Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Geðveiki, skólastarf og skynsemismyrkur: Umsögn um nýjasta tölublað tímaritsins Journal of Philosophy of Education

í Greinar

Atli Harðarson

 

Nýjasta tölublað tímaritsins Journal of Philosophy of Education er helgað rökræðu um geðheilsu og menntun. Framan á heftinu stendur Policy Special Issue Philosophy, Mental Health and Education. Höfundar eru úr ýmsum áttum. Meðal þeirra eru sérfræðingar um menntamál, sálfræðingar, læknar, heimspekingar og listfræðingar. Flestir eru fræðimenn við háskóla en nokkrir starfandi á vettvangi. Greinarnar eru líka af ýmsu tagi. Tvær þeirra eru viðtöl, nokkrar eru örstuttar og nánast eins og fréttaskýringar en flestar eru fræðilegar og með vísunum í rannsóknir og kenningar. Í því sem hér fer á eftir segi ég stuttlega frá rökum sem eru áberandi í máli höfunda. Rétt er þó að taka fram að ég reyni ekki að greina frá nærri því öllu sem fjallað er um í þessu 189 blaðsíðna hefti. Ég sleppi til að mynda greinum um bókmenntir og kvikmyndir sem höfundar rökstyðja að varpi ljósi á umrædda fleti mannlífs og menntunar.

Aukin vanlíðan, lyfjanotkun og erindi heimspekinnar

Fréttir og vísindaleg skrif frá síðustu árum greina frá aukinni notkun geðlyfja meðal barna og unglinga og víða er álitið að geðræn vandamál meðal þeirra séu algengari nú en fyrr á tímum. Í inngangi segir ritstjóri heftisins, heimspekingurinn Emma Williams, að fyrir daga covid faraldursins hafi margir kallað eftir því að skólar á Bretlandi beittu sér fyrir betri geðheilsu barna og á síðustu árum hafi slíkar raddir orðið háværari. Hún segir að hugsunin á bak við þetta sé vel skiljanleg: Kannanir bendi til versnandi geðheilsu barna, starfsfólk heilbrigðiskerfisins sé önnum kafið og ekki á bætandi, skólar hafi rúm fyrir öll börn og þar sé hægt á ná til þeirra og bæta við námsefni og viðfangsefnum á sviði geðræktar. Blasir niðurstaðan ekki við að það sé tilvalið að nota skólana til að vinna á vandanum?

Eftir að hafa reifað málið segir Williams að rétt sé að staldra við. Hér sé þörf fyrir heimspekilega gagnrýni sem hægir aðeins á hugsuninni og fer yfir hvern lið í rökfærslum áður en hrapað er að alhæfingum og einföldum svörum. Hún spyr svo hvort viðbót við námsefni skóla geti yfirleitt bætt geðheilsu barna, hvort við höfum nægan skilning á hvað geðheilbrigði er til að geta gert það að markmiði skólastarfs og hvaða áhrif það hafi á menntakerfið ef það tekur að sér verkefni á sviði geðheilbrigðismála.

Þessar spurningar sem ritstjórinn veltir upp eru að mínu viti afar mikilvægar. Við höfum vissulega vísbendingar um vaxandi kvíða meðal barna og unglinga og sumar kannanir benda til að töluverður hluti ungs fólks glími við geðræn vandamál. Samt er mjög margt óljóst um hvað af vanlíðan þess er vegna eiginlegra sjúkdóma og hvað vegna samfélagshátta – að hve miklu leyti starfshættir og menning skóla valda henni og að hve miklu leyti orsakirnar eru af öðru tagi, svo sem eins og lífsviðhorf og skoðanir, mataræði, svefnvenjur, innivera og hreyfingarleysi, snjalltæki og samskiptamiðlar.

Hið sálræna og hið félagslega

Flestir höfundanna, sem eiga greinar í heftinu, reyna að skýra eða greina hvers vegna það er varhugavert eða hæpið að fela skólum að bæta geðræktarverkefnum við það starf sem fyrir er. Enginn þeirra reynir þó að gera lítið úr vandanum og enginn orðar neinar efasemdir um mikilvægi þess að veikt fólk fái stuðning og aðstoð, börnum líði vel í skólum og kennararnir séu vingjarnlegir og taki tillit til vanheilsu og erfiðleika. Efasemdirnar snúast um gildi þess að innleiða átaksverkefni eða sérstakt námsefni um geðheilsu. Hjá sumum virðist búa að baki hugsun í þá veru að geri skólarnir þetta þá samþykki þeir ástand sem eitrar líf fólks og verði sjálfir hluti af því í stað þess að andæfa og mennta fólk til að finna leiðir út úr ógöngunum.

Heimspekingarnir Emma Williams, Richard Smith, Michelle Maiese og Adrian Skilbeck benda á að það sé villandi að lýsa stórum hluta af vanlíðan ungs fólks með hugtökum úr heimi geðsjúkdóma og geðlækninga því það beini sjónum okkar frá samfélagsháttum sem spilla lífi þess. Þau segja að menn séu of fljótir að stökkva frá lýsingu á erfiðum tilfinningum og kvöl til yfirlýsinga um sjúkdóma. Smith ræðir meðal annars um hvernig menntakerfið er stillt inn á þetta með því að viðurkenna ekki réttmæti fjarvista eða sérúrræða nema skilað sé vottorði frá lækni. Það er víst víðar en hér á Íslandi sem aðstoð og úrræði fyrir nemendur eru háð því að bágindi þeirra séu greind og skráð samkvæmt flokkunarkerfi heilbrigðisvísinda. Í lok greinar sinnar segir Smith að við þurfum að huga að því „að hve miklu leyti útbreidd trú á læknisfræðilegt líkan af vondri líðan endurspeglar tregðu okkar til að líta gagnrýnum augum á þann heim sem við höfum skapað“ (Smith, 2022, bls. 113). Síðasta greinin í heftinu er viðtal við Williams þar sem hún bendir meðal annars á að hægt sé að lýsa vandanum á marga vegu. Hugtök yfir geðheilbrigði og geðsjúkdóma séu ekki eini kosturinn. Það sé líka hægt að beina sjónum að samfélaginu og „við þurfum pólitískar lausnir“ (Phillips og Williams, 2022, bls. 182).

Heimspekingarnir fjórir sem hér voru nefndir ræða meðal annars áhrif markaðshyggju og hvernig hún hefur breytt hugsun okkar um tilgang menntunar og árangur skólastarfs. Þeir lýsa nýlegum áherslum á geðrækt sem afsprengi tíðaranda sem kenndur er við nýfrjálshyggju. Ef lýsing þeirra er rétt þá eru þessar áherslur í raun hluti af félagsmótun sem aðlagar fólk veröld samkeppni og síngirni. Maiese segir að þessi áhrif gangi svo langt að fólk sé tekið að hugsa um alla viðleitni í skólum eins og hún snúist um það eitt að auka einhvers konar auðmagn – mannauð eða efnalegt ríkidæmi. Sé nútíminn í raun með þessum og þvílíkum endemum þá er markaðurinn ekki lengur hluti af lífinu heldur er lífið orðið hluti af markaðnum.

Hafi heimspekingarnir fjórir eitthvað til síns máls hlýtur sú spurning að vakna hvort vanlíðan sem stafar af því að hlaupa eins og hamstur í hjóli eftir árangri og forskoti lagist ef bætt er við enn einu viðfangsefninu. Ef ég er að þrotum kominn þarf ég þá ekki fremur að slaka á en að bæta við einn einu keppikeflinu sem er árangur í því að sigrast á þrotinu?

Nele Van Damme og Stefan Ramaekers nálgast viðfangsefnið líka heimspekilega og taka undir það með Williams, Smith, Maiese og Skilbeck að áherslan á geðrækt sem lausn á tilvistarvanda beini sjónum frá félagslegum þáttum til sálrænna vandamála sem eru bundin við einstaklinga og mörgum finnst að þeir þurfi og eigi að ráða bót á upp á eigin spýtur. Þau greina hugmyndir um geðheilsu í tilteknu námsefni fyrir flæmska leikskóla og segja að þær feli í sér að börn eigi þegar á unga aldri að vinna í að breyta tilfinningum sínum og tileinka sér sveigjanleika og seiglu til að mæta kröfum atvinnulífsins.

Meginhugsun þeirra höfunda sem hér hafa verið nefndir má ef til vill skýra með einfaldri líkingu. Ef einn verkamaður á vinnustað er illa haldinn af bakverk fer hann til læknis og fær lyf eða tilvísun til sjúkraþjálfara. En ef meirihlutinn er að drepast í bakinu ætti líklega að skoða vinnuaðstöðuna: Hvort byrðar eru of þungar, vinnudagur of langur, borð í réttri hæð og svo framvegis. Hlýtur ekki svipað að gilda ef stór hluti skólabarna er illa haldinn? Ætti þá ekki að skoða skólann og samfélagið fremur en að leita að veilum í kollinum á einstökum krökkum? Þetta er ein af spurningunum sem fjallað er um í þessu hefti. Önnur spurning snýst um hvort geðheilbrigðismál eigi yfirleitt heima í kennslustofum.

Skólastarf og geðrækt

Nokkrir höfundar nefna tilraunir til að samþætta skólagöngu og geðrækt og benda á ýmsa vankanta á slíkri framkvæmd. Í grein eftir sálfræðingana Lucy Foulkes og Emily Stapley er bent á að rannsóknir sýni að ráðstafanir sem ná til allra beri minni árangur en þær sem beint er að afmörkuðum hópi barna sem búa við tiltekin vandamál. Síðarnefndu leiðirnar hafi hins vegar þann ágalla að þær brennimerki þátttakendur og hafi áhrif bæði á sjálfsmynd þeirra og framkomu annarra í þeirra garð. Þær segja einnig að rannsóknir bendi ekki til langtímaárangurs af geðræktarverkefnum í skólum.

Í grein um velferð nemenda í írskum framhaldsskólum segja Emma Farrell og Áine Mahon að það besta sem skólar geti gert sé að vera góðir skólar þar sem kennarar eiga persónuleg samskipti við nemendur og hvert barn hefur einhvern fullorðinn sem það treystir og getur leitað til – það sem máli skipti séu almennilegheit fremur en sjúkdómavæðing og vísindi um geðheilbrigðismál. Sumir aðrir, eins og Sami Timimi og Zoe Timimi, orða róttækari efasemdir um að yfirleitt sé heppilegt að skólar vinni að geðrækt. Þau segja líka að greiningar á geðrænum kvillum upplýsi okkur ekki um rætur vandamálanna því mest séu þetta merkimiðar sem eru settir á fólk án neinnar þekkingar á undirliggjandi orsökum. Þau telja raunar að þessir merkimiðar geti beinlínis skaðað skólabörn og valdið því að hegðun sem áður var talin skiljanleg sé skoðuð sem merki um veikindi og fyrir vikið hætti kennarar að ræða um hana við börnin eins og maður við mann.

Marie Gojmerac, sem er læknir eins og Sami Timimi, tekur undir þessa gagnrýni og segir að viðleitni til að færa geðlækningar inn í kennslustofur geti brotið gegn þeirri mikilvægu reglu í siðferði heilbrigðisstétta að skaða fólk ekki. Hún segir einnig að áhersla á sjúkdómsgreiningar sé ekki til þess fallin að viðhalda heilbrigði og að læknisfræðilegar áherslur í skólum valdi því að fleiri nemendur taki að líta á sig sem „sjúklinga“ og losni jafnvel aldrei út úr því hlutverki. Hún viðurkennir að sjúkdómsgreining sé nauðsynleg þegar um er að ræða alvarleg veikindi en rökstyður að slíkar greiningar á þokkalega hraustum börnum séu til þess fallnar að spilla heilsu þeirra fremur en að bæta hana.

Farsæld eða árangur

Orðið „skynsemismyrkur“ í titli þessa greinarkorns er sótt í Þykjustuleikana, nýjustu ljóðabók Antons Helga Jónssonar þar sem hann segir:

Það var skynsemismyrkur í herberginu mínu, höfðinu
skynsemismyrkur í fjölskyldunni, allri ættinni
ættartrénu, ættarskóginum. Mig langaði burt.

[…]

Í götunni minni birtist aldrei karnivalshöfuð
þar sló ekkert hringaleikahjarta
í bæinn kom aldrei fjölbreytnilestin
þar sást ekkert litbrigðafólk reisa tjöld sín.
(Anton Helgi Jónsson, 2022, bls. 6)

Ekki veit ég hvort Anton Helgi var að hugsa um það sama og höfundar greinanna sem hér eru til umfjöllunar. Ég held samt að ljóð hans séu góð lesning fyrir fólk sem vill skilja þann vanda sem um ræðir: Vanlíðan, kvíða, reiði og vonleysi ungs fólks þótt heimurinn færi því að sumu leyti meiri lífsgæði en fyrri kynslóðum. Það er einhvers konar skynsemismyrkur að hafa heil ósköp af vísindum um heilbrigði, velferð og líðan en sjá samt ekki hvað færir fólki hamingju og hvað gerir fólk óhamingjusamt. Í öðru ljóði í sömu bók segir Anton Helgi:

Á svartasta markaði veraldar
afgreiða nafnlausir menn
eftirsótt líffæri barna og ungmenna.

Eitt þeirra er gleðin.

[…]

Þeir nafnlausu nema gleðina brott.
Í hennar stað tútnar út hryggð og reiði.
(Anton Helgi Jónsson, 2022, bls. 46)

Allvíða í heftinu er rætt um skólakerfi og samfélagsaðstæður sem gera einmitt þetta, ræna börn gleði og hamingju með því að telja þeim trú um að það eftirsóknarverðasta í lífinu sé árangur, að standa sig, ná sjálfhverfum markmiðum eða vera betri en hinir. Fólk hefur samt vitað síðan í fornöld að maðurinn er félagsvera og nýtur sín best með því að reynast öðru fólki vel. Það er gömul speki að sælla er að gefa en þiggja.

Skólaganga er stór hluti af lífi ungs fólks og þótt samkeppni og viðleitni til að ná árangri sé hluti af farsælu lífi er það varla til góðs að skólaganga snúist, í heild sinni, einkum um að komast fram úr öðrum. Ef hversdagslegt líf breytist í tómt lífsgæðakapphlaup er viðbúið að gleðin verði harla lítil. Það bætir svo gráu ofan á svart ef vanlíðan vegna þessa er skilgreind sem einhvers konar veikindi. Eigi að síður sækist fólk eftir því að fá geðlæknisfræðilega merkimiða á börn sín. Þetta upplifði ég sjálfur sem skólastjórnandi í framhaldsskóla á fyrstu fjórtán árum þessarar aldar. Ég þurfti oft að ræða við foreldra um fjarvistir, veikindi og alls konar erfiðleika og man vel hve mörgum virtist létt þegar unglingarnir þeirra fengu geðlyf. Ég veit ekki hvað fólkið hugsaði. Sennilega trúðu flestir því að pillurnar ynnu á kvíða, depurð og drunga. Mér fannst samt að lyfseðlarnir virkuðu stundum að nokkru leyti eins og aflátsbréf: Foreldrum þætti uppáskriftin staðfesta að vandinn væri ekki þeim að kenna – þetta væri bara eitthvert rugl á boðefnum í heilanum á unglingnum en hvorki brenglað gildismat né vont andrúmsloft og erfið samskipti á heimilinu. Ég segi „stundum“ því í nokkrum tilvikum var ljóst að nemendur voru alvarlega veikir og í mörgum tilvikum voru samræður of stuttar og yfirborðslegar til að ég hefði neitt hugboð um hvað bærðist innra með viðmælendum.

Hér er ég vissulega kominn út fyrir allt sem ég get fullyrt um með neinni vissu. Ég hafði þetta aðeins á tilfinningunni. Þegar ég talaði við nemendur fannst mér líka alloft sem sjúkdómsheiti og lyf væru léttir vegna þess að með þeim væri viðurkennt að bágindin væru raunveruleg. Ef slík viðurkenning fæst ekki á öðru formi er ef til vill skiljanlegt af fólk vilji frekar teljast geðveikt en vera álitið væluskjóður sem kvarta og kveina af engu tilefni. Ef til vill þótti mér þetta öðrum þræði vegna þess að á seinni hluta umrædds tímabils hafði ég veður af efasemdum um gagnsemi algengra þunglyndislyfja. Virtir vísindamenn töldu jafnvel að þau gætu verið skaðleg (sjá t.d. Andrews, Thomson, Amstadter og Neale, 2012).

Sé hugboð mitt rétt þá er trúlega betra fyrir marga unglinga að lifa í samfélagi þar sem það er álitið eðlilegt og heilbrigt að fólki líði stundum illa, jafnvel svo illa að það treysti sér ekki til að mæta í skólann. Um þetta er fjallað í nokkrum greinum í heftinu þar sem höfundar benda á að vanlíðan sé hluti af venjulegu lífi og varhugavert sé að sjúkdómsvæða hana alla. Heimspekingurinn Alison M. Brady segir til dæmis að umræða um að hægt sé að losna við kvöl og þraut með því að temja sér seiglu eða einhverja geðræktarlífsleikni sé ekki aðeins barnaleg heldur feli hún líka í sér afneitun á mikilvægum þáttum mannlegrar reynslu og þeirri merkingu sem hún hefur. Annar heimspekingur, Richard G. T. Gibbs, reifar ástæður til að vefengja að allt það sundurleita ástand sem nú er kallað sjúklegur kvíði eða kvíðaröskun sé í raun geðrænir kvillar og spyr hvort sumt af því sé ef til vill best að meðhöndla með samræðum um hugrekki, virðingu og siðferðilegar dygðir. Það kveður við svipaðan tón í viðtali við ljóðskáldið og sálfræðinginn Sanah Ahsan sem segir að skilningur á því hve auðsæranleg við erum hjálpi okkur að sýna umhyggju: „Það er byltingakennt og til marks um ást að láta það eftir okkur að vera eins og við erum með alla okkar brjálsemi“ (Williams og Ahsan, 2022, bls. 90). Hún bætir því við að skilningur okkar á þjáningum sé of bundinn hugsun um sjúkdóma og það ýti undir hugmyndir í þá veru að vanlíðan skuli ekki umborin, hún sé bilun og kalli á viðgerð. Lokaorð Ahsan í viðtalinu eru: „Ég vil sjá samfélag þar sem við snúum okkur hvert til annars og hjálpum hvert öðru í stað þess að snúa okkur undan eða vísa fólki frá okkur og segja því að fara frekar til læknis“ (Williams og Ahsan, 2022, bls. 92).

Margt af því sem segir í heftinu um sjúkdómsvæðingu á tilvistarvanda barna og unglinga í öðrum löndum virðist ekki síður eiga við hér á landi. Umræða um „andleg“ veikindi skólafólks er áberandi og mikið um að börn og unglingar fái greiningu á geðrænum kvillum og lyf við þeim. Það er kallað eftir að skólarnir geri eitthvað í málinu. Í skýrslu starfshóps um geðrækt í skólum sem liggur frammi á vef Landlæknisembættisins (sjá hér) er til dæmis lagt til að geðrækt „verði sjálfstæð námsgrein í aðalnámsskrá grunn- og framhaldsskóla, og sjálfstætt viðfangsefni í leikskólum“ (Sigrún Daníelsdóttir o.fl., 2019, bls. 21). Ég vona að gagnrýni og dýpri rökræða um efnið verði til þess að við hugsum okkur að minnsta kosti vel um áður en langt er haldið á þeirri braut.

[Ég þakka eiginkonu minni, Hörpu Hreinsdóttur, fyrir aðstoð við ritun þessa greinarkorns. Sé eitthvað missagt er það þó allt á mína ábyrgð.]

Rit

Andrews, P. W., Thomson Jr, J. A., Amstadter, A. og Neale, M. C. (2012). Primum non nocere: an evolutionary analysis of whether antidepressants do more harm than good. Frontiers in psychology, 3, 117. https://doi.org/10.3389/fpsyg.2012.00117

Anton Helgi Jónsson. (2022). Þykjustuleikarnir. Mál og menning.

Brady, A. M. (2022). Mental health, resilience and existential literature. Journal of Philosophy of Education, 56(1), 78–87. https://doi.org/10.1111/1467-9752.12642

Farrell, E. og Mahon, Á. (2022). Well-being in the Irish secondary school: Reflections on a curricular approach. Journal of Philosophy of Education, 56(1), 51–54. https://doi.org/10.1111/1467-9752.12641

Foulkes, L. og Stapley, E. (2022). Want to improve school mental health interventions? Ask young people what they actually think. Journal of Philosophy of Education, 56(1), 41–50. https://doi.org/10.1111/1467-9752.12649

Gipps, R. G. T. (2022). ‘I’ve got anxiety’. Journal of Philosophy of Education, 56(1), 124–128. https://doi.org/10.1111/1467-9752.12658

Gojmerac, M. (2022). Psychiatry and mental health care in the classroom: A reflection on the potential effects of policy implementation. Journal of Philosophy of Education, 56(1), 22–28. https://doi.org/10.1111/1467-9752.12638

Maiese, M. (2022). Neoliberalism and mental health education. Journal of Philosophy of Education, 56(1), 67–77. https://doi.org/10.1111/1467-9752.12640

Phillips A. og Williams E. (2022). ‘Psychoanalysis is one more way of taking people seriously’: Adam Phillips in conversation with Emma Williams. Journal of Philosophy of Education, 56(1), 180–189. https://doi.org/10.1111/1467-9752.12624

Sigrún Daníelsdóttir o.fl. (2019). Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi: Tillögur starfshóps, október 2019. Mennta- og menningarmálaráðuneytið; Embætti landlæknis; Samband íslenskra sveitarfélaga; Kennarasamband Íslands; Menntamálastofnun; Heimili og skóli. https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item38659/Starfsh%C3%B3pur%20um%20ge%C3%B0r%C3%A6kt%20%C3%AD%20sk%C3%B3lum_sk%C3%BDrsla.LOKA.pdf

Skilbeck, A. (2022). Expressing an interest in mental health education. Journal of Philosophy of Education, 56(1), 129–138. https://doi.org/10.1111/1467-9752.12643

Smith, R. (2022). The politics of distress. Journal of Philosophy of Education, 56(1), 105–114. https://doi.org/10.1111/1467-9752.12659

Timimi, S. og Timimi, Z. (2022). The dangers of mental health promotion in schools. Journal of Philosophy of Education, 56(1), 12–21. https://doi.org/10.1111/1467-9752.12639

Van Damme, N. og Ramaekers, S. (2022). Toddlers as soul workers: A critical take on emotions and well-being in early childhood education. Journal of Philosophy of Education, 56(1), 55–66. https://doi.org/10.1111/1467-9752.12653

Williams, E. (2022). Introduction: The crisis in mental health and education. Journal of Philosophy of Education, 56(1), 4–11. https://doi.org/10.1111/1467-9752.12657

Williams, E. og Ahsan, S. (2022). ‘We are creating conditions for young people that are un-survivable’: An interview with Sanah Ahsan. Journal of Philosophy of Education, 56(1), 88–93. https://doi.org/10.1111/1467-9752.12646


Atli Harðarson (atlivh(hja)hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur ritað bækur og greinar um heimspeki, bókmenntir og námskrárfræði. Nánari upplýsingar eru á vefsíðunni https://atlivh.com/


Grein birt: 8/8/2022

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp