Greinar - Page 6

Óreiðukennd fyrsta aðgerðaáætlun í menntamálum

4. nóvember, 2022

Hermína Gunnþórsdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Út kom í september á síðasta ári skjal sem nefnist Menntastefna 2030. Fyrsta aðgerðaáætlun 2021–2024 (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2021). Áætlunin er samin til að fylgja eftir Þingsályktun um menntastefnu fyrir árin 2021–2030 nr 16. Þetta er líklega þýðingarmesta stefnumótunarskjal um menntamál síðan aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla kom út á árunum 2011 og 2013 (greinasvið grunnskóla síðara árið). Það er því ástæða til að gefa skjalinu rækilegan gaum. Hér á eftir rekjum við annars vegar aðdraganda að þessari aðgerðaáætlun en hins vegar rýnum við gaumgæfilega í inntak og form þessarar fyrstu aðgerðaáætlunar í nýrri menntastefnu.

Í hnotskurn er þessi áætlun safn aðgerða og verkþátta sem er lítið sem ekkert forgangsraðað eða sett í samhengi við önnur gildandi stefnuskjöl. Þegar áform um tvenn ný lög voru birt 17. október 2022 í samráðsgátt stjórnvalda birtist hins vegar sú forgangsröðun að ein til tvær fyrstu aðgerðirnar væru mikilvægastar, annars vegar Áform um lagasetningu – skólaþjónusta og hins vegar Áform um lagasetningu – ný stofnun (Mennta- og barnamálaráðuneyti, 2022a, 2022b). (meira…)

Hvernig tengist nýsköpunarkennsla baráttunni gegn loftslagsbreytingum?

20. október, 2022

Katrín Hulda Gunnarsdóttir, Justine Vanhalst, Viktoría Gilsdóttir, Sigurlaug K. Konráðsdóttir, Gestur Sigurjónsson og Hildur Ágústsdóttir

Fréttir um loftslagsbreytingar dynja á okkur á hverjum degi og því ljóst að það er kominn tími á aðgerðir. En hvernig er best að kenna börnum og ungmennum um svo erfið mál þannig að þau séu hvött til aðgerða? Það verða þau og þeirra afkomendur sem munu koma til með að verða fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og því mikilvægt að þau fái fræðslu og aukna þekkingu á því sem gæti verið í vændum. Þörfin fyrir vandaða fræðslu um málefnið, sem jafnframt ýtir ekki undir loftslagskvíða, verður sífellt óumflýjanlegri. Svarið gæti legið í nýsköpun. Þessir nemendur munu taka við stjórninni einn daginn og því mikilvægt að nemendur fái vandaða fræðslu um nýsköpun og frumkvöðlafræði frá unga aldri. Markmið Grænna Frumkvöðla Framtíðar (GFF) var að takast á við þessa áskorun með því að gefa nemendum á landsbyggðinni tækifæri til nýsköpunarmenntar og vekja áhuga þeirra á loftslags- og umhverfismálum. Matís stendur að verkefninu og fór það fram í þremur grunnskólum á landsbygðinni. Fjöldi þáttenda kom að verkefninu, m.a. FabLab smiðjur og sjávarútvegsfyrirtæki í heimabyggð, N4 sjónvarpsstöð og fleiri. Verkefnið var fjármagnað af Loftslagssjóði og var upphaflega skipulagt til eins árs. (meira…)

Flipp flopp dagar – það er „flippað“að læra í Kvíslarskóla

6. október, 2022

Sævaldur Bjarnason og Björk Einisdóttir

Kvíslarskóli er nýr skóli í Mosfellsbæ sem áður var eldri deild Varmárskóla. Í skólanum eru tæplega 400 nemendur í 7.‒10. bekk. Byggt er á  faggreinakennslu sem þýðir að fagkennarar eru ábyrgir fyrir kennslu í hverri námsgrein. Hver bekkur hefur sinn umsjónarkennara.

Haustið 2021 var Varmárskóla skipt upp í tvo skóla. Yngri deildin hélt nafni Varmárskóla, en eldri deildin fékk nafnið Kvíslarskóli eftir nafnasamkeppni í bænum. Stjórnendur Kvíslarskóla sáu tækifæri í þessum breytingum og ákváðu að láta á það reyna hvort grundvöllur væri fyrir því að prófa nýja kennsluhætti og sjá hversu langt við kæmumst með að þróa þá, t.d. að byggja meira á verkefnavinnu og fjölbreyttum kennsluháttum. Í kjölfarið var farið af stað í margskonar endurbóta- og stefnumótunarvinnu. (meira…)

Raddir af vettvangi

31. ágúst, 2022

Anna María Gunnarsdóttir, Valgerður S. Bjarnadóttir og Jón Torfi Jónasson

Í þessari grein segir af tilraunaverkefni sem Kennarasamband Íslands réðist í með fulltingi Jóns Torfa Jónassonar og Valgerðar S. Bjarnadóttur vorið 2021. Að hálfu KÍ vann Anna María Gunnarsdóttir að verkefninu í samráði við Framkvæmdarstjórn skólamálaráðs KÍ og skólamálanefndir og fagráð aðildarfélaga.

Hlutverk Kennarasambands Íslands er margþætt. Það gætir ekki einungis hagsmuna og réttinda félaga sinna heldur hefur aukinheldur þau hlutverk að auka samstarf kennara, efla fagvitund, efla skólastarf og stuðla að framförum í skólamálum (Kennarasamband Íslands, 2022). Til að sinna þessum hlutverkum eru sjálfsagt margar leiðir en mjög mikilvægt er fyrir forystufólk í Kennarasambandinu að vera í sterkum tengslum við sitt félagsfólk og byggja umræður og stefnumótun á því sem sprettur úr dagsins önn í skólastarfinu sjálfu.

Megintilgangur verkefnisins var að þróa aðferð fyrir samtök kennara til að tengjast vettvangi og rækta umræðu um fagleg málefni við kennara og skólastjórnendur og virkja þannig raddir skólafólks af vettvangi innan raða KÍ , meðal annars til að það heyri hvert í öðru og að sjónarmið fagfólks sem í skólunum vinnur berist víðar. Slíkt samtal getur hvort tveggja nýst Kennarasambandinu við stefnumótun og vinnu að faglegum málefnum og tengt starfandi kennara við samtök sín, vettvang og faglega umræðu. (meira…)

Geðveiki, skólastarf og skynsemismyrkur: Umsögn um nýjasta tölublað tímaritsins Journal of Philosophy of Education

2. ágúst, 2022

Atli Harðarson

Nýjasta tölublað tímaritsins Journal of Philosophy of Education er helgað rökræðu um geðheilsu og menntun. Framan á heftinu stendur Policy Special Issue Philosophy, Mental Health and Education. Höfundar eru úr ýmsum áttum. Meðal þeirra eru sérfræðingar um menntamál, sálfræðingar, læknar, heimspekingar og listfræðingar. Flestir eru fræðimenn við háskóla en nokkrir starfandi á vettvangi. Greinarnar eru líka af ýmsu tagi. Tvær þeirra eru viðtöl, nokkrar eru örstuttar og nánast eins og fréttaskýringar en flestar eru fræðilegar og með vísunum í rannsóknir og kenningar. Í því sem hér fer á eftir segi ég stuttlega frá rökum sem eru áberandi í máli höfunda. Rétt er þó að taka fram að ég reyni ekki að greina frá nærri því öllu sem fjallað er um í þessu 189 blaðsíðna hefti. Ég sleppi til að mynda greinum um bókmenntir og kvikmyndir sem höfundar rökstyðja að varpi ljósi á umrædda fleti mannlífs og menntunar. (meira…)

Þróun grunnskólans undir stjórn sveitarfélaga. Viðhorf reyndra grunnskólakennara

20. júní, 2022

Ingvar Sigurgeirsson

Í mars 2022 birti ég hér í Skólaþráðum grein (sjá hér) um mat 25 álitsgjafa á því hvernig grunnskólanum hefði farnast eftir að sveitarfélög tóku yfir rekstur hans fyrir rúmum aldarfjórðungi. Í álitsgjafahópnum var fólk sem ég taldi að hefði fylgst vel með skólamálum á þessum tíma. Í hópnum voru m.a. núverandi og fyrrverandi forsvarsmenn Kennarasambands Íslands, starfandi og fyrrverandi skólastjórar og fræðslustjórar, kennsluráðgjafar, auk háskólakennara og annarra fagaðila sem hafa verið að rannsaka og meta þróun skólastarfs á þessu tímabili. Ég var harla ánægður með þennan hóp og vænti góðrar umræðu um viðhorf þeirra til málsins. Þær vonir urðu því miður að engu vegna harðrar gagnrýni á vali fólks í hópinn; þ.e. að í hópnum væri enginn starfandi grunnskólakennari. Ég viðurkenni að þessi gagnrýni kom mér nokkuð í opna skjöldu því í álitsgjafahópnum voru margir grunnskólakennarar, en það var rétt að enginn þeirra var í starfi grunnskólakennara á því augnabliki þegar könnunin var gerð. 

Niðurstaðan mín var að ráðast í nýja könnun þar sem fyrst og fremst yrði leitað sjónarmiða starfandi grunnskólakennara; fagfólks sem hafði verið á gólfinu með nemendum frá því fyrir flutninginn og væri enn að. Markmiðið var að ná til kennara í mörgum og helst ólíkum sveitarfélögum og ég notaði einfaldlega kort af Íslandi þegar ég ákvað hvar bera skyldi niður. Ég fékk góða aðstoð, m.a. frá nokkrum þeirra sem höfðu gagnrýnt fyrra val mitt og á endanum hafði ég í höndum álit 26 grunnskólakennara, sem flestir voru í starfi þegar þeir svöruðu könnuninni. Svörin voru þó einum færri, eða 25, en einn svarenda fékk samstarfskonu sína, sem kennt hefur í hartnær hálfa öld, til að svara með sér. Ég gerði að sjálfsögðu enga athugasemd við það. Í hópnum eru nokkrir sem ekki voru að kenna börnum þá stundina sem könnuninni var svarað; þrír skólastjórnendur, einn fræðslustjóri og einn námsráðgjafi. Þessi álitsgjafahópur kemur úr 20 sveitarfélögum vítt og breitt um landið (sjá lista yfir hópinn hér neðst í greininni).  (meira…)

Sprettur – Snemmtæk og samþætt þjónusta í þágu farsældar barna

14. júní, 2022

Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir og Óskar Sturluson

Hvernig getum við veitt snemmtæka og samþætta þjónustu í nærumhverfi barna í dreifðari byggðum landsins?

Undirrituð fengu tækifæri til að þróa verkefni með það að markmiði að bjóða snemmtækan stuðning til barna og foreldra þeirra. Frumvarp að farsældarlögunum var haft til hliðsjónar og gætt að því að réttindi barna væru virt samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Afurðin er þverfaglegt teymi sem kallast Sprettur. Heitið vísar til þess að hvert mál er unnið hratt og af krafti í skamman tíma. Vinna teymisins fer fram í grunn- og leikskólum Fjarðabyggðar. Þar gefast tækifæri til að vinna markvisst í nærumhverfi barnsins í samstarfi við starfsfólk skólanna og aðra sem hafa með málefni barnsins að gera, s.s. heilsugæslu og félagsþjónustu.

Þjónustan, sem veitt er í Sprett-teymum, er í flestum tilvikum annars stigs þjónusta samkvæmt skilgreiningu farsældarlaganna þar sem „einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur“ er veittur og því er málastjórn í höndum starfsmanns fjölskyldusviðs. (meira…)

Skólaþjónusta sveitarfélaga í nútíð og framtíð: Viðfangsefni, starfshættir og skipulag

31. maí, 2022

Rúnar Sigþórsson, Birna María Svanbjörnsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Jórunn Elídóttir, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Trausti Þorsteinsson

Árið 2020 kynnti rannsóknarhópur við Kennaradeild Háskólans á Akureyri fyrstu niðurstöður rannsóknar á skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla í tveimur skýrslum (Birna Svanbjörnsdóttir o. fl. 2020a, 2020b). Enn fremur hefur rannsóknarhópurinn birt tímaritsgreinar um niðurstöður rannsóknarinnar (Birna María Svanbjörnsdóttir o. fl., 2021; Hermína Gunnþórsdóttir o. fl. í ritrýningu; Sigríður Margrét Sigurðardóttir o. fl. 2022) og kynnt þær á ráðstefnum og málþingum. Rannsóknin beindist að því að kanna umgjörð og starfshætti skólaþjónustunnar og hvernig sveitarfélögin standa að því að tryggja skólum sínum þann aðgang að skólaþjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum og reglugerð um skólaþjónustu (nr. 444/2019).

Þrenns konar gagna var aflað í rannsókninni: Í fyrsta lagi var spurningakönnun send til skólastjóra í leik- og grunnskólum og þeirra sem eru í forsvari fyrir skólaþjónustu. Þeir sem svöruðu fyrir hönd skólaþjónustunnar voru í flestum tilvikum yfirmenn skólaskrifstofa, s.s. fræðslustjórar, en gátu einnig verið sveitarstjórar í þeim sveitarfélögum sem ekki reka skólaskrifstofu. Í öðru lagi var tilviksrannsókn þar sem tekin voru nítján viðtöl við fræðslustjóra eða yfirmenn skólaskrifstofa, deildarstjóra og aðra starfsmenn skólaskrifstofa, svo sem sálfræðinga, sérkennsluráðgjafa og talmeinafræðinga í fimm völdum tilvikum. Viðtalsramminn tók mið af spurningakönnuninni og miðaði að því að fá efnismeiri svör um ýmsa þætti en þar fengust. Í þriðja lagi voru greind helstu stefnuskjöl um skólaþjónustuna sem birt eru á vef sveitarfélaganna í tilvikunum fimm þar sem viðtölin voru tekin. Lögð var áhersla á að greina hversu skýr stefna sveitarfélaganna um skipulag og inntak skólaþjónustu birtist á vefsíðum þeirra, hvers konar þjónustustefna birtist í umfjöllun skólaskrifstofa sveitarfélaganna um eigin starfsemi og hver væri umgjörð, skipulag og starfsskilyrði skólaþjónustunnar. Að auki var kannað hvers konar eyðublöð fyrir notendur þjónustunnar eru tiltæk og enn fremur var kannað aðgengi að ýmsum upplýsingum um skólaþjónustuna, svo sem um starfsfólk, starfslýsingar og samstarf við önnur þjónustukerfi. (meira…)

Framtíðin er hér! Innleiðing STEAM náms og kennslu í Menntaskóla Borgarfjarðar

16. maí, 2022

Signý Óskarsdóttir og Lilja S. Ólafsdóttir

Í þessari grein fjöllum við um skólaþróunarverkefni í Menntaskóla Borgarfjaraðar.  Segja má að verkefnið hafi farið af stað árið 2020 og gert er ráð fyrir að árið 2026 muni liggja fyrir reynsla og rannsóknir sem hægt er að miðla til annarra skóla og skólastiga.

Stærsti hluti skólaþróunarverkefnisins er innleiðing STEAM náms og kennslu með því að samþætta vísindi, tækni, verkfræði, listir og stærðfræði í gegnum viðfangsefni nemenda.

Stóru málin í heiminum eins og fjórða iðnbyltingin, umhverfismálin og heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun, ásamt lýðfræðilegum áskorunum kalla á aukna nýsköpun á öllum sviðum mannlífs og samfélags. Stefnur íslenskra stjórnvalda í menntamálum og nýsköpun til ársins 2030 endurspegla mikilvægi þess að ungt fólk búi yfir hæfni og eiginleikum til að geta tekið þátt í að móta nýjar lausnir í góðri samvinnu við aðra og þvert á greinar til þess að mæta þessum áskorunum. (meira…)

Meginiðja mannfólksins: Umsögn um bók eftir Philip Kitcher

11. maí, 2022

Atli Harðarson

Philip Kitcher er með þekktari heimspekingum samtímans. Hann fæddist í London árið 1947, ólst upp á Suður-Englandi en lauk doktorsprófi í vísindaheimspeki og vísindasögu frá Princeton háskóla í New Jersey árið 1974. Hann er nú prófessor emeritus við Columbia háskóla í New York.

Kitcher er höfundur fjölda bóka um heimspekileg efni. Með skrifum sínum um stærðfræði, líffræði og fleiri raunvísindi á árunum milli 1980 og 1990 skipaði hann sér í fremstu röð fræðimanna á sviði vísindaheimspeki og tók við keflinu af eldri samstarfsmönnum sínum, þeim Carli Hempel (1905–1997) og Thomasi Kuhn (1922–1996).

Á seinni árum hefur Kitcher líka skrifað um listir, trúarheimspeki, stjórnmálaheimspeki, siðfræði og fleiri efni. Nýjasta bók hans fjallar um heimspeki menntunar. Hún kom út í fyrra hjá Oxford University Press og heitir The main enterprise of the world. Á íslensku gæti hún kallast Meginiðja mannfólksins. Að mínu viti sætir þessi bók töluverðum tíðindum. Höfundur þorir að hugsa af djörfung og honum tekst afar vel að tengja heimspeki menntunar við stóran fræðaheim enda hefur hann, eins og áður segir, komið víða við í fyrri skrifum. En þótt hann klífi hátt slær hann hvergi af kröfum um rökstuðning og vandaða umfjöllun. (meira…)

1 4 5 6 7 8 23

Færslusafn

Fara íTopp