Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Að móta sitt eigið nám

í Greinar

Aðalheiður Halldórsdóttir, Erla Gígja Garðarsdóttir, Guðrún Ingibjörg Hálfdanardóttir og Jóhanna Guðrún Ólafsdóttir

Í Kópavogi hafa verið starfandi sérdeildir í um 20 ár. Í Kópavogsskóla heitir sérdeildin Námsver, í Snælandsskóla Smiðja og í Álfhólsskóla Einhverfudeild. Hlutverk námsversins er að veita nemendum með skilgreindar sérþarfir nám við hæfi í sérhæfðu umhverfi í lengri eða skemmri tíma. Nemandi innritast í deildina þegar sýnt þykir að almennt nám og kennsluhættir hæfa ekki þörfum hans (sjá nánar hér). Allir nemendur Námsvers eru skráðir í almenna bekki og taka þátt í bekkjarstarfi og sameiginlegum athöfnum skólans eins og kostur er.

Skólaárið 2020-2021 eru 13 nemendur skráðir í Námsveri frá 6.–10. bekk, 4 stúlkur og 9 drengir. Þrír kennarar í fullu starfi kenna í Námsveri og einn í hálfu starfi. Tveir stuðningsfulltrúar starfa við deildina.

Fyrir ári var ákveðið að brjóta upp ríkjandi kennsluhætti í Námsveri Kópavogsskóla og nálgast námsmarkmið með þátttöku nemenda.

Hugmyndir að þessum breytingum fæddist í samræðum okkar kennaranna. Við höfðum allar nýhafið störf við námsverið og fórum að skiptast á skoðunum um starfskenningar okkar og hugsa saman um það hvert við vildum stefna. Í ljós kom að við höfum allar áhuga á að stíga skref í þá átt að auka ábyrgð nemenda á námi sínu, það er að þeir væru aðilar að eigin námskrárgerð. Við vildum að námið væri meira á þeirra forsendum, að þeim væru veitt tækifæri til að þróa hugmyndir sínar, sæju tilgang með náminu og að það væri í tengslum við þeirra veruleika. Niðurstaða samræðna okkar var að sækja um styrk til Sprotasjóðs til að skapa okkur svigrúm til að fara í þessa átt og fór umsóknin frá okkur á síðustu stundu, rétt áður en frestur rann út. En styrkinn fengum við.

Markmiðið með breytingum á kennsluháttum var að gefa nemendum með frávik í hegðun og námi aukið vald til að móta, með aðstoð kennara, sitt eigið nám með tilliti til þess hvernig þeir sjá að nám sitt og styrkleikar geti valdeflt þá og aukið færni þeirra til framtíðar. Einnig var ákveðið að til yrði vel útfærð námskrá sem hentaði fyrir breiðan nemendahóp þar sem nemendur, foreldrar og kennarar kæmu saman. Þannig yrði möguleiki á sameiginlegum ákvörðunum um næstu skref til skemmri eða lengri tíma, með það í huga hver framtíðarsýn nemandans sjálfs er.

Nemendum gafst tækifæri til að koma með hugmyndir að námi sínu og hvað þá langaði að leggja mesta áherslu á. Kennari skráði niður hugmyndirnar og fékk nemandann til að sjá fyrir sér hvernig hann vildi vinna með þær áfram. Nemendur voru sjálfir látnir finna hvar væru opnar leiðir og hvar væru hindranir. Þeir voru þannig áhrifavaldar í eigin ákvörðunum, það var hlustað á þá og þeim treyst til að finna lausnir með það fyrir augum að efla þrautseigju og seiglu þeirra.

Verkefnið var kynnt foreldrum sem tóku þessum áformum vel. Því miður varð samstarf við þá minna en vænst var vegna Covid, en hugmyndin var að nemendur kynntu verkefni sín meðal annars fyrir foreldrum. Í foreldraviðtölum voru foreldrar beðnir um að ræða við nemendur heima um áhugasviðsverkefnin.

Afmarkaður tími var lagður til tvisvar í viku til að vinna sérstaklega að þessu, annars vegar föstudagsmorgnar og einnig á miðvikudögum. Eins er nemendum oft gefinn kostur á að grípa í áhugasviðsverkefnin þegar það hentar og stundum biðja nemendur um að fá að sinna þeim. Fleiri kennarar leggja þessu lið, meðal annars smíðakennari skólans sem býður þeim, sem eru að fást við slík verkefni, til sín í smíðastofuna og eins útvegaði hann einum nemanda eigin hefilbekk meðan unnið var við smíðar.

Misjafnt var hversu skýr sýn nemenda var á framtíðina eftir þroska og getu. Á meðan sumir byrjuðu að æfa sig fyrir framtíðarnám og starf, nutu aðrir sín við áhugasvið er sneru að listum eða einstökum námsgreinum.

Afar mismunandi er hvernig nemendur standa að áhugasviðsverkefnunum. Sumir verja öllum tíma sínum í sama viðfangsefni en aðrir hafa fengist við mörg verkefni. Hvort tveggja er leyft. Nemendur fylgjast oft vel með því sem hinir eru að gera og áhuginn getur smitast.

Við reynum líka að grípa þau tækifæri sem upp koma. Sem dæmi má nefna að í samræðum við foreldra eins nemanda komumst við að því að þau voru áhugafólk um kappakstur og nú er barnið þeirra að fást við viðfangsefni um bíla og það sér tilgang með náminu.

Annar nemandi, hefur sýnt ljósmóðurstarfinu sérstakan áhuga. Við veltum fyrir okkur mikilvægum þáttum í starfinu og nemandinn benti á að ljósmæður þyrftu að vita mikið um hreinlæti og við ákváðum að byrja þar. Nemandinn er nú að semja bók í Book Creator um hreinlæti í starfi ljósmæðra. Svona munum við vinna áfram í áföngum.

Einn nemandi ákvað sjálfur að ráðast í átak til að bæta sig í stærðfræði og gerði það í tengslum við áform sínum um nám í framhaldsskóla.

Mig langar að verða betri í stærðfræði sagði stúlka í 9. bekk. Innri áhugahvöt og vaxandi trú á eigin getu fleyttu henni áfram. Hún fann út hvernig þekking hennar jókst og hafði áhrif á hvaða aðgerðir hún vildi leggja áherslu á í þekkingarleitinni.
Það má ef vill skipta á milli áhugasviðsverkefna. Þessi nemandi var með margar hugmyndir og það var æfing út af fyrir sig að staldra við verkefnin. Meðal hugmynda voru að þýða texta yfir á fjögur framandi tungumál, teikna myndasögu, teikna upp og saga út teiknimyndafígúru og margt fleira.

Þegar nemendur telja sig hafa lokið verkefnum sínum halda þeir gjarnan kynningar fyrir skólafélagana, setja upp sýningu eða kynna munnlega. Sumir nemendur hafa notið sín mjög vel í þessum kynningum.

Vinnan við þessa kennsluhætti var ekki síst áskorun fyrir okkur kennarana sem að þessu komu. Við vorum ekki lengur þeir sem höfðu öll svörin, heldur fólst starf okkar í því að leita lausna með nemanda og finna hvar styrkleikar hans liggja. Kennari þurfti að vera tilbúinn til að fara með nemanda hindrunarlaust af stað og reyna að sjá það sem hann sá og læra þar af leiðandi með nemandanum, en ekki að vera sá sem stýrði för. Þetta er mesta áskorunin fyrir kennarann að honum finnist ekki að hann sé að missa vald á kennslunni heldur sé valdeflingin gagnkvæm með þessum breyttu kennsluháttum. Helsta ástæðan fyrir vinnu með nemendum að þeirra hugmyndum er sú að hún kveikir innri áhugahvöt hjá þeim og trú á eigin getu ásamt því að hvetja þá áfram í þekkingarleitinni. Þegar fólk kemur saman að hugmyndavinnu án eignarhalds einhvers sérstaks þá ná hugmyndirnar flugi, vaxa og dafna.

Segja má að við kennararnir í Námsveri Kópavogsskóla höfum náð að vinna sem samhent teymi á sömu forsendum og nemendur. Þessir kennsluhættir hafa skilað umtalsverðum árangri. Margir nemendur hafa fundið nýjan metnað í náminu og skilað góðum verkefnum. Vitaskuld ekki allir – en flestir. Við erum ákveðnar í að halda áfram að þjálfa okkur með þessa nálgun í kennslu. Við erum líka, eins og nemendur að þróa okkar viðfangsefni. Við munum halda áfram að þreifa okkur áfram og höfum til dæmis ákveðið að gefa þessu meiri tíma í vetur en við gerðum á síðasta skólaári. Við erum líka stöðugt vakandi yfir því að við séum að styðja nemandann í að þróa eigin hugmyndir en ekki að stýra honum. Okkur finnst að okkur sé að takast þetta stöðugt betur. Við sjáum líka fjölmörg sóknarfæri við að nýta okkur upplýsingatæknina. Við höfum öðlast enn sterkari trú á þessari nálgun og hún er að festast í sessi. Mat okkar er engu að síður að það geti tekið jafnvel nokkur ár að skapa traust nemenda gagnvart því að þau fái að vera virkir þátttakendur í eigin námi.

Sjá nánar um verkefnið í skýrslu til Sprotasjóðs.

Fleiri sýnishorn af vinnu nemenda:

Það hefur ekki vafist fyrir þessum dreng í 9. bekk að leggja rafvirkjabrautina fyrir sig. Hann vann við að taka í sundur raftæki, skrásetja innvolsið, finna teikningar og útskýra virkni tækjanna á formlegri kynningu.
Eftir að hafa skoðað byssur kviknaði áhugi á rafvirkjanámi hjá dreng í 7. bekk enda með góða fyrirmynd í eldri nemanda með skýra sýn. Þeir unnu svo saman um hríð að verkefninu og miðluðu þekkingu sín á milli. Hann vann úr teikningum og var með formlega kynningu.
Myndlistarhæfileiki og þekking í myndbandagerð voru hvati að frábærum verkefnum hjá þessari stúlku í 10. bekk. Hún hélt reglulega kynningar yfir veturinn og kynnti sér ný forrit um leið og aðra tæknilega möguleika.
Ég ætla að verða dýralæknir, nemandi í 6. bekk með þetta alveg á tæru. Hér er hann að læra um dýr og útbúa þekkingarbanka í Book Creator.
Tveir nemendur í 6. og 7. bekk ákváðu að smíða víkingasverð og skildi sem þeir hönnuðu sjálfir og unnu með aðstoð smíðakennara.
Nemandi í 7. bekk sem tálgar í tré.
Af vinnu nemanda í 10. bekk sem hannar lampaskerm.

 


Aðalheiður Halldórsdóttir er grunnskólakennari og hefur einnig lokið námi ljósmyndum. Hún hefur fengist við sérkennslu síðan 2015.

Erla Gígja Garðarsdóttir er M.Ed í sérkennslufræðum og starfar í Kópavogsskóla sem deildarstjóri sérúrræða.

Guðrún Ingibjörg Hálfdanardóttir er sérkennari, jógakennari og ökuleiðsögumaður og hefur starfað við sérkennslu á öllum stigum grunnskóla, í framhaldsskóla og fullorðinsfræðslu.

Jóhanna Guðrún Ólafsdóttir er með M.Ed. í heimspeki og menntunarfræðum og diplomanám í sérkennslufræðum. Jóhanna hefur kennt heimspeki í leik- og grunnskólum frá 2010 og haldið fjölda námskeiða fyrir kennara sem hafa áhuga á að nýta sér samræðuaðferð heimspekinnar í kennslu.


Grein birt 27.10. 2020

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp