Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Meginiðja mannfólksins: Umsögn um bók eftir Philip Kitcher

í Greinar/Ritdómar

Atli Harðarson

 

Philip Kitcher er með þekktari heimspekingum samtímans. Hann fæddist í London árið 1947, ólst upp á Suður-Englandi en lauk doktorsprófi í vísindaheimspeki og vísindasögu frá Princeton háskóla í New Jersey árið 1974. Hann er nú prófessor emeritus við Columbia háskóla í New York.

Kitcher er höfundur fjölda bóka um heimspekileg efni. Með skrifum sínum um stærðfræði, líffræði og fleiri raunvísindi á árunum milli 1980 og 1990 skipaði hann sér í fremstu röð fræðimanna á sviði vísindaheimspeki og tók við keflinu af eldri samstarfsmönnum sínum, þeim Carli Hempel (1905–1997) og Thomasi Kuhn (1922–1996).

Á seinni árum hefur Kitcher líka skrifað um listir, trúarheimspeki, stjórnmálaheimspeki, siðfræði og fleiri efni. Nýjasta bók hans fjallar um heimspeki menntunar. Hún kom út í fyrra hjá Oxford University Press og heitir The main enterprise of the world. Á íslensku gæti hún kallast Meginiðja mannfólksins. Að mínu viti sætir þessi bók töluverðum tíðindum. Höfundur þorir að hugsa af djörfung og honum tekst afar vel að tengja heimspeki menntunar við stóran fræðaheim enda hefur hann, eins og áður segir, komið víða við í fyrri skrifum. En þótt hann klífi hátt slær hann hvergi af kröfum um rökstuðning og vandaða umfjöllun.

Kitcher vinnur innan heimspekihefðar sem er kölluð verkhyggja á íslensku og pragmatism á ensku. Helstu upphafsmenn þeirrar stefnu eru jafnan taldir Bandaríkjamennirnir Charles Sanders Peirce (1839–1914), William James (1842–1910) og John Dewey (1859–1952). Allt frá því hann samdi fyrstu bækur sínar hefur Kitcher byggt á verkum þessara frumkvöðla og jafnframt hafið verkhyggju á ný til vegs og virðingar bæði í vísindaheimspeki og siðfræði. Í grein sem ég ritaði fyrir nokkrum árum um bókina Lýðræði og menntun (Democracy and education) eftir Dewey dró ég saman helstu einkenni þessarar stefnu (Atli Harðarson, 2016). Ég endurtek þá umfjöllun ekki hér en læt þess getið að það sem þar segir gildir jafnt um hugsun Kitchers og annarra verkhyggjumanna.

Þótt Kitcher vinni innan hefðar sem mótuð var fyrir meira en heilli öld er framlag hans til heimspekinnar bæði frumlegt og mikils vert. Með einni af fyrstu bókum sínum (Kitcher, 1982) færði hann til dæmis ný rök fyrir því að hægt væri að skilja stærðfræðilega þekkingu sem reynsluþekkingu og stærðfræðin væri, þegar öllu er á botninn hvolft, líkari öðrum vísindum en flestir töldu. Ég hef sagt stuttlega frá þessum rökum í öðrum kafla bókar minnar Af jarðlegum skilningi (Atli Harðarson, 2001). Með þeim lagði Kitcher til atlögu við ráðgátur sem margir héldu að yrðu ekki leystar nema gera ráð fyrir að mannshugurinn hefði aðgang að veruleika sem liggur utan og ofan við ríki náttúrunnar og þann heim sem við þekkjum af reynslu. Þessar ráðgátur voru því gjarna taldar þrándur í götu verkhyggjumanna sem vildu annars vegar rekja alla þekkingu til reynslunnar og hins vegar hafna hvers kyns tvíhyggju. Þetta síðarnefnda felur í sér að hverfa frá þankagangi sem dregur skörp skil í veruleikann, til dæmis á milli líkama og sálar, markmiða og leiða, vísinda og trúar, tilfinninga og skynsemi, stærðfræði og reynsluvísinda. Þar sem aðrir gera skarpan greinarmun benda verkhyggjumenn á samfellt litróf.

Siðfræði og trúarheimspeki

Siðfræðin er annað svið heimspekinnar þar sem Kitcher hefur mjög látið til sín taka. Í bók frá 2011 útskýrir hann hvernig við getum talað um betra siðferði og lakara án þess að hafa neinn mælikvarða sem er utan við reynsluheim okkar (Kitcher, 2011). Þar líkir hann framförum í siðfræði við framfarir í vísindum og skýrir hvernig þær leysa vanda sem menn standa frammi fyrir án þess að gera ráð fyrir að þeir þekki neitt endanlegt markmið sem þróunin stefnir að. Sjónarhornið er vítt og Kitcher ræðir langa sögu siðferðilegra viðmiða. Sem dæmi um framfarir á seinni öldum tekur hann útbreiddan stuðning við afnám þrælahalds, aukið jafnrétti kynjanna og minnkandi fordóma í garð samkynhneigðra. Hann segir líka að framfarirnar felist að nokkru leyti í að samhugur okkar nái til æ fleiri ­– samstaða og jöfnuður aukist ­– jafnframt því sem stærri hluti mannkyns eigi kost á góðu lífi.

Að dómi Kitchers er siðfræðin ekki eyland í heimi þekkingarinnar frekar en stærðfræðin. Vitneskjan um hvað færir okkur farsæld og hvað er þess virði að lifa fyrir er samofin margs konar vísindum. Þessi vitneskja er líka tengd trúarbrögðum og hugsjónum um himneska fjársjóði. Kitcher ræðir tengsl siðferðis og trúar á svipuðum nótum og Dewey gerði og er minnugur þess að trúarbrögðin eru beggja handa járn: Æði oft hafa talsmenn þeirra ímugust á siðferðilegum framförum eins og til dæmis auknum réttindum samkynhneigðra. Stundum beita þér sér gegn vísindalegri hugsun með hreinum vitleysisgangi eins og að koma í veg fyrir að börnum sé kennt um þróun lífsins á jörðinni. Kenjar og firrur af þessu tagi eru þó ekki neinn samnefnari allra trúarbragða enda búa þau, þegar best lætur, líka yfir hugsun sem styður við samkennd og hvetur til góðra verka.

Dewey (1934/2013) lýsti hollustu við háleitar hugsjónir sem trúarlegri viðleitni. Þetta gerði hann án þess að samþykkja neinar kenningar um yfirnáttúrulegan veruleika. Að hans dómi var öll hugsun manna um hið eilífa orðin til á vettvangi dagsins. Hann viðurkenndi þó að sú hugmynd væri lífseig að æðstu gildin í lífi okkar hefðu bjarma sem væri eins og ljós úr öðrum heimi. Líkt og Dewey er Kitcher trúr verkhyggjunni í því að viðurkenna að trúarbrögð séu hluti af lífinu og eigi sér djúpar rætur í menningunni. Í bók sinni um trúarheimspeki (Kitcher, 2014) tekur hann undir með Dewey og segir að háleit viðleitni af því tagi sem margir tengja við trú sé möguleg á veraldlegum forsendum. Hann viðurkennir þó að þetta sé erfið vitsmunaleg jafnvægislist. Í þeirri bók sem hér er til umfjöllunar slær hann nokkuð af og segir að farsæl menntun hljóti að innihalda umfjöllun um trú og andleg verðmæti. Með þessu tekur hann á sinn hátt undir það með William James (1907/2004) að fólk sem segir að trúarleg sjónarmið eigi enga samleið með vísindalegri hugsun fullyrði meira en ályktað verði af reynslu.

Áður en ég sný mér að menntaheimspeki Kitchers þykir mér rétt að tæpa á tveimur atriðum til viðbótar sem tengja hann og Dewey. Annað er að þeir hafa svipaða hugmynd um lýðræði, að frelsi, jafnrétti og formleg borgaraleg réttindi dugi ekki til að það blómstri, heldur þurfi einnig að leggja rækt við bræðralag og samkennd. Hitt er að þeir draga upp svipaða mynd af farsæld og góðu lífi og segja að hamingjan velti ekki aðeins á því að njóta frelsis og lífsgæða heldur líka á því að leggja eitthvað af mörkum sem er gagnlegt og þakkarvert: Það er hamingja að reynast öðrum vel.

Við menntumst til að mennta

Meginiðja mannfólksins skiptist í þrjá hluta. Sá fyrsti fjallar um tilgang uppeldis og menntunar, sá annar um námskrá og hvað skuli kenna börnum og unglingum og sá þriðji um þær breytingar sem þurfa að verða á samfélaginu til að hugsjónir um meiri og betri menntun geti ræst.

Í upphafsköflum bókarinnar segir Kitcher að tilgangur menntunar sé þríþættur: Fólk menntast í fyrsta lagi til að sjá sér farborða og geta unnið gagnleg störf. Í öðru lagi er menntun til þess að við getum tekið fullan þátt í lýðræðislegu samfélagi, rökrætt við aðra og ráðið ráðum okkur. Í þriðja lagi færir menntunin lífsfyllingu sem sumir kalla farsæld og aðrir hamingju. Þar sem Kitcher lítur svo á að hamingjan velti á því að reynast öðrum vel verður þetta þriðja atriði ekki skilið frá hinum tveimur.

Til viðbótar við þennan þrenns konar tilgang, sem ef til vill liggur í augum uppi, bendir Kitcher á að til þess að hann nái fram að ganga þurfum við að læra að vera uppalendur. „Menntakerfið á að búa nemendur sína undir að mennta aðra“ segir hann (Kitcher, 2021, bls. 74). Þessi hugsun held ég að sé gott leiðarljós fyrir skólakerfið – að það veiti menntun sem gagnast ekki aðeins nemendunum sjálfum heldur líka börnum sem þeir eignast eða umgangast síðar á lífsleiðinni.

Kitcher horfir á menntun af háum sjónarhóli og skoðar hana í ljósi langrar sögu. Hann segir að menntun næstu kynslóðar sé og hafi um árþúsundir verið mikilvægasta verkefni mannfólksins. Í ljósi þessa setur hann fram metnaðarfulla hugsjón um samfélag þar sem þetta er viðurkennt og fullorðna fólkið ver mun meiri hluta af tíma sínum til uppeldis, kennslu og samvista með börnum og ungmennum en nú tíðkast. Hann leggur til að allir, líka þeir barnlausu, verji hluta af vinnutíma sínum til að mennta og kenna og bendir á að með aukinni sjálfvirkni og tækni verði meiri tími aflögu til að sinna störfum við uppeldi og umönnun. Það á ekki að vera mannekla í skólum heldur gnótt af listamönnum, sérfræðingum og fólki með ólíka hæfileika og alls konar kunnáttu svo hvert barn finni handleiðslu við hæfi.

Margt af því sem Kitcher segir um kosti okkar á að skapa miklu menntaðra samfélag en við nú byggjum kallast á við hugsjónir aldamótakynslóðarinnar í kringum 1900 um „gróandi þjóðlíf með þverrandi tár“ og hann vitnar ekki aðeins í frumkvöðla verkhyggjunnar í Bandaríkjunum heldur líka John Stuart Mill (1806–1873), Rabindranath Tagore (1861–1941) og fleiri frjálslynda hugsuði sem vonuðu að almenn menntun stuðlaði að betra og fegurra mannlífi. Jafnframt andmælir hann röddum í samtíð okkar sem leggja ofuráherslu á að skólaganga sé til að gefa fólki forskot í samkeppni um peninga og vel launuð störf.

Metnaðarfull námskrá

Kitcher er stórhuga þegar kemur að umfjöllun um innihald náms. Áherslan er á breiða almenna menntun í mörgum greinum vísinda, lista og fræða. Menning og vísindi skulu allra eign. Hann segir minna um íþróttir og tækni en þó er ljóst að það menntaða samfélag sem hann lýsir er samfélag þar sem fólk þjálfar alls konar hæfileika ævilangt og þau sem eru lengra komin í einhverri grein kenna jafnframt börnum og öðrum byrjendum. Hann gerir sér engar grillur um að þetta auki endilega hagvöxt eða efnalegt ríkidæmi – mundi líklega taka undir með þeim sem segja „góð íþrótt gulli betri“ og meina að menntun sé dýrmætari lífsgæði en peningar.

Þótt vísindi, listir og fræði fái mikið rúm í þeim skóla sem Kitcher lýsir miðar námið ekki aðeins að þekkingu í þröngum skilningi heldur líka að betra siðferði og farsælla lífi. Að hans viti er skólinn ekki hlutlaus um mannleg verðmæti og ekki heldur um trúarleg efni, enda telur hann eins og áður segir, að sýn okkar á heiminn myndi heild þar sem ekki séu nein skörp skil milli vísindalegrar þekkingar, siðferðis og trúar. Hafi hann lög að mæla er líklega engin leið að kenna vísindi án þess að innihald kennslunnar tengist hugmyndum úr heimi trúarbragðanna. Hann leggur því til að samræða um trú fái rúm í skólum og þar sé lögð áhersla á það sem sameinar fólk og eykur velvild og vinarhug fremur en það sem sundrar og elur á flokkadráttum. Í góðum skóla er rætt við börn um það sem mestu varðar fyrir farsæld þeirra, þar á meðal um eilífðarmálin. Ef vel tekst til bera góðir kennarar þá „gott fram úr góðum sjóði hjarta síns“ (svo notað sé orðalag Lúkasar guðspjallamanns).

Breytt samfélag

Þótt Kitcher lýsi samfélagi sem er talsvert ólíkt veruleika nútímans og leggi meiri áherslu á menntun og menningu þykist hann ekki vita hvað reynslan muni kenna okkur á komandi árum. Sem verkhyggjumaður lítur hann á hugsjónir sem greiningartæki – verkfæri til að skoða samtímann og taka skref fram á við til betra lífs. Þegar þau skref eru að baki blasir við annar veruleiki sem kallar á breyttar hugsjónir. Framfarir í menntun eru eins og framfarir í siðferði – við finnum hvað á bjátar í samtíð okkar og ráðum bót á því en við höfum enga fullvissu um endanlegt markmið.

Í þriðja og síðasta hluta bókarinnar ræðir Kitcher afleiðingar menntastefnu sinnar fyrir samfélagshætti og efnahag. Hann tekst meðal annars á við erfiðar spurningar um hvort samfélag sem framkvæmir hana dragist aftur úr í efnahagslegu tilliti og verði jafnvel of fátækt til að búa börnum sínum gott líf. Hann viðurkennir að um þessi efni sé veruleg óvissa en leggur samt til að við tökum skref í áttina með því að auka mannafla við kennslu og uppeldi. Ef það gefst illa er hægt að fara til baka en við fáum aldrei að vita hvort draumur hans um menningarsamfélag getur orðið að veruleika nema við þorum að láta á það reyna.

Ég held að við ættum að taka brýningu Kitchers fagnandi og auka mannafla við leikskóla, grunnskóla og skipulagt tómstundastarf barna. Nóg er þörfin. Svo er líka þörf fyrir viðbót í framhaldskólum og háskólum. Í því sambandi þykir mér vert að rifja upp að þegar ég sjálfur gekk í menntaskóla var ég í eðlisfræðideild. Á þriðja og fjórða ári var minna en tugur nemenda í hópnum en eigi að síður var kennslan óskert. Lánið elti mig svo upp í háskóla þar sem ég var oftast í fámennum hópum – allt niður í þriggja manna. Það var ráðrúm til að spyrja og spjalla og kennararnir kynntust hverjum nemanda. Kitcher fer fram á meira en þetta en það væri ágætis byrjun að bjóða fleirum upp á jafn ríkmannlega kennslu og þá sem ég naut fyrir nokkrum áratugum síðan.

Í 24. kafla Lýðræðis og menntunar segir Dewey (1916/2008) að séum við til í að hugsa um menntun sem mótun vitrænnar og tilfinningalegrar grundvallarafstöðu til náttúru og mannlífs þá getum við jafnvel skilgreint heimspeki sem almenna kenningu um menntun. Í upphafi bókar sinnar ræðir Kitcher þessa sýn á heimspekina og segir að hún hafi ekki notið sannmælis. Heimspekingar hafi jafnvel gert lítið úr henni og ekki viljað kannast við hvað iðja þeirra er í raun skyld starfi kennara og uppalenda. Ég held að það sé ef til vill lærdómsríkt að skoða heimspekisöguna í ljósi þessara orða Deweys: Lesa rit um siðfræði, stjórnmálaheimspeki, þekkingarfræði og frumspeki sem tilraunir til að öðlast heiðríkju hugans, læra að lifa farsælu lífi í friði og sátt, leiðrétta meinlokur og forðast kjánalega óskyggju og skaðlega fordóma. Þessi sýn á heimspekina er nátengd þeirri vongóðu og uppbyggilegu hugsun Kitchers að við getum notað það vit sem við höfum til að lifa miklu betur en við nú gerum.

Menntaheimspekin í Meginiðju mannfólksins stendur á breiðum undirstöðum því Kitcher þekkir til margvíslegra fræða – hann er í hópi með Dewey og örfáum öðrum heimspekingum seinni tíma sem eru jafnvígir á umfjöllun um vísindi, siðferði, stjórnmál, trúarbrögð og listir. Skrif hans um menntun í samfélagi sem fikrar sig áfram til betra lífs eru um margt eins og framhald af Lýðræði og menntun – höfuðriti Deweys um menntaheimspeki – sem út kom árið 1916. Það var löngu orðið tímabært að skrifa slíkt framhald þar sem hugsjónir um menntun, frelsi, lýðræði og farsæld eru tengdar saman í skipulega heild.

Rit

Atli Harðarson. (2001). Af jarðlegum skilningi. Háskólaútgáfan.

Atli Harðarson. (2016). Lýðræði og menntun: Hugleiðing um aldargamla bók. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. https://netla.hi.is/greinar/2016/ryn/01_ryn_arsrit_2016.pdf

Dewey, J. (2008). Democracy and education. https://www.gutenberg.org/files/852/852-h/852-h.htm (frumútgáfa 1916).

Dewey, J. (2013). A common faith (Terry Lectures). Yale University Press (frumútgáfa 1934).

James, W. (2004). Pragmatism: A new name for some old ways of thinking. https://www.gutenberg.org/files/5116/5116-h/5116-h.htm (frumútgáfa 1907).

Kitcher, P. (1982). The nature of mathematical knowledge. Oxford University Press.

Kitcher, P. (2011). The ethical project.  Harvard University Press.

Kitcher, P. (2014). Life after faith: The case for secular humanism. Yale University Press.

Kitcher, P. (2021). The main enterprise of the world: Rethinking education. Oxford University Press.


Atli Harðarson (atlivh(hja)hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur ritað bækur og greinar um heimspeki, bókmenntir og námskrárfræði. Nánari upplýsingar eru á vefsíðunni https://atlivh.com/


Grein birt: 11/5/2022

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp