Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Kennslufræði vettvangsferða

í Greinar

Odd Ragnar Hunnes

 

Þann 25. maí 2018 var haldin ráðstefna á Menntavísindasviði Háskóla Íslands til heiðurs Eggerti Lárussyni sjötugum en hann var um þær mundir að láta af störfum sem lektor í landfræði. Ráðstefnan fjallaði um leiðir til að efla landfræðikennslu í skólum. Odd Ragnar Hunnes, dósent við Høgskulen í Volda í Noregi, hélt athyglisvert erindi um kennslufræði vettvangsferða sem hann tengdi sjö ferðum til Íslands þar sem hann hefur farið um Suðvesturland með nemendum sínum – og notið leiðsagnar Eggerts. Ritstjórn Skólaþráða óskaði eftir leyfi til að birta erindið og var það góðfúslega veitt og birtist hér í þýðingu Eggerts.

Kennslufræði er oft lýst sem fræðigreininni um hvað, hvers vegna og hvernig skal kenna og læra. Hér er ætlunin að fjalla um eitt af því sem heyrir undir hvað í þesari skilgreiningu: Vettvangsferðir. Í þessu erindi mun ég núna verja tíma mínum í að fjalla um spurningarnar hvers vegna og hvernig og möguleg svör.

Ég hef verið í tíma hjá þér og tekið þátt í kennslu þinni um fyrirbrigðið sigdalur, horft á myndskýringar þínar og aðrar útskýringar. Ég hef lesið um það í kennslubók um Ísland og um Gliðnunardalinn í Austur-Afríku. En þegar ég var á staðnum, í Almannagjá á Þingvöllum, rissaðir þú í sandinn teikningu til að útskýra sigdali, jarðskjálfta og eldvirkni og þá gat ég séð hvernig þetta leit út og allt í einu hugsaði ég: Já, nú skil ég. Allavega hef ég öðlast nýjan og betri skilning á þessum fyrirbærum.

Þetta sagði einn af kennaranemum mínum í vettvangsferð um sunnanvert Ísland fyrir mánuði. Hann tjáði sig kannski ekki svona orð fyrir orð en ég er viss um að þetta var það sem hann meinti og hann hefur staðfest það við mig.

Margsinnis hef ég heyrt svipuð viðbrögð frá nemum í vettvangsferðum. Þess vegna get ég fullyrt að þessi reynsla nemanna er algeng í þeirra hópi og ekki er mjög erfitt að útskýra það.

Að vera á staðnum þar sem fyrirbrigðið sem læra á um er, er frábær leið til að byrja að læra um það. Þá eru öll skilningarvitin virk í náminu. Við athuganir sjáum við, heyrum, þefum, brögðum á og snertum, og við tökum líka eftir líkamsstöðunni. Við erum í stanslausri skothríð upplýsinga og annarra áhrifa: kannski ætti frekar að segja við böðum okkur í upplýsingum og áhrifum. Fjölmiðlamaður myndi kannski lýsa þessu þannig að allar móttökurásir séu opnar. Og þetta er ekki bara skynjunin, heldur eru hugsunin og tilfinningarnar með og þar með allur persónuleikinn.

Sú nálgun að láta nemendur fá reynslu af því sem þeir eru að læra um er vel þekkt innan námssálarfræðinnar. John Dewey talaði um að læra með því að hlusta og læra með því að gera, aðhafast, en einnig um þátt uppgötvunar í námi. Reynsla, skynjun og tilfinningar skipta mjög miklu máli í námi að hans mati.

Athugun á ummerkjum forstveðrunar skráð með myndavél.

Hópur danskra kennslufræðinga, Schouborg o.fl., hefur bent á að skilningur á margbreytileika lífsins fáist ekki eingöngu með greindinni, þar verði uppgötvun og reynsla að koma til sögunnar. Þeir vitna til Grundtvig sem sagði að hlutverk skóla sé að láta nemendur kynnast lífinu eins og það er hér og nú frekar en að láta þá læra um lífið. Þess vegna halda þessir dönsku kennslufræðingar fram því sem þeir kalla kennslufræði reynslunnar. Ég kalla þetta opplevningslæring á norsku og upplifunarnám á íslensku. Þessari kennslufræði reynslunnar (í minni þýðingu) opnar sviðið fyrir möguleikum lífsins. Þeir segja að fyrimynd þess sem þeir kalla pedagogy of command sé að skipuleggja heiminn, og þessi nálgun að skipuleggja allt sé oft ríkjandi í skólum. Þeir halda þessu fram. Hins vegar sjá þeir engar mótsagnir meðal þessara tveggja aðferða við að nálgast kennslu – þær séu báðar mikilvægar og geti stutt hvora aðra. Reynsla ætti að styrkja þekkinguna og þekkingin gæti styrkt reynsluna.

Í vettvangsferðum dynja á okkur þessar margbreytilegu upplýsingar og áhrif sem eru miklu fjölbreytilegri en texti í bók, kvikmynd eða fréttaskýring í fjölmiðlum. Slíkri framsetningu og miðlun er oftast ritstýrt í einhverjum tilgangi, til að kynna einhverja manneskju, segja sögu eða frétt eða eitthvað hvað annað. En þegar þú ert á staðnun þar sem fyrirbrigðið er, sem fjallað er um, er miklu meira undir í athugun þinni. Þú ert í sérstöku félagslegu umhverfi. Það eru svo mörg smáatriði og tengingar sem veita þarf athygli. Margt sem getur beint einbeitingunni í nýjan farveg og þú ferð að ritstýra þínum eigin athugunum. Þetta má líka orða þannig að í vettvangsferðum ert það þú sem ert námsefnishöfundurinn. Námið er þannig fært að getu og áhuga og fyrri þekkingu hvers og eins. Mitt álit er að þetta eigi að vera markmið alls þess sem við aðhöfumst innan veggja skólanna. Í vettvangsferðum er þetta innbyggt.

Sá veruleiki sem skilningarvit nemenda kynnast gæti dreift athygli nemandans og farið að keppa við markmið og áætlanir kennarans. Oft pirrar þetta kennarann sem óttast að tilgangur ferðarinnar fari forgörðum. En athuganir nemandans eru mun nær veruleikanum en ritstýrð kynning á honum. Er það ekki það sem við viljum – að nemandinn stundi athuganir á veruleikanum? Að sjálfsögðu. Og það hafa vettvangsferðir alla möguleika á að gera. Ef kennarinn ætlast til að nemandinn skoði bara suma hluti í vettvangsferðum gæti ritstýrð kvikmynd verið heppilegri kostur.

Samt sem áður ættu nemendur að læra að beita athugunum með einbeitni og íhuga þær. Slíkt tekur og fyrirhöfn og krefst leiðsagnar. Þess vegna er mikilvægt hlutverk kennarans að hjálpa nemendum til að athuga og íhuga þegar þeir eru á staðnum. Þetta þýðir að kennarinn þarf – upp að vissu marki – að ritstýra þeim áhrifum sem nemandinn verður fyrir á staðnum – og halda því áfram þegar komið er inn í kennslustofuna á ný.

Við vitum að til eru margs konar gerðir náms. Að læra um fyrirbrigði sem hægt er að sjá, snerta, þefa af og bragða á eins og í dæminu um myndun sigdals á Þingvöllum er ein gerð. Önnur gerð er að læra að athuga og íhuga. Þessi gerð náms gæti falið í sér hverju á að leita að, hvers vegna á að leita að því, hver er þýðing þessa fyrirbrigðis, hvers konar áhrifum verður það fyrir, hvernig hefur það haft áhrif á umhverfið og svo framvegis.

Þessi gerð náms sem síðast er nefnd tengist og er reyndar hluti af gagnrýninni hugsun og er sem slík mun metnaðarfyllri og að mínu áliti og meira gefandi en að læra um hluti – sem vissulega er líka mikilvægt.

Að flétta saman athugunum og íhugunum minnir á hvernig landfræðingar horfa á heiminn almennt. Sú nálgun hefur mér alltaf fundist einstaklega árangursrík og mætti orða þannig: Hvers vegna er þetta svona á þessum stað? Eða í stuttu máli: Af hverju svona, hér? Og svo mætti bæta við núna. Að mínu áliti er spurningin Af hverju svona, hér og nú? Innsti kjarni landfræðinnar. Um þetta snýst landfræðin í hnotskurn. Spurningin er ljóðræn og ég hef komist að raun um hún virkar alls staðar.

Til að fylgja eftir fegurð, möguleikum og hreyfiafli þessarar spurningar verðum að vera á staðnum. Ekki er skrítið hvers vegna vettvangsferðir hafa verið grundvallarþáttur í námsferli góðrar og fjörmikillar landfræði – og er enn.

Greinarhöfundur útskýrir stærðfræðiverkefni sem má vinna á Kirkjugólfinu við Kirkjubæjarklaustur.

Ég ætla að láta þetta nægja að sinni um spurninguna hvers vegna vettvangsferðir? og snúa mér að spurningunni hvernig? Svarið byggir á reynslu af samvinnu kennaraskólakennara frá Háskóla Íslands og Høgskulen i Volda (VUC). Hér er um að ræða vikulangar vettvangsferðir um Suðvesturland sem farnar hafa verið sjö sinnum á árabilinu 2012–2018.

Þegar farið er í vettvangsferðir skiptir meginmáli að kennarinn hafi góða þekkingu á þeim stöðum sem skoðaðir eru. Gott er ef kennarinn býr yfir mestum hluta þessarar þekkingar. Að öðrum kosti gæti kennarinn haft með sér sérfræðing sem býr yfir þessari þekkingu.

Kennarinn þarf ekki að vita allt. En hann verður að hafa það sjálfstraust að segja hreint út þegar hann veit ekki ef slíkt kemur upp. Ég hef séð þetta virka. Í þessu samhengi, eins og í svo mörgu öðru, er gott að vita mikið – en að leika einhvern alvitran getur haft öfug áhrif – þá er eins og að skrifað sé engar vettvangsferðir í andlit kennarans.

Mikilvægt er að undirbúa nemendur en samt ekki þannig að möguleikar á uppgötvunarnámi fari forgörðum. Uppgötvunarnám er lykilþáttur í upplifunarnámi. Nemandinn á að vera nógu vel undirbúinn til að vera með hnitmiðaðar og raunhæfar væntingar, að hann hlakki til vettvangsferðanna og sé öruggur með sig fyrir og eftir ferðina. En upplýsingarnar um ferðina mega ekki vera svo yfirgripsmiklar að þær útiloki að eitthvað óvænt finnist. Óvæntar uppákomur koma sér yfirleitt vel. Við höfðum gengið bak við Seljalandsfoss og notið þess að fá smá ýring af fossvatninu þegar hinn íslenski starfsbróðir okkar minntist á að kannski gæti verið þess vert að skoða Gljúfrabúa líka. Það tæki aðeins fimm mínútur að ganga þangað sagði hann. Við fórum og sú reynsla var mögnuð og kom algerlega á óvart. Við vörðum meira en fimm mínútum við Gljúfrabúa og eftir þetta er hann fastur liður í vettvangsferðunum.

Gott er líka að vera opinn fyrir fyrir skyndilausnum og að þora að fara út í þær. Við komum nokkrum mínútum of seint í Landeyjarhöfn og misstum af ferjunni. Þarna sátum við allt í einu í rútunni og þrír tímar í að næsta ferja færi. Hinn færi og djarfi starfsbróðir okkar stakk upp á því að við færum upp meðfram Markarfljóti og skoðuðum verksummerki eftir jökulhlaupið úr Eyjafjallajökli eftir gosið 2010. Mitt á þessum aurum hlaupsins fórum við út úr rútunni og nemendum var boðið að velja sér tvo eða þrjá steina. Þeir voru síðan beðnir að geta sér til um tilurð þeirra. Að lokum bauðst starfsbróðir okkar til að greina alla steinana sem nemendur höfðu tínt og segja sögu þeirra. Ég hika ekki við að segja að þetta hafi verið hápunktur dagsins.

Dverghamrar á Síðu, „Starfsbróðirinn“ með nemendunum í Dverghömrum á Síðu.

Að segja sögur um staði eða fyrirbrigði sem stoppað er við eða ekið hjá er góð aðferð til að halda áhuganum vakandi og hjálpa nemendum til að muna staði og muninn á þeim. Eins og sagan um manninn sem gaf ungabarninu að sjúga blóð úr brjóstum sínum til að seðja hungrið er hann var á reki á ísjaka úti fyrir suðurströnd landsins eftir jökulhlaup frá Kötlu. Eða þegar Ingólfur Arnarson fór frá Ingólfshöfða til Vestmannaeyja til að hefna fóstbróður síns.

Að segja sögur virkar yfirleitt vel. Og stundum þarf að semja sögu til að hafa eitthvað til að segja frá. Gott dæmi um þetta er frá Gunnarsholti. Þar er sýning um uppblástur, jarðvegseyðingu og landgræðslu. Við komum með hópinn inn í sýningarsalinn sem er stór og sögðum þeim að læra. Það gerðu þeir. Þeir horfðu á myndir, lásu sum veggspjöldin og spurðu nokkurra spurninga. Smátt og smátt komumst við kennararnir að því að þetta var ekki að skila miklu. Flestir nemendur reikuðu um dálítið ruglaðir og áhugalausir. Augljóst var að við höfðum ekki undirbúið nemendur nógu vel fyrir þessa heimsókn. Undankomuleiðin var að biðja starfsbróður okkar að reyna að koma einhverju skikki á þessa heimsókn, flytja nokkur vel valin lokaorð. Hann samþykkti að reyna en sagðist þurfa smátíma til að semja sögu. Fimm eða tíu mínútum seinna var hann tilbúinn að segja sögu gróðurs á Íslandi og gekk með allan hópinn um sýninguna. Sú saga eyddi þessum ruglanda sem gert hafði vart við sig í hugum nemendanna og breytti heimsókninni í árangursríka námsreynslu fyrir nemendur – að læra af sýning

unni sem slíkri. Og þarna lærðum við um mögulega nálgun þegar farið er með nemendur á sýningar: Láta nemendur um að gera sínar eigin athuganir fyrst. Enda svo á að búa til myndskreytta sögu þar sem sýningin sjálf lætur myndirnar í té.

Þau atriði sem ég hef valið að tala um hér varðandi hvernig kennslufræði vettvangsferða eru bara fá af þeim mörgu sem eru í verkfærakistunni. En þau sem ég valdi eru bráðnauðsynleg að mínum dómi. Áheyrendur hér í dag hafa örugglega grun um hver hann er þessi djarfi menntamaður með víðtæka þekkingu, sem segir ég veit ekki þegar hann veit ekki og gerir það óhræddur, sem er opinn fyrir óvæntum uppákomum og upplifunum, einnig með því að segja sögur og semja sögur ef því er að skipta. Að mörgu leyti finnst mér þessi maður vera persónugervingur vettvangsferða, þessara árgangursríku aðferða við að kenna og læra landafræði. Þessi ráðstefna er einmitt til heiðurs þessum manni og hann heitir Eggert Lárusson.

Jökulsárlónið alltaf heillandi og lærdómsríkt, svona voru aðstæður á þeirra heimaslóðum í lok síðasta jökulskeiðs.

 


Ritstjórn og þýðandi þakka Auði Pálsdóttur yfirlestur og góðar ábendingar.


Odd Ragnar Hunnes er dósent við Høgskulen í Volda í Noregi. Hann hefur kennt kennaranemum landfræði í fimmtán ár. Áhugi hans hefur meðal annars beinst að vettvangsferðum og útikennslu sem leiðum í námi og kennslu. Odd Ragnar gegnir nú stöðu deildarforseta.


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp