Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Sprettur – Snemmtæk og samþætt þjónusta í þágu farsældar barna

í Greinar

Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir og Óskar Sturluson

 

Hvernig getum við veitt snemmtæka og samþætta þjónustu í nærumhverfi barna í dreifðari byggðum landsins?

Undirrituð fengu tækifæri til að þróa verkefni með það að markmiði að bjóða snemmtækan stuðning til barna og foreldra þeirra. Frumvarp að farsældarlögunum var haft til hliðsjónar og gætt að því að réttindi barna væru virt samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Afurðin er þverfaglegt teymi sem kallast Sprettur. Heitið vísar til þess að hvert mál er unnið hratt og af krafti í skamman tíma. Vinna teymisins fer fram í grunn- og leikskólum Fjarðabyggðar. Þar gefast tækifæri til að vinna markvisst í nærumhverfi barnsins í samstarfi við starfsfólk skólanna og aðra sem hafa með málefni barnsins að gera, s.s. heilsugæslu og félagsþjónustu.

Þjónustan, sem veitt er í Sprett-teymum, er í flestum tilvikum annars stigs þjónusta samkvæmt skilgreiningu farsældarlaganna þar sem „einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur“ er veittur og því er málastjórn í höndum starfsmanns fjölskyldusviðs.

Fagteymi

Fagteymi sem samanstendur af skólahjúkrunarfræðingum, sérfræðingum skólaþjónustu, félagsþjónustu og barnaverndar hefur reglulega viðveru í skólum sveitarfélagsins, einn dag aðra hverja viku í stærri byggðarkjörnum og fjórðu hverja viku í þeim minni. Starfsmenn fagteymisins vinna í sérsniðnum teymum sem stofnuð eru um hvert og eitt barn sem hefur verið vísað í þjónustu Spretts. Þannig tekur samsetning hvers einstaklingsteymis mið af þeirri sérfræðiþekkingu sem þörf er á í hvert sinn. Því til viðbótar veita starfsmenn fageymisins almenna ráðgjöf til foreldra og starfsmanna skólanna. Á mynd 1 má sjá ástæður tilvísana í Sprett. Hafa þarf í huga að málum sumra barna er vísað í Sprett af fleiri en einni ástæðu.

Mynd 1: Ástæður tilvísana í Sprett

Einstaklingsmiðuð teymi

Í teymi hvers barns sitja foreldrar og tengiliðir úr skóla barnsins og valdir sérfræðingar úr fagteyminu. Þegar barn hefur aldur og þroska til er því boðið að taka þátt í teymisfundum en annars eru fundnar aðrar leiðir til gefa barninu kost á þátttöku. Lögð er áhersla á að öll börn hafi aðkomu að vinnunni og eru yngstu börnin þar engin undantekning. Í þeim tilvikum sem börn hafa ekki aldur og þroska til að taka beinan þátt eða til að tjá afstöðu sína fer sérfræðingur á vettvang og fylgist með barninu í skólanum og miðlar upplýsingum áfram til annara í teyminu. Nýtist þetta fyrirkomulag sérstaklega vel, t.d. til að skoða áhrif umhverfis á hegðun og líðan barns.

Lagt er upp með að hvert einstaklingsteymi starfi í um 16 vikur og að haldnir séu fjórir fundir á tímabilinu. Á fyrsta fundi setur teymið sér sameiginleg markmið. Fundnar eru leiðir að markmiðunum og fá þátttakendur skýr, skilgreind, verkefni til að vinna að milli funda. Fundargerð er varpað upp á vegg meðan hún er rituð þannig að allir í teyminu geta haft áhrif á það sem skráð er. Fundargerðin er verkefnalisti og er send til teymisins að fundum loknum til að skerpa á verkefnunum. Reynsla okkar er sú að því virkari sem foreldrar eru í teymisstarfinu þeim mun meiri árangur næst af vinnunni.

Árangur af Spretti

Mynd 2: Tilvísanir í önnur kerfi

Sprettur hefur á tveimur skólaárum komið við sögu í uppeldi og námi um 10% barna á aldrinum þriggja til 16 ára í Fjarðabyggð. Í flestum tilvikum eru tveir foreldrar í hverju teymi og algengt er að tveir til þrír aðilar úr skóla barnsins sitji í teyminu. Við erum ánægð með hversu vel kennarar og foreldrar hafa nýtt þjónustu teymisins. Flest þeirra mála sem teymið hefur unnið hafa fengið farsæla lausn. Í málum 73% barna hafa markmið Spretts náðst að fullu. Því til viðbótar hafa markmið náðst að hluta í málum 22% barna. Eftir stendur að markmið náðust ekki í málum 5% barna. Þá sjáum við að í 16% mála hefur vanda barna verið fundinn farvegur í öðrum kerfum. Líkt og sjá má á mynd 2 hefur flestum þessara mála verið fundinn farvegur hjá sálfræðiteymi heilsugæslunnar. Við sjáum að með tilkomu Spretts hefur tilkynningum til barnaverndar fækkað nokkuð. Það má ætla að það sé vegna þess að vanda barnanna sé nú mætt betur og fyrr en áður.

Mynd 3: Aldur barna í Spretti

Sveitarfélög hafa ríkum skyldum að gegna við skipulag og framkvæmd skólaþjónustu, sjá meðal annars 3. gr. reglugerðar um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 444/2019. Sérstaka ánægju vekur hve stór hluti þeirra barna sem njóta aðstoðar Spretts eru á leikskólaaldri, en um fjórðungur tilvísana frá upphafi eru vegna leikskólabarna, eins og sést á mynd 3. Fjöldi tilvísana frá leikskólum sýnir að við erum að ná markmiðum okkar um að veita snemmtækan stuðning og tryggja samfelldari þjónustu, þvert á þjónustukerfi. Við sjáum að með tilkomu Spretts eru börn á leikskólaaldri að fá stóraukna þjónustu frá því sem áður var.

Eitt hlutverka skólaþjónustunnar er að gera frumgreiningu á þroska barna. Við lítum svo á að greining geri lítið gagn ein og sér og því viljum við fá greiningarmálin inn í Spretts-teymið. Áður voru sendar tilvísanir um sálfræðiathuganir til skólaþjónustu þar sem mál lentu á biðlista og dýrmætur tími leið án skipulagðrar aðstoðar. Tvö af hverjum þremur börnum sem vísað er í Sprett hafa ekki fengið formlega greiningu fagfólks. Þegar tilvísun berst í Sprett er sett af stað teymisvinna þar sem fjölskyldu og skóla er veitt ráðgjöf og leiðbeiningar samhliða því að metið er hvort gera þurfi frumgreiningu. Sprettur er því að ná til barna sem ekki hafa fengið formlegar greiningar en þurfa á aðstoð að halda.

Næstu skref

Það er mat okkar að Sprettur sé frábær undanfari nú þegar innleiðing farsældarlaganna stendur yfir. Við munum búa vel að því að hafa þegar innleitt samþætta þjónustu og sjáum við fyrir okkur að byggja áfram á grunni Spretts, þannig að Sprettur verði fyrsta stopp þegar óskað er eftir málastjóra vegna samþættingar þjónustu fyrir börn í Fjarðabyggð.


Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir er fyrrverandi stjórnandi forvarna- og stuðningsmála í Fjarðabyggð. Hún var áður félagsmálastjóri Fjarðabyggðar. Helga lauk BA prófi í þroskaþjálfafræði frá HÍ 2008 og diplómu í opinberri stjórnsýslu 2011. Helga hefur starfað sem þroskaþjálfi í leik- og grunnskóla og er með sérhæfingu í málefnum skynsegin barna.

Óskar Sturluson er stjórnandi félagsþjónustu og barnaverndar í Fjarðabyggð. Hann var áður fagstjóri sifjamála hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Hann lauk meistaranámi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008.


Grein birt …

image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp