Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Lönd og menning í nýrri námskrá Menntaskólans á Akureyri

í Greinar

anna_eyfjordAnna Eyfjörð Eiríksdóttir, frönskukennari við Menntaskólann á Akureyri


Haustið 2016 var tekin í gagnið ný námskrá sem miðar að sveigjanlegum námslokum í Menntaskólanum á Akureyri og var nú ákveðið að endurvekja einhvers konar málabraut, en í eldri námskrá hafði verið í boði tungumála- og félagsgreinasvið þar sem nemendur höfðu kost á að velja tungumálakjörsvið. Mikill vilji kennara var fyrir því að skipta þessum brautum aftur upp í tvær mismunandi brautir og var sú leið valin að bjóða upp á félagsgreinabraut annars vegar og mála- og menningarbraut hins vegar. Það er skemmst frá að segja að aðsóknin á mála- og menningarbrautina var slík að vísa varð nemendum frá og beina þeim á aðrar brautir í staðinn. Á mála- og menningarbraut er lögð mikil áhersla á tungumál og skyldar greinar. Nemendur velja á milli þýsku og frönsku sem þriðja máls, allir taka einn áfanga í spænsku og geta bætt við sig tveimur áföngum til viðbótar í vali. Nemendum gefst kostur á að velja þrjá áfanga í ferðamálafræði þar sem tungumálin sem nemendur læra eru hagnýtt til að vinna ýmis verkefni tengd ferðamálafræði. Allir nemendur læra jafnframt dönsku og ensku.

Nemendur á mála- og menningarbraut taka einnig tvo skylduáfanga sem hafa meiri menningarlega tengingu, það eru áfangarnir Lönd og menning (MENN2LÖ04) annars vegar og Tungumál og miðlun (MENN2TU04) hins vegar. Fyrrnefndi áfanginn byggir á áfanga sem kenndur var á tungumálakjörsviði í gömlu námskránni og var í daglegu tali gjarnan nefndur í almennu tali Evrópuáfanginn. Hann er þverfaglegur og alla jafna 2-3 kennarar úr ólíkum greinum sem kenna hann saman, seinustu ár hafa það verið frönsku-, þýsku- og dönskukennarar en ensku-, landafræði- og jarðfræðikennarar komu einnig að mótun hans fyrsta árið. Mismunandi er hversu margir kennarar eru í stofunni hverju sinni og fer það eftir viðfangsefnum. Áfanginn er verkefnamiðaður og afar lítið er um fyrirlestra frá kennurum. Í samræmi við markmið áfangans er mikið lagt upp úr virkri þátttöku í verkefnum og kynningum áfangans. Það er ekkert lokapróf í áfanganum heldur gilda verkefna- og skýrsluskil til einkunnar. Áfanganum er lýst á eftirfarandi hátt í áfangalýsingu:

Áfanginn fjallar um menningu, sögu og landafræði Evrópu. Viðfangsefni geta m.a. verið kvikmyndir, matarhefðir, listasaga, tónlist og fleira. Áfanginn byggist upp á nokkrum þematengdum lotum og fá nemendur innsýn og aukinn skilning á samfélagi og menningu Evrópuþjóða. Áhersla er lögð á að nemendur verði læsir á menningu. Gestir frá ýmsum þjóðum heimsækja nemendur í áfanganum til að fræða þá um land og þjóð. Viðfangsefnin eru valin í samráði við kennara eftir áhugasviði nemenda. Færniþáttum í frönsku/þýsku er fléttað saman við menningu og sögu landanna. Lögð er áhersla á rétta uppsetningu ritunarverkefna, unnið með framsetningu í ræðu og riti og unnið með lengri texta.[i]

Eins og sjá má á þessu broti úr áfangalýsingunni er mikil áhersla lögð á að nemendur öðlist nokkuð breiða þekkingu á venjum, menningu og samfélagsgerð Evrópuþjóða. Það er okkar skoðun að fordómar byggi að stærstum hluta á fáfræði og skilningsleysi. Það er því leynt og ljóst markmið verkefna áfangans að nemendur læri að þekkja (og kunna að meta) þann fjölbreytileika sem Evrópa (og heimurinn allur) hefur upp á að bjóða. Við viljum gera nemendur gagnrýnni á þær meðvituðu og ómeðvituðu staðalímyndir sem við höfum um þjóðir sem við kannski þekkjum ekki vel til – og eiga ekki endilega við rök að styðjast.

Mikilvægur hluti til að ná þessu markmiði er að stofna til vinskapar við fólk frá sem flestum Evrópulöndum og eru tvö verkefni í áfanganum sem gagngert vinna að því. Fyrra verkefnið er svokallað hraðstefnumót (speed date) sem þó hefur engan rómantískan tilgang. Nemendur velja sér efni eða þema sem þeir undirbúa fyrir hraðstefnumótið, t.d. skólakerfið, tónlist, jólahefðir, tungumál og mállýskur, þjóðdansa og trúarbrögð. Nemendur semja nokkrar spurningar um hvert efni, a.m.k. á ensku en jafnvel á fleiri tungumálum ef von er á gestum sem tala tungumál sem nemendur hafa á valdi sínu. Hraðstefnumótið sjálft er sett upp á nokkuð hefðbundinn hátt, búið er að raða borðum og númera. Erlendu gestirnir okkar, sem að mestum hluta eru skiptinemar við Háskólann á Akureyri, velja sér borð og svo hafa nemendur okkar þrjár til fimm mínútur við hvert borð til að bera upp þær spurningar sem undirbúnar voru. Að hraðstefnumótinu loknu tekur við spjall á léttari nótunum og boðið er upp á kaffi og kruðerí. Oft hafa skapast skemmtilegar samræður og vinskapur myndast, og vonandi hefur einhverjum fordómum verið eytt!

img_5172  img_5169

Síðar á önninni höfum við endurgoldið gestum okkar greiðann, þ.e. við höfum boðið þeim að koma á kvöldvöku og í það skiptið dynja ekki á þeim spurningar um þeirra eigin heimalönd heldur kynna nemendur okkar Ísland fyrir þeim. Nemendur þurfa að velta fyrir sér hvaða hefðir og venjur við höfum á Íslandi sem eru frábrugðnar því sem gerist annars staðar. Nemendur velja sér svo efni til að kynna og hafa kynningarnar verið afar fjölbreyttar. Kvöldvakan hefur alla jafna verið um mánaðarmótin nóvember‒desember, jólin á næsta leyti og því hafa viðfangsefni nemenda oft verið nokkuð lituð af því. Erlendu gestirnir eru ekki síður áhugasamir um jólahald á Íslandi svo það hefur fallið vel í kramið. Til að nefna nokkur dæmi um efni sem hafa verið tekin fyrir: Íslenski þjóðbúningurinn, lopi og lopavörur (það var afar eftirminnilegt þegar þrír drengir sátu og prjónuðu allt kvöldið og sýndu lopavörur þess á milli), laufabrauðsútskurður (og steikt laufabrauð að smakka), jólamatur, kynning á íslensku jólasveinunum, íslensk tónlist, lýsi og harðfiskur, lakkrístoppar, fimmundasöngur og margt fleira. Oft skapast skemmtilegar umræðum um hvernig hlutum er háttað í heimalöndum gestanna og kemur fjölbreytileikinn í t.d. jólahefðum til umræðu. Erlendu gestirnir hafa verið afar þakklátir fyrir þessa kvöldstund. Þeir dvelja á Akureyri eina til tvær annir og finnst þetta frábært tækifæri til að kynnast menningu og hefðum á Íslandi, sem er akkúrat það sem við viljum, að nemendur okkar læri um hin ýmsu Evrópulönd. Þetta verkefni gerir bæði nemendum okkar kleift að kynnast enn betur erlendu skiptinemunum og einnig gestunum okkar að brjóta niður staðalímyndir eða ákveðnar hugmyndir sem þeir hafa um Ísland og Íslendinga.

Þessar tvær heimsóknir eru þau verkefni sem helst hafa það að markmiði að auka víðsýni og skilning nemenda á menningu annarra þjóða. Áður en hraðstefnumótið er má greina nokkurn kvíða hjá nemendum, eins konar kvíða við hið óþekkta. Þeir gera sér ekki alveg grein fyrir á hverju þeir eiga von. Þegar hraðstefnumótinu er lokið hefur alltaf ríkt gleði meðal nemendanna, þau segja að þetta hafi nú verið auðveldara en þau héldu í fyrstu og það hafi verið mjög gaman að ræða við gestina. Engan slíkan kvíða má greina fyrir seinni heimsóknina, kvöldvökuna með Íslandskynningunni. Vissulega er erfitt að mæla fordóma og staðalímyndir og þróun á þessu tvennu en okkur kennurunum finnst við sjá það á breytingunni á viðmóti nemenda og ánægjunni sem þeir fá úr þessum verkefnum að þetta sé að skila einhverju jákvæðu.

Nemendur okkar vinna einnig tvö stór verkefni um Evrópulönd sem þeir kynna fyrir bekkjarfélögum sínum. Í hinu fyrra vinnum við með Norðurlöndin og lönd norðarlega á meginlandi Evrópu. Hver hópur vinnur með eitt Evrópuland og útbýr myndasýningu með tali (myndband) þar sem kynna þarf landið almennt til að byrja með, s.s. legu landsins, stærð, íbúafjölda, höfuðborg, atvinnuvegi, landslag og fræg kennileiti. Fjalla skal ítarlega um tungumál landsins og velja svo nokkra þætti sem einkenna landið, s.s. menningu, listir, fólk, matarhefðir, framleiðslu, náttúrundur eða annað. Nemendur horfa á öll myndböndin og fá því mjög ítarlega kynningu á þessum löndum.

Í seinna stóra hópverkefninu er unnið með lönd sem eru sunnarlega og austarlega í Evrópu. Verkefnaskilin eru að þessu sinni afar frábrugðin þeim í fyrra verkefninu. Haldinn er svokallaður Evrópudagur þar sem hver hópur er með bás til að kynna það land sem hann var að vinna með. Kynna þarf landið á almennan hátt, eins og í fyrra verkefninu, fjalla þarf ítarlega um tungumálið og segja frá jólahefðum ef jól eru haldin í landinu (þetta er venjulega í seinustu viku fyrir jól). Kynna á tónlist landsins, nemendur búa til spilunarlista sem spilast á meðan myndasýning frá landinu gengur. Nemendur eiga að kynna fræga framleiðsluvöru frá landinu og þjóðarrétt eða annan frægan mat og boðið er upp á smakk þegar hægt er að koma því við. Nemendur útvega stundum fána, þjóðbúning, íþróttabúning eða annað frá landinu til að lífga upp á básana sína. Töluvert af upplýsingunum eru á plakötum sem hanga á básnum en nemendur spjalla við gesti og gangandi og fræða þá um landið; öðrum nemendum og kennurum skólans er nefnilega boðið á Evrópudaginn. Það er margt að sjá, heyra, snerta og smakka á þessum afar líflega kynningardegi. Þarna kynnast ekki bara nemendur áfangans öðrum Evrópulöndum heldur einnig aðrir nemendur skólans.

Þessi verkefni sem talin hafa verið upp hér að ofan er ekki tæmandi upptalning á því sem gert er í áfanganum en gefa vonandi nokkuð góða mynd af því hvernig við vinnum að markmiðum hans. Að auki mætti nefna fréttavakt nemenda og fræðslu um ýmislegt tengt Evrópu eins og Evrópusambandið og um námsstyrki og skiptinám, t.d. Erasmus. Við höfum alla tíð skynjað ánægju nemenda með áfangann og fjölbreytt verkefni sem við leggjum fyrir. Verkefnin og samskiptin við bæði nemendur og erlendu gestina veita kennurum áfangans einnig mikla ánægju og án efa gerir það alla vinnuna þess virði að sjá að viðsýni nemenda eykst og fordómar minnka.

img_3823    img_3818


[i] Anna Eyfjörð Eiríksdóttir, Hafdís I. Haraldsdóttir, Harpa Sveinsdóttir. (e.d.). TUN2A05 – Evrópa, menning og saga. Sótt af: http://www.ma.is/is/moya/page/tun2a05-evropa-menning-og-saga


Grein birt 8.12.2016

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp