Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Nemendaþing ‒ leið til að efla lýðræði í skólastarfi

í Greinar

Jóna Benediktsdóttir

 

Í Grunnskólanum á Ísafirði hefur um nokkurt skeið verið mikill áhugi á að efla lýðræðisleg vinnubrögð, m.a. með nemendaþingum þar sem nemendur ræða ýmis málefni sem varða skólastarfið, sem og fleiri mikilvæg mál. Nemendur stýra umræðunum að hluta til sjálfir og niðurstöður hafa verið notaðar með ýmsum hætti. Markmiðið er að þingin verði fastur liður í skólastarfinu.

Í Aðalnámskrá grunnskóla (2011) er birt menntastefna fyrir alla grunnskóla á Íslandi. Stefnan byggir á sex grunnþáttum menntunar; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti og sköpun. Grunnþættirnir skarast á margvíslegan hátt og hægt er að fella margskonar kennslu að þeim. Allir skólar vinna með grunnþættina en hafa frelsi til að velja sér aðferðir og leiðir. Verkefnið sem hér verður fjallað um snýst fyrst og fremst um þróun lýðræðis og borgaravitundar í skólastarfinu en tengist einnig öðrum grunnþáttum menntunar.

Fræðilegur bakgrunnur

Þegar lagt er af stað í breytingaferli er nauðsynlegt að hafa fræðilegan grunn til að standa á. Okkar grunnur byggir að mestu leyti á hugmyndum John´s Dewey (2000) um lýðræðishugsjónir og Basil Bernstein (1996) um skynsamlegt vinnulag.

Hvað er lýðræði?

Orðið lýðræði getur haft margvíslegar merkingar í hugum fólks en þegar hér er talað um lýðræði er fyrst og fremst stuðst við kenningar Dewey.  Dewey (1976) áleit að lýðræðið væri lífstíll um leið og það væri leið til virkrar þátttöku í þjóðfélaginu. Hugmyndir Dewey gera þær kröfur til nemenda að þeir séu virkir í skólastarfi og leiti svara við spurningum sínum. Einnig að þeir vinni saman að því að finna farsælustu lausnirnar og búa sig þannig undir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Á þessum forsendum teljum við mikilvægt að virkja alla nemendur til þátttöku í samræðum um hvernig við getum skapað skólasamfélag sem þjónar þörfum þeirra sem best. Inn í kenningar Dewey um lýðræði fléttast einnig hugsunin um að reynsla fólks hafi áhrif til breytinga því reynslan feli í sér tækifæri til að læra (Dewey, 2000).  Það er lýðræði af þessum toga sem við stefnum að því að efla í Grunnskólanum á Ísafirði.

En hvernig á að virkja lýðræðishugsjónirnar í starfi grunnskóla?  

Við ákváðum að byggja vinnu okkar fyrst og fremst á hugmyndum Bernstein um hvaða þættir eru nauðsynlegir til að koma lýðræðishugsjónum í framkvæmd.  Bernstein (1996) telur tvo þætti sérstaklega mikilvæga fyrir skóla sem ætla að skapa umhverfi sem styður við lýðræðisþróun og eflir lýðræðisvitund nemenda. Í fyrsta lagi verður fólk að upplifa sig sem virkan þátttakenda í samfélaginu. Það þýðir ekki eingöngu að fólk fái ákveðna hluti (réttindi) heldur einnig að það verði að geta gefið af sér ákveðna hluti (skyldur). Nemendur verða að upplifa sig sem þátttakendur bæði í þeim skilningi að gefa og þiggja. Í öðru lagi verður fólk að hafa tiltrú á þeim ráðstöfunum sem eru gerðar í samfélaginu. Nemendur verða að skilja að ráðstafanir eru gerðar í þeirra þágu og ef ráðstafanir eru ekki gerðar í þeirra þágu verða rökin fyrir því hvers vegna svo er að vera skýr. Bernstein segir einnig að til að þessar aðstæður geti orðið að raunveruleika í skólastofnunum verði skólarnir að leggja áherslu á rétt nemenda til þátttöku.  Með því á hann við réttinn til þess að taka þátt í að móta, viðhalda og flytja gildi og þekkingu með skipulögðum hætti.

Þessi skilyrði sem hér eru nefnd eru í góðu samræmi við hugmyndir Dewey um mikilvægi þess að fá tækifæri til að læra af reynslunni, túlka hana og þátttöku nemenda í að móta námsumhverfi sitt.

Á vettvangi

Ef þessar skilgreiningar eru tengdar við lýðræðiskennslu í skólastarfi má álykta sem svo að fái nemendur tækifæri til þátttöku í umræðum sem geta leitt til þess að þeir þroski með sér ný viðhorf og sjái að þeir geti haft áhrif, séu þeir að læra um virkni lýðræðis. Þegar fólk ræðir saman með þessum hætti kvikna nýjar hugmyndir af frjóum umræðum og sjálft ferlið við að ná samkomulagi um hvað skiptir máli, verður verðmætt í sjálfu sér, óháð niðurstöðum. Umræðurnar verða þó að hafa merkingu í lýðræðislegu samhengi til að geta fallið undir lýðræðiskennslu. Þær verða einnig að snúast um þau efni sem eru nemendum hugleikin og hafa einhverja merkingu fyrir þá svo sem samskipti, skyldur eða réttindi. Grunnskólinn á Ísafirði vinnur samkvæmt Uppbyggingarstefnunni og nemendur okkar hafa í allmörg ár unnið bekkjarsáttmála um samskipti sem notaðir eru í stað formlegra skólareglna. Í þeirri vinnu læra nemendur talsvert um lýðræðisleg vinnubrögð þar sem hún krefst þess að allir taki þátt og að skoðanir allra séu virtar. Nemendur þekkja því þessi vinnubrögð en á undanförnum árum höfum við unnið að því að færa þátttöku nemenda yfir á heildstæðara plan með því að virkja þá við mótun skólabrags með því að halda regluleg nemendaþing. Þingin hafa verið með þjóðfundarsniði og rætt hefur verið um málefni sem nemendur geta haft áhrif á og eru líkleg til að efla ábyrgðartilfinningu þeirra og vitund um eigin getu til að hafa áhrif.

Markmið þessara umræðuþinga eru fjögur:

  • að veita nemendum tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegri samræðu um málefni sem hefur merkingu fyrir daglegt líf þeirra og skipulag skólastarfsins,
  • að efla vitund nemenda um eigin áhrif í skólastarfinu,
  • að fá fram sjónarhorn nemenda í ýmsum málaflokkum,
  • að fá fram tillögur frá nemendum um hvað hægt er að gera til að hafa jákvæð áhrif á daglegt starf í skólanum og víðar.

Þingin hafa verið sett upp með formlegu sniði. Borðstjórar koma úr efri bekkjum skólans og fá sérstaka þjálfun í að virkja samnemendur til þátttöku og að stýra umræðum, en gæta um leið kurteisi.

Þrjú þing um ólík málefni hafa verið haldin í skólanum árin 2013, 2015 og 2017. Á fyrsta þinginu var lögð áhersla á skólasamfélagið. Þá fengu nemendur þrjár spurningar til að kljást við.

  1. Hvaða aðilar mynda skólasamfélagið?
  2. Hvað gætu hóparnir sem mynda skólasamfélagið gert til að gera skólastarfið betra og árangursríkara?
  3. Hvað myndu aðilar skólasamfélagsins ,,græða“ á því ef allir gerðu sitt besta?

Á öðru þinginu var rætt um kynjajafnrétti. Þá fengu nemendur spurningarnar:

  1. Hvað græða strákar á jafnrétti?
  2. Hvað græða stelpur á jafnrétti?
  3. Hvað geta aðilar skólasamfélagsins gert til að efla jafnrétti?
  4. Hvað geta foreldrar gert til að efla jafnrétti?
  5. Hvað getið þið sjálf gert til að efla jafnrétti?

Á þriðja þinginu var svo rætt um samfélagsmiðla. Þá byrjuðu nemendur á að skilgreina þá samfélagsmiðla sem þeir þekktu og flokka þá í mikið og lítið notaða. Þeir völdu síðan þrjá til fjóra af flokkunum sem þeir töldu vera mikið notaða og ræddu gagnsemi þeirra og hvað ber að varast við notkun þeirra.

Niðurstöðurnar

Smellið á myndina til að fá stærri útgáfu af niðurstöðunum frá nemendaþingi um samfélagsmiðla.

Vinnan með niðurstöðurnar er bæði formleg og óformleg. Formlega vinnan er sýnileg á veggjum skólans og víðar en sú óformlega felst í viðhorfsbreytingum, breytingum á hugsun og hegðun nemenda og jafnvel starfsmanna líka. Í öllum tilvikum er þetta vinna sem nær yfir langan tíma og tekur í raun ekki enda.

Nemendaráð skólans hefur ávalt unnið áfram með niðurstöður þinganna og þær hafa verið gerðar sýnilegar í skólasamfélaginu. Einnig hefur verið unnið með niðurstöður þingana í tengslum við markmiðssetningu nemenda í upphafi skólaárs, þar sem þeir skilgreina hvað þeir ætla að gera til að vinna að því að ná þeirri stöðu sem sameinast hefur verið um að sé æskileg.

Tillögur frá nemendum um kennsluhætti hafa verið ræddar í starfsmannasamtölum og ratað inn í margskonar áætlanir í skólastarfinu. Tillögurnar hafa einnig verið notaðar í innra mati skólans þar sem gerðar hafa verið kannanir fyrir kennara út frá þáttum sem nemendur meta mikilvæga í kennslu. Foreldrar fengu einnig tillögur nemenda um hvað þeir gætu gert til að auðvelda börnum sínum námið. Hluti af niðurstöðum hefur verið nýttur í innra mati í tengslum við mat á líðan og bekkjarbrag þar sem þær voru notaðar beint til að útbúa sameiginlega skilgreiningu fyrir æskilega stöðu. Þessar niðurstöður voru síðan færðar yfir í könnun sem nemendur svöruðu og gátu þannig endurmetið stöðuna í hverjum bekk fyrir sig.

Flóknast hefur reynst að vinna með niðurstöður jafnréttisþingsins þar sem þar eru fæst atriði sem nemendur eða starfsfólk skólans getur haft bein áhrif á.  Niðurstöður þess eru þó enn mikið ræddar í skólanum, bæði af nemendum og starfsfólki.

Niðurstöður í hnitmiðuðu formi til að setja á ísskápinn heima!

Nemendaráð er um þessar mundir að vinna með niðurstöður umræðna um samfélagsmiðla og vonumst við til að út úr því komi sáttmáli um skynsamlega notkun. Einnig er verið að útbúa gögn sem munu fara heim til nemenda og verða vonandi hvetjandi til samræðna foreldra og barna um þennan þátt sem leikur svo ríkulegt hlutverk í lífi fólks á okkar dögum.

Fyrir skólabraginn

Í þessu ferli eru nemendur virkir þátttakendur í að skapa eigin merkingu og bregðast við á persónulegan og skapandi hátt. Þeir taka þátt í að skapa samábyrgt samfélag og læra að takast á við álitaefni, því ekki eru allir alltaf sammála í hópunum. Það að gera sér grein fyrir hvað maður sjálfur getur lagt af mörkum til bæta umhverfi sitt og félagslegar aðstæður hefur styrkjandi áhrif fyrir alla og þegar börn og ungmenni skynja merkingu viðfangsefna eflist sköpunargleði þeirra sem hefur áhrif á námsáhugann. Í sköpun felst einnig að virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika og spyrja ,,hvað ef“ spurninga.  Umræðuþáttur þessa verkefnis felur í sér skapandi vinnu þar sem nemendur koma með nýjar tillögur, ígrunda eigin hegðun og fá tækifæri til að sýna frumkvæði. Þó að ekki sé mögulegt að mæla bein áhrif af svona starfi teljum við okkur geta sagt með vissu að áhrifin á skólabraginn eru ótvírætt jákvæð.  Nemendur okkar sýna oft í verki að þeir eru þess fullvissir að þeir geti haft áhrif á ákvarðanir sem teknar eru í skólanum ef þeir eru kurteisir og málefnalegir og telja sjálfsagt og eðlilegt að allir hafi skoðanir og tjái þær eftir löngun hverju sinni.

Markmið okkar er að gera nemendaþing að föstum lið í skólastarfinu. Með því vonumst við til að nemendur okkar venjist því að samræður, þar sem allir taka þátt, leiði til bestu mögulegu niðurstöðu fyrir heildina.

Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla 2011: Almennur hluti /2011.

Bernstein , B. (1996). Pedagogy, symbolic control and identity: Theory, research, critique. Lanham: Rowman & Littlefield.

Dewey, J. (2000). Reynsla og menntun. (Gunnar Ragnarsson þýddi). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands. (Upprunaleg útgáfa frá 1938).

Dewey, J. (1976). Creative democracy: The task before us. Í J. Boydston (Ed), John Dewey: The later works, 1925-1953, 14. bindi (bls. 224-230). Carbondale: Southern Illinois University Press.


Jóna Benediktsdóttir er skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði. Jóna lauk M.Ed prófi frá HÍ haustið 2012. Áherslur Jónu í náminu voru á skóla án aðgreiningar og lýðræði í skólastarfi.

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp