Tímarit Samtaka Áhugafólks um Skólaþróun

Um inngildingu, innri útilokun og tæknivæðingu menntunar

í Greinar

Eva Harðardóttir

 

Á undaförnum vikum hefur hugtakið inngilding (e. inclusion) fengið nokkuð víðtæka athygli í opinberri umræðu hérlendis, ekki síst á sviði skóla- og menntamála, en nú liggur fyrir nýtt frumvarp til laga undir heitinu Inngildandi menntun (í samráðsgátt 27.2.–12.3.2024). Frumvarpið á samkvæmt viðtali við Mennta- og barnamálaráðherra að „breyta menntakerfinu eins og við þekkjum það í dag“. Ég gleðst yfir eldmóði og væntingum ráðherra til frumvarpsins enda tengi ég sjálf hugtakið inngilding óneitanlega við mikilvægi og möguleika menntunar til þess að vera umbreytandi afl í lífi fólks – þvert á mörk og mæri.

Enska hugtakið inclusive education var upphaflega þýtt sem skóli eða menntun án aðgreiningar hérlendis. Í fræðilegri kreðsu hefur hugtakið þróast frá því að fjalla nær eingöngu um aðgengi nemenda með sérþarfir að almennum námsrýmum til þess að eiga ekki síður við um gæði og markmið menntunar í staðbundnu jafnt sem alþjóðlegu samhengi. Þannig birtist til dæmis umfjöllun um inngildandi menntun í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Það er að segja ekki eingöngu í tengslum við aðgengi einstaklinga að menntun alla ævi heldur einnig í nánu sambandi við mannréttindi, menningarlegan margbreytileika og hnattræna borgaravitund.[1] Slíkar áherslur eru hins vegar lítt merkjanlegar í hinu nýju menntafrumvarpi þar sem inngildandi menntun (e. inclusive education) er skilgreind fyrst og fremst á grundvelli skipulags, starfshátta og stuðningsúrræða við nemendur með sérþarfir.

Hugtakið inngilding hefur einnig notið vaxandi vinsælda í umræðu um innflytjendur og flóttafólk þar sem notkun þess tekur á sig ólíkar myndir. Raddir innflytjenda, sem heyrast sem betur fer oftar en áður í opinberri umræðu um málaflokkinn, benda sterklega til þess að hugtakið beri í sér von um gagnkvæma virðingu og merkingarbæra þátttöku.[2] Á hinn bóginn virðist hugtakinu ekki síður beitt – af stjórnmálafólki úr ólíkum áttum –  í mun þrengri tilgangi, til dæmis í tengslum við breytingar á útlendingalöggjöf og þvingandi forsendur fyrir því að fólk geti flutt hingað til lands eða tekið hér fasta búsetu.

Velta má fyrir sér hvort sá ólíki skilningur sem lagður er í hugtakið stafi af því að orðið inngilding sé nýtt af nálinni í íslensku samhengi og því gæti verið að fólk væri einfaldlega að prófa sig áfram með notkun þess. Svona rétt eins og börn gera þegar þau læra ný orð svo gjarnan verður úr einn allsherjar misskilningur. Drengurinn minn á níunda ári ruglar til dæmis gjarnan saman orðunum allavega og varla þannig að ég er aldrei alveg viss um hvort hann sé mikið eða lítið til í það sem ég ber undir hann. Sennilegra er þó að fólk sé heilt yfir nokkuð meðvitað um víðtæka merkingu orðsins inngilding en kjósi að nýta það með afmörkuðum og jafnvel útilokandi hætti þrátt fyrir að slík notkun gangi í raun gegn þeim hugmyndafræðilega jarðvegi sem hugtakið sprettur úr.

Gunnlaugur Magnússon (2019) dósent við Uppsalaháskólaháskóla lýsir því vel í grein sinni An amalgam of ideals – images of inclusion in the Salamanca Statement að hugtakið inngildandi menntun hafi í raun alltaf falið í sér mismunandi merkingu. Þannig megi greina margar ólíkar birtingarmyndir þess í Salamancayfirlýsingunni frá árinu 1994 en yfirlýsingin er ótvírætt ákveðinn upphafspunktur í umræðu um inngildandi menntun og skólastarf. Þar birtist rík áhersla á aðgengi nemenda með sérþarfir að almennum skólum í bland við umræðu um félagslegar og námslegar þarfir tiltekinna nemendahópa. Þá fær hugtakið líka umfjöllun á breiðari grunni í tengslum við sköpun samfélags eða menningar en þó jafnan í tengslum við ákveðnar hugmyndir um hvað sé álitið gott og rétt.

Gunnlaugur bendir á að mögulega sé flókin áherslublanda að einhverju leyti innbyggð inn í alþjóðlegar stefnur í þeim tilgangi að vera vettvangur skoðanaskipta og málamiðlana og því verði merking og möguleiki hugtaksins inngildandi menntun ávallt háð skilningi og hagsmunum þeirra ólíku hagaðila sem kjósa að nýta það. Þetta leiðir til þess að hver einasta skilgreining á hugtakinu felur í sér ákveðnar skorður utan um það sem telst vera gerlegt, mögulegt eða æskilegt á grunni viðtekinna gilda og viðmiða.

Þá getur verið gagnlegt að líta til þess hvernig Berglind Rós Magnúsdóttir prófessor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands kynnti hugtakið inngildingu til leiks árið 2016 í fræðilegum skrifum sínum um skóla án aðgreiningar. Þar lagði hún ekki síst áherslu á mikilvægi þess að líta á hugtakið út frá fjölmörgum sjónarhólum.

Skóli án aðgreiningar eða skóli margbreytileikans eru að mínu mati óþjálar þýðingar á hugtakinu „inclusion“ eða „inclusive education“ auk þess sem þær vísa báðar til stofnunar, þ.e. skólans. Hugtakið er mun víðtækara og ekki alltaf bundið við skóla. „Inclusive“ getur verið lýsingarorð með öðrum orðum en skóla eða menntun. Sem dæmi um það eru „inclusive education policy“ (inngildandi menntastefna), „inclusive practice“ (inngildandi aðferðir) og „included/excluded student“ (inngildur/útilokaður nemandi). Eins getur hugtakið vísað til ákveðins hóps, s.s. „disability inclusion“ (inngilding fatlaðra) eða „gender-inclusive teaching“ (inngildandi kennsla með áherslu á kynferði). Þar sem inngildingarhugtakið vísar til þess að einhver er meðtekinn sem fullgildur þátttakandi gengur það einnig vel sem andheiti við útilokun (e. exclusion). (Berglind Rós Magnúsdóttir, 2016, bls. 68)

Hér virðist skýrt að hugtakið felur í sér nær óþrjótandi möguleika í notkun þegar fjallað er um markmið menntunar eins og þau birtast okkur jafnt í stefnu sem starfi. Ekki hafa þó allir verið á eitt sáttir með orðið sjálft sem hefur hlotið ýmiskonar gagnrýni úr ólíkum áttum. Fyrir þremur árum tók Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus í íslenskri málfræði hugtakið fyrir sem dæmi um þann eðlilega ágreining sem gjarnan myndast um gagnsemi og merkingu nýyrða:

Eins og ég hef oft nefnt finnst okkur ný orð oftast skrítin, óheppileg og jafnvel alveg ómöguleg – það þarf að venjast þeim og það tekur tíma. Það getur vel verið að það megi finna ýmislegt að orðinu inngilding – ég var ekkert sérlega hrifinn af því þegar ég sá það fyrst. En mér skilst að það sé komið í talsverða notkun og þess vegna væri ábyrgðarhluti að hafna því, nema fram kæmi eitthvert orð sem almenn sátt yrði um þegar í stað – svona eins og þegar þota leysti þrýstiloftsflugvél af hólmi á sínum tíma. Mér finnst bara ekki líklegt að svo verði. (Eiríkur Rögnvaldsson, 2021)

Ólíkt Eiríki varð ég strax afar hrifin af hugtakinu. Þó ekki endilega á málfræðilegum forsendum heldur vegna þess að hugtakið nær vel utan um þann margþætta skilning sem nauðsynlegt er að leggja í það eigi það að þjóna flóknum tilgangi sínum um merkingarbæra þátttöku og fullgildi.[3] Þá er orðið ekki síður hentugt, eins og Berglind bendir á, til þess að varpa ljósi á andstæðu slíkra markmiða sem gjarnan birtast í aðgreiningu, jaðarsetningu og útilokun tiltekinna hópa svo sem innflytjenda og flóttafólks.

Inngilding á grunni einsleitni og samlögunar

Í nýlegri doktorsrannsókn minni kannaði ég með hvaða hætti hugtökin inngilding og borgaravitund fléttast saman í tengslum við aukinn menningarlegan marbreytileika á íslenskum menntavettvangi. Til þess greindi ég stefnuskjöl og orðræðu kennara sem höfðu reynslu af því að vinna með fjölmenningarlegan nemendahóp auk þess að ræða við foreldri með bakgrunn innflytjenda og flóttafólks sem eiga börn í íslenskum grunn- og framhaldsskólum. Þær niðurstöður að inngilding virðist oftast þjóna hagsmunum og tilgangi þeirra sem fara með skilgreiningarvaldið komu mér ekki á óvart en það sem fékk mig hins frekar vegar til að velta vöngum var sú togstreita sem hugtakið felur í sér og birtist greinilega í frásögnum kennara jafnt sem foreldra.

Kennararnir í rannsókninni voru öll sem eitt einlæglega áhugasöm um að veita nemendum með bakgrunn innflytjenda og flóttafólks sem allra bestu mögulegu menntun. Þau unnu mörg langt umfram vinnuskyldu sínu og sýndu nemendum einstaka samhyggð, til dæmis í tengslum við flókinn félagslegan- og efnhagslegan bakgrunn þeirra. Þrátt fyrir þetta tengdu kennararnir flest hugmyndir sínar um inngildingu nemenda við afmarkaða þætti á borð við færni í íslensku tungumáli og aðlögunarhæfni að íslenskum siðum. Íslenskukunnátta var jafnan séð sem frumforsenda fyrir frekari þátttöku í námi – gjarnan á kostnað annars konar nálgunar um inngildingu þar sem ólík reynsla og þekking fengi notið sín.

Á sama hátt birtist inngilding okkur oftast í almennri umræðu sem einhverskonar lokaáfangi á línulegu ferli sem innflytjendur þurfa að fara í gegnum til að vinna sér inn þátttökurétt á tilteknum vettvangi; ferli sem jafnan er fyrirfram skilgreint af þeim sem hafa valdið og falla vel að hinu viðtekna. Langoftast er gerð krafa um ákveðna einsleitni þegar kemur að tungumáli og siðum en slíkar hugmyndir falla betur að hugtakinu samlögun sem var að mestu leyti komið út úr íslenskri orðræðu enda hafa stofnanir á borð við Rauða Krossinn á Íslandi og fleiri unnið ötullega að því að tala frekar um gagnkvæma aðlögun – já, eða hreinlega inngildingu – þegar kemur að vinnu með innflytjendum og flóttafólki.

Innri útilokun

Foreldrarnir sem ég talaði við í rannsókninni minni höfðu afar fjölbreyttan félags- og menningarlegan bakgrunn og reynslu og því var ekki að undra að ýmsar ólíkar hugmyndir og áherslur í tengslum við inngildingu kæmu fram. Þannig mátti greina ákveðin mun á því hvort að viðmælendur mínir litu á inngildingu sem staðbundið ferli sem ætti sér fyrst og fremst stað á íslenskum félags- og menntavettvangi eða hvort þau álitu inngildingu hluta af stærri og flóknari veruleika svo sem auknum alþjóðlegum hreyfanleika og möguleikum barna þeirra utan Íslands. Öll áttu þau það hins vegar sameiginlegt að hafa skýrar væntingar til þess að nám í íslenskum skóla væri mikilvægur hlekkur í inngildingu barna þeirra til framtíðar.

Foreldrarnir upplifðu hins vegar fæst að skólinn væri inngildandi staður fyrir þau sjálf þar sem þau nutu afar takmarkaðra möguleika til þátttöku og fengu sjaldan eða aldrei tækifæri til að miðla af eigin þekkingu og reynslu. Þessi foreldrar upplifðu það sem ég kalla innri útilokun.[4] Það er að segja þegar einstaklingar hafa formlegt aðgengi að tilteknum vettvangi en eru í raun og veru aldrei álitnir fullgildir meðlimir innan hans sökum þess að bakgrunnur og reynsla þeirra er talin ósamrýmanleg eða jafnvel óviðeigandi.

Í ljósi þess að rannsóknir benda yfirleitt til þess að tiltekinn félags- og menningarauður, svo sem menntun og tungumál, hafi bein tengsl við möguleika foreldra til þátttöku og inngildingar á vettvangi menntunar[5] var sérlega áhugavert að greina hvernig foreldrin í þessari rannsókn upplifðu öll ákveðna birtingarmynd af innri útilokun þvert á íslenskukunnáttu þeirra, menntunarstig og dvalartíma hérlendis. Aðgreining á milli „okkar“ og „hinna“ – þeirra sem falla vel að viðteknum veruleika og hinna sem standa utan við hefðbundinn ramma virtist þannig vera ríkjandi á íslenskum skólavettvangi. Frekari umfjöllun um þessar niðurstöður og hvernig takast megi á við þær með hugmyndum hnattrænnar borgaravitundar er að finna ritgerðinni sjálfri (Eva Harðardóttir, 2023).

Tæknivæðing menntunar

En víkjum aftur að þeirri krísu sem við virðumst vera stödd í þegar kemur að því að skilja og nota hugtakið inngilding. Í úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi sem gerð var af The European Agency for Special Needs and Inclusive Education árið 2017 var kallað eftir því að stefnumótandi aðilar og skólafólk kæmi sér saman um skýrari skilgreiningu á hugtakinu inclusive education. Margt fræðafólk var og er þessu sammála og leggur í því samhengi áherslu á mikilvægi þess að koma sér niður á eina skýra skilgreiningu á hugtakinu inngilding og inngildandi menntun.

Ég er aftur á móti efins og óviss um að slíkt sé mögulegt eða jafnvel ákjósanlegt. Ég held nefnilega að Eiríkur hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann benti á að þrátt fyrir að orðið þota hafi á sínum tíma náð að leysa orðið þrýstiloftsflugvél af hólmi sé slíkt hið sama ólíklegt og jafnvel ógerlegt í tilfelli inngildingar. Staðreyndin er nefnilega sú að hugtakið inngilding nær yfir svo miklu flóknara fyrirbæri en hugtakið þota. Hugtakið er hvorki eðlisfræðilegs né tæknilegs eðlis, þrátt fyrir að ýmis teikn séu á lofti um að reynt sé að útskýra það með slíkum hætti í opinberri umfjöllun og orðræðu. Það er að segja sem ferli þar sem með fyrirsjáanlegum hætti megi láta eitt leiða að öðru uns æskileg útkoma er fengin.

Gagnrýni á þá tilhneiging að skilgreina menntun út frá lögmálum tæknihyggju á kostnað heildstæðari og heimspekilegri nálgunar er ekki ný af nálinni[6] en því miður virðist sem inngildandi og lýðræðisleg markmið menntunar lúti einatt í lægra haldi fyrir áherslum sem upphefja afmarkaða og mælanlega hæfni einstaklinga. Togstreita í þessum anda birtist til að mynda með skýrum hætti í stefnuskjölum UNESCO og OECD en báðar þessar alþjóðastofnanir fara með heilmikið skilgreiningavald á sviði menntunar í heiminum í dag.[7] Íslenskar rannsóknir sem hafa tekið þessar mótsagnarkenndu hugmyndir um markmið menntunar til athugunar benda til þess að kennurum í íslensku menntakerfi skorti stuðning við að dýpka skilning sinn á siðferðislegum og pólitískum þáttum menntunar á borð við lýðræði, mannréttindi og inngildingu.[8] Við getum varla ætlast til þess að menntun verði umbreytandi í lífi nemenda nema að kennarar nái að tileinka sér og treysta slíkri hugmyndafræði.

Í grein sinni Fátt mun breytast sem skiptir máli nema drifkrafturinn komi frá kennurum fjallar Jón Torfi Jónasson um hlutverk og ábyrgð kennara á menntaumbótum en þar segir hann.

Þetta kallar á að kennurum og skólum sé ljóst umboð sitt til breytinga skv. lögum og námskrá og axli jafnframt á þeim vissa ábyrgð, því auðvitað standa þeir að þeirri framþróun sem nær fram að ganga. Bæði andi laganna frá 2008 og núgildandi námskrá býður upp á mikið svigrúm til þess að þróa ólíkar áherslur og leiðir, en ég er ekki sannfærður um að fagfólk innan skólakerfisins átti sig á því frelsi sem þeim er veitt. (Jón Torfi Jónasson, 2020).

Þessu er ég sammála að svo miklu leyti sem ég held að kennarar séu margir meðvitaðir um möguleikana en láti frekar stýrast af tæknilegum takmörkunum tengdum umhverfi og aðstæðum. Það er því ábyrgðarmál að kynna til leiks hugtak á borð við inngildingu í nýjum menntalögum ef ekki er ljóst hvort slíkt framtak feli í sér umbreytandi skilning og nauðsynlegan stuðning til breytinga.

Lýðræðisleg sýn á inngildingu

Vissulega er það ekki nýtt áskorunarefni að skilgreina flókin samfélagsleg hugtök og ákveðin líkindi má í þessu samhengi finna með hugtökunum lýðræði og inngildingu. Þannig vindur Ólafur Páll Jónsson (2009) prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sér strax í að útskýra fjölþætta merkingu hugtaksins lýðræði í svari sínu við spurningunni „hvað er lýðræði“ á Vísindavefnum. Ólafur útskýrir á hnitmiðaðan hátt að hugtakið geti auðveldlega falið í sér einfalda hugmynd um stjórnskipan og skipulag. Á hinn bóginn sé einnig hægt að líta á það sem einhverskonar skapalón um samfélag þar sem fólk fær að koma ólíkum hugmyndum á framfæri. Þá mætti enn frekar dýpka merkingu þess og skoða hugtakið út frá því með hvaða hætti fólki tekst yfir höfuð að lifa saman í sátt og samlyndi. Á grunni hugmynda John Dewey bendir Ólafur á að hugtakið lýðræðið verði að ná til bæði formsins og fólksins til þess að eiga möguleika á því að raungerast.

Lýðræði í þessum skilningi er ekki bundið við afmörkuð svið tilverunnar, svo sem formleg samskipti þar sem tekist er á um vald heldur er lýðræðið samveruháttur sem tekur til allra sviða lífsins. Það þarf, ef svo má segja, að renna manni í merg og bein því annars getur það ekki verið ráðandi um það hvaða augum menn líta samborgara sína, hvernig menn nálgast aðra þegar leiðir skerast og hvernig menn bregðast við ágreiningi og breytileika. Lýðræði í þessum skilningi, verður að birtast í ómeðvituðum viðbrögðum og viðhorfum ekki síður en í viðbrögðum sem eru meðvituð og jafnvel stofnanabundin (Ólafur Páll Jónsson, 2009).

Hér finnst mér í raun að Ólafur gæti allt eins verið að tala um inngildingu. Hugtak sem er auðveldlega hægt smætta niður í afmarkaða verkferla, áætlanir eða stafshætti eða líta víðari og gagnrýnni augum með því að tengja það við margbreytileika, mannréttindi og merkingarbæra þátttöku.

Í hinu nýja menntafrumvarpi sakna ég þess sérstaklega að gerð sé grein fyrir því með hvaða hætti inngilding tengist eða byggir á þeim sex grunnþáttum menntunar sem liggja til grundvallar öllu skólastarfi í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Líkt og áður hefur komið fram eigum við nefnilega heildstæða, lýðræðislega og að mörgu leyti framsækna stefnu í aðalnámskrá og grunnþáttum menntunar. Þar endurspeglast sem dæmi áherslur sem eiga sér merkilega samsvörun við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega við markmið 4.7 um menntun til sjálfbærar þróunar og hnattrænnar borgaravitundar. Að ávarpa slík tengsl myndi styrkja til muna frumvarp sem byggir jafnframt á lögum um grunn- og framhaldsskóla sem hafa það markmiði að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.

Mögulega mætti færa rök fyrir því að frumvarpið ætti alls ekki að heita frumvarp um inngildandi menntun heldur færi betur á að kalla það frumvarp um skólaþjónustu (sem er stóra umfjöllunarefnið í lögunum) sem styður við inngildingu á sviði menntunar. En þá þyrfti jafnframt að skilgreina hugtakið inngildingu á mun víðari forsendum en nú er gert. Því líkt og lýðræðið verður inngilding ekki til í línulegu og fyrir fram mótuðu ferli, og alls ekki á aðgreinandi og útilokandi forsendum þeirra sem fara með valdið. Kannski er meira vit í að tala um inngildingu sem augnablik, bæði skipulögð og óvænt. Altént hefur mér heyrst á máli þeirra sem hafa upplifað sig útilokuð, að inngildingu sé oftast að finna í merkingabærum og mikilvægum augnablikum sem myndast þegar fólk gefur sér tíma til að tengjast, læra hvert af öðru og skapa sameiginlegan reynsluheim.

Slík nálgun kallar að sjálfsögðu á bæði fjárhagslegan og faglegan stuðning í formi ýmiskonar starfshátta og áætlana sem mikilvægt er að útlista. Þessi tæknilegu atriði mega hins vegar aldrei verða markmið í sjálfu sér á sama hátt og við megum ekki festast í leit okkar að hinni einu „réttu“ skilgreiningu á inngildingu því slík skilgreining er í raun alltaf dæmd til að þjóna hagsmunum fárra og útiloka fleiri. Mikilvægara er að huga að því með hvaða hætti menntun styður við mannréttindi fólks á grunni fjölbreyttrar þekkingar, reynslu og hugmynda um heiminn. Þannig getur menntun mögulega orðið umbreytandi og raunverulega inngildandi afl í lífi fólks.

Neðanmálsgreinar

[1] Sjá t.d. markmið 4.7: https://www.globalgoals.org/goals/4-quality-education/

[2] Sjá Nichole Leigh Mosty (2022) https://www.visir.is/g/20222349870d/mikilvaegi-inngildingar-innflytjenda-og-hlutverk-naersamfelags og Sabine Leskopf (2022) https://kjarninn.is/skodun/adlogun-er-buin-ad-vera-og-heyrir-sogunni-til/

[3] Annað nýyrði á sviði menntunar sem birtist í skrifum Jóhönnu Einarsdóttur og Eyrúnar Maríu Rúnarsdóttur (2022) sem þýðing á enska orðinu belonging https://tum.hi.is/greinar-2022/fullgildi-leikskolabarna-i-fjolbreyttum-barnahopi-syn-og-reynsla-foreldra/

[4] Fyrir frekari umfjöllun um hugtakið „internal exclusion“ sjá t.d. Biesta (2009) í kaflanum: Sporadic Democracy: Education, Democracy, and the Question of Inclusion og Iris Young (2000). Inclusion and Democracy.

[5] Sjá t.d. Auður Magndís Auðardóttir (2021). ‘I am the black duck’ affective aspects of working-class mothers’ involvement in parental communities https://opinvisindi.is/handle/20.500.11815/2710 einnig Berglind Rós Magnúsdóttir (2013). The cultural politics of middle-classes and schooling: Parental choices and practices to secure school (e)quality in advanced neoliberal times og Diane Reay (2002). Mothers’ involvement in their children’s schooling: Social Reproduction in action?

[6] Sjá t.d. Jón Torfi Jónasson (2002). Policy and reality in educational development: an analysis based on examples from Iceland og Kolbrún Pálsdóttir (2015) https://netla.hi.is/greinar/2015/alm/006.pdf

[7] Sjá Valgerður S Bjarnadóttir (2022). https://ojs.hi.is/index.php/netla/article/view/3614

[8] Sjá t.d. Susan Gollifer (2022) https://netla.hi.is/greinar/2022/alm/18.pdf  og Eva Harðardóttir o.fl. (2019) https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/13603116.2019.1707306


Um höfund

Eva Harðardóttir (evahar(hja)hi.is er aðjunkt og nýdoktor við Deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Rannsóknaráhugi hennar liggur á sviði alþjóðlegra stefnufræða með áherslu á hnattræna borgaravitund, inngildingu og menningarlegan margbreytileika.


Grein birt 3. apríl 2024
image_pdfSmelltu hér fyrir PDF skjal
Fara í Topp