Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Samræða þar sem allir hafa jafna möguleika

í Greinar

Sigurborg Kr. Hannesdóttir, MSc, sérfræðingur í þátttöku almennings

Þessi grein er skrifuð fyrir ykkur sem hafið áhuga á að rækta samræðuhefðina í skólastofunni.  Mörg ykkar gera það nú þegar, önnur eru að feta fyrstu skrefin.

Kveikjan að greininni var ársþing Samtaka áhugafólks um skólaþróun, sem haldið var í nóvember 2016.  Þingið var helgað stóru málunum í skólastofunni og í kjölfar erinda, ræddu þátttakendur í litlum hópum um spurninguna: Stóru málin í skólastofunni – hvers vegna, hvenær og hvernig? og hafði höfundur umsjón með þeim hluta þingsins.

Niðurstöður samtalsins sem fram fór á þinginu má finna hér.

Valdeflandi fundaform

Tilgangurinn með því að nota valdeflandi fundaform er að gefa öllum sem það vilja kost á að taka þátt í umræðunni. Þátttakendur sitja allir við sama borð og taka þátt á sömu forsendum.  Grundvallarmunurinn á því fyrirkomulagi og hefðbundnum fundum snýst um stjórn og ábyrgð.  Þátttakendur bera sameiginlega ábyrgð á framgangi fundarins, í stað eins fundarstjóra. Verið er að leysa úr læðingi kraft, þekkingu og visku þátttakenda, frekar en að „koma böndum“ á umræðu. Í síðarnefnda tilvikinu þarf fundarstjóri jafnvel stundum að þagga niður í fólki, biðja það um að halda tímamörk eða halda sig við efnið. Ef er spenna í salnum, vex hún við hverja tilraun til að halda öllu í böndum og ágreiningur magnast upp.

Samræðufundir með valdeflandi fundaformum, byggja á allt öðrum grunni. Þar er lögð áhersla á að allir eigi jafna möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, líka hinir óframfærnu.  Hlustun er lykilatriði. Leitað er eftir sameiginlegum áherslum. Tímastjórnun byggir á sameiginlegum fókus um viðfangsefni og markmið fundar og vitund um að ábyrgðin á fundinum sé ekki í höndum eins fundarstjóra, heldur beri  þátttakendur sameiginlega ábyrgð.

Hér verður sagt frá tveimur aðferðum sem byggja á þessum forsendum, Heimskaffi (World Café) og Opnu rými (Open Space) en báðar hafa náð útbreiðslu um allan heim.

Heimskaffi

Aðferðin byggir á þeirri vissu að fólk búi nú þegar yfir viskunni og sköpunarkraftinum til að fást við jafnvel erfiðustu áskoranir. Hver fundur hverfist um eina spurningu og mikilvægt að skilgreina hana af kostgæfni. Spurningin þarf að falla að markmiði fundarins og vekja innblástur og hvatningu til samræðu. Það er t.d. munur á að spyrja „hvað er mögulegt …?“ eða „hvað væri mögulegt …?“

Umræðan fer fram í þremur umferðum, sem hver um sig tekur yfirleitt 20–30 mínútur. Ekki þarf alltaf svo langan tíma, t.d. eru unglingar yfirleitt mun sneggri að afgreiða málin! Unnið er í 4–5 manna hópum, sem þýðir að ekki er þörf á hópstjóra. Best er ef setið er við hringborð eða borð sem eru jöfn á alla kanta. Á hverju borði er stórt blað sem þekur borðið og tússpennar í nokkrum litum.  Þátttakendur eru hvattir til að skrifa niður á blaðið jafnóðum, það sem rætt er í hópnum.

Nær undantekningarlaust verða líflegar umræður og fólki gengur vel að halda sig við efnið, þ.e. spurninguna. Í annarri umferð er komið að því að stokka upp hópana. Þátttakendur í hverjum hópi dreifa sér á önnur borð, utan einn, sem tekur að sér hlutverk gestgjafa og tekur á móti nýju fólki við það borð. Eftir stutta yfirferð þar sem hver og einn segir frá því sem rætt var í þeirra hópum heldur nýi hópurinn áfram að ræða sömu spurningu, dýpka umræðuna og skrá niður á blaðið. Í þriðju umferð fer fólk aftur í hópinn sem það byrjaði í, heldur „heim“. Þannig er nafn aðferðarinnar til komið, að þegar við förum „út í heiminn“, kynnumst við fleiri sjónarhornum og lærum eitthvað nýtt.  Í þessari síðustu umferð er sagt frá umræðunum í 2. umferð og haldið áfram og leitað eftir samhljómi.  Undir lok þessarar umferðar kemur að því að draga saman niðurstöður hópsins. Ein leið er að biðja hvern hóp að skrá „bestu hugmyndina“ á A5 blað. Þegar það er búið, er hægt  að afhenda önnur tvö A5 blöð í öðrum lit og biðja um næstbestu og þriðju bestu hugmyndina.

Fundi lýkur oftast á því að kalla eftir niðurstöðum hvers hóps og fá fram meginskilaboð fundarins.  Það má þá gera með því að flokka blöðin með niðurstöðunum upp á vegg. Þetta gefst oft betur en að einn úr hverjum hópi standi upp og segi frá niðurstöðum, því fljótlega hættir fólk að hlusta og það kemur „lægð“ í fundinn. Betra er að enda á „upptakti“.

Opið rými

Þessi aðferð byggir á því að fanga neista, þekkingu og áhuga sem þátttakendur hafa á málefninu sem er til umræðu. Tilgangur fundarins er skilgreindur vel og vandlega og ákveðið hvenær fundur hefst og hvenær honum lýkur, en að öðru leyti er engin dagskrá gerð fyrirfram. Þátttakendur sitja í hring – en hringurinn dregur fram samhljóm. Dagskráin er mótuð þannig að hver sem vill getur stungið upp á umræðuefnum. Í inngangi er fólk hvatt til að stinga upp á umræðuefnum sem skipta það svo miklu máli að það er tilbúið að leggja eitthvað af mörkum til að fylgja því eftir.

Viðkomandi fer inn í miðjan hringinn, segir nokkur orð um málefnið og skrifar það niður á blað, með tússpenna. Þannig kemur einn af öðrum og stingur upp á umræðuefni og málefnum er raðað upp á vegg, á svokallað markaðstorg. Því næst er málefnum raðað á stað og stund yfir þann tíma sem fundurinn á að standa, hvert umræðuefni fær gjarnan klukkutíma. Sá eða sú sem stakk upp á umræðuefninu ber ábyrgð á að opna það og að punktar úr umræðunni verði skráðir niður, helst á flettitöflu. Það þýðir ekki að viðkomandi þurfi að vera hópstjóri, það getur verið einhver annar, en oft þarf engan hópstjóra. Það er tilvalið að raða líka upp í hring fyrir hópana.

„Lögmálið um tvo fætur“ er einn af hornsteinunum á „Open Space“ fundum. Þegar fólk er búið að segja það sem það hefur að segja um málið og er ekki að uppgötva neitt nýtt, er það hvatt til að nota fæturna og fara í annan hóp. Þá hafa þátttakendur tækifæri til að ræða fleiri en eitt málefni sem raðast hafa á sama tíma. Þess vegna hentar betur að skrá á flettitöflu en tölvu, svo þau sem koma ný inn í hópinn í miðju kafi, sjái strax hvað búið er að ræða.  Með þessum hætti verður þetta mjög lifandi ferli, sem lýtur eigin lögmálum, en alltaf gengur upp.

Samkvæmt „uppskriftinni“ eru OS fundir haldnir í þrjá daga og á þriðja degi er unnið að aðgerðaáætlun þar sem áhugasamir taka ábyrgð á eftirfylgni. Aðferðin getur þó virkað mjög vel á styttri fundum og stundum er verið að ræða mál sem eru ekki eingöngu í höndum þátttakenda, t.d. þegar mál varða stofnanir, fyrirtæki eða opinbera aðila.

Báðar þessar aðferðir, Opið rými og Heimskaffi fanga þann anda, sem flest okkar hafa upplifað á fundum og ráðstefnum, að það gerist mest í kaffi- og matarhléum.

Grunngildi IAP2 fyrir þátttöku almennings

Samtökin IAP2 hafa skilgreint grunngildi fyrir þátttöku almennings, sem eru gagnleg hvenær sem boðið er til samtals, sérstaklega ef tilgangurinn er sá að nýta afrakstur samtalsins í tengslum við ákvarðanir.

Þátttaka almennings…

  1. … byggir á þeirri trú að þegar teknar eru ákvarðanir, eigi þeir sem ákvörðunin hefur áhrif á, rétt á að taka þátt í ákvörðunarferlinu.
  2. … felur í sér loforð um að það sem þátttakendur hafa fram að færa, muni hafa áhrif á ákvörðunina.
  3. … stuðlar að sjálfbærum ákvörðunum, með því að greina og ræða þarfir og hagsmuni allra þátttakenda, þ.m.t. þeirra sem taka ákvörðunina.
  4. … felur í sér að leitað er eftir og skipulögð aðkoma þeirra sem ákvörðunin gæti haft áhrif á eða hafa áhuga á henni.
  5. … þýðir að leitað er eftir sjónarmiðum þátttakendanna sjálfra um það hvernig þátttöku þeirra verður háttað.
  6. … þýðir að þátttakendur fá þær upplýsingar sem þeir þurfa til að geta tekið þátt á marktækan hátt.
  7. … felur í sér að þátttakendum er tjáð hvernig framlag þeirra hafði áhrif á ákvörðunina.

Hvatning

Að lokum er hér hvatning til dáða. Þessar einföldu lýsingar hér á undan geta jafnvel nægt til að fara að beita þessum aðferðum, en svo eru til aðgengilegar handbækur um báðar aðferðir, sem vísað er í hér á eftir.

Einnig er vert að mæla með tveimur íslenskum bókum sem komu út á síðasta ári, Gagnrýni og gaman – samræður og spurningalist, eftir Jón Thoroddsen og Listinni að spyrja – handbók fyrir kennara, eftir Ingvar Sigurgeirsson.

Að lokum, fimm atriði til að hafa í huga fyrir ykkur sem eruð að vinna á þennan hátt:

  1. Prófið ýmsar aðferðir, gerið margar tilraunir!
  2. Gefið nemendum kost á að velja umræðuefnin; það sem skiptir þau mestu máli.
  3. Tengið umræður við ákvarðanir, þannig að nemendur fái að hafa raunveruleg áhrif.
  4. Staldrið við af og til og ræðið með hópnum; hvernig gengur okkur að þjálfa okkur í samtali og samstarfi?
  5. Munið að þetta er lærdómsferli fyrir alla, nemendur, kennara og annað starfsfólk.

Að lokum, gangi ykkur vel og umfram allt hafið gaman af!

Bækur og vefsíður:

Alþjóðleg samtök um þátttöku almennings, IAP2, www.iap2.org.

Juanita Brown, with David Isaacs and the World Café  Community – The World Café; Shaping Our Futures Through Conversations That Matter.  Berrett-Koehler Publishers, Inc. San Francisco,2005.

www.theworldcafe.com

Harrison Owen – Open Space Technology; A User´s Guide.  Berrett-Koehler Publishers, Inc. San Francisco, 3. útgáfa, 2008.

www.openspaceworld.org

Ingibjörg Gísladóttir heldur úti vefsíðu um Open Space aðferðina, sjá hér: http://plan-b.is/open-space/

Um höfundinn

Sigurborg Kr. Hannesdóttir hefur sérhæft sig í aðferðum sem byggjast á að virkja þátttöku almennings síðustu 17 árin og starfar eftir grunngildum og siðareglum IAP2. Hún hefur BA próf í félagsfræði og félagsráðgjöf og MSc gráðu í ferðamálafræði. Sigurborg rekur eigið ráðgjafarfyrirtæki, ILDI og hefur starfað mikið með sveitarfélögum og opinberum stofnunum. Hún verður æ heillaðri af aðferðum sem draga fram visku einstaklinga og samhljóm hópa.

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp