Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Óreiðukennd fyrsta aðgerðaáætlun í menntamálum

í Greinar

Hermína Gunnþórsdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Út kom í september á síðasta ári skjal sem nefnist Menntastefna 2030. Fyrsta aðgerðaáætlun 2021–2024 (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2021). Áætlunin er samin til að fylgja eftir Þingsályktun um menntastefnu fyrir árin 2021–2030 nr 16. Þetta er líklega þýðingarmesta stefnumótunarskjal um menntamál síðan aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla kom út á árunum 2011 og 2013 (greinasvið grunnskóla síðara árið). Það er því ástæða til að gefa skjalinu rækilegan gaum. Hér á eftir rekjum við annars vegar aðdraganda að þessari aðgerðaáætlun en hins vegar rýnum við gaumgæfilega í inntak og form þessarar fyrstu aðgerðaáætlunar í nýrri menntastefnu.

Í hnotskurn er þessi áætlun safn aðgerða og verkþátta sem er lítið sem ekkert forgangsraðað eða sett í samhengi við önnur gildandi stefnuskjöl. Þegar áform um tvenn ný lög voru birt 17. október 2022 í samráðsgátt stjórnvalda birtist hins vegar sú forgangsröðun að ein til tvær fyrstu aðgerðirnar væru mikilvægastar, annars vegar Áform um lagasetningu – skólaþjónusta og hins vegar Áform um lagasetningu – ný stofnun (Mennta- og barnamálaráðuneyti, 2022a, 2022b).

Aðdragandinn

Aðdragandann að þingsályktuninni og aðgerðaáætluninni má rekja til viljayfirlýsingar um úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar sem undirrituð var 2015 af lykilaðilum sem svo voru kallaðir, það er mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, Kennarasamband Íslands, Heimili og skóli, Samband íslenskra sveitarfélaga og Skólameistarafélag Íslands.

Úttektin var síðan gerð á vegum Evrópumiðstöðvar um sérþarfir og menntun án aðgreiningar og er til bæði á íslensku og ensku. Á íslensku heitir skýrslan Menntun fyrir alla á Íslandi. Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar (Evrópumiðstöð um sérþarfir og menntun án aðgreiningar, 2017). Í kjölfarið komu saman ofangreindir lykilaðilar og skrifuðu undir nýja viljayfirlýsingu um samstarf við eftirfylgni í mars 2017.

Á haustmánuðum 2018 var boðað til fundaraðar með fulltrúum allra sveitarfélaga í landinu til að ræða um menntun fyrir alla. Samtals var þetta 41 fundur með tveimur hópum haghafa. Annars vegar 18 fundir með forsvarsmönnum viðkomandi sveitarfélaga og ábyrgðaraðilum mennta-, félags- og heilbrigðismála ásamt fulltrúum frá Kennarasambandi Íslands, Skólameistarafélagi Íslands, Menntamálastofnun, Heimili og skóla, kennaramenntunarstofnunum og aðilum úr stýrihópi um eftirfylgni úttektar um menntun fyrir alla. Hins vegar 23 fundir með fulltrúum leik-, grunn- og framhaldsskóla, frístundaþjónustu, foreldrum, skólaþjónustu, skólaskrifstofu, félagsþjónustu og heilsugæslu. Fyrirkomulag fundanna fólst í fræðsluerindi um inntak menntastefnu um menntun fyrir alla og í kjölfar erindisins var verkefni lagt fyrir þátttakendur í hópum.

Afrakstur þessarar vinnu var meðal annars birtur í skýrslu sem ber heitið Menntun fyrir alla – horft fram á veginn. Skýrsla unnin fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2019). Skýrslan var unnin af fræðafólki við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands, þar með talið fyrri höfundi þessarar greinar. Skýrslan fól meðal annars í sér tillögur um hvernig festa mætti betur í sessi stefnu yfirvalda um menntun fyrir alla á Íslandi.

Fljótlega eftir að fundaröðin hófst kynnti ráðuneytið hana sem lið í mótun menntastefnu til 2030. Áformin um mótun menntastefnu koma skýrt fram í enn einni skýrslu, Menntun til framtíðar. Aðgerðir og viðbrögð í kjölfar fundaraðar um menntun fyrir alla og mótun menntastefnu til 2030 (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2020a). Skilgreint var að áherslur nýrrar menntastefnu yrðu meðal annars:

 • Að kennsla og skólastjórnun sé framúrskarandi
 • Að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar
 • Að námskrá, námsumhverfi og námsmat styðji við hæfni til framtíðar
 • Að skýr ábyrgð verði á framkvæmd og gæðum skóla- og fræðslustarfs

Í kjölfarið hófst undirbúningur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu að gerð tillögu til þingsályktunar. Málið var opið til umsagnar í samráðsgátt Stjórnarráðsins á tímabilinu 28. febrúar til 13. mars 2020. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 19. maí sama ár. Á vormánuðum 2020 var leitað til Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í tengslum við mótun og innleiðingu hinnar nýju menntastefnu og var gefin út skýrsla OECD um innleiðingu menntastefnu (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2020b). Eftir rýnivinnu af hálfu OECD var tillaga til þingsályktunar lögð fyrir Alþingi þann 12. nóvember 2020 og þingsályktun afgreidd 24. mars 2021.

Sumarið 2021 var síðan fyrsta aðgerðaáætlun af þremur fyrir menntastefnu til 2030 unnin og nær hún yfir árin 2021–2024. Á málþingi um menntastefnu ríkisins til 2030 í október 2022 komu fram upplýsingar um að aðgerðaáætlunin hafi verið unnin undir tímapressu og loks kynnt 15. september 2021.[1] Nokkrum dögum seinna voru þingkosningar og rúmum tveimur mánuðum síðar tók nýr ráðherra við málaflokknum í endurskipulögðu mennta- og barnamálaráðuneyti.

Hér erum við komin að síðari hluta greinarinnar, það er um skjalið Menntastefna 2030. Fyrsta aðgerðaáætlun 2021–2024.

Menntastefna – greining á aðgerðaáætlun

Þegar við höfðum kynnt okkur gögn, aðdraganda og umgjörð menntastefnunnar eins og hún birtist í aðgerðaáætluninni frá september 2021 hófumst við handa um greiningu á sjálfu skjalinu. Við beittum til þess verklagi sögulegrar greiningar á orðræðu (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2006). Megineinkenni aðferðarinnar er að spyrja hvernig frekar en að spyrja hvers vegna en aðferðin hentar vel til að lýsa skjölum, einu eða fleiri, en einnig til þess að skoða hvað kemur ekki fram (þagnir) í viðkomandi skjali. Aðferðin einkennist einnig af því að skoða þurfti hvert stefnuskjal sem sjálfstæða einingu og jafnframt að lesa á milli lína skjalsins um það sem ekki kemur fram í því.

Við völdum sérstaklega sjö spurningar sem við notum hér fyrir neðan sem millifyrirsagnir:

Hvernig er skjalið?

Skjalið er 22 síður að meðtalinni kápu og baksíðu í bláum lit. Í skjalinu eru skilgreindar níu aðgerðir. Hver aðgerð er engu að síður í nokkrum liðum og er þeim skipt í 41 verkþátt. Skjalið er frekar óaðgengilegt, en í því er hvorki efnisyfirlit né yfirlit um aðgerðirnar níu á einum stað eða formáli eða nokkurs konar greinargerð fyrir því í hvaða samhengi skjalið er birt.

Uppsetning á texta er þó að mestu leyti samræmd, það er sama röð á efni hverrar aðgerðar. Alls staðar koma fram þessir fimm þættir: Fyrst kemur texti, svo koma markmið, þá koma verkþættirnir, skilgreind er ábyrgð og að lokum er upptalning undir fyrirsögninni áherslusvið. Nokkrir efnis- og útlitsþættir eru stundum, til dæmis eru stundum skilgreind lykilhugtök og stundum hlekkir í önnur skjöl.

Fyrir hvern er skjalið?

Í skjalinu sjálfu kemur ekki fram hverjum skjalið er ætlað en þó eru taldir upp mjög margir haghafar sem eru ýmist ábyrgðaraðilar og framkvæmdaaðilar eða hvorttveggja. Fyrst er að nefna ráðuneytin, það er mennta- og menningarmálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sem öll hafa skipt um nöfn með breyttri verkaskiptingu ráðuneyta auk þess sem líklegt er að ábyrgðin dreifist til fleiri en þriggja ráðuneyta með skiptingu verkefna gamla mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Síðan er langur listi annarra haghafa: Annað fagfólk í skóla og frístundastarfi, Barnaheill, Byggðastofnun, háskólar, Heimili og skóli, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, kennaramenntunarstofnanir, kennarar, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, rekstraraðilar skóla, Samfés, skólar á öllum skólastigum, skólastjórnendur, stjórnendur leik-, grunn- og framhaldsskóla, stúdenta- og nemendafélög svo sem LÍS og SÍF, stýrihópur stjórnarráðsins í málefnum barna, sveitarfélög, Umboðsmaður barna, Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands.

Við vitum ekki hvort skjalið er fyrir alla þá aðila sem taldir hafa verið upp eða hvort þessi upptalning er aðallega vinnuskjal fyrir mennta- og barnamálaráðuneytið. Við reyndum að átta okkur á því hvort skjalið væri fyrir kennara og fagfólk á vettvangi með því að skoða hverjir eru „ávarpaðir” í skjalinu og hverjum er ætlað að framkvæma það sem aðgerðirnar fela í sér. Í ljós kom að kennarar sem slíkir eru nefndir einu sinni sem framkvæmdaaðilar, það er í aðgerðinni um skólaþróun um allt land. Hins vegar eru þeir ekki ávarpaðir sérstaklega í tveimur aðgerðum (6 og 8) sem vísa þó beint inn í skólastarfið, þ.e. um gagnrýna hugsun og um raddir unga fólksins.

 Hver er söguþráðurinn í skjalinu? 

Eftir ítarlegan lestur á skjalinu verður ekki komist að annarri niðurstöðu en að innihald þess sé óskipulegt safn aðgerða og verkþátta. Kannski liggur skýrari heildarhugsun í einhverjum öðrum skjölum en það var ekki haft fyrir því að segja frá því, hvorki í formála né með öðrum hætti. Þá er sem fyrr segir hvergi hægt að sjá röð aðgerðanna níu á einum stað heldur þarf að fletta skjalinu, síðu fyrir síðu, til að sjá hverjar þær eru.

Röð aðgerða segir ef til vill eitthvað um mikilvægi þeirra; að minnsta kosti gæti talist rökrétt að hafa þær mikilvægustu fyrst.

 1. Heildstæð skólaþjónusta byggð á þrepaskiptum stuðningi sem styður við nám og farsæld barna og ungmenna
 2. Skólaþróun um land allt
 3. Markviss stuðningur við nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn
 4. Fjölgun kennara með leyfisbréf
 5. Hæfni fagstétta í skólastarfi
 6. Gagnrýnin hugsun, sköpun og skilningur
 7. Mótun hæfnistefnu Íslands í virku samráði
 8. Raddir unga fólksins – virkt nemendalýðræði á öllum skólastigum
 9. Vönduð náms- og kennslugögn fyrir allt menntakerfið

Þannig er „heildstæð skólaþjónusta“, jafnvel þótt hún sé svo afmörkuð við að vera „byggð á þrepaskiptum stuðningi sem styður við nám og farsæld barna og ungmenna“, frekar rökréttur fyrsti þáttur í aðgerðum. Aðgerðin „skólaþróun um land allt“ sýnist eðlileg strax á eftir heildstæðri skólaþróun. Og nú hafa verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda þau áform að setja á fót nýja stofnun sem sinnir að því er virðist þessum hlutverkum. Ný stofnun er vísast byggð á verkþætti 3 undir aðgerð 1: „Undirbúningur að stofnun faglegrar þekkingarmiðstöðvar á landsvísu sem m.a. styður við innleiðingu farsældarþjónustu í skólastarfi og skólaþjónustu“. Flestar aðrar aðgerðir í skjalinu eru talsvert sértækari og ekki augljóst að finna rök fyrir röðinni.

Við spurðum hvort það væri söguþráður í skjalinu. Svarið er að við finnum engan söguþráð og að það er engin augljós heildarstefna sem einkennir aðgerðirnar. Andsvar við því er líklega að skjalið sé hugsað sem aðgerðaáætlun en ekki hugmyndafræðilegt plagg.

Hver eru helstu stefin í skjalinu?

Beiting orðræðugreiningar á stefnuskjöl er gagnleg að því leyti að aðferðin dregur fram meginstefin, svokölluð þrástef, sem bera uppi áherslur og kjarna textans. Stef voru í fyrstu ekki svo augljós en nokkur orð skera sig þó úr. Í fyrsta lagi kemur fram að starfið þurfi að vera heildstætt, samhæft eða samþætt, til dæmis að „tryggja þurfi aðgengi allra barna“ að heildstæðri skólaþjónustu og að þjónusta þurfi að vera samþætt „í þágu farsældar barna“ (hvorttveggja án blaðsíðutals). Í öðru lagi liggur þung áhersla á samráð og samstarf haghafa, lykilaðila og ábyrgðaraðila. Í þriðja lagi á að efla starfið á margvíslegum vettvangi, til dæmis Þróunarsjóð námsgagna. Fjórða meginstefið sem við nefnum er hæfni, til dæmis er fjallað um hæfni kennara og fagstétta og að mótun hæfnistefnu er sjálfstæð aðgerð.

Eins og sjá má, þá eru þessi stef flest frekar kerfislæg, þau vísa inn í kerfið en ekki beint til náms eða menntunar nemendanna sjálfra eða inn á vettvang skólanna.

Eru mótsagnir í skjalinu?

Aðgerðirnar fela ekki endilega í sér miklar innbyrðis mótsagnir heldur eru þær miklu fremur einstaklega ólíkar, bæði að eðli og umfangi. Sumar eru afar sértækar, t.d. Aðgerð 8 en undir henni er rætt um að stofna rafrænan þátttökuvettvang barna. Aðrar virðast okkur vera fremur auðframkvæmanlegar eins og að efla Þróunarsjóð námsgagna (Aðgerð 9) sem við höfum áður tekið dæmi af.

Aðrar aðgerðir eru mjög umfangsmiklar og dæmi um það er Aðgerð 7: Mótun hæfnistefnu Íslands í virku samráði. Heiti þessarar aðgerðar er líklega mjög óljóst fyrir mörgum en felur í sér að stofna samráðsvettvang margra aðila „til að móta hæfnistefnu þar sem menntakerfi og atvinnulíf sammælast um það hvernig byggja megi markvisst upp hæfni til að mæta framtíðaráskorunum og tryggja um leið velferð, verðmætasköpun og samkeppnishæfni” (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2021, án blaðsíðutals).

Annars konar andstæður fela í sér að heiti aðgerðar og inntak eru ekki samhljóma. Dæmi um það er Aðgerð 6: Gagnrýnin hugsun, sköpun og skilningur en verkþættir aðgerðarinnar eru um lestrarkennslu, lestrarþjálfun, lágmarkshæfni kennara í íslensku, endurskoðun hæfniviðmiða aðalnámskrár í íslensku, bókasöfn og fleira. Eina skýringin, sem við finnum, á yfirskriftinni er sú að góð hæfni í lestri og ritun styðji við gagnrýna hugsun, sköpun og skilning.

Í fyrsta verkþættinum í þessari aðgerð eru að hluta til óskyldir þættir. Hún hefst á því að það þurfi markvissan stuðning við lestrarkennslu og lestrarþjálfun í leik-, grunn- og framhaldsskólum og að það þurfi bætt aðgengi að matstækjum fyrir lesskilning, ritun og íslensku sem annað mál. Sérstaklega á að ráðast í aðgerðir er snúa að drengjum og ef það er ætlunin að sinna drengjunum sérstaklega dylst þessi verkþáttur nokkuð vel. Lokaatriðið í verkþætti 1 er kortlagning og stuðningur við stafræna færni fagfólks í skólum.

Mun áætlunin hafa áhrif og þá á hvað og hverja?

Þegar á heildina er litið virðist meirihluti aðgerðanna lúta að umbótum á kerfinu, en ekki að vinnu innan skólanna og í því ljósi má velta fyrir sér hvernig stefnan á að hafa áhrif á nám nemenda. Sá sem les skjalið sér strax að þetta verður mjög kostnaðarsamt og margar aðgerðirnar virðast mannfrekar. Nú er ljóst að leggja á Menntamálastofnun niður og stofna nýja stofnun, en sum verkefni Menntamálastofnunar munu flytjast inn í ráðuneytið. Líklegt er að starfsemi ráðuneytisins verði kostnaðarsamari fyrir vikið en ef til vill verður öðrum verkefnum vikið til hliðar.

Það er útilokað með öllu að efling hinna og þessara verkefna og innleiðing annarra kosti ekki eitthvað, stundum mikið. Við töldum 22 aðgerðir og verkþætti þar sem gert er ráð fyrir innleiðingarteymi, faglegri þekkingarmiðstöð, nýju skólaþróunarteymi, árlegu framlagi til skólaþróunarverkefna, eflingu þriggja sjóða (það er Sprotasjóðs, Námsgagnasjóðs og Þróunarsjóðs námsgagna), tímabundinni ívilnun vegna endurgreiðslu á námslánum og svo framvegis. Ellefu af þessum aðgerðum hljóta að kosta fé, til dæmis hlýtur fagleg þekkingarmiðstöð að kosta mjög mikið fé og efling sjóða hlýtur að kosta en ef efling felst í að auka framlag úr 50 milljónum í 60 milljónir er það auðvitað ekki mjög dýrt. Níu af þessum aðgerðum er ekki augljóst að feli í sér nýjan kostnað en þá gætu stofnanir þurft að víkja öðrum verkefnum til hliðar. Til dæmis á að afla upplýsinga um námsorlof; það verður eflaust unnið í vinnutíma einhvers staðar og ekki annað gert á meðan. Annað dæmi um aðgerð sem ekki er augljóst að verði veitt í sérstöku fé er samráðsvettvangur og regluleg stöðutaka á sex mánaða fresti. Tilhliðrun verkefna innan stofnana skólakerfisins er falinn kostnaður.

Hvað er ekki með?

Í orðræðugreiningu er oftast lögð mikil áhersla á að greina þagnir, það er hvað er ekki sagt og hvað er ekki með í skjali, og jafnvel um hvað er þagað á þann hátt að það virkar sem þöggun. Beita þarf þó sanngirni þegar metið er hvað hefði mögulega átt að vera í áætluninni en af því að skjalið kynnir ekki heildarhugsun er það snúið verkefni.

Við gætum talið upp okkar faglegu áhugamál og sagt að þau sem ekki eru í skjalinu séu þögguð. Þöggun í orðræðugreiningu gerist þó ekki endilega vegna meðvitaðra ákvarðana heldur vegna þess að engin áhersla liggur á því.

Í þessu samhengi teljum við sanngjarnt að skoða áherslur úr aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla frá 2011 og spyrja hvaða áhrif aðgerðaáætlunin hafi á innleiðingu hennar. Við veljum tvo af sex grunnþáttum þar sem við vitum ekki til að mikið hafi gerst. Annar þeirra er jafnrétti af hvaða tæi sem er. Á síðustu vikum hefur hvert málið á fætur öðru æpt á okkur. Eina vikuna eru það aðstæður hinsegin ungmenna í skólum og einelti sem þau verða fyrir; næstu vikuna eru það viðbrögð eða sérstaklega viðbragðaleysi gagnvart kynferðislegu ofbeldi sem nemendur verða fyrir utan sem innan skólans.

Hinn grunnþátturinn er sjálfbærnimenntun. Og við spyrjum: Hvað ætla menntamálayfirvöld að gera á því sviði?

Við gætum sennilega talið upp alla grunnþættina sex og hefðum viljað sjá þeim gerð betri skil í aðgerðaáætluninni fyrir utan læsi sem gerð eru umtalsverð skil. Aðalnámskráin fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla frá 2011 er enn í fullu gildi og því eðlilegt að áherslur hennar væru sýnilegri í aðgerðaáætluninni.

Sennilega var ekki ætlunin að þagga tiltekin áhersluatriði aðalnámskrárinnar. Okkar gagnrýni á þessa vöntun hér verður því að skoða sem brýningu um að þeim verði ekki sleppt, eða gleymt, þegar næsta aðgerðaáætlun verður skrifuð – en ritun hennar hefst á næsta ári samkvæmt því sem fram kom hjá starfsmanni ráðuneytisins á fyrrgreindu málþingi RannMennt.

Lokaorð

Stuttu eftir að þessi greining hafði verið unnin kom tilkynning frá mennta- og barnamálaráðuneytinu um að leggja skyldi niður Menntamálastofnun og stofna nýja þjónustustofnun og jafnframt setja heildstæða löggjöf um skólaþjónustu. Í samráðsgáttinni segir um lögin um skólaþjónustu:

Jafna þarf aðgengi allra nemenda, foreldra og starfsfólks skóla að skólaþjónustu þar sem þrepaskiptur stuðningur liggur til grundvallar. Tryggja þarf lágmarksþjónustu við alla nemendur óháð búsetu og bæta gæði þjónustunnar. Samþætta þarf skólaþjónustu milli skólastiga og tryggja að stuðningur, ráðgjöf og leiðsögn sé í samræmi við þarfir allra nemenda óháð skólastigi. Samhæfa þarf gagnasöfnun til að öðlast yfirsýn yfir lykiltölur í skólastarfi og efla gagnadrifna ákvarðanatöku um skólastarf, stuðningsúrræði og farsæld nemenda. (Mennta- og barnamálaráðuneyti, 2022a, bls. 2).

Við fáum ekki betur séð en að með væntanlegum lögum um skólaþjónustu og með lögum um nýja þjónustustofnun sé staðið við verkþátt 3 í aðgerð 1 sem hljóðar svo: „Undirbúningur að stofnun faglegrar þekkingarmiðstöðvar á landsvísu sem m.a. styður við innleiðingu farsældarþjónustu í skólastarfi og skólaþjónustu“. Samkvæmt textanum í samráðsgátt stjórnvalda er „fyrirhugað … að ríkið taki virkari þátt í uppbyggingu skólaþjónustu á landsvísu. Til þess þarf stofnun sem kemur með öflugri hætti inn í þjónustu og ráðgjöf um skólaþróun og skólaþjónustu þvert á skólastig“ (Mennta- og barnamálaráðuneyti, 2022b, bls. 4).

Okkur sýnast áformin með þessum nýju lögum eiga sér nokkuð skýr markmið. Aðgerðaáætlunin einkennist hins vegar af því að vera safn aðgerða sem við metum sundurlausar og sennilega er tilviljunarkennt hvað lenti í henni og hvað utan hennar. Svo virðist sem þeim mun fleiri aðgerðir og verkþættir, sem rötuðu inn í hana af einhverjum ástæðum án forgangsröðunar, því meira vanti í hana af aðgerðum sem augljóslega þarf að halda áfram með eða ráðast í af fullri alvöru. Áform stjórnvalda um lög um skólaþjónustu og nýja þjónustustofnun breyta því kannski.

Aftanmálsgrein

 1. Málþing í Háskóla Íslands á vegum RannMennt – Rannsóknarstofu um menntastefnu, alþjóðavæðingu og félagslegt réttlæti: SAMTAL UM MENNTASTEFNU RÍKISINS TIL 2030 föstudaginn 14. október kl. 11. https://www.hi.is/vidburdir/samtal_um_menntastefnu_rikisins_til_2030. Upplýsingarnar komu fram í erindi Steinunnar Halldórsdóttur frá mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Heimildir

Evrópumiðstöð um sérþarfir og menntun án aðgreiningar. (2017). Menntun fyrir alla á Íslandi. Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar. Þýdd úr ensku. Mennta- og menningarmálaráðuneyti. https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=cca962f5-be4f-11e7-9420-005056bc530c

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. (2006). Leitað að mótsögnum: Um verklag við orðræðugreiningu. Í Rannveig Traustadóttir (ritstjóri), Fötlun. Hugmyndir og aðferðir á nýju fræðasviði (bls. 178–195). Háskólaútgáfan.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2014). Hvítbók um umbætur í menntun. https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/frettir/hvitbik_umbaetur_i_menntun.pdf

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2019). Menntun fyrir alla – horft fram á veginn. Skýrsla unnin fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti. https://www.stjornarradid.is/library/01–Frettatengt—myndir-og-skrar/MRN/MFA_horft%20fram%20a%20veginn_starfshops_vefur.pdf

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2020a). Menntun til framtíðar. Aðgerðir og viðbrögð í kjölfar fundaraðar um menntun fyrir alla og mótun menntastefnu til 2030. https://www.stjornarradid.is/library/01–Frettatengt—myndir-og-skrar/MRN/Menntun%20til%20framtidar_skyrsla_17012020.pdf

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2020b). Menntastefna 2030. Skýrsla OECD um innleiðingu menntastefnu. https://www.stjornarradid.is/library/01–Frettatengt—myndir-og-skrar/MRN/Iceland%20Policy%20Perspectives_%C3%9E%C3%BD%C3%B0ing_Loka%C3%BAtg%C3%A1fa%207.%20j%C3%BAl%C3%AD%202021.pdf

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2021). Menntastefna 2030. Fyrsta aðgerðaáætlun 2021–2024. https://www.stjornarradid.is/library/01–Frettatengt—myndir-og-skrar/MRN/Menntastefna_2030_fyrsta%20adgerdar%c3%a1%c3%a6tlun.pdf

Mennta- og barnamálaráðuneyti. (2022a). Áform um lagasetningu – skólaþjónusta. https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3308+

Mennta- og barnamálaráðuneyti. (2022b). Áform um lagasetningu – ný stofnun. https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3308+

 Þingsályktun um menntastefnu fyrir árin 2021–2030 nr 16/151. https://www.althingi.is/altext/151/s/1111.html 


 

Hermína Gunnþórsdóttir (hermina(hjá)unak.is) er prófessor við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún hefur starfað við leik-, grunn- og framhaldsskóla og lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands 2014. Helstu viðfangsefni hennar í kennslu og rannsóknum tengjast félagslegu réttlæti í menntun, skóla og námi án aðgreiningar, fjölmenningu og fjöltyngi, fötlunarfræði, menntastefnu og framkvæmd.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (ingo(hjá)hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk bakkalárprófi í sagnfræði og uppeldisfræði 1979, námi til kennsluréttinda 1980 og cand.mag.-prófi í sagnfræði 1983 frá Háskóla Íslands, og doktorsprófi í menntunarfræðum frá Wisconsinháskóla, Madison, 1991. Sérsvið hans eru námskrár, framhaldsskólar, menntastefna og kynjafræði í menntarannsóknum.


4. nóvember 2022

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp