Sævaldur Bjarnason og Björk Einisdóttir
Kvíslarskóli er nýr skóli í Mosfellsbæ sem áður var eldri deild Varmárskóla. Í skólanum eru tæplega 400 nemendur í 7.‒10. bekk. Byggt er á faggreinakennslu sem þýðir að fagkennarar eru ábyrgir fyrir kennslu í hverri námsgrein. Hver bekkur hefur sinn umsjónarkennara.
Haustið 2021 var Varmárskóla skipt upp í tvo skóla. Yngri deildin hélt nafni Varmárskóla, en eldri deildin fékk nafnið Kvíslarskóli eftir nafnasamkeppni í bænum. Stjórnendur Kvíslarskóla sáu tækifæri í þessum breytingum og ákváðu að láta á það reyna hvort grundvöllur væri fyrir því að prófa nýja kennsluhætti og sjá hversu langt við kæmumst með að þróa þá, t.d. að byggja meira á verkefnavinnu og fjölbreyttum kennsluháttum. Í kjölfarið var farið af stað í margskonar endurbóta- og stefnumótunarvinnu.
Flipp flopp verður til
Stjórnendur fólu öðrum höfunda, Sævaldi, að koma með hugmyndir að samþættingu námsgreina. Mat stjórnenda var að í vinnu sem þessari væri nauðsynlegt að einhver einn drægi vagninn, bæri ábyrgð á verkefninu og smitaði út frá sér með áhuga, drifkrafti og hvatningu. Sævaldur hefur leitt verkefnið og fengið kennara skólans til liðs við sig.
Húsnæði skólans býður ekki upp á mikla möguleika á teymiskennslu, en okkur langaði til að prófa okkur áfram með eigin útgáfu af teymiskennslu. Smám saman þróaðist sú hugmynd að leggja til hliðar tvo daga í hverjum mánuði þar sem skólastarfið yrði brotið upp.
Kennararnir tóku vel í þessar hugmyndir og sýndu mikinn áhuga á að færa sig frá hefðbundinni bókarkennslu yfir í nútímalegri kennsluhætti með fjölbreyttum verkefnum og verkefnaskilum. Því má halda fram að aðalnámskrá hafi verið lögð til grundvallar, ekki síst áhersla á lykilhæfni. Hvert viðfansefni þurfti þannig að hafa markmið sem tengdust ákveðinni hæfni.
Við vildum gefa uppbrotsdögunum skemmtilegt heiti og ekki var áhugi á að kalla þetta þemadaga eða verkefnadaga – okkur fannst þau heiti ekki spennandi. Við vissum af svipuðum verkefnum í öðrum skólum eins og Sprellifixinu í Langholtsskóla, Uglunum í Víkurskóla og Stapamixinu í Stapaskóla, en við vildum finna okkar eigin nálgun og lögðum upp með að leggja sérstaka áherslu á nám í gegnum leik. Teymi var myndað utan um verkefnið og mýmargar hugmyndir reifaðar. Hópnum fannst þetta frekar „flippað” allt saman og þannig fæddist sú hugmynd að kalla þetta Flipp flopp. Kennslunni er flippað á hvolf; Flipp flopp!
Fyrirkomulagið
Tveir Flipp flopp dagar eru haldnir mánaðarlega þar sem nokkrar námsgreinar eru samþættar. Áhersla er lögð á virk vinnubrögð af hálfu nemenda og kennara og samspil upplýsingatækni og kennslufræðilegra hugmynda á borð við verkefnamiðað nám, þemanám, þrautalausnanám, hönnunarmiðað nám og samvinnunám.
Þar sem nýr skóli var að verða til var ákveðið að fyrsti Flipp flopp dagurinn yrði helgaður nemendaþingi þar sem unnið var með hugmyndir að gildum skólans. Okkur þótti mikilvægt að leyfa nemendum að taka þátt í þessum breytingum. Nemendaþingið bar yfirskriftina Gildi og skólabragur og sáu umsjónarkennarar um að ræða eftirfarandi málefni með nemendum sínum:
- Hugmyndir að gildum Kvíslarskóla
- Skólareglurnar
- Almennar óskir frá nemendum
- Skólabraginn
Nemendur og kennarar tóku hugmyndirnar saman og skiluðu til Bjarkar, deildarstjóra. Hún dró saman helstu atriði sem síðan voru kynnt nemendum og starfsfólki. Orðin Virðing – Þrautseigja og Ábyrgð komu oftast fyrir í umræðunni um gildin og voru því valin og almenn ánægja var með þá niðurstöðu.
Tvö önnur Flipp flopp voru ekki tengd námsgreinum. Í desember unnu allir nemendur í skólanum að sameiginlegu verkefni sem beindist að því að bæta skólabrag og í tengslum við árshátíð nemenda var eitt skiptið helgað hópefli. Annars réðu faggreinakennarar ferðinni til skiptis. Í september stýrðu náttúrufræðikennarar, tungumálakennarar í október. Í nóvember leiddu list- og verkgreinakennarar, samfélagsfræðikennarar um mánaðarmótin febrúar, mars, stærðfræðikennarar stjórnuðu í mars og íþróttakennarar í maí.
Hér má sjá yfirlit yfir þemun 2021-2022
- Nemendaþing (30. ágúst, 2021)
Allir árgangar unnu sama verkefni: Gildi og skólabragur.
- Náttúrufræði (15.-16. september 2021)
- bekkur – Hornsíli
- bekkur – Gróplöntur og fræplöntur
- bekkur – Þróunn lífsins
- bekkur – Mannslíkaminn
- Tungumálaflipp (21.-22. október 2021, í kringum Hrekkjavöku / Halloween)
- bekkur – Búa til sína eigin Halloween persónu (animal)
- bekkur – Íslenskar persónur úr þjóðsögum
- bekkur – Erlendar persónur úr þjóðsögum og kvikmyndum
- bekkur – Draugasögur – Danskar og íslenskar
- Verkgreinaflipp og upplýsingatækni (22.-23.nóvember 2021)
- bekkur – Raftæki ný og gömul (hönnun og smíði, upplýsingatækni)
- bekkur – Matarsóun (heimilisfræði)
- -10. bekkur – Endurnýting / flokkun fata og hippaþema (mynd- og textílmennt)
- Erindisflip flopp (erindi um betri skólabrag) (16.-19. desember, 2021
- Allir árgangar vinna sameiginlegt verkefni með betri skólabrag (jólaþema)
- Samfélagsfræði (28. feb-1. mars 2022
- bekkur – Ásatrú
- bekkur – Villta vestrið ( BNA- frumbyggjar ofl.)
- bekkur – Grikkland til Forna
- bekkur – Rokk og róttækni “68 kynslóðin”
- Stærðfræði flipp flopp 14.-15. mars 2022 (á pí-daginn)
- bekkur – Kubbar og form / slönguspil
- bekkur – Tölfræði- mynstur og ratleikur
- bekkur – Heimsreisa
- bekkur – Stærðfræði í daglegu lífi
- Nemendaráðs flipp flopp (1 dagur í kringum árshátíð skólanns, hópefli)
- Íþrótta flipp flopp 6. og 9. maí 2022
Dæmi um kennsluáætlum
Hér eru dæmi um kennsluáætlun: Náttúrufræðiverkefni um hornsíli sem lagt var fyrir 7. bekk.
Hornsíli og smádýr
Hæfniviðmið
Að verkefni loknu á nemandi að geta:
- sagt til um búsvæði og lifnaðarhætti hornsíla.
- meðhöndlað lifandi sýni af nærgætni og virðingu.
- tengt útlit hornsíla við búsvæði, atferli og lifnaðarhætti þeirra.
- lýst algengum lífverum í nánasta umhverfi sínu.
- sagt frá eigin upplifun á náttúrunni og skoðun á lífverum í náttúrulegu umhverfi.
Vinnuáætlun
- Verkefnið kynnt og nemendur fá veiðibúnað
- Út að veiða síli og safna smádýrum
- Aflinn ferjaður upp í skóla og gerður klár fyrir frekari úrvinnslu
- Nemendur skoða síli (í fiskabúri) og smádýr (í víðsjá), vinna skýrslu samhliða
- Nemendur klára að vinna skýrslu sem þeir skila svo til kennara
Leiðir
- Nemendur fara ásamt kennara og veiða hornsíli við Stekkjarflöt.
- Mikilvægt að vera klædd eftir veðri.
- Nemendur fá háfa og fötur til að nota í veiðinni.
- Mikilvægt að nefna við nemendur að hornsíli halda sig meira í lygnu vatni en straumvatni og best er að finna þau undir vatnsbökkum.
- Nemendur dreifa sér á mismunandi staði við tjörnina og ána ‒ skipta sér niður út frá þeim búnaði sem til er.
- Útitímann má einnig nýta til þess að safna öðrum smádýrum, sérstaklega ef sílaveiðin gengur illa.
- Það sem veiðist og finnst er sett í fötur og farið með aftur í skólann.
- Mikilvægt að brýna fyrir nemendum að það þarf að koma fram við náttúruna af virðingu og að fara varlega ef þeir handleika hornsílin eða smádýrin.
Úrvinnslan
Hornsílin
|
Smádýrin
|
Skýrsla
- Nemendur segja frá hornsílaveiðinni og útivinnunni
- Hvernig voru hornsílin veidd? Á hvaða svæði?
- Hversu mörg síli veiddust? Hvar veiddust þau? Fundust einhver áhugaverð smádýr? Hversu mörg?
- Nemendur gera grein fyrir úrvinnslunni, hvað þau skoðuðu, hvað var áhugavert og hvers vegna?
- Skýrslunni skila nemendur svo við Flipp flopp lok.
Námsmat
Námsmat verður á formi sjálfsmats og jafningamats ásamt kennarmati þar sem virkni nemanda er metin, ásamt vinnusemi, samvinnu og lokaafurð.
Til þess að eiga möguleika á framúrskarandi þurfa nemendur að:
- Skila öllum verkefnum á tilsettum tíma
- Sýna framúrskarandi frágang í lokaafurð
- Sýna framúrskarandi frumleg og skapandi vinnubrögð
- Sýna afburða tillitsemi og kurteisi í samskiptum við hópfélaga og kennara
Til þess að fá hæfni náð þarftu að:
- Skila öllum verkefnum á tilsettum tíma
- Sýna hæfni í frumlegum og skapandi vinnubröðgum
Ef þú færð þarfnast þjálfunar:
- Vantar einhvern hluta verkefnisins eða því var ekki skilað á tilsettum tíma
- Er verkefnið á einhvern hátt fyrirsjáanlegt og/eða ófrumlegt
Hvernig hefur gengið og hvað er framundan?
Flestum nemendum hefur þótt þetta mjög skemmtilegt. Þeir sem ekki ná að fóta sig í þessari tegund kennslu eru helst þeir sem eiga erfitt með hópvinnu. Markmiðið er að koma betur á móts við fjölbreyttan nemendahóp á þessu skólaári og finna þeim verkefni við hæfi. Nemendur spyrja reglulega hvenær næsti viðburður verði. Þá má geta þess að einn nemendi hafði á orði heima hjá sér að Flipp floppið væri algjör snilld því hann væri bara að leika sér í skólanum!
Flestir eru sammála um að verkefnið hafi haft góð áhrif á skólabraginn. Það er miklu betri og skemmtilegri stemning í skólanum síðan við byrjuðum með þetta. Við höfum lagt mikla áherslu á hópefli, reynt að þétta hópinn og gera eitthvað saman. Tvö Flipp flopp verkefni voru skipulögð með þetta í huga. Í desember vorum við til dæmis með verkefni tengt betri skólabrag. Verkefnið gekk í stuttu máli út frá því að við erum öll ólík og höfum ólíkan bakgrunn og sú mynd sem við birtum af okkur gefur ekki alltaf mynd af því hver við erum eða hvernig okkur líður. Farið var í leikskóla og í heimsókn til eldri borgara þar sem nemendur létu gott af sér leiða, spjölluðu og spiluðu. Annað verkefni fólst í því að nemendur heilsuðu og hrósuðu skólafélögum sem þeir höfðu ekki talað við áður. Markmiðið var að styrkja skólabraginn og kynnast betur þvert á árganga. Þá fengu nemendur að velja verkefni Flipp flopp daga í tengslum við íþróttadag og árshátíð í mars. Nemendur kusu að fara á skauta, í keilu og Rush – skemmtigarðinn. Nemendur fá að hafa áhrif og slíkar ferðir ýta einnig undir jákvæðan skólabrag ef vel er að verki staðið.
Kennararnir hafa almennt verið mjög jákvæðir en þetta krefst þess að þeir verða að undirbúa sig öðruvísi en fyrir venjulega kennslu og í öðrum námsgreinum en þeir eru vanir að kenna. Hver og einn þarf að setja sig inn í nýtt verkefni hverju sinni. Kennararnir hafa staðið sig mjög vel gagnvart þessum áskorunum. Lögð er áhersla á samvinnu þeirra og jafningjastuðning og að styrkleikar þeirra fái að njóta sín.
Á þessu skólaári höfum við sett okkur það markmið að fínpússa verkefnin og lagfæra þá hnökra sem við urðum vör við. Til að byrja með kenndu kennarar samkvæmt stundaskrá og fóru á milli bekkja. Kennurunum fannst þeir ekki vera almennilega inni í verkefnunum með því skipulagi. Þetta var því endurskoðað og niðurstaðan var sú að hver umsjónarkennari var með sínum bekk og aðrir kennarar dreifðust á bekkina eftir þörfum. Þannig höfðu kennararnir mun betri yfirsýn og betri forsendur til að meta vinnu nemenda.
Við eigum orðið góðan verkefnabanka sem verður endurskoðaður reglulega. Sum verkefnin litu kannski vel út á blaði en heppnuðust svo ekki nægilega vel í framkvæmd. Stundum var of mikil einhæf innivera og tölvuvinna hjá einum árgangi á meðan annar fékk að fara út og kljást við verkefni. Það brýtur náttúrulega upp daginn hjá öðrum hópnum og hann ferskari fyrir vikið á meðan hinn hópurinn var fljótlega orðinn þreyttur á einhæfum verkefnum innandyra. Reynslan kenndi okkur að skipulagið heppnaðist best þegar umsjónarkennararnir voru hver með sinn bekk og aðrir kennarar dreifðust á bekkina. Þannig varð námsmatið líka markvissara.
Í opnum svörum í foreldrakönnun Skólapúlsins síðastliðið skólaár kom fram að foreldrar eru ánægðir með Flipp flopp dagana og segja þá skemmtilegt uppbrot í kennslu. Stutt könnun var einnig lögð fyrir foreldra á vordögum þar sem meðal annars var spurt um hvort börnin þeirra væru ánægð með Flipp flopp dagana og yfir 85% svöruðu því til að börnin væru ánægð eða mjög ánægð með þá.
Við erum spennt að takast á við nýjar áskoranir, nýtt skólaár með allskonar Flipp flopp dögum og að gera enn betur en í fyrra.
Faggreinakennarar munu hittast nú á haustdögum og endurskoða verkefnabanka sína og skipulag. Mikilvægt er að huga að tímalengd verkefna og hafa aukaverkefni til að grípa í fyrir þá sem ljúka verkefnum sínum á styttri tíma en aðrir. Það á ekki að vera hvati að klára verkefnin fljótt og fá svo bara frí. Við viljum að nemendur vandi sig og leggi sig fram um að sinna verkefnunum vel og vandlega. Einnig er áætlað að skipuleggja upplýsingatæknidag þar sem farið verður í undirstöðurverkefnaskila.
Hvað segja kennararnir?
Guðmundur Ásgeir Sveinsson, fagstjóri í ensku og enskukennari
Mér fannst Flipp floppið mjög skemmtilegt. Frábært tækifæri fyrir mig sem kennara að brjóta upp mína hefðbundnu kennslu og takast á við nýjar áskoranir. Þar sem ég kenni bara eina námsgrein þá var frábært að fá að taka þátt í verkefnum sem tengjast öðrum námsgreinum.
Þar sem þetta var í fyrsta skipti sem þessi þemaverkefni voru unnin þá komu eðlilega fram nokkrir hnökrar. T.d. að verkefnin tóku mislangan tíma og sumir árgangar fengu meira spennandi verkefni en aðrir. Flestir nemendur tóku virkan þátt í verkefnum Flipp floppsins en sumir áttu erfitt með að átta sig á því að þessir dagar voru kennsludagar og litu á þetta sem einhvers konar frí eða afslöppunardaga. Það var að nokkru leyti skiljanlegt þar sem þau voru að gera þetta í fyrsta skipti.
Nú þegar það er komin smá reynsla á þessi verkefni þá vitum við hvað sló í gegn í fyrra og hvað hefði mátt ganga betur. Það er því hægt að betrumbæta verkefnin. Eins verða nemendur nú betur meðvitaðir um til hvers er ætlast af þeim nú þegar þeir hafa farið í gegnum Flip floppið síðasta vetur.
Flipp floppið er frábær leið til þess að brjóta upp kennsluna og halda uppi faglegum uppbrotsdögum þar sem nemendur gera eitthvað annað en aðra venjulega skóladaga.
Kristín Ásta Ólafsdóttir – fagstjóri í íslensku og íslenskukennari
Í heildina var upplifun mín af Flipp floppinu mjög góð. Mér fannst frábært að hvert fag fengi tækifæri til að skipuleggja þemu og að nemendurnir fengju skemmtilegt uppbrot sem tengdist einhverju spennandi og lærdómsríku. Upplifunin var allt öðruvísi en á öðrum þemadögum því Flipp floppið var sérstaklega útfært með tilliti til einstakra námsgreina. Mér fannst nemendur áhugasamir og spenntir fyrir uppbrotinu.
Til að byrja með kenndu kennarar bara skv. sinni stundaskrá og fóru á milli bekkja. Þetta þýddi að mér fannst ég t.d. ekki almennilega inni í neinu þema. Ég náði ekki að kynna mér neitt þeirra nógu vel og þegar ég kom inn í hvern bekk þurfti ég að byrja á því að átta mig á því hver staðan væri. Heildarmyndin varð þannig ekki nógu góð og námsmatið ekki nógu heildrænt. Þetta var samt lagað um veturinn og um leið og kennari var með sama bekkinn allt þemað gekk þetta miklu betur.
Það er virkilega spennandi að þróa verkefnin sem fyrir eru áfram og geri þau betri og setja meira kjöt á beinin. Svo höfum við líka séð að eitthvað virkar kannski ekki nógu vel eða eins og við vildum og þá er bara að laga það. Eftir reynsluna síðasta vetur getum við líka reiknað betur út tímasetningar. Sumir kennarar þurfa að vanda betur efnið sem þeir setja frá sér, t.d. leggja meira í glærusýningar sem kynna verkefnin eða eru til stuðnings. Aðrir þurfa kannski að búa til betri lista yfir slóðir á ítarefni o.s.frv.
Mér finnst mikilvægt að hafa tímann sveigjanlegan að því leyti að við séum ekki að teygja lopann að óþörfu. Þegar við gerum það verða nemendur þreyttir og leiðir og viðhorf einhverra gæti orðið neikvætt fyrir því sem við erum að gera.
Við þurfum að passa hvenær Flipp flopp er á dagskrá. Það má ekki vera of stutt á milli og ekki vera á álagstímum fyrir kennara, svo sem í kringum annaskipti eða einkunnagjöf. Best er að búið sé að setja dagana niður áður en kennarar gera kennsluáætlanir.
Ég er ekkert endilega sá kennari sem er æstastur í að byrja á miklum breytingum eins og Flipp flopp, en þetta verkefni hefur algjörlega unnið mig á sitt band. Þemun eru fjölbreytt og skemmtileg og krakkarnir fá að njóta sín og kennarar fá að sjá nýjar hliðar á nemendum sínum. Verkefnastjórinn hefur staðið sig frábærlega í að halda utan um verkefnið. Skipulagður, með allt á hreinu og svo endalaust jákvæður og mikill peppari að það er ekki hægt annað en að stökkva á vagninn með honum. Það er mjög mikilvægt til að svona verkefni virki.
Áskoranir
Mat okkar er að nauðsynlegt er að hugsa námsmatið betur, gera það sýnilegra og stefna að því að tengja það betur við lykilhæfnina. Þá þarf að yfirfara verkefnin og rýna til gagns.
Að lokum er rétt að benda á að til þess að verkefni sem þetta nái að dafna til framtíðar þarf það reglulega endurskoðun og mikið utanumhald. Teymi þarf að vera til staðar innan skólans og einhver sem leiðir. Við teljum að búið sé að leggja grunninn að skólaþróunarverkefni sem hægt er að móta og þróa í framtíðinni. Jákvæðir, hugmyndaríkir og kröftugir kennarar og styðjandi stjórnendur eru að sjálfsögðu lykillinn að því að verkefnið fái að lifa og dafna.
Björk Einisdóttir deildarstjóri Kvíslarskóla er með B.A. – próf í íslensku, uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda, diplómu í náms- og starfsráðgjöf og M.A. í kennslufræði og stjórnun. Hún hefur starfað við grunnskóla í yfir þrjá áratugi sem íslenskukennari, náms- og starfsráðgjafi, var framkvæmdastjóri hjá Heimili og skóla í nokkur ár og síðustu tíu ár hefur hún gegnt stöðu deildarstjóra í Kvíslarskóla. Þess má einnig geta að Björk hefur gegnt stöðu varaformanns Radda, Samtaka um vandaðan upplestur og framsögn í mörg ár, haldið mýmörg námskeið fyrir kennara, gegnt dómarastörfum um land allt og þjálfað nemendur í vönduðum upplestri og framsögn.
Sævaldur Bjarnason er kennari við Kvíslarskóla og kennir einkum samfélagsgreinar. Hann lauk kennaraprófi 2014 og hefur kennt við Kvíslarskóla, áður Varmárskóla, síðan 2012. Sævaldur hefur brennandi áhuga á því að efla gagnrýna hugsun nemenda og þróa lýðræðislega kennsluhætti. Lokavekefni hans í meistaranámi fjallaði einmitt um umræðu og spurnaraðferðir í kennslu. Sævaldur hefur auk þess starfað sem körfuboltaþjálfari um margra ára skeið og því unnið mikið með börnum og unglingum bæði sem kennari og körfuboltaþjálfari.
Grein birt 6.10. 2022