Ólafur H. Jóhannsson
Skólaþræðir birta nú minningarbrot Ólafs Helga Jóhannssonar um verkefni sem hann tók að sér á langri starfsævi og hann nefnir Örþætti úr skólasögu. Ólafur kom m.a. mjög að þróun kennaramenntunar, ekki síst menntun skólastjórnenda, mótun menntastefnu í aðdraganda að flutningi grunnskólans yfir til sveitarfélaganna, sem og að ritstjórn aðalnámskrárinnar 2011/2023. Inngang Ólafs að þessum skrifum má lesa hér.
Í þessari síðustu grein segir Ólafur frá vinnu sinni við ritstjórn Aðalnámskrár grunnskóla 2011/2013.
Vort ferðalag gengur svo grátlega seint
og gaufið og krókana höfum vér reynt
en framtíðarlandið er fjarri.
Þorsteinn Erlingsson
Það er ekki á hverjum degi sem Alþingi samþykkir samtímis lög um þrjú skólastig. Það gerðist árið 2008 þegar samþykkt voru lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þetta skapaði tækifæri til að móta sameiginlegar áherslur skólastiganna sem ekki hafði áður verið gert.
Lögin marka ákveðinn ramma um hvert skólastig. Í þeim er víða vísað til þess að útfæra skuli tiltekin atriði í aðalnámskrá eða í reglugerð. Aðalnámskrá er ígildi reglugerðar og í því felst að skólum beri að fara eftir ákvæðum sem þar er að finna. Þau eru með öðrum orðum fyrirmæli sem ber að hlíta þótt framsetning kunni að hafa á sér blæ leiðsagnar eða tilmæla.
Þegar ný lög hafa verið samþykkt fylgir í kjölfarið endurskoðun aðalnámskrár. Orðið aðalnámskrá er notað um þá námskrá sem ráðuneytið setur og er til aðgreiningar frá skólanámskrá sem hver skóli setur og markar þannig sérstöðu innan þess svigrúms sem aðalnámskrá veitir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var menntamálaráðherra þegar umrædd lög voru sett 2008. Það kom því í hennar hlut að ýta úr vör vinnu við gerð aðalnámskrár. Embættismenn ráðuneytisins unnu að því að móta verklag og hefjast handa við námskrárvinnuna. En svo var efnt til alþingiskosninga og meðan undirbúningur þeirra stóð yfir og þar til ný ríkisstjórn hafði verið mynduð var gert hlé á námskrárvinnu sem var komin skammt á veg. Stjórnarskipti urðu árið 2009 og Katrín Jakobsdóttir tók við sem menntamálaráðherra.
Fljótlega eftir stjórnarskiptin var hafist handa við námskárgerð að nýju. Í ráðuneytinu var rætt hvernig nýta mætti þá stöðu að samtímis yrðu samdar námskrár fyrir þrjú skólastig. Ákveðið var að saminn yrði kafli í aðalnámskrá sem væri sameiginlegur fyrir öll skólastigin þrjú. Í framhaldi af því myndu svo faghópar semja hinn hlutann og hafa með sér samráð og samræma efnistök eftir föngum.
Starfsmaður Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Sigurjón Mýrdal, deildarstjóri stefnumörkunar- og þróunardeildar, stýrði námskrárvinnunni í heild og ritstýrði sameiginlegum hluta aðalnámskrár. Honum til aðstoðar var Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Kennaradeild Háskólans á Akureyri og Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Í sameiginlega hlutanum er fjallað almennt um menntun, kennslu og námsmat. Síðan voru valin nokkur svið sem nefnd eru grunnþættir menntunar og skulu liggja til grundvallar öllu námi á þessum þremur skólastigum. Grunnþættirnir eru læsi; sjálfbærni; lýðræði og mannréttindi; jafnrétti; heilbrigði og velferð; og sköpun.
Ég var ráðinn til að gegna formennsku í starfshópnum sem skyldi vinna almennan hluta námskrár fyrir grunnskólastigið. Námskráin var unnin í tveimur lotum. Fyrst átti að vinna almennan hluta og að því loknu átti að semja námskrá fyrir þau greinasvið sem ákvörðuð voru í lögunum. Tveir starfsmenn ráðuneytisins, þau Guðni Olgeirsson og Stefanía Snævarr, áttu sæti í starfshópnum. Ákveðið var að leita til helstu hagaðila á sviði grunnskólastarfs um þátttöku. Í starfshópinn komu Guðlaug Sturlaugsdóttir frá Skólastjórafélagi Íslands. Gunnar Gíslason frá Samtökum íslenskra sveitarfélaga og Þórður Hjaltested frá Kennarasambandi Íslands. Samstarf innan hópsins var með ágætum. Við kortlögðum þau atriði sem í grunnskólalögunum var kveðið á um að útfæra skyldi í námskrá og tókum einnig mið af alþjóðasamþykktum sem Íslendingar eiga aðild að, t.d. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samþykktum Evrópuráðsins.
Grunnskólalögin veita talsvert svigrúm til túlkana. Sem dæmi má taka viðmiðunarstundaskrá. Í lögunum segir í 25. grein; „Í aðalnámskrá skal kveðið á um … hlutfallslega skiptingu tíma milli námssviða og námsgreina í grunnskóla.“ Þetta ákvæði er útfært í viðmiðunarstundaskrá. Ráðuneytið hefur því ákvörðunarvald um hve mikinn tíma hvert námssvið eða námsgrein fær sem hlutfall af heildar kennslutíma. Nefndin þurfti talsvert langan tíma til að komast að niðurstöðu. Hversu mikið svigrúm átti að veita skólunum? Átti að tiltaka tímafjölda á grein eða greinasvið? Sjónarmiðin voru ólík, allt frá því að setja ætti lágmarksákvæði yfir í að setja þyrfti nákvæm ákvæði til að tryggja jafnræði nemenda. Niðurstaðan var að fara bil beggja. Gefa upp í mínútum tíma hvers greinasviðs fyrir ákveðinn aldurshóp. Dæmi: List- og verkgreinar 900 mínútur í 1.–4. bekk. Skólaíþróttir 360 mínútur í 8.–10. bekk. Tími til íslenskukennslu var aukinn nokkuð og valtímar eða tímar til ráðstöfunar skertir sem því nam.
Annað dæmi. Í lögunum segir: „Í aðalnámskrá skal m.a. leggja áherslu á: a. sjálfsvitund, siðgæðisvitund, félagsvitund og vitund nemenda um borgaralega ábyrgð og skyldur“. Ekki er tilgreint nánar hvað þessi hugtök merkja, né hvert er inntak þeirra. Það er skilið eftir til útfærslu í aðalnámskrá. Í aðalnámskrá eru þessi hugtök skilgreind þannig:
Sjálfsvitund. Í því felst að nemandi öðlist raunsæja og heilbrigða sjálfsmynd. Það felur í sér að nemendur þekki eigin tilfinningar, þekki sínar sterku og veiku hliðar og hafi trú á eigin getu og hæfni til að takast á við fjölbreytileg viðfangsefni daglegs lífs.
Siðgæðisvitund eða siðvit felur í sér að nemendur efli siðferðisþroska sinn og geti sett sig í spor annarra. Tilfinningar og reynsla nemenda gegna lykilhlutverki í þróun siðferðiskenndar þeirra sem felst í því að þeir tileinki sér hvað telst rétt og rangt, gott og slæmt í breytni fólks. Nemendur þurfa að læra að taka siðferðilega afstöðu til álitamála og virða rétt hvers og eins til að láta skoðanir sínar í ljós. Enn fremur að læra að gera greinarmun á jákvæðu og neikvæðu hegðunarmynstri í samskiptum og bera virðingu fyrir öðrum.
Félagsvitund, borgaravitund. Þessi hugtök fela í sér hæfni til að skynja, skilja og bregðast við tilfinningum annarra og hvað í því felst að búa í samfélagi með öðrum. Með borgaravitund er átt við viðhorf og hæfni fólks til að vera virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi í samræmi við réttindi sín og skyldur.
Félagsfærni miðar að því að geta átt jákvæð og árangursrík samskipti við aðra. Heilbrigð sjálfsmynd er grundvöllur félagsfærni. Börn með góða félagsfærni eru líklegri til að eiga frumkvæði að samskiptum, viðhalda þeim og aðlaga sig breyttum aðstæðum. Þroskuð félagsfærni er grunnur að lífshamingju og lífsfyllingu hvers einstaklings.
Hér er með óbeinum hætti lýst hæfni á sviðum sem nemandi á að búa yfir þegar hann lýkur námi í grunnskóla. Það er svo lagt í hendur skólanna og einstakra kennara að velja viðfangsefni og vinnulag sem tryggir eftir föngum að nemandi öðlist þessa hæfni.
Þriðja dæmi: Í lögunum segir að það eigi að vera „jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms.“ Í aðalnámskrá er þetta túlkað þannig:
Gæta ber þess að jafnvægi sé milli bóklegs náms og verklegs. Bæði hugur og hönd hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar nemandi eflir með sér alhliða þroska. Þess skal gætt að ekki halli á verklegt nám þegar skólastarf er skipulagt. Þetta á bæði við um hlutfall bóklegra og verklegra greina en einnig um vinnulag og viðfangsefni innan hverrar námsgreinar frá upphafi til loka grunnskóla. (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011/2013, bls. 37-38.)
Hér er framsetning meira í fyrirmælastíl; „Gæta ber þess,“ og „þess skal gætt“. En eftir sem áður er það lagt í hendur skólanna að finna leiðir sem tryggja að farið sé að þessum tilskipunum ráðuneytisins.
Almennur hluti aðalnámskrár kom út snemma sumars 2011. Kynningarfundir voru haldnir víðs vegar um land og vorum við oftast tvö eða þrjú sem önnuðust kynningar. Margar glærur voru sýndar þar sem kynnt voru helstu nýmæli. Mér fannst kennarar taka námskránni vel við fyrstu kynni. Þeir kennarar sem stóðu fyrir skólaþróun létu fremur ánægju í ljósi og fögnuðu því svigrúmi sem námskráin veitir. Á einum fundinum kom upp bilun í tölvubúnaði. Við urðum því að kynna efnið án stuðnings af glærum. Ég er ekki frá því að þessi kynning hafi skilað sér fullt eins vel þegar áheyrendur lögðu eingöngu við hlustir.
Þegar leið á haustið var tekið til við að semja greinabundnar námskrár. Settir voru á fót vinnuhópar fyrir hvert námssvið. Ráðuneytið skipaði formenn nefndanna. Í hverjum hópi voru þrír til fjórir þátttakendur og var tryggt að allir hefðu trausta reynslu af kennslu á sínu sviði. Í almenna hlutanum eru tilgreindir þeir efnisþættir sem eiga að koma fram í greinasviðunum til að tryggja samræmi í framsetningu. Þættirnir eru: Menntagildi og megintilgangur, kennsluhættir, námsmat, hæfniviðmið við lok 4., 7. og 10. bekkjar og önnur atriði sem varða sérstöðu greinarinnar. Nöfn formanna er að finna í viðauka.
Ég var ráðinn til að fylgjast með störfum hópanna og samræma efnistök þeirra. Hóparnir hittust nokkrum sinnum á sameiginlegum fundum og gerðu grein fyrir framvindu verksins og ræddu ýmis álitamál. Sumum hópunum þótti sér ætlaður knappur tími til verksins, en þeim vannst vel og greinanámskrárnar voru tilbúnar haustið 2013. Var þá námskráin gefin út í heild.
Nokkur gagnrýni kom fram á einstök efnissvið meðan kaflarnir voru í vinnslu, einkum beindist hún að köflunum um skólaíþróttir og náttúrugreinar. Þá höfðu ýmsir áhyggjur af því að hæfniviðmið greinasviða væru of hátimbruð og merking sumra þeirra óljós.
Eftirmáli
Það skorti að mínu mati verulega á að efni greinasviðanna væri nægilega kynnt eftir að aðalnámskrá var gefin út. Nýmæli í framsetningu vöktu óöryggi meðal kennara, einkum samspilið milli grunnþátta í almenna hlutanum, lykilhæfni og greinabundinna hæfniviðmiða. Svo komu matsviðmiðin til viðbótar. Enn, tólf árum eftir útgáfu námskrár, reynist mörgum kennurum þetta snúið. Í þessum efnum skorti verulega á eftirfylgni af hálfu menntamálaráðuneytisins.
Afstaða kennara til aðalnámskrár er afar breytileg og kemur þar eflaust margt til. Annars vegar eru þeir kennarar sem vilja að frelsi til að túlka námskrána sé sem mest, fyrirmæli eigi að vera sem fæst um skipulag og framkvæmd skólastarfs. Kennurum sem fagstétt sé fyllilega treystandi til að móta skólastarf og haga kennslu í sem bestu samræmi við þarfir nemenda. Hins vegar eru kennarar sem ekki eru sáttir við að búa við fljótandi fyrirmæli námskrár. Vilja fá skýr fyrirmæli um hvernig skuli haga framkvæmd. Ég geri ráð fyrir að námskrá leitist við að finna millileið sem flestir geta sætt sig við.
Enn eru að koma fram mismunandi sjónarmið um námskrána. Atli Harðarson (2021) prófessor emeritus við Menntavísindasvið, gagnrýndi framsetningu hæfniviðmiða (raunar á öllum skólastigum) í grein í Skólaþráðum undir yfirskriftinni Hæfniviðmið og framleiðsla á bulli og vitleysu.
Valdimar Helgason kennari við Réttarholtskóla er afdráttarlaus í svörum, þegar hann er spurður um aðalnámskrá; „Sá hluti í aðalnámskrá sem ég hef mest vit á og nefnist „náttúrugreinar“ er að mínu mati ónothæfur með öllu sem er mjög alvarlegt mál. Það þarf ekkert minna en að endurvinna hana frá grunni.“ (Ingvar Sigurgeirsson og Anna Magnea Hreinsdóttir, 2022).
Guðni Olgeirsson sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu segir:
Engu að síður hefur komið fram þó nokkur gagnrýni á innleiðinguna, sérstaklega um sum greinasviðin, matsviðmiðin við lok grunnskóla og útfærslu á hæfnimiðuðu námsmati í einstökum námsgreinum. Ég tel þessa gagnrýni réttmæta, en kannski voru áherslur sumra greinakaflanna líka of langt frá daglegu skólastarfi og fyrri venjum. (Gerður G. Óskarsdóttir 2021).
Álitsgjafi sem Ingvar Sigurgeirsson fékk svör frá og varðaði flutning grunnskólans til sveitarfélaga segir:
Hefði viljað meiri opinberan stuðning og leiðsögn við innleiðingu aðalnámskrár eða miklu frekar að hún hefði verið það skýr að hægt hefði verið að vinna eftir henni án þess að túlka og umorða hæfniviðmiðin. Við fengum einn fyrirlestur frá Menntamálastofnun varðandi skil við lok grunnskóla. Kennarar eyddu ómældum tíma í að túlka og endurskrifa aðalnámskrá grunnskóla. (Ingvar Sigurgeirsson, 2022).
Þegar þetta er ritað (desember, 2025) er lokið endurskoðun á greinasviðum aðalnámskrár. Um það sagði í færslu á fésbókarsíðu Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu; „Tilgangur verkefnisins var að bregðast við ákalli skólasamfélagsins um endurskoðun á greinasviðum aðalnámskrár en markmið verkefnisins byggðu á þremur stoðum, þ.e. að einfalda, samræma og skýra.“
Í þessu greinarkorni er ekki um neina heildstæða samantekt á gagnrýni á gildandi aðalnámskrá að ræða, aðeins tilgreind nokkur dæmi. Ég tel mikilvægt að leitað sé með markvissum hætti sjónarmiða kennara og stjórnenda um hvað er einkum gagnrýnivert eins og gert var í skýrslunni um Mat á innleiðingu aðalnámskrár. Niðurstöðurnar nýtast næst þegar aðalnámskrá er samin.
Ég hef lengi haft efasemdir um að aðalnámskrá stýri eins mikið daglegum störfum kennara og yfirvöld menntamála geri ráð fyrir. Hef einhvern tímann látið hafa það eftir mér að lengsta leið sem væri þekkt væri leiðin frá skrifborðum í ráðuneytinu þar sem ákvæði aðalnámskrár væru mótuð og inn í kennslustofur þar sem kennari sinnir daglegum störfum sínum. Það væri gagnlegt að rannsaka þessi tengsl áður en ný aðalnámskrá verður samin.
Margir halda því fram að mikil gróska sé í skólastarfi um þessar mundir. Mörg dæmi um fjölbreytni er t.d.að finna á facebook-síðunni Skólaþróunarspjallið. Fróðlegt væri að vita hvort aðalnámskrá á einhvern þátt í þessu. Það bíður síns tíma.
Heimildir
Aðalnámskrá grunnskóla 2011 og 2013.
Atli Harðarson. (2021). Hæfniviðmið og framleiðsla á bulli og vitleysu. Skólaþræðir. Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2021/03/23/haefnividmid-og-framleidsla-a-bulli-og-vitleysu/
Gerður G. Óskarsdóttir ræðir við Guðna Olgeirsson. (2022). „Ráðuneytismaður af lífi og sál. Stefnumörkun menntamálaráðuneytisins um grunnskólann í 35 ár. 1985–2020. Skólaþræðir. Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2021/01/29/raduneytismadur-af-lifi-og-sal-stefnumorkun-menntamalaraduneytis-um-grunnskolann-i-35-ar-1985-til-2020/
Ingvar Sigurgeirsson. (2022). „Þróun grunnskólans undir stjórn sveitarfélaga. Viðhorf reyndra grunnskólakennara. Skólaþræðir. Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2022/06/20/throun-grunnskolans-vidhorf-grunnskolakennara.
Ingvar Sigurgeirsson og Anna Magnea Hreinsdóttir. (2022). Bestu kennslustundirnar eru þegar umræða skapast um þróun vísinda. Rætt við Valdimar Helgason einn af fimm kennurum sem tilnefndir voru til Íslensku menntaverðlaunanna 2022. Skólaþræðir. Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2022/12/30/bestu-kennslustundirnar-eru-thegar-umraeda-skapast-um-throun-visinda/
Lög um grunnskóla nr.91/2008. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2008091.html
Mat á innleiðingu aðalnámskrár grunnskóla. (2020). Menntamálaráðuneytið.
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. (2024, 26. mars). https://www.facebook.com/photo/?fbid=715060660803287&set=a.229821049327253
Viðauki
Formenn starfshópa greina/greinasviða voru:
- Erlend mál: Auður Torfadóttir dósent emerita við Menntavísindasvið HÍ. Í forsvari með Auði var Brynhildur Anna Ragnarsdóttir, kennari, og hafði hún umsjón með þeim þáttum er vörðuðu dönskukennslu.
- Íslenska: Guðmundur B. Kristmundsson dósent við Menntavísindasvið HÍ.
- Skólaíþróttir: Kári Jónsson lektor í íþróttafræðum við Menntavísindasvið HÍ.
- List- og verkgreinar: Brynjar Ólafsson lektor við Menntavísindasvið HÍ og Kristín Valsdóttir kennari við Listaháskóla Íslands.
- Náttúrugreinar: Allyson Macdonald prófessor við Menntavísindasvið HÍ.
- Samfélagsgreinar: Páll Skúlason prófessor og fyrrverandi rektor HÍ og Henry Alexander Henrysson, siðfræðingur.
- Stærðfræði: Jónína Vala Kristinsdóttir lektor við Menntavísindasvið HÍ .
- Upplýsinga- og tæknimennt: Sólveig Friðriksdóttir, kennari í VÍ og Siggerður Ólöf Sigurðardóttir, upplýsingafræðingur og kennari.

Um höfund
Ólafur H. Jóhannsson (1943) er fæddur og uppalinn í Hnausakoti í Miðfirði. Hann stundaði almenn sveitastörf til 15 ára aldurs. Gekk í farskóla frá 9 til 12 ára og var nokkrum árum síðar tvo vetur í Reykjaskóla í Hrútafirði. Ólafur lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum 1966, stúdentsprófi 1968, BA-prófi frá Háskóla Íslands 1974 og meistaragráðu frá háskólanum í Bristol 1988. Hann var um árabil skólastjóri Æfingaskóla Kennaraháskólans og lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands (áður Kennaraháskóla Íslands).



Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Hermína Gunnþórsdóttir