisins „Inclusion through sensory integration“ í leikskólanum Gefnarborg.


Greinin hlaut viðurkenningu í samkeppni Samtaka áhugafólks um skólaþróun um ritun greina um frjótt og skapandi leikskólastarf til birtingar í Skólaþráðum. Dómnefnd skipuðu: Anna Magnea Hreinsdóttir, Bryndís Garðarsdóttir, Kristín Dýrfjörð og Sveinlaug Sigurðardóttir.


Grein birt 5.3. 2022

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp